Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Grein eftir Júlíus Sólnes

Ég ætla að leyfa mér að birta hér stutta grein eftir Júlíus Sólnes fyrrverandi umhverfisráðherra og prófessor sem skrifaði frá Bandaríkjunum í lok síðasta árs um flokkakerfið sem brugðist hefur þjóðinni. Nú hlýtur fólk að gera þá ófrávíkjanlegu kröfu að bókhald stjórnmálaflokka verði öllum opið til að gagnsæi sé í því hverjir styrkja flokka og fólk á þingi. Þannig er hægt að fyrirbyggja spillingu og fá skýringar á fyrirgreiðslum og vafasömum ákvörðunum. Flokkakerfið hefur því miður orðið að þjóðfélagsmeini. Því viljum við í Borgarahreyfingunni breyta, m.a. með því að höggva skörð í þá varnargarða sem flokkarnir hafa reist utan um sína starfsemi.

 

Borgarahreyfingin X-O er breiðfylking almennings!

 

Hér í Bandaríkjunum er góð stemning og almenningur vongóður um betri tíma. Hinn ungi forseti hefur kallað hæft og dugmikið fólk til valda og sagt skilið við klíkuskap og flokksdindla. Á Íslandi er sagan önnur. Þar ráða fulltrúar úrelts kerfis flokkræðis, einkavinavæðingar og hagsmunagæslu fyrir flokksgæðinga, sem sett hefur þjóðina á hausinn og gert orðið Íslendingur að skammaryrði um hinn vestræna heim. Rúnir trausti vilja þeir engu að síður fá að halda áfram að skipa hæfileikasnauða vini og vandamenn í æðstu embætti og ulla á umsækjendur með meiri reynslu og menntun að baki. Þeir vilja fá að ráðstafa peningum okkar og auðlindum til þeirra sem eru handgengnir flokknum, án tilltits til hagsmuna almennings. Þannig verður þetta áfram, ef almenningur rís ekki upp. Flokkarnir bíða aðeins eftir því að mótmæli hans fjari út, svo að þeir geti teki upp fyrri siði.

Júlíus SólnesÞað má ekki gerast. Nú er tækifæri til að ganga að flokksræðiskerfinu dauðu. Ég sat einn borgarafund í jólafríinu. Þar var boðið upp á fyrirlestra færustu sérfræðinga um bankahrunið og augljós dýrkeypt mistök æðstu ráðamanna. Ég dáist af dugnaði þeirra sem hafa staðið fyrir mótmælum almennings og séð til þess að halda uppi umræðu um það sem fór úrskeiðis. Við eigum þeim Herði Torfasyni og Gunnari  Sigurðssyni, ásamt mörgum fleirum, mikið að þakka. Þeir hafa unnið þrekvirki með mótmælafundum sínum og gefið okkur von um, að ef til vill sé eitthvað hægt að gera.

Breiðfylking almennings verður að bjóða fram í komandi kosningum og ná hreinum meirihluta. Að öðrum kosti munu gömlu flokkarnir hugsa sér gott til glóðarinnar. Litlu flokkarnir munu hlaupa í sæng með íhaldinu eða Samfylkingunni, ef tækifæri gefst og halda ótrauðir áfram með gamla kerfið. Eða halda menn til dæmis, að Framsóknarflokkurinn hafi eitthvað breytst, þótt hann hafi kosið nýja forystu. Flokkurinn sem ,,gaf“ Búnaðarbankann og muldi undir flokksgæðinga sína, þannig að fyrrverandi ríkisstarfsmenn á miðlungslaunum urðu allt í einu milljarðamæringar. Og hinir flokkarnir eru engu betri.

Til þess að breiðfylkingin komist til valda, þarf hún að tilkynna fyrir kosningar hverjir munu mynda ríkisstjórn hennar. Hún á að undirstrika aðgreiningu framkvæmda- og löggjafarvalds með því að tilnefna hæfustu menn í öll ráðherraembætti og hafa þá ekki á framboðslistum til alþingis. Gömlu flokkarnir tala venjulega niður til almennings og halda því fram, að aðeins innan þeirra raða sé hæft fólk til þess að verða ráðherrar. Svo er nú aldeilis ekki, eins og undanfarnir atburðir hafa sannað. Í kjölfar bankahrunsins hefur komið fram á sjónarsviðið fullt af duglegu og hæfu fólki utan flokkakerfisins, sem betur væri treystandi fyrir æðstu stjórn landsins. Hvernig væri til dæmis að leita til Þórólfs Árnasonar, fyrrum borgarstjóra, og fá hann sem forsætisráðherraefni. Hann er að minnsta kosti einn fárra háttsettra embættismanna sem hefur axlað ábyrgð og orðið að segja af sér, enda maður af meiri. Hvað með Stefán Ólafsson, prófessor sem félagsmálaráðherra og Gylfa Magnússon, dósent, efnahags- og viðskiptamálaráðherra? Það þyrfti að finna mjög kláran mann til að verða atvinnumálaráðherra í sameinuðu ráðuneyti iðnaðar, landbúnaðar og sjávarútvegs. Ekki veitti nú af að finna góðan mann í fjármálaráðuneytið til að sjá fram úr því hvernig við eigum að borga til baka þá þúsundir milljarða, sem ríkisstjórn afglapa og útrásargæðingarnir hafa skellt á bak okkar. Þá ætti einnig að stilla upp nýjum seðlabankastjóra, til dæmis Þorvaldi Gylfasyni prófessor, og heita því að sameina Seðlabanka og fjármálaeftirlit. Að sjálfsögðu þarf svo að finna hæft og gott fólk til að manna framboðslistana. Slík breiðfylking ætti ekki að stefna að því að verða varanleg. Þegar hún hefur lokið hreingerningu sinni og komið gömlu flokkunum út í hafsauga, ætti hún að draga sig í hlé og fela nýjum hreyfingum fólkins að standa vörð um lýðræðið til frambúðar.

Breiðfylking almennings hefur allt að vinna og engu að tapa. Ef hún vinnur kosningarnar, getur hún hafið nauðsynlegar umbætur á íslensku þjóðfélagi. Boðað til stjórnlagaþings, breytt stjórnarskrá, undirbúið tillögur um fækkun alþingismanna í 30 til 40, að landið verði eitt kjördæmi, nýja kosningalöggjöf til að koma í veg fyrir flokkræðisvald, og að forsætisráðherra verði kjörinn beinni kosningu. Þá ætti að innkalla allan fiskveiðkvótann og búa til nýtt úthlutunarkerfi þar sem meira tillit er tekið til smábátaveiða, er henta hinum dreifðari byggðum betur en skuldsett stórtogaraútgerð. Ég minni á gamla hugmynd um 50 mílna togveiðilandhelgi, innan hennar enginn togari aðeins smábátar. Verði þetta að veruleika rís nýtt Ísland upp út öskustónni. Ef ekki tekst að ná meirihluta á alþingi, mun allt sitja við það sama. Gömlu flokkarnir hrósa happi og halda uppteknum hætti, skipta með sér gæðum landsins og raða vanhæfum flokksþjónum í bitlingastöður.

Júlíus Sólnes
mbl.is Það þarf að upplýsa alla atburðarásina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt upp á borðið

Ég ætla rétt að vona að kjósendur láti ekki leiða sig eins og lömb til slátrunar þann 25. apríl. Loksins grillir í það sem margir hafa talið sig vita um en fáir getað sýnt og sannað.

Geysir Kjósendur verða að krefjast þess að fá undanbragðalaust að sjá hverjir það eru sem hafa lagt stórar fjárupphæðir inn á reikninga flokkanna sem þeir studdu og einnig einstakra frambjóðenda. Það er einfaldlega of mikið í húfi nú þegar heil þjóð er með gjaldþrot vofandi yfir sér. Starfa flokkarnir fyrir fólkið sem kýs þá eða sérhagsmunaaðila sem borga þeim fyrir að reka sín mál?

Borgarahreyfingin er valkostur fyrir heiðarlega Sjálfstæðismenn sem sjá að flokkurinn verður að endurmeta hlutverk sitt og gera algjörlega hreint fyrir sínum dyrum. Borgarahreyfingin er líka valkostur fyrir þá sem hrista hausinn og ætla að skila auðu eða sniðganga kosningarnar. Auð atkvæði gera einfaldlega ekkert til að breyta ástandinu til hins betra. Ef einhverjir heiðarlegir Framsóknarmenn fyrirfinnast er þeim einnig bent á að kjósa Borgarahreyfinguna sem krefst þess að gagnsæi verði einkunarorðið í  endurreisn hagkerfisins.

Hlaupum ekki eins og rollur í hóp á eftir spilltum forystusauð.

 

 


mbl.is Samfylking eykur forskot sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Samorka?

Það er rétt að halda því til haga að Gústaf A. Skúlason sem titlaður er aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku hefur skrifað ófáar greinar í blöðin þar sem hann ræðst með hæðnistón að náttúruverndarfólki. Hann er m.ö.o. á fullum launum (væntanlega rausnarlegum) við að verja orkufyrirtækin með ráðum og dáð. Dæmi hver fyrir sig um það hvort að málflutningur hans sé trúverðugur.

Íslenskur skógur?Reyndar hefur það vakið athygli mína að hjá Samorku starfa nú samkvæmt heimasíðu fyrirbærisins 5 karlar og 3 konur. Allir karlarnir eru titlaðir framkvæmdastjórar nema Gústaf sem er aðstoðarframkvæmdastjóri. Það gefur þeim væntanlega tekjur sem eru umtalsvert hærri en gengur og gerist hjá öðrum fyrirtækjum í eigu hins opinbera. Konurnar 3 eru allar titlaðar ritarar. Það eru varla mörg fyrirtæki sem geta státað sig af svo háu hlutfalli framkvæmdastjóra og afgerandi kynjaskiptingu.

Nýlega ályktaði Samorka (með undirritun Gústafs) um fyrirhugaða stjórnarskrárbreytingu sem rædd er á Alþingi í hið óendanlega af siðspilltum mútuþegaflokki, því miður á kostnað annarra mikilvægra mála. Samorka leggst gegn auðlindaákvæðinu og er nöp við hugtök eins og "sjálfbæra þróun", "þjóðareign" og "láta varanlega af hendi". Það kann reyndar vel að vera að skilgreiningar á þessum hugtökum séu ekki nægilega skýrar því að rík tilhneiging hefur verið til mistúlkunar á ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins. En mér segir reyndar svo hugur að fleiri þættir spili þar með og bendi m.a. á (eins og Lára Hanna) að sérstaklega var óskað álits frá Alcan og Alcoa um stjórnarskrá íslensku þjóðarinnar!!! Það er líklega ekki að ástæðulausu að John Perkins sé að vara okkur við þessum risastóru alþjóðlegu fyrirtækjum.

Fróðlegt þætti mér að sjá hversu miklu af opinberu fé sé ausið í að standa vörð um ímynd orkufyrirtækja. Nú mun Gústaf væntanlega þurfa að sitja með sveittan skallann og reyna að brjóta á bak aftur fullyrðingar úr Draumalandinu og boðskap John Perkins. Ekki öfunda ég hann af því hlutskipti.


mbl.is Segir John Perkins vera á villigötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurvinnsla

Ég horfði á svonefndar Leiðtogaumræður á RÚV í gærkvöldi, fyrsta þáttinn af mörgum í kosningabaráttunni. Yfirleitt er ég hlyntur endurvinnslu en þó á það tæpast við í þetta sinn. RÚV notast við sömu leikmynd, hönnun, framsetningu og umsjónarmenn og fyrir 2 árum síðan. Meira að segja innihald og uppbygging var svipuð, rétt eins og ekkert hafi í skorist.

http://www.flickr.com/photos/vilhjalmurhallgrimssonhttp://www.flickr.com/photos/vilhjalmurhallgrimssonMaður hlýtur að klóra sér í kollinum yfir því að þrátt fyrir heilt efnahagshrun, gjaldmiðilshrun, trúverðugleikahrun og þjóðfélagshrun séu stjórnmálamenn enn að ræða sömu gömlu málin á sama hátt rétt eins og ekkert hafi breyst. Sömu spurningar og sömu svör. Eða voru það nokkur svör?

Ekki var minnst á nýtt lýðveldi, þjóðaratkvæðagreiðslur, faglega stjórnsýslu, gagnsæi, lýðræðisumbætur, stjórnlagaþing, persónukjör, þrískiptingu valds, rannsóknina á bankahruninu, skuldastöðu Íslands, uppgjörið við útrásina eða hvernig byggja á upp traust meðal annarra þjóða. Það var meira að segja skokkað létt yfir gjaldmiðilsumræðuna og ESB á svipaðan hátt og Sjálfstæðisflokkurinn og VG gerðu á landsfundum sínum. Þyrfti ekki að endurnýja stýrikerfið hjá hjá þessu fólki?

Eini maðurinn sem talaði mannamál var Þór Saari, talsmaður frá Borgarahreyfingunni sem svaraði spurningum fréttamanna skýrt og undanbragðalaust. Þannig fólk vantar inn á þing, ekki eintóma flokkshesta.

 

X-O Þjóðin á þing



mbl.is RÚV verður eitt um hituna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú verður ekki aftur snúið

Niðurstöður þessarar könnunar eru á margan hátt mjög ánægjulegar fyrir fólk sem vill sjá grundvallarbreytingar í íslensku samfélagi.

  • Borgarahreyfingin stóreykur fylgi sitt aðra vikuna í röð.
  • Sjálfstæðisflokkur er á niðurleið og mun enda í sögulegu lágmarki.
  • Framsókn virðist ekki ætla að ná flugi þrátt fyrir allan kattarþvottinn.

Svarhlutfall var ekki mikið, einungis 63,2%. Því má gera ráð fyrir að margt geti breyst þessar 4 vikur fram að kosningum. Athygli vekur hversu margir segjast ætla að skila auðu en því miður skapa auð atkvæði engar breytingar. Eins og okkar gallaða kerfi virkar þýðir autt atkvæði einungis að fólk lætur hina um að ákveða.

Gunnar SigurðssonBorgarahreyfingin er rétt að komast í gang á landsbyggðinni þar sem um helmingur atkvæðanna liggur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að fólk eins og Gunnar Sigurðsson muni ná eyrum fólks í NV-kjördæmi þar sem stórir landshlutar hafa algjörlega verið forsmáðir af stjórnvöldum.

Fyrir þessar kosningar verður þjóðin að hugsa sinn gang. Vill hún að stjórnmál snúist um fólk eða flokka? Vill hún að valdaklíkur fái áfram að setja leikreglurnar, ráða hér öllu og halda fólki í viðjum verðtryggingar og kvótakerfis með manndrápsskuldir og eyðilagt mannorð í ofanálag? Hefur þjóðin trú á að þeir sem hér stjórnuðu sjái hag í að rannsókn á bankahruninu verði gagnsæ og algjörlega yfir allan vafa hafin? Vill þjóðin sjá "Nýju Íslandi" stjórnað með fyrirgreiðslupólitík og sérhagmunagæslu?

Ég segi Nei! - kjósum Borgarahreyfinguna - Þjóðin á þing!

X-O 


mbl.is VG upp fyrir Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin á þing!

Hörður Torfason og Raddir fólksins fóru af stað strax í október með fundi og kröfur sem loksins var öllum fullnægt tæpum 5 mánuðum síðar. Það hlýtur að teljast góður árangur út af fyrir sig en því miður var listinn mun lengri en upphaflega var lagt upp með.

  • Enn hefur enginn verið dreginn til ábyrðar fyrir að setja þjóðina á hausinn.
  • Sú rannsókn á hruninu sem þjóðin getur sætt sig við er enn ekki hafin.
  • Flokkakerfið sem ól af sér spillingu er enn í fullu fjöri og þeirra eigin leikreglur við lýði.
  • Kvótakerfið sem að lokum leiddi til efnahagshamfaranna er enn á sínum stað.
  • Almenningur er að taka á sig ómældar byrðar vegna fífldirfsku ómerkilegra braskara.
  • Neyðarráðstafanir til bjargar heimilunum í landinu eru enn í mýflugumynd.
  • Verðtryggingu og ónýtum gjaldmiðli hefur enn ekki verið rutt úr vegi.
  • Alþingi er enn í herkví flokkakerfisins og þjóðin ekki komin á þing.
  • Nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá hefur enn ekki litið dagsins ljós.
Því miður voru margir sem helltust úr lestinni þegar hin ömurlega og siðlausa ríkisstjórn S og D loksins gaf upp öndina. Hörður Torfason var ekki einn af þeim og stofnendur Borgarahreyfingarinnar ekki heldur. Baráttan fyrir Nýju Íslandi mun vonandi færast inn í þingsali!
mbl.is Hlé á fundum Radda fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurnýjunin, hvar verður hún?

XOÞað er fullyrt að talsverð endurnýjun verði á Alþingi á næsta kjörtímabili. Úrslit í prófkjörum helgarinnar benda hins vegar til þess að nýliðun verði mjög lítil á framboðslistum fjórflokksins. Sjö efstu menn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sitja t.a.m. allir á þingi.

Í sumum tilfellum felst svokölluð endurnýjun í því að bæjarstjórar eða borgarfulltrúar færi sig um set eða þá að innanbúðarmenn og innvígðir flokksmenn færist skör ofar í goggunarröðinni. Í fæstum tilvikum fá nýliðar að spreyta sig enda ekki fólk sem hlotið hefur blessun flokkseigendanna.

Reyndar má líta svo á að flokksmenn hafi hafnað flokkunum eins skrýtið og það hljómar. Kjörsókn var mjög lítil, rétt um 40%, sem hlýtur að teljast mikið áfall. Þegar flokksbundið fólk mætir ekki á kjörstað er eitthvað mikið að. Skyldi þetta vera vísbending um lítinn áhuga eða að fólk sé í stórum stíl að íhuga aðra valkosti?


mbl.is Endurnýjun á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umfjöllun fjölmiðla - bréf til Egils Helgasonar

Sæll Egill

Í gær fékkst þú þrjá kollega þína í Silfrið að tjá sig um prófkjör og stjórnmálaflokka. Í lok þess hluta þáttarins sagðir þú:

"Þið eruð bara ferlega góð og skemmtileg".

Ekki get ég tekið undir þau orð. Mér fannst þið standa ykkur afar illa í að kryfja málin til mergjar - prófkjörin og þátttökuleysið í þeim - litla endurnýjun og ástæður þess. Reyndar kom það mér ekkert á óvart því mér finnst eins og að margir fjölmiðlamenn spili í liði með fjórflokknum og reyni markvisst að líta framhjá þeim mikla lýðræðishalla sem á sér stað sökum óréttlátra kosningalaga og opinbers fjárstuðnings.

Í prófkjörunum var þátttakan mjög slök, í kring um 40% sem hlýtur að teljast mjög lítið þegar um flokksbundið fólk er að ræða. Sjálfur kaus ég í prófkjörum þriggja flokka af fjórflokknum og ef margir hafa farið þá leið er þátttakan í raun enn minni en tölur sýna. Þetta er út af fyrir sig ágætur rökstuðningur fyrir því að persónukjör eigi fullan rétt á sér. Hvaða réttlæti er í því að 7.800 manns sem kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, sumir ekki einu sinni Sjálfstæðismenn, raði upp lista sem verður líklega mjög áberandi á Alþingi á næsta kjörtímabili. Þetta eru ekki nema 3.6% þeirra sem eru á kjörskrá í alþingiskosningunum! Það gefur augaleið að flokksmaskínan getur haft töluverð áhrif í krafti fjármagns og upplýsinga um skráða flokksfélaga. Þarf það að koma á óvart hversu lítil endurnýjunin varð?

Talandi um ný framboð sagðir þú: "Er t.d. alveg vonlaust að það komi fram ný framboð fyrir þessar kosningar?" og Páll Ásgeir svaraði: "Það virðist vera. Þau nýju framboð sem var spáð að myndu spretta upp í kjölfar útbreiddrar óánægju með fjórflokkinn, þau hafa ekki sést ennþá."

Í seinni hluta þáttarins var svo rætt við fulltrúa fjórflokksins og hófst sú umræða á orðunum: "Hér er komið fólkið sem á að erfa landið...". Ekkert bólaði á fulltrúum nýrra framboða sem þó hljóta að eiga að njóta jafnrræðis í umfjöllun sem þessari.

Hvort er það svo að þið vitið ekki um þau tvö framboð sem hafa formlega tilkynnt sig til leiks eða séuð viljandi að láta eins og þau séu ekki til? Þegar Íslandshreyfingin bauð fram 2007 gerðu fjölmiðlar sér leik að því að tala framboðið niður og ósjaldan var minnt á það að atkvæði greidd þeim gætu fallið niður dauð. Á semsagt að leika sama leikinn aftur með Borgarahreyfinguna og önnur ný framboð? Borgarahreyfingin hélt stóran kynningarfund í Iðnó sl. þriðjudagskvöld en þangað mættu engir fulltrúar fjölmiðla og þ.a.l. var ekkert fjallað um þennan ágæta fund neins staðar. Hvernig eiga ný framboð sem fá ekki eina einustu krónu úr ríkissjóði til að heyja kosningabaráttu sína að koma sér á framfæri ef fjölmiðlar láta eins og þau séu ekki til? Væri ekki sanngjarnara að hjálpa þeim aðeins í ljósi þess mikla óréttlætis sem austur á opinberu fé til handa fjórflokknum hefur í för með sér?

Annað óréttlæti felst í því að enn er ekki ljóst hvort að flokkar megi leggja fram óraðaða lista í kosningunum. Borgarahreyfingin vill láta kjósendur sína raða frambjóðendum í kjörklefanum og hefur ekki í hyggju að fara í prófkjör eða uppstillingu. Hvernig á að bregðast við ef ekki verður leyfilegt að leggja fram óraðaða lista? Örlög þess máls er alfarið undir fjórflokknum komið.

Einn stjórnmálaspekingurinn (Gunnar Helgi) lét svo hafa eftir sér í fréttum á RÚV í vikunni að lítill sem enginn áhugi væri á nýjum framboðum vegna slaks gengis í skoðanakönnun. Er manninum alvara? Framboðin voru að melda sig til leiks á sama tíma og könnunin var gerð og flestir höfðu enn ekki hugmynd um tilvist þeirra eða hverjir eru þar í forsvari. Hvernig í ósköpunum er hægt að draga svona ályktun af skoðanakönnun á þessu stigi málsins? Væri ekki nær að beina athyglinni að því hversu margir taka enn ekki afstöðu?

Án þess að ásaka fjölmiðla og stjórnmálafræðinga beinlínis um hlutdrægni vil ég beina þeim tilmælum til ykkar að gæta hlutleysis í umfjöllunum og spila ekki alltaf með á forsendum þeirra sterku sem eru í ráðandi stöðu sökum fjármagns og tengsla.

Með góðri kveðju,

mbl.is Nýir leiðtogar stíga fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðiskonur

Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík koma varla á óvart. Sitjandi þingmenn eru í öllum efstu sætum. Fyrsti nýliðinn er í 8. sæti! Ennfremur eru konur ekki hátt skrifaðar hjá þeim sem tóku þátt í prófkjörinu, sérstaklega ekki í efstu sætum. Efsta konan í 4. sæti er eiginkona forstjóra Alcoa á Íslandi sem ætti að teljast vanhæf vegna tengsla sinna. Hvernig ætlar hún að gæta hlutleysis í umræðu um álver og stóriðju?

Katrín FjeldstedHvað er þetta annars með Sjálfstæðisflokkinn og konur? Það er eftirminnilegt þegar læknirinn og umhverfisverndarsinninn Katrín Fjeldsted bauð sig fram í prófkjöri og lenti úti í kuldanum í 12. sæti. Hafa karlkyns Sjálfstæðismenn sýnt að þeir séu starfi sínu vaxnir þegar mikið liggur við? Eða eru þeir ef til vill steingerðir kerfiskarlar sem hafa helst það hlutverk að standa vörð um sérhagsmuni flokkeigenda og stöðva framgöngu ýmissa þjóðþrifamála? Ég fæ ekki betur séð en að framvarðasveit flokksins í Reykjavík muni berjast gegn aðildarviðræðum við ESB og vilja halda Íslandi einangruðu í krumlum sérhagmunasamtaka eins og LÍÚ.

Skyldu ábyrgar konur ætla að kjósa þessa sömu karla þann 25. apríl?


mbl.is Prófkjörið kostaði 442 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slök kjörsókn er vísbending um slakt fylgi

Það setur að manni hroll við þá tilhugsun að flokksbundnir Sjálfstæðismenn ætli aftur að treysta sama fólkinu til að fara með umboð sitt við stjórn landsins. Þó svo að þrír ráðherrar hafi seint og um síðir ákveðið að draga sig í hlé er endurnýjunin á SV-horninu sama og engin. Starfandi alþingismenn raða sér í öll efstu sætin, meira að segja grínistinn Birgir Ármannsson er á sínum stað. Líklega mun brekkusöngvarinn komast aftur á þing í Suðurkjördæmi og flokkseigendafélagið getur andað rólega.

XOEini ljósi punkturinn er hvað kjörsóknin var rosalega dræm en einungis um 37% kaus í prófkjörinu. Vonandi gefur það vísbendingu um slakt fylgi Sjálfstæðisflokksins í sjálfum alþingiskosningunum. Enda er löngu kominn tími á að gefa þessum sérhagsmunasamtökum frí.

Kjósum þjóðina á þing. Kjósum Borgarahreyfinguna XO.

 


mbl.is Staðan óbreytt hjá D-lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband