Það er fullkomnað...

Fullkomin sátt segja þau að ríki um skýrsluna og niðurstöðu svokallaðs stýrihóps. Eigum við borgarbúar að trúa því að pólitískir fulltrúar úr öllum flokkum hafi komið sér saman um niðurstöðu sem ekki er málamiðlun frá upphafi til enda? Af hverju í ósköpunum var ekki óháðum aðilum falið að skoða REI-málið og skila niðurstöðu?

Villi er ánægður og vill láta verkin tala. Hafa þau ekki talað nóg?


mbl.is Segir fátt nýtt í skýrslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn vilja kaupmenn ráða

Ég velti því fyrir mér hvort að það sé ekki löngu tímabært að setja spurningarmerki við hagsmuni þessa óánægðu kaupmanna við Laugaveginn. Það eru jú þeir sem vilja viðhalda bílaumferð við helstu miðbæjargötu Reykjavíkur. Þeim finnst alveg í lagi að takmarka hljólreiðar. Það eru sumir kaupmenn sem vilja rífa gömul hús og byggja stærri, líklega til að auka verðmæti fasteigna sinna. Það eru kaupmenn sem telja sig ráða því hvernig miðbærinn okkar er skipulagður. 

Það er einfaldlega kominn tími til að gera Laugaveginn að göngugötu. Það á að leggja áherslu á endurbyggingu eldri húsa og leggja drög að því að alls konar skemmtileg verslun og önnur starfsemi þrífist í húsunum. Það þarf hugsa um að skapa betri aðstæður fyrir miðbæjarmannlíf, bæði íbúum, ferðamönnum og öðrum borgurum til ánægju. Hverjum dettur í hug að stanslaus bílaumferð dragi að sér iðandi mannlíf?

Varðandi grunninn að Laugavegi 74 er það ljóst að þarna eru svokallaðir niðurrifsverktakar enn eina ferðina að fara ósvífna leið til að ávaxta sitt fé. Þeir þóttust ætla að byggja nýtt hús í stað þess gamla sem væri útlitslega mjög svipað en talsvert stærra inn í lóðina. Nú er hins vegar ljóst að þetta var fyrirsláttur til að fá leyfi til að fjarlægja gamla húsið. Áður en við vitum verður búið að samþykkja þarna nýbyggingu á fjórum hæðum sem líklega verður meira í stíl við Landsbankahúsið hinum megin við götuna.


mbl.is „Grafhýsi“ við Laugaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaus stjórnskipunarlög

Frumvarp Marðar og félaga er þarft og skynsamlegt þó að stutt sé. Það er ekki nokkur maður sem sér tilganginn í því að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi auk þess sem að margir borgarbúar hafa ekki hugmynd um hvoru kjördæminu þeir tilheyra. Reyndar væri að mínu mati skynsamlegast að hafa allt landið eitt kjördæmi enda eru landsbyggðarkjördæmin þrjú orðin risastór hvert fyrir sig og einungis stigsmunur að taka skrefið alla leið. Af hverju líðst það enn þann dag í dag að atkvæðavægi sé svo misskipt?

Svo væri nú ekki úr vegi að bera fram frumvarp um að fella úr gildi mjög svo umdeilt skilyrði sem hindrar að nýir stjórnmálaflokkar komist til valda. Þá á ég við 5% regluna svonefndu sem tók gildi árið 2000 og kom í veg fyrir að Ómar Ragnarsson og einn annar frambjóðandi Íslandshreyfingarinnar tækju sæti á Alþingi á sl. ári. Þar segir í 108. gr.

"Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu."

Það væri kannski ekki úr vegi að rifja það upp að "Frjálslyndi" flokkurinn hefði ekki komið inn nokkrum einasta manni árið 1999 ef þessi lög hefðu verið í gildi þá. Þeir fengu 4,2% atkvæða á landsvísu og 2 þingsæti. En ætli flutningsmönnum nýja frumvarpsins finnist nokkur þörf á að breyta þessu?


mbl.is Reykjavík verði eitt kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin fleygu síðustu orð...

Hvað er Halldór Ásgrímsson eiginlega að vilja upp á dekk? Fékk hann ekki starf sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar svo honum verði áfram boðið í veislur með erlendum ráðherrum og gömlum kollegum? Er hann ekki sáttur við að hafa hagnast gífurlega á kvótakerfinu sem hann sjálfur átti mikinn þátt í? Finnst honum eftirlaunakjör forsætisráðherra ekki mönnum bjóðandi?

Nú tekur þessi friðelskandi höfðingi upp nokkra vel brýnda rýtinga og gengur í lið með fyrrverandi aðstoðarmanni sínum sem hann segir vera lykilmann fyrir framtíð flokksins í Reykjavík. Það er vitað mál að Halldór vildi ekki að Guðni yrði eftirmaður sinn sem formaður flokksins. Skyldi Guðni ætla að mæta örlögum sínum eins og hetjurnar forðum með rýtingana í bakinu? Hver skyldu hin fleygu síðustu orð hans verða? 


mbl.is Ómakleg framganga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðum Framsóknarflokkinn!

Það er sitthvað sameiginlegt með Framsóknarflokknum og gömlu húsunum við Laugaveg sem Bingi vill gjarnan losa sig við. Allt eru þetta minnisvarðar um liðna tíð. Flokkurinn má muna fífil sinn fegri líkt og húsin tvö og er eiginlega að hruni kominn. Helsti munurinn er sá að húsunum hefur hrörnað á ytra byrðinu sökum vanhirðu á meðan að Framsóknarflokkurinn gengur um í fínum fötum en hefur rotnað innan frá.

Mín vegna mætti alveg friða Framsóknarflokkinn svo hann haldi áfram að vera upprennandi stjórnmálamönnum víti til varnaðar.


mbl.is Björn Ingi úr Framsóknarflokki?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki góð fréttamennska

Úr því að gerð var skoðanakönnun um málið hlýtur að þurfa að skoða úrslit hennar frá fleiru en einu sjónarhorni. Af hverju var ekki minnst á að 69,1% aðspurðra vilja varðveita götumyndina annaðhvort með friðun gömlu húsanna eða með því að byggð verði ný sem taki mið af núverandi götumynd?

Fréttablaðið stendur sig enn verr en þar stendur í fyrirsögn á forsíðu: "Þrír af fjórum vilja ný hús". Þar er heldur ekki minnst á að tæp 70% vilji varðveita götumyndina. Svo ýkja þeir í fyrirsögninni því að 27,6% vildu að gömlu húsin væru friðuð.

Ef þeir hefðu einskorðað þessa skoðanakönnun sína við íbúa í miðborginni hefðu tölurnar orðið mjög frábrugðnar. Ég bíð spenntur eftir því að það verði hringt í mig og spurt hvort ég styðji að húsin við Fossaleyni 16, 112 Rvk. og Fensölum 6, 201 Kóp. verði rifin niður. Fyrir þá sem ekki vita eru þar til húsa verktakafyrirtækin Þ.G. verktakar ehf og Baldursgata ehf sem báðir gera sér leik að því að láta gömul hús grotna mannlaus niður í miðbænum, íbúum þar til mikils ama.


mbl.is Meirihlutinn vill ný hús við Laugaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurt og svarað um olíuhreinsunarstöð

Ég spurði bæjarstjóra Vesturbyggðar á bloggsíðu hans nokkurra spurninga um olíuhreinsunarstöðina sem hann vill gjarnan sjá rísa í Ketildölum við Arnarfjörð:

  1. Hversu mikla raforku mun svona olíuhreinsunarstöð nota á ári?
  2. Nýtir hún einnig orku frá brennslu olíu eða jarðefna? Hversu mikla?
  3. Hversu mikla orku þarf að nota svo að þetta teljist vera stóriðja?
  4. Eru einhver mengandi spilliefni sem fara út í sjó eða andrúmsloftið?
  5. Hversu mikil losun koltvísýrings fylgir starfseminni árlega?
  6. Hefur verið gerð könnun meðal íbúa á Vestfjörðum um fyrirhugaða framkvæmd?
  7. Hafa Vestfirðingar verið spurðir hvort þeir hafi áhuga á að starfa í þessari stöð?
  8. Hvernig sér bæjarstjórinn að hægt verði á finna 500 manns til starfa í stöðinni?
  9. Ef stöðin verður að miklum hluta mönnuð útlendingum/innflytjendum, má jafnvel búast við því að Vesturbyggð verði fyrsta sveitastjórnarsvæðið á Íslandi þar sem Íslendingar eru í minnihluta. Sér bæjarstjórinn einhver vandamál samfara því eða er óþarfi að hafa af því áhyggjur?

Bæjarstjórinn svaraði nokkru síðar:

  1. 15 KW.
  2. Hún getur notað jarðolíu og eru það ca. 3 tonn fyrir vinnslu á hverjum 100 tonnum.
  3. Olíuhreinsistöð telst hvorki til stóriðju né orkufreks iðnaðar.  Orkunotkun er ekki í nokkrum tengslum við það hvort eitthvað teljist stóriðja eða ekki, en orkufrekur iðnaður er m.a. skilgreindur sem iðnaður þar sem orkunotkun er hátt hlutfall af framleiðsluverðmæti  - t.d. miðað við 15% eða meira.
    Stóriðja er líka skilgreind sem iðnaður þar sem framleidd eru hráefni og hálfunnin vara, svo sem járn- og stáliðnaður.  Það er ekki hægt að segja hest vera naut eða naut hest þótt bæði hafa fjóra fætur....
  4. Nei.
  5. 400 - 560 þús. Tonn.
  6. Ég vísa til Capasent Gallup könnunar sem gerð var í apríl sl. skv. meðf. Það er of langur texti að setja alla könnunina hér inn, en smá sýnishorn. Sjálfsagt er hægt að sækja þetta hjá RUV. [Sé þeim sleppt, sem hvorki eru hlynnt né andvíg, eru 62% hlynnt og 38% andvíg á landsvísu (kvöldfréttir Sjónvarpsins 29.4.2007] Í Vesturbyggð hefur farið fram óformleg könnun og eru u.þ.b 90% allra íbúa í Vesturbyggð hlynntir þessari framkvæmd.
  7. Já og margir bíða spenntir.
  8. Ætli það verði ekki svipaða og hvernig það gekk að leysa mannþörfina austur á Reyðarfirði, en á sínum tíma voru margar sem sögðu að það yrði ekki mögulegt.
  9. Ég tel óþarft að hafa áhyggjur af þessu máli. Nú þegar er yfir 16% íbúa á Vestfjörðum af erlendum uppruna. Það má segja að það sé þeim að þakka að íbúatalan er ekki lægri hér. Þessir útlendingar eru langflestir alveg afbragðs fólk og mjög góður vinnukraftur. Við höfum góða reynslu af þeim og kvíðum því ekki að fá fleiri.

Ég bætti við nokkrum athugasemdum og fleiri spurningum sem vöknuðu í framhaldi:

  1. Er þetta ekki misritun? Venjuleg fjölskylda getur hæglega notað 15 kW þegar mikið gengur á.
  2. Þýðir það ekki að orkan kemur að miklu leyti úr olíunni? Þegar rætt er um hvort að iðnaður sé orkufrekur hlýtur að þurfa að skoða heildarorkunotkunina.
  3. Á bb.is sá ég þetta, líklega ættað frá visir.is. Þar er því haldið fram að olíuhreinsunarstöð með öllu sé stóriðja, hvernig sem menn túlki skilgreiningar úr orðabókum um orkuþörf. Þeir eru reyndar ekki með neinar samlíkingar við ferfætlinga.
  4. Ef 3 tonnum af olíu er brennt fyrir hver 100 tonn sem hreinsuð eru, hljóta að verða til mengandi efni í umtalsverðu magni. Hvað er annars reiknað með að hreinsa mörg tonn af hráolíu á hverjum sólarhring?
  5. Með öðrum orðum er þetta 11-15% af heildarkvóta Íslands á tímabilinu 2008-2012. Vandamálið er að af litlu er að taka. Álverum fer fjölgandi, almenningur kaupir sífellt stærri ökutæki og ferðast meira en nokkru sinni fyrr auk þess sem að ferðamannastraumur til landsins eykst. Hvernig hyggjast forsvarsmenn ÍH leysa þetta vandamál?
  6. Það væri ekki úr vegi að kanna viðhorf fólks á nýju ári. Persónulega finnst mér að þessi 38% eigi betra skilið.
  7. Ég bíð líka spenntur. Ef af þessu verður sæki ég um starf til að sjá það með eigin augum hversu dásamlegur þessi vinnustaður verður. Vonandi er ég ekki kominn á svartan lista hjá Vesturbyggð. Vissara að setjast að á Tálknafirði.
  8. Líklega hafðist það að lokum á Reyðarfirði. Það tók þá reyndar langan tíma og kostaði fleiri heilsíðuauglýsingar en ég hef tölu á. Þeir aka að vísu með starfsfólk úr og í vinnu til Stöðvarfjarðar, Fáskrúðsfjarðar, Eskifjarðar, Norðfjarðar og Egilsstaða.
  9. Mér finnst sérlega ánægjulegt að heyra hvað bæjarstjórinn er jákvæður í garð innflytjenda. Sjálfur átti ég mjög skemmtilegt spjall við nokkra hressa Pólverja í heita pottinum á Tálknafirði í fyrrasumar og var hissa að heyra hversu mörg þau eru þar á bæ. Það hlýtur samt að vera talsvert átak að taka við stórum hópi fólks og reyna með öllum tiltækum ráðum að fá þau til að aðlagast tungumáli og menningu.
Nú er bara að bíða og sjá hvort að frekari upplýsingar berist. Það sem mig langar mest að vita er hveru mikið af orkuþörfinni kemur úr olíunni sjálfri. Því hefur verið haldið fram að þetta sé ekki orkufrekur iðnaður en það er alls ekki nóg að skoða einungis raforkuþörf í því sambandi.

Slæm niðurstaða

Það var í stjórnartíð R-listans að niðurrif húsanna við Laugaveg 4-6 var leyft og bygging stærra húss á lóðunum samþykkt. Því miður guggnaði Húsafriðunarnefnd á að beita skyndifriðun á þessi hús. Dagur B. Eggertsson virðist ekki hafa nægilegan vilja eða kjark til að stöðva framgang málsins, enda hefði hann með því lent í mótsögn við fyrri ákvarðanir.

Nú situr hér borgarstjórnarmeirihluti þar sem nokkrir ákafir talsmenn varðveislu gamalla húsa eiga sæti. Þar má nefna Svandísi, Margréti og nú Ólaf F. Þrátt fyrir þetta gengur málið sína leið og verktakarnir sleppa meira að segja við að fjarlægja gömlu húsin. Þegar nýtt hús hefur risið á lóðunum verður léttara að ryðja fleiri gömlum húsum í burtu, enda munu þau sóma sér illa innan um stóra steinsteypukassa. Segið svo að skipulagsmálum í Reykjavík sé ekki stjórnað af verktökum og byggingafyrirtækjum.   


mbl.is Margrét og Svandís ósáttar við flutning húsanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarstjórinn bloggar


Mig langar að benda á að bæjarstjórinn í Vesturbyggð er farinn að blogga og hvetja alla til að koma góðum hugmyndum á framfæri við hann svo að hann hætti að hugsa um þessa leiðinda olíuhreinsunarstöð.

http://www.rjor.blog.is

Bestu jóla- og nýárskveðjur til ykkar allra.

Fleiri dómsstig?

Maður þakkar nú bara fyrir að Davíð Oddsson skuli ekki hafa verið
duglegri að auka kyn sitt. Ef ætti að útvega fleiri sonum hans, frændum
og briddsfélögum dómarastöður þyrfti að bæta við einu dómsstigi í
viðbót!
mbl.is Gagnrýna skipun í dómaraembætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband