Bjargar því sem bjargað verður

Að sjálfsögðu á að fara fram heildstætt umhverfismat. Þórunni hefur væntanlega fundist tími til kominn að efna einhver kosningaloforð úr "Fagra Íslandi" og ekki seinna vænna. Spennandi verður að sjá viðbrögð Sjálfstæðisflokksins og samflokksmanna Þórunnar í NA-kjördæmi sem hafa hingað til ekki talist miklir náttúruverndarsinnar.

Það eina sem ég skil ekki er af hverju hún treysti sér ekki á sínum tíma til að fara fram á heildstætt umhverfismat vegna Helguvíkurálversins. Nú verður enn og aftur þrasað um að landsbyggðin njóti ekki sömu kjara og SV-hornið.

Þórunn er fyrsti umhverfisráðherra lýðveldisins sem stendur undir nafni. 


mbl.is Undirbúningur skemmra kominn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

nattura.info

Ég þakka Björk og öllum sem að þessu stóðu fyrir frábæra tónleika. Vonandi vekur þetta fólk til umhugsunar um landið sem við búum á. Ég er sannfærður um að það er komið að þáttaskilum í náttúruvernd á Íslandi því að við blasir að hér verði öllu raskað fyrir alþjóðlegar málmbræðslur.

Því miður virðast ríkisstjórnin stundum vinna með aðra hagsmuni að leiðarljósi en fólksins sem kaus þá. Líklega væri fyrir löngu búið að selja bæði Björk og Sigurrós til Sony eða CBS ef ráðamenn þjóðarinnar hefðu haft úrslitavald á því sviði!

Kynnið ykkur hinn nýja og bráðnauðsynlega upplýsingavef nattura.info og skoðið með eigin augum hvað er lagt að veði. Helsta ógnin við náttúru landsins er fólkið sem hefur farið á mis við að kynnast henni, er úr tengslum við uppruna sinn og lætur sér því fátt um finnast. Hér hefur eitthvað mikið farið úrskeiðis.


mbl.is Óður til náttúrunnar í Laugardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Þórunn í réttum flokki?

Samfylkingin varð til þegar Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið reyndi að sameinast á vinstri kantinum. Ekki tókst sú sameining betur en svo að til varð annar nýr flokkur, VG. Það er deginum ljósara að Samfylkingin sigldi undir fölsku flaggi þegar "Fagra Ísland" var kynnt sem umhverfisstefna flokksins enda úir og grúir af hörðum virkjanasinnum innan raða hans, mest miðaldra körlum sem finnst algjör firra að gera hlé á stóriðjustefnunni. Ragnar Jörundsson, sveitarstjóri í Vesturbyggð er gott dæmi, maðurinn sem berst fyrir því að olíuhreinsistöð rísi í einum fegursta firði landsins og fullyrðir að það sé 99,9% öruggt.

Þó svo að Þórunn Sveinbjarnardóttir reyni að framfylgja meintri stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum og náttúruvernd bendir flest til þess að hún eigi við ramman reip að draga og muni tæpast eiga langa setu framundan í sæti umhverfisráðherra. Það myndi að vísu jafngilda dánarvottorði yfir "Fagra Íslandi" að setja hana út í kuldann en trúverðugleika Samfylkingarinnar í umhverfismálum verður hvort eð er vart borgið úr þessu. Þeir kjósendur sem trúðu fagurgalanum og bitu á agnið iðrast þess nú sárlega.


mbl.is Umhverfisráðherra vill ekki fleiri álver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan harðnar

Það dylst fáum að baráttan er farin að harðna á milli þeirra sem vilja vernda náttúru landsins og hinna sem vilja gera Ísland að orkuparadís fyrir stóriðju. Það er afleitt að ríkisstjórnin skuli ekki vilja staldra við og hlusta á raddir þeirra fjölmörgu sem sjá mikilvægi þess að halda í hreina og ósnortna ímynd landsins. Með brekkusöngvarann og vini hans í ríkisstjórn er voðinn vís. Hryggilegast er þó að Samfylkingin skuli hafa siglt undir fölsku flaggi og að ekki eigi að efna kosningaloforðin á þeim bæ.

Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins vill 66,7% íslenskra kvenna ekki fara út í frekari virkjanaframkvæmdir fyrir stóriðju. Það vill svo til að þessar konur hafa flestar kosningarétt og vonandi fá þær val um að kjósa fólk á þing sem treystandi er á. Næturbloggarinn í iðnaðarráðuneytinu ætti að þurrka glottið af andlitinu og sækja um pólitískt hæli hjá Framsóknarflokknum. Hann er ekki traustsins verður.


mbl.is Náttúra í beinni útsendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir út að grilla...

Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn mjög svekktur. Hlustaði með öðru eyranu á ræðu forsætisráðherra á Austurvelli í fyrradag og skilaboð til landsmanna um að nú skuli sparað, bæði í akstri og eyðslu almennt.

Sjálfur er ég fyrir löngu síðan búinn að grípa til sparnaðaraðgerða - fer flestra minna ferða á reiðhjóli, hreyfi fjölskyldubílinn lítið sem ekkert, skipulegg matarinnkaup með hámarksnýtingu í huga og hef skorið niður aðra eyðslu. Samt hækka útgjöldin í krónum talið mánuð eftir mánuð. Húsnæðislánin spila þar stórt hlutverk en bæði gengi krónunnar og háir vextir vega þyngst.

Flokkur Geirs H. Haarde og félaga hefur löngum stært sig af stöðugleika og verið með fullyrðingar í aðdraganda kosninga um að þeim einum sé treystandi fyrir fjármálastjórn ríkis og þjóðar. Hvað skyldu þeir láta sér detta í hug fyrir næstu kosningar? Græðum á daginn og grillum á kvöldin!? Sick

Sjálfstæðisflokkurinn er augljóslega með buxurnar niðrum sig í mörgum stórum málum. Ef framsýnir stjórnmálamenn hefðu verið við völd sl. 10-15 ár væri Ísland fyrir löngu orðið hluti af ES. Þjóðarskútan væri ekki í ólgusjó og skuldir landsmanna á hraðferð til andskotans. Hér væru ráðherrar og alþingismenn farnir að sýna gott fordæmi og aka um á vistvænum ökutækjum vegna þess að það er æskilegt af umhverfislegum og þjóðhagslegum ástæðum. Hér væri þjóðfélag með hátt menntunarstig, byggt á þekkingariðnaði og nýsköpun. Byggðalög væru tæpast í rúst vegna ósanngjarnrar fiskveiðistefnu. Vestfirðingar væru væntanlega með hugann við annað en olíuhreinsistöð og vegabætur. Íslenskir skattgreiðendur væru örugglega ekki að greiða niður stóriðju.

 

 


mbl.is Sveiflur á gengi krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíð Vestfjarða?

Þegar ég horfði á þessa hörmung, piparkarlinn, fantatökin og sauðdrukkið fólkið allt um kring velti ég því fyrir mér hvort að þetta fólk yrði starfandi í olíuhreinsistöð eftir nokkur ár. Vonandi eiga þau betra skilið.

Annars mæli ég með því að fólk kynni sér betur hugmyndir þeirra sem ætla að selja rússum aðgang að náttúru Vestfjarða og byggja þar olíuhreinsistöð í einum fallegasta firði á Íslandi, sjá hér. Einnig mæli ég með viðtali við framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem ætlar að gera Ísland að olíuframleiðsluríki, sjá hér og í tónlistarspilara á sömu síðu, merkt J - Morgunvaktin á RÚV.


mbl.is Handtaka á Patró á You Tube
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenn ánægja þeirra sem flytja?

Ég var að horfa á seinni fréttir á RÚV frá því í gær, þriðjudagskvöld.
Þar var frétt um fyrirhugaða olíuhreinsistöð í Arnarfirði.

Athygli mína vakti fyrirsögnin - "Almenn ánægja með olíuhreinsunarstöð".
Í fréttinni kom fram að þeir sem eru á móti hugmyndinni tjá sig síður en hinir.
Einn fylgismaðurinn sagði að þeir sem væru á móti gætu bara flutt í burtu.

Ég spyr nú bara, er farið að leggja andstæðinga fyrirhugaðrar olíuhreinsistöðvar í einelti?
Hvernig getur staðið á því ef þeir vilja ekki tjá skoðun sína á málinu?
Er það rétt ályktað að segja að almenn ánægja ríki ef hópur fólks þorir einhverra hluta vegna ekki að opna munninn til að tjá andstöðu sína?


Hvað verður nú um Skipulagsstofnun?

Í lok ársins 2001 felldi Skipulagsstofnun þann úrskurð um fyrirhugaða virkjun við Kárahnjúka að framkvæmdin hefði veruleg neikvæð og óafturkræf umhverfisáhrif í för með sér og lagðist alfarið gegn henni. Í kjölfar þess sneri þáverandi umhverfisráðherra, Framsóknarhnátan Siv Friðleifsdóttir úrskurðinum við og gaf leyfi fyrir framkvæmdinni. Með því embættisverki gerði hún tilgang stofnunarinnar lítils verðan.

Ekki leið á löngu þar til lögum var breytt á þann veg að Skipulagsstofnun hefði ekki úrskurðarvald heldur einungis álitsgefandi hlutverk. Með því móti átti líklega að spara ráðherrum ríkisstjórnarinnar það ómak að þurfa að snúa við fleiri úrskurðum sem væru Framsóknarmönnum og öðrum innvígðum hagsmunaaðilum lítt að skapi.

Nú er komið að næsta kafla í sögunni um Skipulagsstofnun, skildur hennar og hlutverk. Sem betur fer eru Framsóknarmenn ekki áhrifamiklir um þessar mundir í umhverfisráðuneytinu. Það verður engu að síður erfiður róður að standa á móti þeim þunga áróðri sem rekinn er gegn stofnuninni, m.a. af Samorku, sambandi orku- og veitufyrirtækja sem eru með hvorki meira né minna en 5 framkvæmdastjóra á himinháum launum við það að ráðast gegn Skipulagsstofnun, íslenskri náttúru og umhverfisverndarfólki.


mbl.is Segist ekki hafa hafnað Bitruvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LABBAKÚTAR?

Það er ekki við því að búast að svona óvitar verði kærðir eða látnir gjalda fyrir þessa óskemmtilegu "auglýsingaherferð" sína. Hins vegar verður að upplýsa hverjir standa á bak við veggspjöldin en það mætti t.d. kanna hvar þau voru prentuð.

Ekki kæmi mér á óvart að Labbakútafélag ungra frjálslyndra eigi hér hlut að máli eða meðlimir í þeim karllægu þjóðrembusamtökum. Ég hvet alla til að skoða bloggsíðu formanns LUF og vera á varðbergi gagnvart svoleiðis kónum.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni hjá kjósendum "Frjálslynda" flokksins hvert varaformaðurinn, Magnús Þór Hafsteinsson stefnir flokknum. Af hverju skyldu þingmenn flokksins ekki vera búnir að lýsa vanþóknun sinni á uppákomum síðustu daga?


mbl.is Götur miðborgar þaktar áróðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HÚN Á HRÓS SKILIÐ!

Lára Hanna á mikið hrós skilið fyrir sitt óeigingjarna framlag. Það er meiri töggur í henni en flestum starfandi stjórnmálamönnum sem stunda tilgangslaust hnútukast á fullum launum. Ég hvet alla til að taka áskorun hennar og senda inn athugasemd vegna umræddrar breytingar á Aðalskipulagi Ölfuss.  Athugasemdir verða að vera skriflegar og undirritaðar og sendast eigi síðar en á þriðjudaginn 13. maí. Samhjóða athugasemd þyrfti einnig að berast í tölvupósti til <sigurdur@olfus.is>

Sveitarfélagið Ölfus
Hafnarbergi 1
815 Þorlákshöfn

Mín athugasemd er hér fyrir neðan og má hver sem er nýta hana og gera að sinni:

 

Athugasemd við fyrirhugaða breytingu á Aðalskipulagi Ölfuss 2002-2014.

Ég undirritaður hafna fyrirhugaðri breytingu á Aðalskipulaginu þar sem einstöku útivistarsvæði á náttúruminjaskrá við Bitru/Ölkelduháls yrði breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun.
 
Ég tel að þessi áform opni fyrir framkvæmdir sem muni verulega draga úr gildi mun stærra svæðis til útivistar og náttúruskoðunar. Ljóst er að alls kyns mannvirki og aðskotahlutir verða sýnilegir í landslaginu auk þess sem að mikil hávaðamengun og útblástur brennisteinsvetnis truflar verulega upplifun þeirra sem um svæðið fara í þeim tilgangi að njóta friðsemdar úti í náttúrunni. Með stórauknum íbúafjölda á höfuðborgarsvæinu hlýtur það að teljast vafasamt að fórna svæði sem þessu undir iðnaðarsvæði og þar með að minnka aðgengi að óspilltri náttúru í nágrenni Reykjavíkur.
 
Þar sem að um er að ræða land í eigu ríkisins tel ég að sveitarfélagið Ölfus hafi ekki siðferðislegan rétt til að ráðstafa því á þennan hátt. Samningur sá sem Ölfus gerði við Orkuveitu Reykjavíkur þann 28. apríl 2006 gefur ástæðu til að óttast að ekki eigi að virða skoðanir og athugasemdir almennings eins og lög kveða á um og er þessum framgangsmáta hér með einnig mótmælt.



mbl.is Berst gegn Bitruvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband