DAUÐANS LIÐ!?

Í umræðuþætti á Sjónvarpinu (RÚV) fyrir rétt rúmu ári síðan lýsti Lárus Vilhjálmsson því yfir að Íslandshreyfingin vildi sækja um aðild að Evrópusambandinu á næsta (núverandi) kjörtímabili. Þetta kom töluvert á óvart og var líklega í fyrsta sinn sem svo afdráttarlaus stuðningur við inngöngu var orðaður.

Ýmsir sáu ástæðu á sínum tíma til að fjalla um þessa yfirlýsingu á neikvæðum nótum, m.a. Staksteinar Moggans. En í ljósi umræddrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins má hins vegar líta svo á að Lárus og Íslandshreyfingin hafi verið framsýnni en aðrir stjórnmálaflokkar.

Er það ekki dapurlegt hvað helstu stjórnmálaleiðtogar okkar draga í sífellu mikilvægar ákvarðanir og skortir næmleika og framtíðarsýn? Hversu lengi ætlar Geir H. og Sjálfstæðisflokkurinn að skella skollaeyrum við óskum viðskiptalífsins og þjóðarinnar allar? Guðni og Framsókn? Og hvað með Steingrím J. og VG? Evrópusambandið mætti teljast stærstu umhverfissamtök í heimi en samt hugnast Steingrími ekki að ganga til liðs við þau! Og Samfylkingin situr sem fastast í ríkisstjórn sem hefur ekki aðildarumsókn á stefnuskrá sinni.

Hvaða dauðans lið er þetta eiginlega á Alþingi!?? 


mbl.is 67,8 vilja hefja undirbúning aðildarumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talsmaður svarar ekki!

Ef marka má þessa frétt á mbl.is þá held ég að trukkakarlar ættu að fá sé nýjan talsmann hið snarasta og hætta við öll frekari mótmæli. Sturla Jónsson er greinilega ekki maður sem hægt er að taka alvarlega eða eiga í samningaviðræðum við. Almenningsálitið hefur snúist gegn þessum hópi manna eftir að fólk fór að gera sér grein fyrir því hvað lækkun olíugjalds myndi í raun og veru þýða. Kostnaður af viðhaldi vega á að vera í sanngjörnu hlutfalli við notkun og trukkabílstjórar eiga að sjálfsögðu að greiða umtalsverðan hlut. Fólk vill heldur ekkert eiga það á hættu að mæta dauðþreyttum og hálfsofandi bílstjórum á vegum úti. Nóg er um vandræðalegar uppákomur þeirra nú þegar.
mbl.is Bílstjórar: „Við höldum áfram"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðhelgar trukkabullur?

Það er augljóst af atburðum síðustu daga að bílstjórar njóta algjörra forréttinda hjá lögreglu og yfirvöldum. Ekki hefur verið blásið til atlögu gegn þeim þrátt fyrir marg ítrekuð brot og að þeir hafi stórlega tafið vegfarendur og sett daglegt líf fólks úr skorðum. Ekki sér lögreglan heldur mikla ástæðu til að sekta þá sem leggja bílum sínum dagsdaglega ólöglega í miðborginni eða láta fjarlægja bílana þó að þeir séu bæði íbúum og öðrum til ama.

Hins vegar eru þeir handteknir sem mótmæla með gulum treflum heimsókn kínversks harðstjóra svo og þeir sem mótmæla stórfelldum umhverfisspjöllum á hálendinu. Einnig er fólk sektað fyrir ýmsar misalvarlegar sakir eins og að kasta af sér vatni á almannafæri þó að það sé að vísu hið besta mál.

Nú þarf lögreglan að láta sverfa til stáls og handtaka þessar trukkabullur.


mbl.is Bílstjórar mótmæla við Hlemm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ætlum við að gera?

Fleiri álver og olíuhreinsunarstöð - Alcoa, Century, Exxon, Lukoil, Gazprom og Shell standa í biðröð að fjármagna næsta umhverfisskandal á Íslandi.

Fyrirtækin Geostream og dótturfélagið Katamak-NAFTA eru í góðum samböndum við olíurisana. Ísland er þar nefnt neðarlega í löngum lista yfir verkefni sem flest eru í Síberíu, Úralfjöllum og Kazakhstan (sic!). Á heimasíðu Íslenska olíuhreinsifélagsins (hvað varð um hátæknina?) má lesa að 73% íslensku þjóðarinnar sé ekki mótfallin hugmyndinni um olíuhreinsunarstöð og 80% Vestfirðinga séu henni hlyntir. Einnig kemur þar fram að engir umhverfislegir þættir standi í vegi fyrir framkvæmdinni í Arnarfirði eða Dýrafirði (þótt ótrúlegt megi virðast) og að sveitastjórnir á þessum stöðum fari með ákvörðunarvald sem gangi allt mjög hratt fyrir sig. Whistling 

Er ekki eitthvað bogið við þetta allt saman? Hér fara menn varla út á næsta götuhorn án þess að nota til þess bensín- eða olíuknúinn bíl. Olíuverð er hátt og undanfarna daga hafa flutningabílstjórar og jeppaklúbburinn 4x4 gert vegfarendum lífið leitt eins og allir vita. Við berjumst við hrikalegan viðskiptahalla sem að hluta orsakast af olíuinnflutningi. Brennsla olíunnar leiðir svo af sér mengun og mikinn útblástur koltvísýrings sem er mjög dýr og óæskilegur munaður á 21. öldinni.

Hér á Íslandi er framleidd "hrein" raforka í stórum stíl sem hæglega mætti nýta sem "eldsneyti" á bílaflotann. En í stað þess að stefnt sé að því er mestöll raforkan nýtt í álver og stóriðju og svo á að pota niður olíuhreinsunarstöð á einum fegursta stað landsins til að hægt sé að fá hingað enn meiri olíu. Það er eitthvað í þessu dæmi sem bara alls ekki kemur heim og saman. Mættum við biðja um framsýnni og metnaðarfyllri stjórnmálamenn! Einhverja sem standa við gefin loforð!!!


mbl.is Öfgarnar aukast segir Al Gore
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiginhagsmunaseggir

Skyldu þessir blessaðir 4x4 menn aldrei velta því fyrir sér að kaupa sparneytnari bíla? Það væri ágæt mótvægisaðgerð og minnkaði CO2 útblástur að auki. Reyndar mæli ég með reiðhjólum fyrir þá. Sjálfur hef ég hjólað margar ferðir á hálendinu og mæli mjög eindregið með þeim ferðamáta.

Ef ríkið lækkar bensíngjald til að koma til móts við kröfur jeppamanna færist skattbyrðin einungis yfir á okkur hin því að kostnaður við viðhald vega er gífurlegur og ósanngjarnt að hann sé í auknum mæli greiddur af þeim sem láta skynsemina ráða.


mbl.is Loka fyrir umferð olíubíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabært að sekta

Hverju eru verið að mótmæla? Er það ekki annars vegar háu eldsneytisverði og hins vegar reglum um hvíldartíma vöruflutningabílstjóra? Ríkisstjórnin ræður víst engu um þær ES-reglur sem segja til um þann hámarkstíma sem flutningabílstjórar mega aka samfleytt. Væri ekki nær fyrir þá að fara til Brussel og loka nokkrum breiðgötum þar?

Hækkunin á eldsneytisverði orsakast af gengisfalli krónunnar og hækkun á heimsmarkaðsverði. Halda bílstjórarnir að ríkisstjórninni sé í lófa lagið að kippa þessu í liðinn? Að vísu væri hægt að lækka svonefnt olíugjald (sem hefur ekkert hækkað í nokkur ár) til að slá aðeins á verðið en við það myndi gífurlegur kostnaður við viðhald á vegum færast í auknum mæli yfir á öll okkur hin sem sum hver ferðumst um á reiðhjólum, almenningssamgöngum eða fótgangandi. Hvaða réttlæti væri það?

Því miður finnst mér þessi mótmæli kjánaleg og af því að þau bitna mest á saklausum vegfarendum eru þau illa hugsuð og bera vott um skammsýni og eigingirni. Það á skilyrðislaust að sekta fyrir svona framferði, bæði "atvinnumótmælendur" og líka alla hina umhverfissóðana sem leyfa sér að stöðva umferð með stóru jeppunum sínum.

Svo segja þeir að þjóðin styðji þá 100% í þessum aðgerðum!? 


mbl.is Mikill hiti í bílstjórum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páskaguðspjallið 2008

Það hlýtur að vera tímanna tákn hvað efnið hefur orðið andanum yfirsterkara á því herrans ári 2008. Í stað þess að minnast kvalarfulls dauðdaga JKJ fyrir rúmum 2000 árum og fórnar hans fyrir allt mannkynið minnumst við nú þeirrar miklu velmegunar sem við sjáum nú í baksýnisspeglinum og íhugum þá fórn sem við mörgum okkar blasir ef allt fer á versta veg.

Á tímum sem þessum væri óneitanlega uppörvandi ef helstu framámenn þjóðarinnar, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og seðlabankastjórar kæmu með skýr skilaboð um aðgerðir til að minnka spennuna og auka bjartsýni. Hins vegar minna viðbrögð þeirra óneitanlega á viðbrögð G.W.Bush þann 11.9.2001 þegar hann sat sem fastast í skólastofu barnaskóla nokkurs og virtist ekki hafa neitt betra að gera þrátt fyrir að hafa tvívegis með 15 mínútna millibili fengið skilaboð um að árás hefði verið gerð á BNA.

En við verðum bara að bíða og sjá hvort þetta reddast ekki einhvern veginn, ekki satt? 


mbl.is Eitraður vogunarsjóður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurseld spákaupmennsku?

Nú hlýtur að koma að því að "venjulegt" fólk fari að krefjast skýringa. Fæstir skilja hvorki upp né niður í fjárhagsstjórn landsins og hljóta að velta fyrir sér ástæðum þess að krónan hrynur eins og gjaldmiðill í einhverju Afríkuríkinu sem við viljum helst ekki þurfa að bera okkur saman við. Er ástæðan ekki einfaldlega sú að við erum enn einu sinni ofurseld spákaupmennsku fjárfesta sem nú losa sig við krónur og veðja á áframhaldandi gengisfall?

Nú spyr ég hvort að flokkurinn sem sífellt hamrar stöðugleika í kosningaloforðum ætlar endanlega að fórna trúverðugleika sínum. Ætlar dýralæknirinn í fjármálaráðuneytinu að aflífa skepnuna eða stendur til að fara í bráðaaðgerð?


mbl.is Mesta gengisfall á einum degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótvægisaðgerð?

Það eykur óneitanlega vonir mínar um að Ólafur verði farsæll sem borgarstjóri að hann hafi fengið svo dugmikla manneskju sér til aðstoðar. Má ekki líta á þetta sem mótvægisaðgerð við þær slæmu fréttir að gamli góði Villi ætlar ekki að láta verkin tala?

Það að aðstoðarmaður borgarstjóra sé valinn út frá hæfileikum og mannkostum fremur en af pólitískum biðlista gefur líka ástæðu til bjartsýni. 


mbl.is Ráðin aðstoðarmaður borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjusinnaðir umhverfissinnar?

Það er óskemmtilegt að sjá fulltrúa VG í bæjarráði Akureyrar ekki taka harða afstöðu gegn álveri á Bakka, sjá fundargerð. Þýðir það að Baldvin H. Sigurðsson sé meira Vinstri en Grænn eða er hann einfaldlega að reyna að geðjast öllum? Minna á óvart kemur að fulltrúi Samfylkingarinnar, Hermann Jón Tómasson skuli styðja álversframkvæmdirnar. Samfylkingin studdi rækilega byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álver í Reyðarfirði og er enn við sama heygarðshornið þrátt fyrir fagurgala í umhverfismálum fyrir síðustu Alþingiskosningar.
mbl.is Vilja álver á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband