Nýtt kvótakerfi?

"Frjálslyndi" flokkurinn var á sínum tíma stofnaður til að berjast gegn kvótakerfinu í sjávarútvegi. Önnur stefnumál flokksins hafa löngum farið fyrir ofan garð og neðan hjá kjósendum þangað til Jón Magnússon slóst með í för og fór að gera innflytjendur og farandverkamenn að skotspæni sínum. Nú hafa ungliðar þessa flokks hvatt til setningar nýs kvótakerfis og að takmarkaður verði fjöldi nýbúa á hverju ári. Ég velti því fyrir mér hvort að farið verði með innflytjendur líkt og fiskinn í sjónum; sérstakur kvóti fyrir Kínverja, annar fyrir Tyrkja o.s.frv.

Það virðist gleymast í þessari umræðu að við Íslendingar eru skuldbundnir af samningi okkar við ES að tryggja frjálst flæði fólks frá löndum þess. Það er því enginn möguleiki á því að setja kvóta á fjölda þeirra útlendinga sem hingað koma. Reyndar er það eins gott því að annars færi víst lítið fyrir útrásarmöguleikum landans, t.d. í Eystrasaltslöndunum og Búlgaríu. Hvað varðar fólk utan ES þá er það næstum eins og að troða úlfalda í gegnum nálarauga að fá landvistarleyfi hér (nema fyrir þá sem ganga í hjónaband með Íslendingum og eru orðnir 24 ára). Kvóti myndi því væntanlega verða viðbót við heildarfjölda innflytjenda.

Hvað varðar tillögur FUF um ókeypis íslenskukennslu og skyldur atvinnurekenda þá verð ég að hrósa þeim fyrir að sjá að víða er pottur brotinn í innflytjendamálum hér á landi. En héðan í frá er vissara að þeir tali skýrt þegar kvótakerfið kemur til tals.


mbl.is Full ástæða til að standa vaktina um innflytjendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með geislabaug

Framsóknarflokkurinn virðist hafa keypt geislabauga á línuna eftir
tapið í vor. Vonandi gleyma kjósendur því samt ekki að Valgerður og
félagar hennar stóðu fyrir stórfelldum hernaði gegn landinu og eru
ábyrgir fyrir mestu skipulögðu landsspjöllum Íslandssögunnar.
mbl.is Átökin um orku og auðlindir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innlend frétt?

Það segir sína sögu að það flokkist nú sem innlend frétt þegar byggð eru stórhýsi í Kaupmannahöfn.
mbl.is Turnar fyrir 25 milljarða í Köben
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Metnaðarlausir Íslendingar?

Þó að endurskírn Ráðhústorgsins steli hugsanlega athyglinni frá sjálfri fréttinni þá vakti hún mig til umhugsunar um almenningssamgöngur hér á klakanum.

Yfirvöld í Kaupmannahöfn eru í óða önn að bæta við metróstöðvum út um alla borg, en metróinn er nýleg viðbót við stórgott samgöngukerfi borgarinnar. Þar með er auðveldlega hægt að fara leiðar sinnar um Borgina við Sundið í lestum, strætisvögnum, metró og á reiðhjóli auk einkabílsins.

Það er sérkennilegt metnaðarleysi hér á Íslandi þar sem raforkan drýpur af hverju strái að ekki skuli vera neitt framboð af rafknúnum almenningssamgöngum. Allar hugmyndir um rafmagnslestir, einteinunga, metró, sporvagna eða annað slíkt eru jafnharðan afgreiddar sem draumórar og stjórnmálamenn skortir metnað og kjark til að rekast í slíkum langtímaverkefnum. Á sama tíma er verið að grafa landsins lengstu göng frá Hálslóni niður að túrbínum Kárahnjúkavirkjunar í 40 km. fjarlægð og íbúar á SV-horninu eyða sífellt lengri tíma á degi hverjum í að komast úr og í vinnu.

Ég minni hér á nýlegt innlegg Kjartans Péturs Sigurðssonar um samgöngumál á SV-horninu


mbl.is Þjónustumiðstöð á Ráðhúsplássinu tekin niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misheppnaður klóni

Það væri í raun hreinlegra ef Björn Ingi sæti sjálfur í þessum
svokallaða stýrihóp. Óskar Bergsson er eins og misheppnaður klóni af
Binga sjálfum, innvolsið er það sama en ytra byrðið ekki. Er engum
öðrum treystandi af lista Exbé til að gæta hagsmuna SÍS gengisins?
mbl.is Björn Ingi ekki í stýrihópnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VALDARÁN!

Valgerður Sverrisdóttir talar m.a. í pistli sínum um að „valdarán" annars armsins í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík hafi mistekist. Það má vera að hún hafi nokkuð til síns máls.

Hins vegar virðist mér annað og mun alvarlegra valdarán hafa átt sér stað fyrir augum okkar allra. Exbé fékk 6,3% gildra atkvæða í borgarstjórnarkosninunum 2006. Þrátt fyrir þennan rýra hlut og einungis einn mann kosinn í borgarstjórn virðist flokkurinn fá ótrúlega mikil völd með formennsku og setu í öllum nefndum og ráðum.

Samkvæmt síðustu upplýsingum eru Björn Ingi og hans menn með formennsku í 5 ráðum og sæti í hinum 7, þ.m.t. í stjórn Orkuveitunnar svo grátlegt sem það kann að hljóma miðað við það sem á undan er gengið. Til samanburðar er F-listi frjálslyndra og óháðra með formennsku í einungis einni nefnd og sæti í 4 öðrum auk sæti forseta borgarstjórnar. Samt fékk F-listinn 10,1% atkvæða í sömu kosningum.

Þannig eru langtum færri atkvæði að baki hverju embætti Exbé heldur en hinna flokkanna:

Exbé - 338

VG - 624

Sjálfstæðisfl. - 898

Frjálslyndir og óháðir - 1087

Samfylkingin - 1109 ( en fengu borgarstjórann )

Valdarán Framsóknarflokksins virðist því hafa heppnast fullkomlega, eina ferðina enn. 


mbl.is Valgerður: Staða Sjálfstæðisflokksins með eindæmum veik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert atkvæði exbé hefur þrefallt vægi!

Það er ánægjulegt að konur skuli skipa fleiri sæti í ráðum borgarinnar en karlar, enda tími til kominn. Hins vegar klóra ég mér í hausnum yfir því að Framsóknarflokkurinn með sín 6,3 % kjörfylgi skuli fá formennsku í 2 mikilvægum ráðum auk Faxaflóahafna og þar að auki fulltrúa í öllum ráðum, OR og mannréttindanefnd! 

Til samanburðar fær svonefndur F-listi formennsku í einungis einu ráði og enga fulltrúa í menntaráði, velferðarráði, mannréttindanefnd, OR og Faxaflóahöfnum. Þeir fengu þó 10,1 % kjörfylgi og ættu því að hafa fleiri fulltrúa en exbé! VG fara líka halloka fyrir Binga og co. með álíka mörg sæti þrátt fyrir meira en tvöfallt kjörfylgi.

Ég tók til gamans saman hveru mörg atkvæði borgarbúa eru á bak við hvert embætti hjá flokkunum og fæ ekki betur séð en að Björn Ingi hafi enn einu sinni komið ár sinni vel fyrir borð. Ég er ansi hræddur um að hinir flokkarnir í borgarstjórn eigi eftir að súpa seyðið af þessari undanlátssemi við bragðarefinn.

Exbé - 338

VG - 672

Frjálslyndir og óháðir - 932

Sjálfstæðisfl. - 959

Samfylkingin - 1183

 


mbl.is Konurnar fleiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikþáttur í smíðum

Nú er bara að bíða og sjá hvaða stefnu leikþátturinn tekur. Verður látið nægja að finna Villa gott embætti? Því miður er frúin í utanríkisráðuneytinu með járnhjarta og ólíkleg til að láta eftir sendiherrastöðu, jafnvel þó að enskukunnátta borgarstjórans fyrrverandi sé engu lík. Kannski þarf góðan mann til að sjá um eyðsluna í sambandi við sjúkrahúsuppbyggingu eftir að Alfreð var látinn fjúka?

Svo þarf að kenna ungviðinu að halda sig á mottunni og að þekkja sinn vitjunartíma. Hanna Birna og Babyface brutu boðorðin í Valhöll og því munu þau þurfa að bíða enn um sinn eftir að fá að fara fremst í röðina. Spurningin er bara sú hver verður næsta borgarstjóraefni Sjallanna. Verður það Júlíus Vífill eða leynist bjargvætturinn ef til vill á Alþingi? Ég veðja á að Guðfinna Bjarnadóttir verði kölluð til eða Björn Bjarnason enn eina ferðina.


mbl.is Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins funda með stjórnum Sjálfstæðisfélaganna á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SÍS afturgengið

Það þarf engan speking til að sjá hvernig áhrifamikið gengi innan Framsóknarflokksins hefur verið að maka krókinn í gríð og erg á undanförnum árum. Ólafur "Elton" Ólafsson, Finnur Ingólfsson, Eyjólfur Árni Rafnsson, Helgi S. Guðmundsson, Kristinn Hallgrímsson, HRV, VGK-Hönnun, VGK-Invest o.s.frv. Listinn er æði langur. Ekki furða að grænu karlarnir voru á ferð út um víðan völl. Kosningasjóðurinn er ótæmandi með svona bakhjarla.

Ekki ónýtt fyrir þá að hafa mann eins og Björn Inga í borgarstjórn. 


mbl.is Gísli Marteinn: Milljarðar renna til manna sem stýrðu Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DV?

Mikið skelfilega er lágt risið á Sjálfstæðismönnum núna. Ekki nóg með að gamli góði Villi sé með teflonheila og man ekki neitt sem skiptir máli heldur eru þeir farnir að stíga í vænginn við Svandísi og VG. Verður samstarf DV næsta tilraunin í reyfarakenndri atburðarrás innan Ráðhúss Reykjavíkur?
mbl.is Sjálfstæðismenn vilja styðja málsókn Svandísar Svavarsdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband