Athugasemdirnar mínar

Jæja, þá er loksins búið að setja lokapunktinn og klára þessar blessaðar athugasemdir við skýrsluna sem fer fögrum orðum um fyrirhuguð náttúruspjöll við Ölkelduháls. Nú er eins gott að Skipulagsstofnun bretti upp ermarnar því að þeir þurfa að lesa ansi mikið á næstu dögum og vikum.

Ég birti athugasemdirnar mínar ekki einungis fyrir aðra að lesa, heldur líka svo að það geti flýtt fyrir einhverjum sem er sammála mér að einhverju leyti. Verið ófeimin að afrita og nýta í ykkar eigin þágu.

================================================

Ég undirritaður kem hér með á framfæri nokkrum athugasemdum við frummatsskýrslu um Bitruvirkjun og fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu. Byggi ég þær bæði á skoðunarferðum um svæðið sjálft og lestri skýrslunnar sem því miður ber þess nokkur merki að mínu mati að hagsmunaaðilar um framkvæmdirnar hafi haft umsjón með gerð hennar og frágangi. Mun ég rökstyðja það með dæmum í athugasemdunum hér á eftir. Skýrslan er því ein og sér sem útgangspunktur nokkuð hlutdræg í sinni umfjöllun og hlýtur innihald hennar að þurfa að skoðast sem slíkt.
 
Auk þess finnst mér gagnrýnivert að fjallað skuli um 2 virkjanir samtímis og að svo knappur tími sé gefinn til að kynna sér allar forsendur og senda inn athugasemdir. Skýrslurnar eru um 300 bls. samanlagt og varla á  margra færi að kynna sér innihald þeirra.

 


1) Hljóðvist - mjög vanmetin umhverfisáhrif:

Skýrslan tilgreinir þessi áhrif virkjunarinnar annars vegar sem talsverð (á framkvæmdatíma) og hins vegar sem óveruleg (á rekstrartíma). Á rekstrartíma er hins vegar gert ráð fyrir því að bora nýjar holur á 2ja til 4ra ára fresti vegna þess hve vinnslan er "ágeng" (=ósjálfbær), en það þýðir að hávaði eykst til muna með nokkru millibili, marga mánuði í senn.
 
Kyrrlátt svæði sem þetta, 5 km frá næstu umferðaræð og 6 km frá byggð, glatar miklu af gildi sínu ef stöðugur hávaði berst að eyrum göngufólks og þeirra sem um svæðið fara.Viðmiðunarmörk þau sem notuð eru í skýrslunni eru án nokkurns vafa of há, enda skilgreind fyrir útivistarsvæði í þéttbýli.  Ef það er rétt að í reglugerðir vanti viðeigandi viðmiðunarmörk, verður þá ekki að fá sérfræðing til að áætla þau og rökstyðja með einhverju móti? Að setja óbyggðir og þéttbýli undir sama kvarða hvað varðar hljóðvist er engan veginn ásættanlegt. Mun réttara væri að miða við 25dB(A) viðmiðunarmörk í hljóðstyrk á þessu kyrrláta svæði fremur en 45 dB(A) eins og gert er í skýrslunni. Með því móti myndi áhrifasvæði virkjunarinnar vegna hljóðvistar hins vegar margfaldast að stærð og á rekstrartíma ná a.a. 8 km radíus frá upptökum hávaðans í stað 900-1200 m. Á framkvæmdatíma og þegar nýjar holur eru boraðar og látnar blása ykist sú vegalengd hins vegar töluvert. Hafa skal í huga að 110 dB(A) stöðugur hávaði er svipaður hljóðstyrkur og búast má við í 1-2 m fjarlægð frá hátalarastæðu á stórum rokktónleikum utandyra!
 
Út frá breyttum forsendum tel ég því umhverfisáhrif sökum hljóðvistar talsverð á rekstrartíma þegar ekki er unnið með nýjar holur, en veruleg á framkvæmdatíma og einnig þegar nýjar holur eru boraðar á rekstrartíma og í blástursprófunum.
 
 

2) Landslag - vanmetin umhverfisáhrif:

Í skýrslunni eru nefnd fjölmörg atriði sem munu hafa áhrif á landslagið við Bitru/Ölkelduháls, en því er lýst sem fjölbreyttu, fögru og lítt snortnu. Talin eru upp ýmis mannvirki, s.s. stöðvarhús, kæliturnar og skiljustöðvar, 5 km af sýnilegum lögnum sem hlykkjast um svæðið, vegaslóðar í svipaðri lengd og 2 nýjar línulagnir. Auk þess munu verða þar nokkrir 20 m. háir gufuháfar með tilheyrandi gufustrókum og ærandi hávaða ef marka má samskonar gufuháfa sem nú blása við Hellisheiðarvirkjun. Hljóð/hávaði hefur mikil áhrif á sjónræna upplifun eins og þeir þekkja sem vinna við kvikmyndagerð (þ.m.t. undirritaður).
 
Stór hluti framkvæmdasvæðisins er á Náttúruminjaskrá, m.a. sökum stórbrotins landslags, og hlýtur sú staðreynd að hafa mikið vægi ein og sér. Maður veltir því fyrir sér hvort að Sveitarfélagið Ölfus sé svo illa statt fjárhagslega að það telji sig nauðbeygt til að breyta aðalskipulagi og horfa framhjá öllum ofantöldum þáttum ef það samþykkir breytt aðalskipulag með fyrirhugaðri Bitruvirkjun.
 
Skýrsluhöfundar taka samt sem áður fram "að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki á svæði sem teljist falla undir hugtakið ósnortin víðerni í skilningi laga nr. 44/1999". Auk þess segja þeir að "framkvæmdin komi til með að raska landinu og gera landslagið manngert" og "að upplifun fólks af landslaginu komi því til með að breytast". Með þessu móti finnst undirrituðum þeir reyna að gera minna úr þeirri röskun sem um er rætt. Ég efa það að nefndar mótvægisaðgerðir breyti miklu þó svo að svonefndar "torsýnilegar" mosagrænar lagnir séu líkast til skárri en áberandi rauðar. Raunar þarf ekki annað en að skoða sig um í nágrenni Hellisheiðarvirkjunnar til að fá góða hugmynd um hvaða áhrif svona framkvæmd hefur á landslagið.
 
Niðurstaða skýrsluhöfunda að áhrif virkjunarinnar á landslag séu talsverð er að mínu mati vanmetin og ætti frekar að teljast veruleg. 
 


3) Loftgæði  - óvissa um umhverfisáhrif:

Töluvert hefur verið rætt í fjölmiðlum að undanförnu um hugsanlega skaðsemi brennisteinsvetnis í lofti, í hve miklu mæli það telst skaðlegt heilsu fólks, óþægindi sökum lyktarinnar og einnig áhrif þess á málma s.s. silfur og þakklæðningar. Fram hafa komið efasemdir um að það sé eins skaðlaust og skýrsluhöfundar halda fram og vísa ég þá m.a. til Þorsteins Jóhannssonar sérfræðings Umhverfisstofnunar í viðtali í Speglinum á RÚV, 7. nóv. sl. sem lýsti því yfir að langtímaáhrif á fólk væru ekki nægilega vel þekkt.
 
Heilsuverndarmörk eins og þau eru skilgreind víða annars staðar en á Íslandi eru einungis 100 ppb og nú þegar sýna mælingar við Grensásveg í Reykjavík stundum gildi í kring um 30 ppb. Hvað skyldu mælingar þá sýna í Hveragerði? Viðmiðunarmörk vinnueftirlitsins eru ekki nothæf viðmiðun þegar fjallað er um loftgæði við heimili fólks þar sem börn alast upp og sjúklingar með öndunarfæraerfiðleika búa.
 
Miðað við allt það magn H2S sem kemur upp úr fyrirhuguðum borholum við Bitru (8.000 tonn á ári) mætti jafnvel reikna með því að Umhverfisstofnun geri einhverjar athugasemdir við skipulagðar gönguferðir í nágrenninu. Í öllu falli er ljóst að lyktin mun ekki verða erlendum ferðamönnum til yndisauka og varla heldur íbúum í Hveragerði og öðrum nærliggjandi byggðum. Er ólykt við heimili fólks annars ekki skerkt loftgæði?
 
Einnig mun virkjunin hafa í för með sér töluverða aukningu á CO2 útblæstri á landsvísu sem reiknast með í íslenska kvótanum eftir því sem skýrslan segir. Þetta mun að mínu mati setja aukinn þrýsting á ráðamenn að Ísland sæki um áframhaldandi undanþágu fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá 2013-2020 sem er alls ekki ímynd þjóðarinnar til framdráttar og raunar fyrir neðan virðingu okkar sem þjóðar.
 
Því tel ég að áhrif virkjunarinnar á loftgæði og útblástur séu líklega vanmetin og álít þau allt að því talsverð þó svo að óvissa ríki um skaðsemi brennisteinsvetnis í nágrenni við svæðið.

 


4) Ferðaþjónusta og útivist - vanmetin umhverfisáhrif:

Hér hafa skýrsluhöfundar komist að þeirri niðurstöðu að áhrif framkvæmdarinnar séu talsverð og ýmsir áhrifaþættir eru nefndir. Þó vantar alveg að minnast á fælingarmátt hávaðans sem því miður virðist stórlega vanmetinn (sjá athugasemd 1) og mikinn útblástur brennisteinsvetnis svo nærri göngufólki. Þeir sem skipuleggja slíkar ferðir á svæðinu munu hugsa sig um tvisvar áður en lagt er af stað með gönguhópa ef búast má við kvörtunum vegna óþæginda af þessum sökum. Ekki getur heldur talist æskilegt að byrja eða enda gönguferðir á virkjanasvæði innan um hávaðasöm mannvirki og lagnir, jafnvel þó að "torsýnilegar" séu. Af þessum sökum verður að telja það ólíklegt að svæðið bjóði upp á aukna nýtingu í ferðaþjónustu og má fremur búast við að dragi úr ásókn í að fara þar um nema hugsanlega fyrir sérstaka áhugamenn um jarðvarmavirkjanir.

Fram kemur að "meirihluti þeirra ferðamanna sem sækja Ölkelduhálssvæðið heim í skipulögðum ferðum séu útlendingar sem sækjast eftir að upplifa stórbrotna og ósnortna náttúru". Með slíkar væntingar má telja víst að þeir yrðu fyrir vonbrigðum og því má gera ráð fyrir að svæðið með virkjuninni fullnægi ekki þeirra óskum. 

Það vekur nokkra furðu mína að skýrsluhöfundar eru ófeimnir að leggja til færslur á leiðum fyrir göngufólk og hestamenn svo að þeir verði minna varir við rask af völdum virkjunarinnar. Er það ef til vill hluti af mótvægisaðgerðunum? Einnig gæla þeir við þá hugmynd að nýr hópur "útivistarfólks" muni sækja svæðið vegna mannvirkja og betri vega og eiga þá líklega við það fólk sem helst aldrei fer út úr bílum sínum ótilneytt.

Að mati undirritaðs verða áhrif virkjunarinnar á ferðaþjónustu og útivist veruleg, amk. á nærliggjandi svæðum.



5) Niðurstöður - vanmetin umhverfisáhrif:

Að mati undirritaðs hafa skýrsluhöfundar tvímælalaust vanmetið umhverfisáhrif Bitruvirkjunar. Eins og fram kemur í athugasemdunum hér að framan álít ég að ýmsir þættir hafi verið vanmetnir á hæpnum forsendum og/eða með tilvísunum til tæknilausna sem ekki standa til boða enn sem komið er. Um áhrif framkvæmdanna á gildi svæðisins til ferðamennsku þarf vart að fjölyrða en horft virðist framhjá stórauknum fjölda íbúa á SV-horninu auk þeirrar miklu aukningar á heimsóknum til landsins sem áætlanir gera ráð fyrir.
 
Samlegðaráhrif vegna landslags, hljóðvistar, útblásturs, mannvirkja, línu- og leiðslulagna gera svæðið líkara iðnaðarhverfi í dreifbýli en náttúruperlu. Þegar hinar virkjanirnar bætast við í reikninginn er hreinlega um umhverfisslys að ræða.
 
Við þetta bætist svo að nýtingarhlutfall orkunnar er afar lágt (undir 15%), en skýrsluhöfundar virðast að mestu skauta yfir þá umræðu. Sjálfbærni/endurnýjun auðlindarinnar virðist heldur ekki höfð að leiðarljósi þrátt fyrir loðið orðalag:
 
"Framkvæmdaraðili skilgreinir fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á Bitru sem ágenga vinnslu en að vinnslustefnan sé engu að síður sjálfbær."
 
Það hlýtur að teljast mjög hæpið að lýsa sjálfbærni sem framtíðarmarkmiði eins og gert er í skýrslunni og reikna með að tækniframfarir geri það mögulegt. Af hverju var það ekki haft sem markmið frá upphafi? Er það vegna þrýstings frá orkukaupendum? Er m.ö.o. búið að lofa þessari orku áður en virkjanirnar hafa farið í gegnum lögbundið matsferli og fengið grænt ljós?
 
Niðurstaða mín er að heildaráhrif Bitruvirkjunar verði á bilinu talsverð til veruleg og mæli með svonefndum Núll kosti, þ.e. að hætta við framkvæmdina.

 


Virðingarfyllst,

Reykjavík 8. nóvember 2007.

Sigurður Hr. Sigurðsson. 

 


Önnur opinberun Hannesar?

Annað slagið höfum við orðið þess heiðurs aðnjótandi að Hrafn Gunnlaugsson viðri hugmyndir sínar um skipulagsmál í borginni. Hann var m.a. talsmaður þess í umtalaðri mynd sinni sem framleidd var af Siv Friðleifsdóttur og umhverfisráðuneytinu að gömul hús í miðbænum væru rifin og byggð háhýsi í staðinn. Einhvern veginn hljómaði það ögn einkennilega frá manni sem sjálfur er einbúi í hálfgerðu hreysi í Laugarnesinu á svæði sem skipulagsyfirvöld hafa að mestu látið afskiptalaust.

Fyrir nokkrum árum greiddi Reykjavíkurborg honum svo 39 milljónir vegna vinnustofu sem hann fékk ekki leyfi til að byggja svo að hann gæti í staðinn lagt stund á austurlenska speki og aðra iðju í Austurvegi. Nú hefur Hrafn skriðið undan feldinum og lagt fram frumlegar hugmyndir til að leysa samgönguvandamál borgarbúa og bæta lífsgæði þeirra. Ég efa ekki að hann hafi kynnt sér göng hjá félögum okkar í Kína  og jafnvel hvernig plægja má rör úr plasti og áli niður í hafsbotninn enda fjölhæfur maður og þekktur fyrir að ganga í flest störf líkt og húmoristinn og góðvinur hans Ingmar Bergmann hér á árum áður.


mbl.is Umferðin í rör milli eyjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á nú að styrkja ímynd Íslands?

Ég veit nú ekki betur en að gróðuhúsalofttegundir sem streyma frá jarðvarmavirkjunum séu undanþegnar Kyoto bókuninni. Þess vegna finnst þeim hjá Orkuveitunni það ekki skipta neinu höfuðmáli við undirbúning þeirra virkjana sem nú eru ýmist í smíðum eða á teikniborðinu. Öðru máli gegnir um útblástur frá álverum og olíuhreinsunarstöðvum en þar virðist vissulega vera mikil eftirspurn eftir kvóta miðað við öll þau áform sem nú eru til umræðu.

Spurningin er því hvort að Íslendingar ætli sér í raun og veru að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að draga úr gróðurhúsaáhrifum eða hvort þeir ætli að láta Hannes Hómstein og co. ráða ferðinni og sýna algjört ábyrgðarleysi. Þeir sem ekki viðurkenna vandann ættu allavega ekki að koma með lausnirnar.

Ég velti því fyrir mér hvað þessi nýja nefnd um ímynd Íslands sem sá hinn sami forsætisráðherra hefur skipað álykti um svona séríslensk sóðaákvæði. Það kemur allavega ekki á óvart að Framsóknarflokkurinn og "Lauslyndir" skuli fagna svona yfirlýsingu.


mbl.is Geir: Eigum að reyna að fá samþykkt nýtt íslenskt ákvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilraunastarfsemi á SV-horninu?

Hvernig væri að gera þá kröfu að hreinsunarbúnaður verði settur á þær virkjanir sem búið er að reisa nú þegar? Eru íbúar á höfuðborgarsvæðinu sáttir við að vera notaðir sem tilraunadýr? Hveru mikið magn af brennistinsvetni má dæla yfir börn og fullorðna áður en það fer að hafa neikvæð áhrif á heilsuna? Hvað með lyktina, er fólk sátt við að hafa hana í nösunum?

Í framhaldi af því mætti svo huga að því að dempa niður hljóðið úr Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun sem heyrist í margra kílómetra fjarlægð og spillir upplifun ferðamanna þegar vel viðrar vel til útiveru. Er ekki kominn tími til að gerðar séu kröfur til verkfræðinga og framkvæmdaaðila?

Verst að stjórnvöld eru búin að auglýsa "lowest energy prices" og því verður að spara allt sem heitir mengunarvarnir og tillitssemi við umhverfið.

 - Munið að senda inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar fyrir 9. nóv. - 

 www.hengill.nu

 


mbl.is Meta þarf hvort setja eigi hreinsibúnað á virkjanir á Hellisheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samsæriskenning!

Þeir sem láta sig umhverfismál miklu varða hafa sumir tekið þann pól í hæðina að amast ekki við virkjanahugmyndum við Hverahlíð. Ástæða þess er væntanlega sú að hin virkjunin sem fyrirhuguð er við Bitru er mun alvarlegra mál og myndi spilla þar stórkostlegu svæði sem er mikið notað til gönguferða og útivistar.

Það er ekki þar með sagt að fólk eigi að gleypa það að Hverahlíðarvirkjun verði reist. Ekki má gleyma því að áhrifin af henni verða mikil, bæði sjónræn og hljóðræn, en einnig á formi loftmengunar(brennisteinsvetnis) á höfuðborgarsvæðinu og CO2.

Það læddist að mér sá grunur að ef til vill væru áformin um Bitruvirkjun gerð til að taka athyglina frá Hverahlíðarvirkjun. Þetta trix hafa byggingaverktakar notað með töluverðum árangri að undanförnu, sækja um leyfi fyrir 16 hæða húsi en eru í raun að gera ráð fyrir að fá leyfi fyrir 12 hæðum.

Við megum ekki gleyma að þessar virkjanir eru ekki nauðsynlegar fyrir fólkið í landinu, heldur eru þær fyrirhugaðar vegna álvers Norðuráls sem rísa á í Helguvík!

 - Munið að senda inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar fyrir 9. nóv. - 

 www.hengill.nu


mbl.is Umhverfisáhrif Hverahlíðarvirkjunar ekki umtalsverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú reynir á Samfylkinguna í umhverfismálum

Það er ánægjulegt að Landvernd skuli vera farin að láta meira til sín taka í sambandi við matsferli á umhverfisáhrifum. Nýjasta dæmið með álverið í Helguvík og meðfylgjandi framkvæmdir vegna orkuöflunar sýnir hvernig framkvæmdaaðilar geta sett af stað snjóbolta sem erfitt er að stöðva.

Í fyrsta lagi hlýtur það að vera óeðlilegur framgangsmáti að hagsmunaaðilar semji sjálfir matskýrslur um áhrif eigin framkvæmda á umhverfið. Réttara væri að opinberir aðilar eða háskólastofnanir ynnu skýrslurnar á kostnað þeirra sem sækjast eftir framkvæmdaleyfi.

Í öðru lagi er það ámælisvert að framkvæmdirnar séu ekki skoðaðar heildstætt og að gefið sé leyfi fyrir byggingu stóriðju sem ekki hefur verið útveguð orka fyrir. Þetta setur vissulega þrýsting á kerfið og fyrir bragðið er líklegra að leyfi fáist fyrir virkjunum og línulögnum þó að neikvæð umhverfisáhrif fylgi með í kaupunum.

Nú reynir á nýjan umhverfisráðherra vegna kæru Landverndar og trúverðugleika Samfylkingarinnar í að standa vörð um náttúru landsins.

- Munið að senda inn athugasemdir vegna fyrirhugaðra virkjana á Hengilssvæðinu fyrir 9. nóv. -
 

 

 


mbl.is Landvernd kærir ákvörðun Skipulagsstofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig hljóma jarðvarmavirkjanir?

Eins og ég minntist á í síðasta bloggi mínu fór ég í blíðskaparveðri upp á Hellisheiði nú um helgina. Smá útúrdúr tók ég á leiðinni til að skoða svonefnda Hellisheiðarvirkjun í návígi. Það sem vakti mesta furðu mína voru ekki forljótar byggingarnar eða leiðslurnar sem lagðar hafa verið á ótrúlega áberandi hátt víða um svæðið. Heldur ekki háspennumöstrin og línurnar sem þeim fylgja. Þetta hafði ég allt séð áður úr fjarska. Það var hins vegar hávaðinn sem fékk stærstan skerf af athygli minni.

Nú er það svo að útivist er í mínum huga samofin kyrrð og ró. Að vísu get ég vel sætt mig við þau hljóð sem óhjákvæmilega fylgja ýmsum náttúrulegum fyrirbærum, en þegar þau eru mögnuð upp þannig að maður bókstaflega þarf að halda fyrir eyrun er útséð með að ánægjunni hafi verið spillt. Jarðvarmavirkjunin við Kolviðarhól er ekki bara lýti á umhverfinu, heldur spillir hún stóru svæði alls staðar í kring með yfirþyrmandi hávaða. Auk þess hafa þessir Orkuveitukarlar fundið hjá sér þörf til að setja upp skilti sem meinar fólki aðgang (sjá mynd hér fyrir neðan).

Ef virkjunaráformin við Ölkelduháls (Bitruvirkjun) ná fram að ganga verður mjög stóru svæði stolið frá útivistarfólki og ferðamönnum. Ég vona innilega að blóðið fari að renna Íslendingum til skyldunnar og þeir að þeir vakni af Þyrnirósarsvefninum. Það er of seint að iðrast þegar framkvæmdirnar eru vel á veg komnar.


mbl.is Telja að virkjun muni spilla ómetanlegri náttúruperlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldan launar kálfur ofeldið

OR virðist nú stefna sömu leið og Landsvirkjun, að verða ríki í ríkinu. Það á greinilega ekki að láta kjörna borgarfulltrúa komast upp með að skipta sér af málefnum hennar og gjörningum, þó svo að fjölda spurninga hljóti enn að vera ósvarað.

Af hverju var boðað til þessa mikilvæga fundar með einungis dags fyrirvara þó svo að ljóst væri að það stangaðist á við reglur? Af hverju höfðu kjörnir fulltrúar okkar ekki verið upplýstir um 20 ára skuldbindingu fyrirtækisins og skyldur sem henni fylgdi? Kaupréttarsamningarnir?
 
Að öðru: Ég gerði mér ferð í blíðskaparveðrinu í gær upp á Hellisheiði til að skoða með eigin augum fyrirhugaðan virkjunarstað OR þar sem áform eru uppi um að byggja jarðvarmavirkjun við Ölkelduháls (Bitruvirkjun). Sannast sagna varð ég fyrir áfalli því að þarna eru náttúruverðmæti engu lík. Það er að vísu búið að bora þarna einhverjar tilraunaholur með tilheyrandi raski, en þeir sem hafa ekið að Hellisheiðarvirkjun hafa séð og HEYRT að ein fullbyggð jarðvarmavirkjun útilokar algjörlega stórt svæði þar í kring sem útivistarsvæði. Hávaðinn er yfirþyrmandi, rör og línur út um allt og meira að segja hefur aðgangur fólks verið stórlega takmarkaður um svæðið. Ekki held ég að fjölskyldan frá Kolviðarhóli hefði óskað sér þess grafreits sem þau hvíla í ef þetta hefði verið fyrirsjáanlegt (sjá myndir neðar á síðunni).

Ég hvet alla sem láta sig útivist einhverju varða að kynna sér málið og senda inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar, ekki seinna en 8. nóvember. Sett hefur verið upp heimasíða til að auðvelda fólki að gera athugasemd: www.hengill.nu - þar er líka mikið úrval mynda frá svæðinu og tenglar á efni sem þessu tengjast.

- ÞAÐ ER SKYLDA FÓLKS AÐ TAKA AFSTÖÐU Í ÞESSU MÁLI -

Viljum við náttúruna fyrir okkur eða viljum við fórna henni fyrir stóriðju???


mbl.is Orkuveitan vill vísa máli Svandísar frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GOTT MÁL!

Það er gott mál að þetta stropaða Framsóknarspillingarmál skuli ekki vera úr sögunni. Ég held að hið unga par hafi gert okkur flestum stóran greiða með því að láta það ekki falla í gleymskunar dá.

Málið stoppaði á sínum tíma með úrskurði Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands sem vakti furðu, ekki síst vegna þess að þar kom fram álit um að hlífa ætti stjórnmálamönnum í aðdraganda kosninga:

"Umfjöllun um þetta mál var að ýmsu leyti vandasöm, ekki síst vegna tímasetningarinnar, enda aðeins liðlega tvær vikur til alþingiskosninga." 

Athygli vekur að formaður Siðanefndarinnar var Kristinn Hallgrímsson, lögm. Ef mér skjátlast ekki er þar á ferðinni sá hinn sami Kristinn Hallgrímsson sem varð síðar einn af Framsóknar-innstu-koppum-í-búri aðilum innan hins sameinaða félags REI og Geysir Green Energy. Þræðir Framsóknarflokksins liggja víða.

Í stefnunni segir að umsókn stúlkunnar hafi verið einkamál og að brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífsins með að birta skjölin í Kastljósinu. Ég er ef til vill ekki lögfróðasti maður landsins en veit þó ekki betur en að skjal sem þetta verði opinbert skjal um leið og því hefur verið skilað inn til viðkomandi stofnunar. Það verður allavega fróðlegt að sjá hvað lögfróðir menn segja þegar til kastanna kemur. 

Í umsókninni var sú ástæða gefin að tengdadóttirin hyggðist stunda nám í Bretlandi og að erfitt yrði fyrir hana að fá dvalarleyfi þar án íslensks ríkisborgararéttar. Með veitingunni var því opnaður gluggi inn á Schengen-svæðið án þess að reglum væri framfylgt eða nauðsyn krefði. Skyldu aðrar Schengen-þjóðir vera sáttar við þetta?

Það væri því rökrétt framhald að afhenda þessu unga og bráðefnilega Framsóknarfólki 3,5 milljónir sem ætti að vera hinn þokkalegasti farareyrir...


mbl.is Ríkisútvarpinu stefnt fyrir ærumeiðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjungar á Íslandi?!

Alcoa Fjarðaál segist í yfirlýsingu sinni hafa innleitt margar nýjungar í vinnuumhverfi hér á Íslandi og nefnir í því sambandi góðan starfsanda og öryggi. Ef marka má lýsingu úr fréttum RÚV er hér um nokkuð frjálslega túlkun á þessu orðalagi að ræða.

Ég hef sem betur fer mjög sjaldan heyrt af "alvöru" atvinnurekendum hér á landi sem beita svipuðum aðferðum og Alcoa, nema helst ef viðkomandi starfsmaður hefur orðið uppvís af stórfelldu svindli, þjófnaði eða vítaverðu kæruleysi.

Maður átti eiginlega ekki von á þessu alveg strax. Það hlýtur að teljast mjög óskynsamlegt af Alcoa að láta svona lagað fréttast og varla búið enn að ráða í öll störf. Hins vegar má búast við að ýmis ófögur mál muni líta dagsins ljós á næstu árum ef marka má syndaregistur fyrirtækisins frá öðrum löndum.


mbl.is Alcoa Fjarðaál harmar að verklagsreglum var ekki fylgt við uppsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband