Endurnýjunin, hvar verður hún?

XOÞað er fullyrt að talsverð endurnýjun verði á Alþingi á næsta kjörtímabili. Úrslit í prófkjörum helgarinnar benda hins vegar til þess að nýliðun verði mjög lítil á framboðslistum fjórflokksins. Sjö efstu menn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sitja t.a.m. allir á þingi.

Í sumum tilfellum felst svokölluð endurnýjun í því að bæjarstjórar eða borgarfulltrúar færi sig um set eða þá að innanbúðarmenn og innvígðir flokksmenn færist skör ofar í goggunarröðinni. Í fæstum tilvikum fá nýliðar að spreyta sig enda ekki fólk sem hlotið hefur blessun flokkseigendanna.

Reyndar má líta svo á að flokksmenn hafi hafnað flokkunum eins skrýtið og það hljómar. Kjörsókn var mjög lítil, rétt um 40%, sem hlýtur að teljast mikið áfall. Þegar flokksbundið fólk mætir ekki á kjörstað er eitthvað mikið að. Skyldi þetta vera vísbending um lítinn áhuga eða að fólk sé í stórum stíl að íhuga aðra valkosti?


mbl.is Endurnýjun á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þeir eru uppteknastir við að benda á meinta endurnýjun sem fyrir liggja á fleti og hafa ekki fært sig spönn.

Og samkvæmt venju, þá tyggja fjölmiðlar það upp gagnrýnislaust.

Auðvitað er ekki um neina endurnýjun að ráði að ræða. Ég kalla það t.d. ekki endurnýjun þegar að fólk færir sig á milli kjördæma eða þegar að fólk úr innsta hring flokkstofnunar býður sig fram til þings, hafandi verið með puttana í frumvarpagerð og heimavinnu fyrir sitjandi þingmenn um langa hríð.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 09:38

2 Smámynd: Þór Jóhannesson

vg

Sæll Sigurður, þessi ósannindi ykkar um enga endurnýjun er farin að vera fremur kjánaleg og því ætla ég að senda þér þessa færslu mína í heild sinni: 

Mér finnst það gildisfella alla umræðu nýrra framboða þegar þeir skilgreina VG með hinum flokkunum þremur, Sjálfstæðisflokk, Framsókn og Samfylkingu. VG kom hvergi nærri hruninu og er algjörlega laus við alla spillingu. Eina haldbæra skýringin á þessum árásum ný-framboðanna á VG er sú að þeir vilja slá ryki í augu almennings og búa til grýlu úr heiðarlegum og lýðræðislegum stjórnmálaflokki - sem VG er.

Einnig heyrist í þessum framboðum (O-lista og L-lista) að ekki sé neitt um nýliðun hjá VG sem er algjörlega út í hött og augljóst að þar eru þessi framboð að snúa meðvitað út úr sannleikanum. Lítum á þá sem líklega eru á leið á þing fyrir VG:

Reykjavíkurkjördæmin (bæði):

Katrín Jakobsdóttir - kom fyrst á þing fyrir 2 árum og því nýleg
Svandís Svavarsdóttir - nýliði
Lilja Mósesdóttir - nýliði
Árni Þór Sigurðsson - kom fyrst á þing fyrir 2 árum og því nýlegur
Álfheiður Ingadóttir
Kolbrún Halldórsdóttir

Suðvesturkjördæmi:

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir - nýliði
Ögmundur Jónasson

Norðvesturkjördæmi:

Jón Bjarnarson
Lilja Rafney Magnúsdóttir - nýliði

Norðausturkjördæmi:

Steingrímur J. Sigfússon
Þuríður Backman
Björn Valur Gíslason - nýliði

Suðurkjördæmi:

Atli Gíslason - kom fyrst á þing fyrir 2 árum og því nýlegur
Arndís Soffía Sigurðardóttir - nýliði

Hér sjáum við að meira en helmingur - 9 af 15 - væntanlegra þingmanna VG eru nýliðar eða nýleg á þingi. Ekki bjóst fólk við því að það ætti að sópa öllum út? Líka þeim sem hafa unnið sér það eitt til saka að hafa verið kjörin á þing áður - en hafa samt ekkert til saka unnið og alls ótengdir spillingunni?

Það ætti líka að gleðja jafnréttissinna að 5 af 6 nýliðum VG eru konur og að af væntanlegum 15 manna þingflokki VG skuli 9 vera konur.

Þannig að þessi ranga ályktun sem margir draga um að ekki sé neitt um nýliðun hjá öllum flokkum er beinlínis röng. VG er að vinna fyrir fólkið í landinu, alla leið, og fyrir jafnréttið sem aldrei fyrr - en Borgarahreyfingin (O-listi) er því miður eingöngu að sækja fylgi til vinstri og þá fyrst og fremst til VG (sjá færslu frá Gísla Freyr Valdórssyni þar sem hann fangar Borgarahreyfingunni á þessum forsendum: http://gislifreyr.blog.is/blog/gislifreyr/entry/820148/). Einnig sækir L-listi stærstan hluta síns fylgis til vinstri, sér í lagi VG sinnaðra sem eru andsnúnir ESB og mega ekki heyra á bandalagið minnst.

Því miður þá er þetta svona og sárt að sjá byltingarbræður og -systur setja saman andvana fæddan flokk sem tryggir á endanum höfuð óvininum betri útkomu en ella í komandi þingkosningunum.

En hvað sem öðru líður - ekki bera VG saman við hina flokkana! Það er einfaldlega ekki viðeigandi. Og þessi fjórflokka upphrópun er farin að minna á hræðsluáróðurinn frá BNA á tímum. VG er vissulega einn af fjórum flokkum sem hafa náð að festa rætur á Íslandi en VG á akkúrat ekkert annað skylt með hinum þremur flokkunum.

VG er flokkur byltingarinnar og berst ötullega gegn auðvaldsklíkuskap og spillingu. Látið ekki glepjast af upphrópunum frá lýðsskrumurum í L-lista og O-lista og kjósið VG ef þið viljið kjósa gegn spillingunni og áframhaldandi siðleysi í íslenskri pólitík.

Þór Jóhannesson, 17.3.2009 kl. 12:35

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þór, ég kann vel að meta baráttuþrek þitt. Ég var aðallega að leggja út frá prófkjörsúrslitum helgarinnar. Sjálfur set ég ekki alla flokka undir sama hatt og geri skýran greinarmun á því að VG var ekki við stjórnvölinn í gróðærinu. VG er vissulega til sóma hvað varðar konur á framboðslistum þó svo að ég myndi vilja sjá konu þar sem formann líka.

Hins vegar ætla ég að segja þér hreinskilningslega að mér finnst það lélegt hjá sumum ykkar sem mótmæltu á Austurvelli að láta sig hverfa strax og VG komst loksins til valda í einni sæng með Samfylkingunni. Þú segir að VG sé flokkur byltingarinnar og leyfir þér að tala um lýðsskrumara í okkar röðum. Haltu þeirri skoðun fyrir sjálfan þig ef þú ætlar að halda uppi eðlilegum skoðanaskiptum á minni síðu. Hvað kallast það annars að slá eign sinni á atkvæði kjósenda eins og þú virðist gera fyrir hönd VG?

Sigurður Hrellir, 17.3.2009 kl. 13:24

4 Smámynd: Þór Jóhannesson

Þú veist að þetta eru útúrsnúningar og orðhengilsháttur hjá ykkur með þennan eignaslátt á atkvæðum - hljómar voða lýðræðislegt en þegar raunveruleikinn er skoðaður blákalt að þá myndi stór hluti kjósenda ykkar hafa kosið VG ef þið hefðuð ekki stigið fram með þetta ótímabæra afl. Allt væri þetta gott og vel og ég vil vissulega að mörg ykkar sem þarna eruð komist á þing (en alls ekki allir og því kalla ég þetta lýðsskrum því þarna hafa plantað sér lýðsskrumarar á meðal ykkar - þó ég sé vissulega fyrst og fremst að tala um lýðsskrum í L-listanum), en því miður er nánast útilokað að þið náið inn manni og því munu atkvæðin sem annars hefður verið greitt VG falla dauð.

Nú eru víst komin 3 smáframboð og segjum að þið fáið 4% L-listi 4% og Ástþór sín klassísku 2% að þá erum við komin hér með 10% greiddra atkvæða sem falla dauð og reiknast ekki með í þingsæti. Þetta er auðvitað fáránlegt og andlýðræðislegt með öllu - en samt sem áður staðreynd engu að síður.

Þessi útkoma þýddi að 30% Sjálfstæðisflokkur í heild myndi fara í ca. 34% og 15% Framsóknarflokkur í um 17% sem þýddi að auðvalds- og spillingarflokkarnir fengju saman 51% gildra atkvæða og hreinan meirihluta.

... í hjarta mínu óttast ég þetta mest af öllu og því finnst mér að allir sannir byltingarmenn ættu að flykkjast á bak við VG.

Annars frábið ég mér hvernig þú talar niður til afstöðu minnar um að "hverfa strax" eins og þú orðar það. Ertu með þessu að segja að þú sért sannur byltingarmaður en ég og 98% mótmælenda séum svikarar við málstaðinn? Heldurðu að slíkt verði ykkur til framdráttar?

Annars vona ég að ykkur gangi vel!

Þór Jóhannesson, 17.3.2009 kl. 14:00

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég kaus einu sinni VG en á meðan þið viljið ekki raunverulega umræðu um aðild að ESB, þ.e. aðildarviðræður, umræður og þjóðaratkvæðagreiðslu mun ég örugglega ekki kjósa flokkinn. Þú hlýtur að geta skilið að VG passar ekki fyrir alla sem tóku þátt í Búsáhaldabyltingunni. Reyndar er byltingin að mínu mati bara hálfnuð og þess vegna finnst mér skítt að sumir hafi gefist upp eða fundið sér þægilegan bás innan gömlu flokkana. Ég gef mig ekki út fyrir að vera "sannur byltingarmaður" en bendi á lélega þátttöku í mótmælum undanfarnar helgar. Þau taka það til sín sem vilja.

Sigurður Hrellir, 17.3.2009 kl. 19:30

6 Smámynd: Þór Jóhannesson

Léleg þátttaka í mótmælum undanfarnar helgar endurspeglar e.t.v. að þjóðin sé frekar sátt við aðgerðir ríkisstjórnarinnar - hefur þér ekki dottið það í hug?

Annars ættirðu ekki að vera smeikur við að VG vilji ekki raunverulega umræðu um ESB enda hafa menn tjáð sig opinberlega um það að eðlilegt sé að setja þau mál í hendur þjóðarinnar. Það eru auðvitað einn og einn þverskallandi íhaldsmaður snarbrjálaður yfir þessari lýðræðislegu aðferð en þá má búast við að þeir hinir sömu flykki sér á bak við Bjarna Harðar í einsmáls - lýðsskrumsframboðinu - sem afneitar bókstaflega tilvist ESB, en ekki til ykkar (því miður).

Þór Jóhannesson, 17.3.2009 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband