Okkar maður!

Þeir eiga það sameiginlegt, bifvélavirkinn að norðan og Pavarotti, að hafa sungið við ólíklegustu tækifæri og aðstæður. Þó efa ég að ítalski stórtenórinn hafi nokkru sinni lagst svo lágt að syngja í e-s konar aðrennslisgöngum fyrir framan einungis 300 manns. Þó er aldrei að vita ef Arnarfell hefði gert honum gott tilboð. Hins vegar var hann á hátindi ferils síns vel fram yfir sextugt en það sama verður tæpast sagt um okkar mann. Kannski kemst hann á samning hjá hinu nýja útrásarfyrirtæki, Landsvirkjun Power...
mbl.is Hamraborgin nötraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illt í efni

Það er bæði sorglegt og mjög alvarlegt mál hvernig málin hafa þróast hjá hinum "frjálsu" bandalagsmönnum okkar í vestri. Það getur ekki skrifast á ruddalega einstaklinga í landamæragæslunni hvernig tekið er á móti gestum frá Íslandi og víðar. Fólk hlýtur að hugsa sig um tvisvar áður en það ákveður að ferðast þangað sér til skemmtunar.  Ímyndið ykkur hvaða meðferð múslimar gætu átt von á.

Ömurleg framganga Bandaríkjamanna í Mið-Austurlöndum hefur skaðað mannorð þeirra meira en nokkru sinni fyrr. Þar var ráðist inn í ríki án þess að gera heimavinnuna sína og horfast í augu við afleiðingarnar. Þar eru annarlegar hvatir sem ráða ferðinni.

Samkvæmt fréttum frá Bali geta Evrópusambandið og BNA geta ekki komið sér saman um lokaályktun fyrir loftlagsráðstefnuna. BNA og nokkrar aðrar þjóðir vilja ekki að neinar tölur séu í lokaályktuninni enda menga þeir mest af öllum. Með því móti sýna þeir okkur öllum lítilsvirðingu svipað og gert er við saklausa ferðamenn sem banka á dyrnar hjá þeim.

 


mbl.is „Ofboðslegur ruddi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaust gefið?

Þrátt fyrir að umhverfismálin hafi að sumra mati ekki verið kosningamál í vor eru þau meira áberandi nú en nokkru sinni fyrr. Sífellt fleira fólk er farið að taka beinan þátt í umræðunni og því ferli sem liggur til grundvallar skipulags- og framkvæmdaáætlana samkvæmt lögum. Því miður er löggjöfin enn ófullkomin og býsna hliðholl framkvæmdaaðilum en þær leiðir sem standa almenningi til boða mjög takmarkaðar.

Þetta hefur komið vel í ljós í yfirstandandi matsferli um umhverfisáhrif fyrirhugaðra jarðvarmavirkjana OR í nágrenni Hveragerðis, en þar er það framkvæmdaraðilinn sjálfur sem hefur umsjón með matinu og getur þ.a.l. farið nokkuð frjálslega með túlkunaratriði og rannsóknarniðurstöður. Almenningi er að vísu heimilt að senda inn athugasemdir en þegar öllu er á botninn hvolft er fulltrúum viðkomandi sveitarfélags það í sjálfsvald sett hvort nokkuð mark sé á þeim tekið eða því sem Skipulagsstofn ályktar.

Þetta er með öðrum orðum leikur kattarins að músinni. Því miður er þetta ekkert nýtt. Alþjóðlegar rannsóknir dr. Cappelletti “Access to justice” (Stanfordháskóli 1978) sýndu fram á hvar mestu hindranirnar voru í baráttunni fyrir verndun umhverfisins. Löggjöfin var og er enn samin fyrir hagsmuni stórra fyrirtækja fremur en almenning. Þetta verður enn greinilegra þegar sameiginlegir hagsmunir koma til álita.

Framkvæmdaaðilar hafa tímann, fjármunina og jafnvel heilu sveitastjórnirnar með í sínu liði. Þeir undirrita vilyrði um orkusölu löngu áður en umhverfismatsferli er lokið og gefa almenningi langt nef þegar svo ber undir. Tökum nokkur nýleg dæmi:

Upplýsingafulltrúinn

Upplýsingafulltrúi OR hefur að undanförnu gefið fremur lítið fyrir mikinn fjölda innsendra athugasemda vegna fyrirhugaðra jarðvarmavirkjana. Í fréttum RÚV 6.11. talaði hann um þær "stöðluðu athugasemdir sem dreift var á Netinu" og í Fréttabl. 18.11. er haft eftir honum að 540 af 660 athugasemdum hafi "því miður" verið efnislega samhljóða.

Ekki veit ég hvort það standi í starfslýsingu upplýsingafulltrúans að honum beri að gera lítið úr skoðunum þeirra sem gera athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir OR. Hins vegar finnst mér skringileg sú túlkun hans að efnislega samhljóðandi skoðanir fólks séu minna virði vegna þess eins að þær séu samhljóðandi. Hér eru fram komnir 540 aðilar sem gera svipaðar athugasemdir við framkvæmdaáætlun 1 fyrirtækis samkvæmt lögbundnum rétti sínum. Hvers vegna skyldi vera gert lítið úr þeim?

Bæjarstjórinn

Ekki tók nú betra við þegar bæjarstjóri sveitarfélagsins Ölfuss fór að tjá sig um sama mál. Það var ekki að heyra að 660 innsendar athugasemdir skiptu hann nokkru máli. Í Fréttablaðinu 9.11. er eftir honum haft að sveitarfélagið gæti allt eins tekið ákvörðun í tráss við úrskurð Skipulagsstofnunar líkt þeir hafa áður stundað. Það hlýtur að vekja furðu að bæjarstjórinn skuli á þennan hátt ögra þeim sem ekki eru sáttir við framkvæmdirnar áður en að Skipulagsstofnun hefur komist að neinni niðurstöðu. Sérstaklega hlýtur nágrönnunum í Hveragerði að finnast yfirlýsingar hans vera kaldar kveðjur en þeim er umhugsað um skaðleg áhrif á möguleika bæjarins sem íbúðar- og ferðamannasvæðis, enda einungis í rúmlega 4 km fjarlægt frá fyrirhugaðri virkjun.

Aðstoðarframkvæmdastjórinn

Enn annar atvinnutalsmaður virkjanaframkvæmda, titlaður aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, hefur einnig verið iðinn við að gera lítið úr skoðunum “sumra” umhverfissinna í Mogganum að undanförnu. Í greinum sínum 3.11. og 13.11. fer hann nokkuð háðuglegum orðum um þá sem um þessi mál fjalla, þ.m.t. mig undirritaðan sem hann segir ályktunarglaðan.

Arðsöm fjárfesting?

Hið eilífa vandamál í umræðunni um virkjanir og náttúruvernd á Íslandi er skortur á tölulegum upplýsingum. Ekki liggja neinar tölur til grundvallar um verðmæti þeirrar náttúru sem verið er að strauja yfir. Að sama skapi er orkuverðið ekki gefið upp af svonefndum viðskiptahagsmunum.

Á heimasíðu Alcoa í Brasilíu (sjá hér) kom fram að orkuverðið á Íslandi til Alcoa væri rétt undir 1 kr./kWH. Samkvæmt ágætum nýlegum heimildum mínum mun það þó vera örlítið hærra núna, á bilinu 1kr./kWH til 1kr. og 10 aurar. Ef miðað væri við fulla afkastagetu Kárahnjúkavirkjunar allt árið um kring og 100% nýtingu þýddi þetta orkusölu á bilinu 6 til 6,6 milljarðar á ári. Er það ásættanleg ávöxtun af meira en 120 milljörðum?

Niðurlag

Markmið laga um umhverfismat áætlana er að tryggja að umhverfisáhrif stórframkvæmda séu metin áður en endanlegri afgreiðslu lýkur og að gefa almenningi færi á að koma athugasemdum á framfæri. Þessi löggjöf er ný af nálinni og afar ófullnægjandi. Þess vegna er það margendurtekin aðferðarfræði hjá framkvæmdaaðilum að stinga upplýsingum undir stól (Fréttabl. 11.11. bls. 6), stilla fræðimönnum upp við vegg (Fréttabl. 19.11. bls. 10) eða einfaldlega að halda staðreyndum frá almenningi í nafni viðskiptaleyndar. Því miður er þetta í algjörri mótsögn við tilgang laganna og til mikillar skammar fyrir atvinnuvirkjanasinna.

Menn flýja ekki fortíð sína svo glatt.

Ofurbloggarinn Öskur Skarphéðinsson óskaði sjálfum sér og öðrum viðstöddum virkjanasinnum til hamingju með að vera að setja lokapunktinn á bak við deilurnar um Kárahnjúkavirkjun. Hann virtist nokkuð kotroskinn karlinn og bara sáttur við sinn hlut, en eins og margir muna studdi hann á sínum tíma ásamt flestum flokkssystkinum sínum mestu hryðjuverk Íslandssögunnar í frægri atkvæðagreiðslu á Alþingi.

Ég er ekki svo viss um að deilunum sé lokið enn. Leyndinni sem hvílir yfir kostnaði við framkvæmdina, hagkvæmni, verðmæti framleiðslunnar (orkuverðinu) og síðast en ekki síst meðferð á starfsmönnum verður ekki haldið um ókomna framtíð. Víst má telja að margt athyglisvert eigi eftir að líta dagsins ljós.  

Sjá einnig hér.


mbl.is Kárahnjúkavirkjun gangsett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Frjálslyndir" græða á femínistaleysi

Það mætti segja mér að þessi höfnun femínista hafi skilið eftir laus sæti sem Egill kaus að fylla með fólki sem tengist "Frjálslynda" flokknum. Í síðasta þætti voru Grétar Mar Jónsson og læknirinn Lýður Árnason að tjá sig um jafnréttismál. Vikuna þar á undan sátu bæði Magnús Þór Hafsteinsson og Arnþrúður Karlsdóttir og uppýstu álit sitt á innflytjendamálum. Að vísu var þar líka einn ágætur femínisti innflytjendum til varnar, að vísu karlkyns. En af hverju skyldi Egill vera orðinn svo forvitinn um skoðanir "Frjálslyndra"?


mbl.is Konur sniðganga Silfrið í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru þetta líka viðskiptahagsmunir?

Hið eilífa vandamál í umræðunni um virkjanir og náttúruvernd á Íslandi er skortur á tölulegum upplýsingum. Það er margendurtekin aðferðarfræði hjá framkvæmdaaðilum að stinga upplýsingum undir stól, að stilla fræðimönnum upp við vegg eða einfaldlega að halda staðreyndum frá almenningi í nafni viðskiptaleyndar. Ekki liggja neinar tölur til grundvallar um verðmæti þeirrar náttúru sem verið er að strauja yfir. Að sama skapi er orkuverðið ekki gefið upp af svonefndum viðskiptahagsmunum.

Á heimasíðu Alcoa í Brasilíu kom fram á sínum tíma að orkuverðið á Íslandi til Alcoa væri rétt undir 1 kr./kWH, sjá hér. Samkvæmt nýlegum heimildum mínum mun það þó vera örlítið hærra núna, á bilinu 1kr./kWH til 1kr. og 10 aurar. Ef miðað væri við fulla afkastagetu Kárahnjúkavirkjunar allt árið um kring og 100% nýtingu þýddi þetta orkusölu á bilinu 6 til 6,6 milljarðar á ári. Þá á meira að segja eftir að draga frá allan rekstrarkostnað og annað tilfallandi. Er það ásættanleg ávöxtun af meira en 120 milljörðum?
mbl.is Vitað að fossinn hyrfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Íslandi þurfum við ekki að örvænta

Það er huggun harmi gegn að hér á Íslandi þurfi menn varla að örvænta vegna hlýnun jarðarinnar. Ríkasta þjóð heims miðað við höfðatölu, fallegasta og gáfaðasta, mengar líka minnst miðað við höfðatölu. Og þó svo að meðalhitinn hækki um örfáar gráður á öldinni þá verður það bara til að fækka ferðum landans til sólarstranda, spara flugvélaeldsneyti og hitunarkostnað. Svo höfum við líka einn helsta speking heims í loftslagsmálum miðað við höfðatölu, Hannes Hólmstein sem hefur fullvissað okkur um að láta bölsýnisraddir ekki villa okkur sýn. Við kolefnisjöfnum bara það sem út af ber.


mbl.is Hlýnun jarðar er staðreynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar OR að láta Landsvirkjun eftir bestu bitana?

Fulltrúar Landsvirkjunar hafa loksins áttað sig á að hátæknifyrirtæki s.s. Netþjónabú geta borgað mun hærra verð fyrir orkuna en álframleiðendur. Í húsi OR virðast menn hafa verið of gagnteknir af gróðvænlegum útrásarverkefnum og sameiningu REI og GGE. Allavega virðast þeir ekki átta sig á því að þeir gætu fengið mun meira greitt fyrir minni orku og einnig haft betri samvisku gagnvart umhverfinu. En það er líklega ekki stefnumál OR frekar en Landsvirkjunar að bæta ímynd fyrirtækisins í umhverfismálum.

Hlýtur það samt ekki að vera þversögn að orka sem til stendur að framleiða í umdeildum virkjunum við Þjórsá eigi að knýja Netþjónabú og Kísilmálmverksmiðju á Suðurnesjum þegar orkuna mætti væntanlega fá hjá Hitaveitu Suðurnesja? Það virðist a.m.k. ekki vera auðsótt mál að leggja línur alla þessa leið.

Allavega er ég ansi hræddur um að Reykvíkingar séu að sjá á eftir miklum fjármunum í orkugeiranum. Fyrst var 45% hlutur þeirra í Landsvirkjun seldur á hlægilegu útsöluverði til Ríkisins. Svo var útrásarmálinu klúðrað á eftirminnilegan hátt hjá OR og í borgarstjórn. Nú ætlar OR að selja á útsölu orkuna sem framleidd er með ærnum tilkostnaði og landspjöllum á Hengilssvæðinu. Svo ekki sé talað um laun æðstu starfsmanna OR. Það er hveralykt af þessu!

 


mbl.is OR með mörg járn í eldinum og meiri eftirspurn en framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfissinnar að bjarga Landsvirkjun?

Direktören for det hele, Frikki Sópur vill ekki meina að þessi stefnubreyting snúist um að bæta ímynd fyrirtækisins. Líklega alveg satt og rétt, enda hefur Landsvirkjun margsýnt og sannað að svoleiðis lagað skiptir þá ekki máli.

Það er vitaskuld lágt orkuverð til álveranna sem er að plaga Landsvirkjun og gífurlegur aukakostnaður vegna þess hvað framkvæmdir við Kárahnjúka eru komnir langt fram úr áætlunum. Þess fyrir utan miðast orkuverðið örugglega gengi dollarans en það hefur legið niður á við nokkur ár í röð og er nú í sögulegu lágmarki, amk. miðað við Evru. En þessar upplýsingar eru jú viðskiptaleyndarmál og seint munu talsmenn Landsvirkjunar fara að viðurkenna að þeir hafi samið af sér.

Eiginlega finnst mér að Frikki eigi að þakka Sól í Straumi og umhverfissinnum að hafa stoppað stækkun álversins í Straumsvík. Annars væri Landsvirkjun eflaust bundin samningum sem útilokuðu sölu á raforku til hátæknifyrirtækja á margföldu verði. En hann veit að baráttunni um Þjórsá er engan veginn lokið... 

 


mbl.is Markmiðið að bæta efnahag Landsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaus þulur?

Ég vona að Þórhallur Gunnarsson sé ekki orðinn dagskrárstjóri hjá Útvarpinu líka! Guðmundur F. Benediktsson er útvarpsþulur og meðlimur í hinum lífseigu Mánum frá Árborg  Cool

Trúlega er hér átt við Guðmund H. Bragason sjónvarpsþul og ef rétt reynist verður enginn fulltrúi hins veika karlkyns í þularhlutverki á skjánum.

Eru ekki annars allir búnir að skila inn athugasemdum vegna fyrirhugaðrar virkjunnar við Ölkelduháls? Fresturinn rennur út í kvöld og ykkur er velkomið að fá lánað úr mínum athugasemdum hér á bloggsíðunni.

Sjá annars nánar á www.hengill.nu 


mbl.is Flugfreyja flýgur í þulustarfið á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband