Munu draumarnir rætast?


Draumalandið mun vonandi hrista nægilega upp á fjölmiðlum og fólki til að setja grænu málin á dagskrá í kosningunum. Oft er talað um að kjósendur kjósi með buddunni og þá gefið í skyn að fyrst og síðast láti fólk loforð um aukið ráðstöfunarfé ráða vali sínu í kjörklefanum. En eins og málin standa í dag er ólíklegt að nokkur stjórnmálamaður muni veifa loforðum um skattalækkanir eða annað í svipuðum dúr.

Hvert liggur leið?Það hlýtur að vera hægt að draga einhvern lærdóm af stefnu sl. tveggja áratuga þar sem stóriðja var lausnarorðið. Framleiðsla landsins var ál og aftur ál en annars konar framleiðslu ýtt í burtu og hún í mörgum tilfellum lögð niður. Eggin voru sett í sömu körfuna þrátt fyrir að flestir viti að það sé rangt og allt of áhættusamt. Kvótinn var veðsettur upp í topp og bankakerfið byggt ofan á þeirri skuldasúpu með sívaxandi skuldum, fölsuðum hagtölum, enn meiri skuldum og að lokum fjársvikastarfsemi til að halda vitleysunni áfram.

Það eina sem við eigum skuldlaust í dag er náttúran (þó ekki fiskurinn í sjónum), menning og hæfileikaríkt fólk. Fólkinu fer fækkandi ef ekki verður breytt um gír hjá stjórnvöldum og hætt lausnir eins og "eitt álver í viðbót" og olíuhreinsistöð. Hér er bæði aðstaða og þekking til að byggja upp "grænt hagkerfi" þar sem náttúra og umverfi er sett í öndvegi en ekki litið á það sem nauðsynlegan fórnarkostnað.

Draumalandið má til með að verða að veruleika.


mbl.is Fyrsta sýnishorn úr Draumalandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"...annars konar framleiðslu ýtt í burtu og hún í mörgum tilfellum lögð niður".

Geturðu bent á einhver dæmi þessari fullyrðingu til sönnunar?

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2009 kl. 11:39

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Gunnar, heilu iðngreinarnar hafa nánast því lagst niður vegna þess að þær fengu ekki stuðning stjórnvalda. Hér blés út loftbóluhagkerfi og ómögulegt var að fá fólk til starfa á venjulegum launum. Hátt gengi krónunnar gerði það líka illmögulegt að flytja út innlenda framleiðslu. Hvernig á að vera hægt að keppa við fyrirtæki eins og Alcoa sem fær orku á niðurgreiddu verði (frá virkjun sem byggð var með ríkisábyrgðum) og þarf ekki að borga nema 5% skatt? Í ofanálag er útblástur frá álverinu ekki skattlagður þrátt fyrir að hann sé umtalsverður hluti af CO2 kvóta þjóðarinnar.

Dæmi um fyrirtæki á flótta: Alpan pönnuframleiðsla á Eyrarbakka sem flutti til Rúmeníu.

Hvernig er það á Reyðarfirði, gáfust engin fyrirtæki upp eftir að framkvæmdir hófust við álverið? 

Sigurður Hrellir, 12.3.2009 kl. 12:21

3 identicon

Segjum sem svo að einstein eða galíleó myndu sanna fullyrðingu hans. Þá myndir þú samt segja að jörðin sé víst flöt. Af hveru biður þú um sannanir þegar þú veist að þú ætlar ekki að skipta um skoðun. Það vita það allir að þegar krónan styrktist í upphafi framkvæmda, þegar íbúðarlánum var dembt á bjartsýnisbálið, stýrivextir hækkaðir til að sporna við þenslu og erlendir spákaupmenn keyptu krónur til að hagnast á vöxtunum - þá dóu mörg útflutningsfyrirtæki en innflutningur og fjárfesting tók tímabundið við fólkinu.

Gummi (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 12:28

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég veit ekki til þess að annarskonar framleiðslu hafi verið ýtt til hliðar eða hún lögð niður vegna álversins á Reyðarfirði, þess vegna vildi ég fá dæmi. Fyrirtæki koma og fara, líka hér á Reyðarfirði, bæði fyrir og eftir álver, en EKKI VEGNA álversins. Framkvæmdirnar fyrir austan, virkjun + álver bar ábyrgð á um 15% þenslunnar sem hér var á árunum 2004-2007.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2009 kl. 15:42

5 Smámynd: Villi Asgeirsson

Vonandi hefur þessi mynd einhver áhrif. Annars er ég hræddur um að búið sé að veðsetja landið í topp og stórfyrirtækin eigi tilkall til náttúrunnar og fólksins í landinu.

Villi Asgeirsson, 12.3.2009 kl. 18:48

6 identicon

Megnið af smáverslun lagðist á hliðina á Egs vegna uppsprengdra leigu, bíóið hætti af því að einhver gróðrapungur ætlaði að græða á að leigja salinn út, Malarvinnslan féll á græðginni og KHB einnig og tugir ef ekki hundruðir misstu vinnuna.  Æði margar fjölskyldur fluttust á brott, þeim líkaði ekki þessi ofstæki virkjunarliðsins. Daus þekkir tímann fyrir og eftir og finnur á eigin skinni að samfélagið hérna hefur að mörgu leyti daprast, það er bara þannig. Stemmingin er heldur verri og einsleitari, minni fjölbreytni og sumir talast varla við lengur vegna ofsókna virkjunarfíklanna sem margir hverjir svifust einskins til að sverta þá sem ekki vildu virkja tafarlaust. Og eins og það er furðulegt að þá er þetta virkjunalið enn að hamast á þeim  sem ekki eru þeim sammála, þrátt fyrir að hafa fengið allt sitt og gott betur, hamingja þess ristir grunnt, enda verður margur af aurum api, kveðja úr 701 Egs

Daus (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 14:47

7 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég hef áður heyrt sögur af því hvernig virkjanaframkvæmdir ruddu burt starfsemi sem áður þreifst í Fjarðarbyggð. Gunnar virðist ekki kannast við slíkt enda sér hann augljóslega hlutina með sínum eigin augum þannig að jaðrar við ranghugmyndir.

Sigurður Hrellir, 14.3.2009 kl. 10:50

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er ekki einn hér í Fjarðabyggð, Sigurður, þú hlýtur að geta spurt annað fólk sem býr hérna. Komdu svo með dæmi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.3.2009 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband