Umfjöllun fjölmiðla - bréf til Egils Helgasonar

Sæll Egill

Í gær fékkst þú þrjá kollega þína í Silfrið að tjá sig um prófkjör og stjórnmálaflokka. Í lok þess hluta þáttarins sagðir þú:

"Þið eruð bara ferlega góð og skemmtileg".

Ekki get ég tekið undir þau orð. Mér fannst þið standa ykkur afar illa í að kryfja málin til mergjar - prófkjörin og þátttökuleysið í þeim - litla endurnýjun og ástæður þess. Reyndar kom það mér ekkert á óvart því mér finnst eins og að margir fjölmiðlamenn spili í liði með fjórflokknum og reyni markvisst að líta framhjá þeim mikla lýðræðishalla sem á sér stað sökum óréttlátra kosningalaga og opinbers fjárstuðnings.

Í prófkjörunum var þátttakan mjög slök, í kring um 40% sem hlýtur að teljast mjög lítið þegar um flokksbundið fólk er að ræða. Sjálfur kaus ég í prófkjörum þriggja flokka af fjórflokknum og ef margir hafa farið þá leið er þátttakan í raun enn minni en tölur sýna. Þetta er út af fyrir sig ágætur rökstuðningur fyrir því að persónukjör eigi fullan rétt á sér. Hvaða réttlæti er í því að 7.800 manns sem kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, sumir ekki einu sinni Sjálfstæðismenn, raði upp lista sem verður líklega mjög áberandi á Alþingi á næsta kjörtímabili. Þetta eru ekki nema 3.6% þeirra sem eru á kjörskrá í alþingiskosningunum! Það gefur augaleið að flokksmaskínan getur haft töluverð áhrif í krafti fjármagns og upplýsinga um skráða flokksfélaga. Þarf það að koma á óvart hversu lítil endurnýjunin varð?

Talandi um ný framboð sagðir þú: "Er t.d. alveg vonlaust að það komi fram ný framboð fyrir þessar kosningar?" og Páll Ásgeir svaraði: "Það virðist vera. Þau nýju framboð sem var spáð að myndu spretta upp í kjölfar útbreiddrar óánægju með fjórflokkinn, þau hafa ekki sést ennþá."

Í seinni hluta þáttarins var svo rætt við fulltrúa fjórflokksins og hófst sú umræða á orðunum: "Hér er komið fólkið sem á að erfa landið...". Ekkert bólaði á fulltrúum nýrra framboða sem þó hljóta að eiga að njóta jafnrræðis í umfjöllun sem þessari.

Hvort er það svo að þið vitið ekki um þau tvö framboð sem hafa formlega tilkynnt sig til leiks eða séuð viljandi að láta eins og þau séu ekki til? Þegar Íslandshreyfingin bauð fram 2007 gerðu fjölmiðlar sér leik að því að tala framboðið niður og ósjaldan var minnt á það að atkvæði greidd þeim gætu fallið niður dauð. Á semsagt að leika sama leikinn aftur með Borgarahreyfinguna og önnur ný framboð? Borgarahreyfingin hélt stóran kynningarfund í Iðnó sl. þriðjudagskvöld en þangað mættu engir fulltrúar fjölmiðla og þ.a.l. var ekkert fjallað um þennan ágæta fund neins staðar. Hvernig eiga ný framboð sem fá ekki eina einustu krónu úr ríkissjóði til að heyja kosningabaráttu sína að koma sér á framfæri ef fjölmiðlar láta eins og þau séu ekki til? Væri ekki sanngjarnara að hjálpa þeim aðeins í ljósi þess mikla óréttlætis sem austur á opinberu fé til handa fjórflokknum hefur í för með sér?

Annað óréttlæti felst í því að enn er ekki ljóst hvort að flokkar megi leggja fram óraðaða lista í kosningunum. Borgarahreyfingin vill láta kjósendur sína raða frambjóðendum í kjörklefanum og hefur ekki í hyggju að fara í prófkjör eða uppstillingu. Hvernig á að bregðast við ef ekki verður leyfilegt að leggja fram óraðaða lista? Örlög þess máls er alfarið undir fjórflokknum komið.

Einn stjórnmálaspekingurinn (Gunnar Helgi) lét svo hafa eftir sér í fréttum á RÚV í vikunni að lítill sem enginn áhugi væri á nýjum framboðum vegna slaks gengis í skoðanakönnun. Er manninum alvara? Framboðin voru að melda sig til leiks á sama tíma og könnunin var gerð og flestir höfðu enn ekki hugmynd um tilvist þeirra eða hverjir eru þar í forsvari. Hvernig í ósköpunum er hægt að draga svona ályktun af skoðanakönnun á þessu stigi málsins? Væri ekki nær að beina athyglinni að því hversu margir taka enn ekki afstöðu?

Án þess að ásaka fjölmiðla og stjórnmálafræðinga beinlínis um hlutdrægni vil ég beina þeim tilmælum til ykkar að gæta hlutleysis í umfjöllunum og spila ekki alltaf með á forsendum þeirra sterku sem eru í ráðandi stöðu sökum fjármagns og tengsla.

Með góðri kveðju,

mbl.is Nýir leiðtogar stíga fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi þáttur Egils var ákaflega dapur, hugsanlega hefur hann verið að grínast með blessað fólkið í þessum orðum sínum

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 11:32

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Stjórnmálaflokkar treysta á heiðarleika þátttakenda. Það er heiðarleg nálgun að taka aðeins þátt í prófkjöri þess flokks sem maður ætlar að styðja. Annað er misnotkun á lýðræðinu.

( "Sjálfur kaus ég í prófkjörum þriggja flokka af fjórflokknum og ef margir hafa farið þá leið er þátttakan í raun enn minni en tölur sýna. " )

Jón Ingi Cæsarsson, 16.3.2009 kl. 12:24

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég vil bæta við færslu mína að ég tel Egil Helgason vera meðal okkar bestu fjölmiðlamanna og gagnrýni mín beinist mest að fjölmiðlum almennt.

Jón Ingi, ég er þér algjörlega ósammála og tel mig síður en svo vera að misnota lýðræðið. Ég er með þessu að benda á það hrikalega óréttlæti sem núverandi kerfi hefur í för með sér. Af hverju treystir Sjálfstæðisflokkurinn ekki almennum kjósendum sínum til að raða upp á listana? Það er móðgun við lýðræðið í landinu að 7.800 manns skuli tryggja ákveðinni flokksklíku "örugg þingsæti" sama hvað kjósendum finnst.

Sigurður Hrellir, 16.3.2009 kl. 14:27

4 Smámynd: Morten Lange

Góðar og þarfar ábendingar, Sigurður !

Morten Lange, 17.3.2009 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband