27.3.2009 | 10:08
Nú verður ekki aftur snúið
Niðurstöður þessarar könnunar eru á margan hátt mjög ánægjulegar fyrir fólk sem vill sjá grundvallarbreytingar í íslensku samfélagi.
- Borgarahreyfingin stóreykur fylgi sitt aðra vikuna í röð.
- Sjálfstæðisflokkur er á niðurleið og mun enda í sögulegu lágmarki.
- Framsókn virðist ekki ætla að ná flugi þrátt fyrir allan kattarþvottinn.
Svarhlutfall var ekki mikið, einungis 63,2%. Því má gera ráð fyrir að margt geti breyst þessar 4 vikur fram að kosningum. Athygli vekur hversu margir segjast ætla að skila auðu en því miður skapa auð atkvæði engar breytingar. Eins og okkar gallaða kerfi virkar þýðir autt atkvæði einungis að fólk lætur hina um að ákveða.
Borgarahreyfingin er rétt að komast í gang á landsbyggðinni þar sem um helmingur atkvæðanna liggur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að fólk eins og Gunnar Sigurðsson muni ná eyrum fólks í NV-kjördæmi þar sem stórir landshlutar hafa algjörlega verið forsmáðir af stjórnvöldum.
Fyrir þessar kosningar verður þjóðin að hugsa sinn gang. Vill hún að stjórnmál snúist um fólk eða flokka? Vill hún að valdaklíkur fái áfram að setja leikreglurnar, ráða hér öllu og halda fólki í viðjum verðtryggingar og kvótakerfis með manndrápsskuldir og eyðilagt mannorð í ofanálag? Hefur þjóðin trú á að þeir sem hér stjórnuðu sjái hag í að rannsókn á bankahruninu verði gagnsæ og algjörlega yfir allan vafa hafin? Vill þjóðin sjá "Nýju Íslandi" stjórnað með fyrirgreiðslupólitík og sérhagmunagæslu?
Ég segi Nei! - kjósum Borgarahreyfinguna - Þjóðin á þing!
![]() |
VG upp fyrir Sjálfstæðisflokk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.3.2009 | 01:31
Þjóðin á þing!
Hörður Torfason og Raddir fólksins fóru af stað strax í október með fundi og kröfur sem loksins var öllum fullnægt tæpum 5 mánuðum síðar. Það hlýtur að teljast góður árangur út af fyrir sig en því miður var listinn mun lengri en upphaflega var lagt upp með.
- Enn hefur enginn verið dreginn til ábyrðar fyrir að setja þjóðina á hausinn.
- Sú rannsókn á hruninu sem þjóðin getur sætt sig við er enn ekki hafin.
- Flokkakerfið sem ól af sér spillingu er enn í fullu fjöri og þeirra eigin leikreglur við lýði.
- Kvótakerfið sem að lokum leiddi til efnahagshamfaranna er enn á sínum stað.
- Almenningur er að taka á sig ómældar byrðar vegna fífldirfsku ómerkilegra braskara.
- Neyðarráðstafanir til bjargar heimilunum í landinu eru enn í mýflugumynd.
- Verðtryggingu og ónýtum gjaldmiðli hefur enn ekki verið rutt úr vegi.
- Alþingi er enn í herkví flokkakerfisins og þjóðin ekki komin á þing.
- Nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá hefur enn ekki litið dagsins ljós.
![]() |
Hlé á fundum Radda fólksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.3.2009 | 08:16
Endurnýjunin, hvar verður hún?
Það er fullyrt að talsverð endurnýjun verði á Alþingi á næsta kjörtímabili. Úrslit í prófkjörum helgarinnar benda hins vegar til þess að nýliðun verði mjög lítil á framboðslistum fjórflokksins. Sjö efstu menn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sitja t.a.m. allir á þingi.
Í sumum tilfellum felst svokölluð endurnýjun í því að bæjarstjórar eða borgarfulltrúar færi sig um set eða þá að innanbúðarmenn og innvígðir flokksmenn færist skör ofar í goggunarröðinni. Í fæstum tilvikum fá nýliðar að spreyta sig enda ekki fólk sem hlotið hefur blessun flokkseigendanna.
Reyndar má líta svo á að flokksmenn hafi hafnað flokkunum eins skrýtið og það hljómar. Kjörsókn var mjög lítil, rétt um 40%, sem hlýtur að teljast mikið áfall. Þegar flokksbundið fólk mætir ekki á kjörstað er eitthvað mikið að. Skyldi þetta vera vísbending um lítinn áhuga eða að fólk sé í stórum stíl að íhuga aðra valkosti?
![]() |
Endurnýjun á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.3.2009 | 10:37
Umfjöllun fjölmiðla - bréf til Egils Helgasonar
![]() |
Nýir leiðtogar stíga fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.3.2009 | 09:43
Sjálfstæðiskonur
Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík koma varla á óvart. Sitjandi þingmenn eru í öllum efstu sætum. Fyrsti nýliðinn er í 8. sæti! Ennfremur eru konur ekki hátt skrifaðar hjá þeim sem tóku þátt í prófkjörinu, sérstaklega ekki í efstu sætum. Efsta konan í 4. sæti er eiginkona forstjóra Alcoa á Íslandi sem ætti að teljast vanhæf vegna tengsla sinna. Hvernig ætlar hún að gæta hlutleysis í umræðu um álver og stóriðju?
Hvað er þetta annars með Sjálfstæðisflokkinn og konur? Það er eftirminnilegt þegar læknirinn og umhverfisverndarsinninn Katrín Fjeldsted bauð sig fram í prófkjöri og lenti úti í kuldanum í 12. sæti. Hafa karlkyns Sjálfstæðismenn sýnt að þeir séu starfi sínu vaxnir þegar mikið liggur við? Eða eru þeir ef til vill steingerðir kerfiskarlar sem hafa helst það hlutverk að standa vörð um sérhagsmuni flokkeigenda og stöðva framgöngu ýmissa þjóðþrifamála? Ég fæ ekki betur séð en að framvarðasveit flokksins í Reykjavík muni berjast gegn aðildarviðræðum við ESB og vilja halda Íslandi einangruðu í krumlum sérhagmunasamtaka eins og LÍÚ.
Skyldu ábyrgar konur ætla að kjósa þessa sömu karla þann 25. apríl?
![]() |
Prófkjörið kostaði 442 þúsund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.3.2009 | 20:15
Slök kjörsókn er vísbending um slakt fylgi
Það setur að manni hroll við þá tilhugsun að flokksbundnir Sjálfstæðismenn ætli aftur að treysta sama fólkinu til að fara með umboð sitt við stjórn landsins. Þó svo að þrír ráðherrar hafi seint og um síðir ákveðið að draga sig í hlé er endurnýjunin á SV-horninu sama og engin. Starfandi alþingismenn raða sér í öll efstu sætin, meira að segja grínistinn Birgir Ármannsson er á sínum stað. Líklega mun brekkusöngvarinn komast aftur á þing í Suðurkjördæmi og flokkseigendafélagið getur andað rólega.
Eini ljósi punkturinn er hvað kjörsóknin var rosalega dræm en einungis um 37% kaus í prófkjörinu. Vonandi gefur það vísbendingu um slakt fylgi Sjálfstæðisflokksins í sjálfum alþingiskosningunum. Enda er löngu kominn tími á að gefa þessum sérhagsmunasamtökum frí.
Kjósum þjóðina á þing. Kjósum Borgarahreyfinguna XO.
![]() |
Staðan óbreytt hjá D-lista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2009 | 10:51
Munu draumarnir rætast?
Draumalandið mun vonandi hrista nægilega upp á fjölmiðlum og fólki til að setja grænu málin á dagskrá í kosningunum. Oft er talað um að kjósendur kjósi með buddunni og þá gefið í skyn að fyrst og síðast láti fólk loforð um aukið ráðstöfunarfé ráða vali sínu í kjörklefanum. En eins og málin standa í dag er ólíklegt að nokkur stjórnmálamaður muni veifa loforðum um skattalækkanir eða annað í svipuðum dúr.
Það hlýtur að vera hægt að draga einhvern lærdóm af stefnu sl. tveggja áratuga þar sem stóriðja var lausnarorðið. Framleiðsla landsins var ál og aftur ál en annars konar framleiðslu ýtt í burtu og hún í mörgum tilfellum lögð niður. Eggin voru sett í sömu körfuna þrátt fyrir að flestir viti að það sé rangt og allt of áhættusamt. Kvótinn var veðsettur upp í topp og bankakerfið byggt ofan á þeirri skuldasúpu með sívaxandi skuldum, fölsuðum hagtölum, enn meiri skuldum og að lokum fjársvikastarfsemi til að halda vitleysunni áfram.
Það eina sem við eigum skuldlaust í dag er náttúran (þó ekki fiskurinn í sjónum), menning og hæfileikaríkt fólk. Fólkinu fer fækkandi ef ekki verður breytt um gír hjá stjórnvöldum og hætt lausnir eins og "eitt álver í viðbót" og olíuhreinsistöð. Hér er bæði aðstaða og þekking til að byggja upp "grænt hagkerfi" þar sem náttúra og umverfi er sett í öndvegi en ekki litið á það sem nauðsynlegan fórnarkostnað.
Draumalandið má til með að verða að veruleika.
![]() |
Fyrsta sýnishorn úr Draumalandinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.3.2009 | 10:24
Of margar frábærar konur fyrir einn flokk
Það er nokkuð athyglisvert að VG félagar í Reykjavík virðast sjá þörf á talsverðri endurnýjun þrátt fyrir að enginn úr þeirra forystu geti talist ábyrgur fyrir efnahagshruninu. Reyndar er það nú svo að prófkjör eða forval eins og þetta byggist að nokkru leyti á því að vinir og vandamenn frambjóðenda ganga í flokkinn og kjósa viðkomandi. Það eru því töluverðar líkur á því að tengslanet frambjóðenda skipti máli og er það út af fyrir sig góður rökstuðningur fyrir því að hér þurfi að taka upp persónukjör í alþingiskosningum. Hvernig líður annars því máli inni á Alþingi?
Annað sem vekur athygli er að konur skipa flest efstu sætin. Þetta þýðir líklega það að karlar muni ýta konum neðar á listanum vegna fléttufyrirkomulags. Þannig munu Árni Þór Sigurðsson og Ari Matthíasson væntanlega báðir flytjast uppfyrir Lilju Mósesdóttur sem þó hlaut mjög góða kosningu í 2. sæti. Vissulega ósanngjarnt því að það mun ekki auka hlut kvenna inni á Alþingi.
Á meðan að frábærar konur flykkjast á listana á vinstri vængnum hjá VG og Samfó er skortur á þeim hægra megin í gömlu spillingarflokkunum.
![]() |
Lokatölur komnar hjá VG í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2009 | 02:44
Stjórnlagaþing án stjórnmálaflokka
Sjálfstæðismenn virðast ekki sjá neinn tilgang með því að þjóðin fái nýja stjórnarskrá. Þeir hrópa hátt að það sé ekki það sem hún þarfnist og nefna uppblásnar kostnaðartölur til að styðja sinn slæma málstað.
Reyndar er frumvarp ríkisstjórnarinnar hreint ekki gallalaust enda væri það saga til næsta bæjar ef Framsóknarflokkurinn ætlaði sér ekki að fá bita af kökunni. Hér fyrir neðan er hins vegar útfærsla sem "Samtök um lýðræði og almannahag" sendi frá sér og Borgarahreyfingin hefur nú gert að sinni. Kostnaður yrði allavega ekki neitt í líkingu við það sem Birgir Ármannsson heldur fram í fréttinni. Skyldi Birgir vera jafn slakur í reikningi og hann er sem málsvari almennings á Alþingi?
Kjör til stjórnlagaþings og endurskoðun stjórnarskrár
Tilkynning frá Samtökum um lýðræði og almannahag
Samtök um lýðræði og almannahag eru samtök fólks sem er fyrst og fremst lýðræðissinnað og krefst þess að Íslandi verði hér eftir stjórnað með hagsmuni almennings í huga. Samtökin krefjast þess að það fari fram endurskoðun á stjórnarskránni og að sú endurskoðun verði gerð af almenningi og fyrir almenning.
Samtökin eru óháð stjórnmálaflokkum og berjast fyrir almannahag og lýðræðis- samfélagi sem hafnar forræði og forréttindum stjórnmálaflokka samtímans. Samtökin telja augljóst að ríkisstjórnir Íslands til langs tíma og stjórnmálaflokkarnir að baki þeim hafi glatað öllum tengslum við raunverulegt líf fólksins í landinu.
Samtökin telja einnig að allir núverandi stjórnmálaflokkar séu með einum eða öðrum hætti bundnir á klafa sérhagsmuna og/eða hugmyndafræði sem sé andstæð víðtækum almannahagsmunum og að augljóst sé að nánast öll stjórnarandstaða, hverju nafni sem hún nefnist, bíði ætíð og aðeins eftir að komast að nægtaborðinu sjálf.
Samtökin telja endurskoðaða stjórnarskrá brýnasta mál samtímans og eru sannfærð um að aldrei fyrr hafi verið eins mikil þörf á að endurskoða stjórnarskrána og endurreisa lýðræði á Íslandi, ef landið eigi áfram að teljast til vestrænna lýðræðisríkja.
Til að hagsmuna almennings verði gætt við endurskoðun stjórnarskrárinnar telja Samtökin grundvallaratriði að sú vinna fari fram á sérstöku stjórnlagaþingi sem verður án beinnar aðkomu stjórnmálaflokka og verði með eftirfarandi hætti:
- Valið verði á stjórnlagaþing úr röðum almennings samkvæmt hefðbundnu 600 manna úrtaki frá Gallup og einnig verði valdir eins margir til vara og þurfa þykir vegna forfalla, áhugaleysis eða vanhæfis. Stjórnlagaþingseta verði fullt starf.
- Stjórnlagaþingið skal skipulagt og verkinu stýrt af 5 manna sérfræðingahópi með sérþekkingu á stjórnskipunarrétti, mannréttindamálum og lýðræðisumbótum. Æskilegt er að a.m.k. 2 af hópnum séu erlendir sérfræðingar.
- Stjórnlagaþingið skal endurskoða allar greinar stjórnarskrárinnar og hafa til hliðsjónar þá vinnu sem þegar hefur verið unnin í stjórnarskrárnefnd sem og taka við tillögum frá almenningi, jafnt einstaklingum sem hópum. Fyrri vinnu stjórnarskrárnefndar og aðsendum tillögum skal finna stað ef hægt er, en þó ætíð með almannahag, lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi.
- Endurskoðun stjórnarskrárinnar skal lokið á 3 mánuðum, drögin send til umsagnar hjá innlendum og erlendum sérfræðingum og tilheyrandi alþjóðastofnunum og að því loknu lögð fram til víðtækrar kynningar í einn mánuð.
- Að lokinni kynningu verður ný stjórnarskrá borin undir þjóðaratkvæði.
![]() |
Stjórnlagaþing fyrir 1,5 milljarða? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.3.2009 | 16:30
Hvað með 11% þjóðarinnar?
Það er athyglisvert að svo virðist sem fólk sé tilbúið í meira af því sama - sömu flokkana, sama fólkið, sama orðaskakið. Reyndar er nokkuð skrýtið að Íslandshreyfingin sé enn með í mælingum þó svo að hún sé gengin til liðs við Samfylkinguna á meðan að hvorki Borgarahreyfingin né L-listinn fær að vera með.
Svo er einn hópur fólks sem aldrei er spurður í skoðanakönnunum hvað það ætlar að kjósa. Það eru Íslendingar búsettir erlendis, 24.500 manns 18 ára og eldri, ca. 11% kjósenda. Fróðlegt væri að sjá tölur um það hvað landflótta Íslendingar vilja kjósa, varla það sama og hér hefur ráðið ríkjum sl. ár og áratugi.
Því miður eru skoðanakannanir stefnumótandi. Allt sem mælist um eða undir 5% prósentum er talað niður og reynt að afskrifa sem "dauð atkvæði". Með því móti verður líka engin endurnýjun, ekkert nýtt Ísland, ekkert gaman. Hversu mörg prósent kjósenda verða búsett erlendis í þarnæstu kosningum. 15%? 20%??
![]() |
Fylgi Samfylkingar eykst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)