8.11.2007 | 19:45
Athugasemdirnar mínar
Jæja, þá er loksins búið að setja lokapunktinn og klára þessar blessaðar athugasemdir við skýrsluna sem fer fögrum orðum um fyrirhuguð náttúruspjöll við Ölkelduháls. Nú er eins gott að Skipulagsstofnun bretti upp ermarnar því að þeir þurfa að lesa ansi mikið á næstu dögum og vikum.
Ég birti athugasemdirnar mínar ekki einungis fyrir aðra að lesa, heldur líka svo að það geti flýtt fyrir einhverjum sem er sammála mér að einhverju leyti. Verið ófeimin að afrita og nýta í ykkar eigin þágu.
================================================
1) Hljóðvist - mjög vanmetin umhverfisáhrif:
2) Landslag - vanmetin umhverfisáhrif:
3) Loftgæði - óvissa um umhverfisáhrif:
4) Ferðaþjónusta og útivist - vanmetin umhverfisáhrif:
Fram kemur að "meirihluti þeirra ferðamanna sem sækja Ölkelduhálssvæðið heim í skipulögðum ferðum séu útlendingar sem sækjast eftir að upplifa stórbrotna og ósnortna náttúru". Með slíkar væntingar má telja víst að þeir yrðu fyrir vonbrigðum og því má gera ráð fyrir að svæðið með virkjuninni fullnægi ekki þeirra óskum.
Að mati undirritaðs verða áhrif virkjunarinnar á ferðaþjónustu og útivist veruleg, amk. á nærliggjandi svæðum.
5) Niðurstöður - vanmetin umhverfisáhrif:
Virðingarfyllst,
Reykjavík 8. nóvember 2007.
Sigurður Hr. Sigurðsson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2007 | 08:05
Önnur opinberun Hannesar?
Annað slagið höfum við orðið þess heiðurs aðnjótandi að Hrafn Gunnlaugsson viðri hugmyndir sínar um skipulagsmál í borginni. Hann var m.a. talsmaður þess í umtalaðri mynd sinni sem framleidd var af Siv Friðleifsdóttur og umhverfisráðuneytinu að gömul hús í miðbænum væru rifin og byggð háhýsi í staðinn. Einhvern veginn hljómaði það ögn einkennilega frá manni sem sjálfur er einbúi í hálfgerðu hreysi í Laugarnesinu á svæði sem skipulagsyfirvöld hafa að mestu látið afskiptalaust.
Fyrir nokkrum árum greiddi Reykjavíkurborg honum svo 39 milljónir vegna vinnustofu sem hann fékk ekki leyfi til að byggja svo að hann gæti í staðinn lagt stund á austurlenska speki og aðra iðju í Austurvegi. Nú hefur Hrafn skriðið undan feldinum og lagt fram frumlegar hugmyndir til að leysa samgönguvandamál borgarbúa og bæta lífsgæði þeirra. Ég efa ekki að hann hafi kynnt sér göng hjá félögum okkar í Kína og jafnvel hvernig plægja má rör úr plasti og áli niður í hafsbotninn enda fjölhæfur maður og þekktur fyrir að ganga í flest störf líkt og húmoristinn og góðvinur hans Ingmar Bergmann hér á árum áður.
![]() |
Umferðin í rör milli eyjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2007 | 14:40
Á nú að styrkja ímynd Íslands?
Ég veit nú ekki betur en að gróðuhúsalofttegundir sem streyma frá jarðvarmavirkjunum séu undanþegnar Kyoto bókuninni. Þess vegna finnst þeim hjá Orkuveitunni það ekki skipta neinu höfuðmáli við undirbúning þeirra virkjana sem nú eru ýmist í smíðum eða á teikniborðinu. Öðru máli gegnir um útblástur frá álverum og olíuhreinsunarstöðvum en þar virðist vissulega vera mikil eftirspurn eftir kvóta miðað við öll þau áform sem nú eru til umræðu.
Spurningin er því hvort að Íslendingar ætli sér í raun og veru að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að draga úr gróðurhúsaáhrifum eða hvort þeir ætli að láta Hannes Hómstein og co. ráða ferðinni og sýna algjört ábyrgðarleysi. Þeir sem ekki viðurkenna vandann ættu allavega ekki að koma með lausnirnar.
Ég velti því fyrir mér hvað þessi nýja nefnd um ímynd Íslands sem sá hinn sami forsætisráðherra hefur skipað álykti um svona séríslensk sóðaákvæði. Það kemur allavega ekki á óvart að Framsóknarflokkurinn og "Lauslyndir" skuli fagna svona yfirlýsingu.
![]() |
Geir: Eigum að reyna að fá samþykkt nýtt íslenskt ákvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.10.2007 | 15:01
Tilraunastarfsemi á SV-horninu?
Hvernig væri að gera þá kröfu að hreinsunarbúnaður verði settur á þær virkjanir sem búið er að reisa nú þegar? Eru íbúar á höfuðborgarsvæðinu sáttir við að vera notaðir sem tilraunadýr? Hveru mikið magn af brennistinsvetni má dæla yfir börn og fullorðna áður en það fer að hafa neikvæð áhrif á heilsuna? Hvað með lyktina, er fólk sátt við að hafa hana í nösunum?
Í framhaldi af því mætti svo huga að því að dempa niður hljóðið úr Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun sem heyrist í margra kílómetra fjarlægð og spillir upplifun ferðamanna þegar vel viðrar vel til útiveru. Er ekki kominn tími til að gerðar séu kröfur til verkfræðinga og framkvæmdaaðila?
Verst að stjórnvöld eru búin að auglýsa "lowest energy prices" og því verður að spara allt sem heitir mengunarvarnir og tillitssemi við umhverfið.
- Munið að senda inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar fyrir 9. nóv. -
![]() |
Meta þarf hvort setja eigi hreinsibúnað á virkjanir á Hellisheiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
31.10.2007 | 14:31
Samsæriskenning!
Þeir sem láta sig umhverfismál miklu varða hafa sumir tekið þann pól í hæðina að amast ekki við virkjanahugmyndum við Hverahlíð. Ástæða þess er væntanlega sú að hin virkjunin sem fyrirhuguð er við Bitru er mun alvarlegra mál og myndi spilla þar stórkostlegu svæði sem er mikið notað til gönguferða og útivistar.
Það er ekki þar með sagt að fólk eigi að gleypa það að Hverahlíðarvirkjun verði reist. Ekki má gleyma því að áhrifin af henni verða mikil, bæði sjónræn og hljóðræn, en einnig á formi loftmengunar(brennisteinsvetnis) á höfuðborgarsvæðinu og CO2.
Það læddist að mér sá grunur að ef til vill væru áformin um Bitruvirkjun gerð til að taka athyglina frá Hverahlíðarvirkjun. Þetta trix hafa byggingaverktakar notað með töluverðum árangri að undanförnu, sækja um leyfi fyrir 16 hæða húsi en eru í raun að gera ráð fyrir að fá leyfi fyrir 12 hæðum.
Við megum ekki gleyma að þessar virkjanir eru ekki nauðsynlegar fyrir fólkið í landinu, heldur eru þær fyrirhugaðar vegna álvers Norðuráls sem rísa á í Helguvík!
- Munið að senda inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar fyrir 9. nóv. -
![]() |
Umhverfisáhrif Hverahlíðarvirkjunar ekki umtalsverð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2007 | 11:30
Nú reynir á Samfylkinguna í umhverfismálum
Það er ánægjulegt að Landvernd skuli vera farin að láta meira til sín taka í sambandi við matsferli á umhverfisáhrifum. Nýjasta dæmið með álverið í Helguvík og meðfylgjandi framkvæmdir vegna orkuöflunar sýnir hvernig framkvæmdaaðilar geta sett af stað snjóbolta sem erfitt er að stöðva.
Í fyrsta lagi hlýtur það að vera óeðlilegur framgangsmáti að hagsmunaaðilar semji sjálfir matskýrslur um áhrif eigin framkvæmda á umhverfið. Réttara væri að opinberir aðilar eða háskólastofnanir ynnu skýrslurnar á kostnað þeirra sem sækjast eftir framkvæmdaleyfi.
Í öðru lagi er það ámælisvert að framkvæmdirnar séu ekki skoðaðar heildstætt og að gefið sé leyfi fyrir byggingu stóriðju sem ekki hefur verið útveguð orka fyrir. Þetta setur vissulega þrýsting á kerfið og fyrir bragðið er líklegra að leyfi fáist fyrir virkjunum og línulögnum þó að neikvæð umhverfisáhrif fylgi með í kaupunum.
Nú reynir á nýjan umhverfisráðherra vegna kæru Landverndar og trúverðugleika Samfylkingarinnar í að standa vörð um náttúru landsins.
![]() |
Landvernd kærir ákvörðun Skipulagsstofnunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2007 | 01:04
Hvernig hljóma jarðvarmavirkjanir?
Eins og ég minntist á í síðasta bloggi mínu fór ég í blíðskaparveðri upp á Hellisheiði nú um helgina. Smá útúrdúr tók ég á leiðinni til að skoða svonefnda Hellisheiðarvirkjun í návígi. Það sem vakti mesta furðu mína voru ekki forljótar byggingarnar eða leiðslurnar sem lagðar hafa verið á ótrúlega áberandi hátt víða um svæðið. Heldur ekki háspennumöstrin og línurnar sem þeim fylgja. Þetta hafði ég allt séð áður úr fjarska. Það var hins vegar hávaðinn sem fékk stærstan skerf af athygli minni.
Nú er það svo að útivist er í mínum huga samofin kyrrð og ró. Að vísu get ég vel sætt mig við þau hljóð sem óhjákvæmilega fylgja ýmsum náttúrulegum fyrirbærum, en þegar þau eru mögnuð upp þannig að maður bókstaflega þarf að halda fyrir eyrun er útséð með að ánægjunni hafi verið spillt. Jarðvarmavirkjunin við Kolviðarhól er ekki bara lýti á umhverfinu, heldur spillir hún stóru svæði alls staðar í kring með yfirþyrmandi hávaða. Auk þess hafa þessir Orkuveitukarlar fundið hjá sér þörf til að setja upp skilti sem meinar fólki aðgang (sjá mynd hér fyrir neðan).
Ef virkjunaráformin við Ölkelduháls (Bitruvirkjun) ná fram að ganga verður mjög stóru svæði stolið frá útivistarfólki og ferðamönnum. Ég vona innilega að blóðið fari að renna Íslendingum til skyldunnar og þeir að þeir vakni af Þyrnirósarsvefninum. Það er of seint að iðrast þegar framkvæmdirnar eru vel á veg komnar.
![]() |
Telja að virkjun muni spilla ómetanlegri náttúruperlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.10.2007 | 10:29
Sjaldan launar kálfur ofeldið
OR virðist nú stefna sömu leið og Landsvirkjun, að verða ríki í ríkinu. Það á greinilega ekki að láta kjörna borgarfulltrúa komast upp með að skipta sér af málefnum hennar og gjörningum, þó svo að fjölda spurninga hljóti enn að vera ósvarað.
Ég hvet alla sem láta sig útivist einhverju varða að kynna sér málið og senda inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar, ekki seinna en 8. nóvember. Sett hefur verið upp heimasíða til að auðvelda fólki að gera athugasemd: www.hengill.nu - þar er líka mikið úrval mynda frá svæðinu og tenglar á efni sem þessu tengjast.
- ÞAÐ ER SKYLDA FÓLKS AÐ TAKA AFSTÖÐU Í ÞESSU MÁLI -
Viljum við náttúruna fyrir okkur eða viljum við fórna henni fyrir stóriðju???
![]() |
Orkuveitan vill vísa máli Svandísar frá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2007 | 23:09
GOTT MÁL!
Það er gott mál að þetta stropaða Framsóknarspillingarmál skuli ekki vera úr sögunni. Ég held að hið unga par hafi gert okkur flestum stóran greiða með því að láta það ekki falla í gleymskunar dá.
Málið stoppaði á sínum tíma með úrskurði Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands sem vakti furðu, ekki síst vegna þess að þar kom fram álit um að hlífa ætti stjórnmálamönnum í aðdraganda kosninga:
"Umfjöllun um þetta mál var að ýmsu leyti vandasöm, ekki síst vegna tímasetningarinnar, enda aðeins liðlega tvær vikur til alþingiskosninga."
Athygli vekur að formaður Siðanefndarinnar var Kristinn Hallgrímsson, lögm. Ef mér skjátlast ekki er þar á ferðinni sá hinn sami Kristinn Hallgrímsson sem varð síðar einn af Framsóknar-innstu-koppum-í-búri aðilum innan hins sameinaða félags REI og Geysir Green Energy. Þræðir Framsóknarflokksins liggja víða.
Í stefnunni segir að umsókn stúlkunnar hafi verið einkamál og að brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífsins með að birta skjölin í Kastljósinu. Ég er ef til vill ekki lögfróðasti maður landsins en veit þó ekki betur en að skjal sem þetta verði opinbert skjal um leið og því hefur verið skilað inn til viðkomandi stofnunar. Það verður allavega fróðlegt að sjá hvað lögfróðir menn segja þegar til kastanna kemur.
Í umsókninni var sú ástæða gefin að tengdadóttirin hyggðist stunda nám í Bretlandi og að erfitt yrði fyrir hana að fá dvalarleyfi þar án íslensks ríkisborgararéttar. Með veitingunni var því opnaður gluggi inn á Schengen-svæðið án þess að reglum væri framfylgt eða nauðsyn krefði. Skyldu aðrar Schengen-þjóðir vera sáttar við þetta?
Það væri því rökrétt framhald að afhenda þessu unga og bráðefnilega Framsóknarfólki 3,5 milljónir sem ætti að vera hinn þokkalegasti farareyrir...
![]() |
Ríkisútvarpinu stefnt fyrir ærumeiðingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.10.2007 | 15:54
Nýjungar á Íslandi?!
Alcoa Fjarðaál segist í yfirlýsingu sinni hafa innleitt margar nýjungar í vinnuumhverfi hér á Íslandi og nefnir í því sambandi góðan starfsanda og öryggi. Ef marka má lýsingu úr fréttum RÚV er hér um nokkuð frjálslega túlkun á þessu orðalagi að ræða.
Ég hef sem betur fer mjög sjaldan heyrt af "alvöru" atvinnurekendum hér á landi sem beita svipuðum aðferðum og Alcoa, nema helst ef viðkomandi starfsmaður hefur orðið uppvís af stórfelldu svindli, þjófnaði eða vítaverðu kæruleysi.
Maður átti eiginlega ekki von á þessu alveg strax. Það hlýtur að teljast mjög óskynsamlegt af Alcoa að láta svona lagað fréttast og varla búið enn að ráða í öll störf. Hins vegar má búast við að ýmis ófögur mál muni líta dagsins ljós á næstu árum ef marka má syndaregistur fyrirtækisins frá öðrum löndum.
![]() |
Alcoa Fjarðaál harmar að verklagsreglum var ekki fylgt við uppsagnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)