Grein eftir Júlíus Sólnes

Ég ætla að leyfa mér að birta hér stutta grein eftir Júlíus Sólnes fyrrverandi umhverfisráðherra og prófessor sem skrifaði frá Bandaríkjunum í lok síðasta árs um flokkakerfið sem brugðist hefur þjóðinni. Nú hlýtur fólk að gera þá ófrávíkjanlegu kröfu að bókhald stjórnmálaflokka verði öllum opið til að gagnsæi sé í því hverjir styrkja flokka og fólk á þingi. Þannig er hægt að fyrirbyggja spillingu og fá skýringar á fyrirgreiðslum og vafasömum ákvörðunum. Flokkakerfið hefur því miður orðið að þjóðfélagsmeini. Því viljum við í Borgarahreyfingunni breyta, m.a. með því að höggva skörð í þá varnargarða sem flokkarnir hafa reist utan um sína starfsemi.

 

Borgarahreyfingin X-O er breiðfylking almennings!

 

Hér í Bandaríkjunum er góð stemning og almenningur vongóður um betri tíma. Hinn ungi forseti hefur kallað hæft og dugmikið fólk til valda og sagt skilið við klíkuskap og flokksdindla. Á Íslandi er sagan önnur. Þar ráða fulltrúar úrelts kerfis flokkræðis, einkavinavæðingar og hagsmunagæslu fyrir flokksgæðinga, sem sett hefur þjóðina á hausinn og gert orðið Íslendingur að skammaryrði um hinn vestræna heim. Rúnir trausti vilja þeir engu að síður fá að halda áfram að skipa hæfileikasnauða vini og vandamenn í æðstu embætti og ulla á umsækjendur með meiri reynslu og menntun að baki. Þeir vilja fá að ráðstafa peningum okkar og auðlindum til þeirra sem eru handgengnir flokknum, án tilltits til hagsmuna almennings. Þannig verður þetta áfram, ef almenningur rís ekki upp. Flokkarnir bíða aðeins eftir því að mótmæli hans fjari út, svo að þeir geti teki upp fyrri siði.

Júlíus SólnesÞað má ekki gerast. Nú er tækifæri til að ganga að flokksræðiskerfinu dauðu. Ég sat einn borgarafund í jólafríinu. Þar var boðið upp á fyrirlestra færustu sérfræðinga um bankahrunið og augljós dýrkeypt mistök æðstu ráðamanna. Ég dáist af dugnaði þeirra sem hafa staðið fyrir mótmælum almennings og séð til þess að halda uppi umræðu um það sem fór úrskeiðis. Við eigum þeim Herði Torfasyni og Gunnari  Sigurðssyni, ásamt mörgum fleirum, mikið að þakka. Þeir hafa unnið þrekvirki með mótmælafundum sínum og gefið okkur von um, að ef til vill sé eitthvað hægt að gera.

Breiðfylking almennings verður að bjóða fram í komandi kosningum og ná hreinum meirihluta. Að öðrum kosti munu gömlu flokkarnir hugsa sér gott til glóðarinnar. Litlu flokkarnir munu hlaupa í sæng með íhaldinu eða Samfylkingunni, ef tækifæri gefst og halda ótrauðir áfram með gamla kerfið. Eða halda menn til dæmis, að Framsóknarflokkurinn hafi eitthvað breytst, þótt hann hafi kosið nýja forystu. Flokkurinn sem ,,gaf“ Búnaðarbankann og muldi undir flokksgæðinga sína, þannig að fyrrverandi ríkisstarfsmenn á miðlungslaunum urðu allt í einu milljarðamæringar. Og hinir flokkarnir eru engu betri.

Til þess að breiðfylkingin komist til valda, þarf hún að tilkynna fyrir kosningar hverjir munu mynda ríkisstjórn hennar. Hún á að undirstrika aðgreiningu framkvæmda- og löggjafarvalds með því að tilnefna hæfustu menn í öll ráðherraembætti og hafa þá ekki á framboðslistum til alþingis. Gömlu flokkarnir tala venjulega niður til almennings og halda því fram, að aðeins innan þeirra raða sé hæft fólk til þess að verða ráðherrar. Svo er nú aldeilis ekki, eins og undanfarnir atburðir hafa sannað. Í kjölfar bankahrunsins hefur komið fram á sjónarsviðið fullt af duglegu og hæfu fólki utan flokkakerfisins, sem betur væri treystandi fyrir æðstu stjórn landsins. Hvernig væri til dæmis að leita til Þórólfs Árnasonar, fyrrum borgarstjóra, og fá hann sem forsætisráðherraefni. Hann er að minnsta kosti einn fárra háttsettra embættismanna sem hefur axlað ábyrgð og orðið að segja af sér, enda maður af meiri. Hvað með Stefán Ólafsson, prófessor sem félagsmálaráðherra og Gylfa Magnússon, dósent, efnahags- og viðskiptamálaráðherra? Það þyrfti að finna mjög kláran mann til að verða atvinnumálaráðherra í sameinuðu ráðuneyti iðnaðar, landbúnaðar og sjávarútvegs. Ekki veitti nú af að finna góðan mann í fjármálaráðuneytið til að sjá fram úr því hvernig við eigum að borga til baka þá þúsundir milljarða, sem ríkisstjórn afglapa og útrásargæðingarnir hafa skellt á bak okkar. Þá ætti einnig að stilla upp nýjum seðlabankastjóra, til dæmis Þorvaldi Gylfasyni prófessor, og heita því að sameina Seðlabanka og fjármálaeftirlit. Að sjálfsögðu þarf svo að finna hæft og gott fólk til að manna framboðslistana. Slík breiðfylking ætti ekki að stefna að því að verða varanleg. Þegar hún hefur lokið hreingerningu sinni og komið gömlu flokkunum út í hafsauga, ætti hún að draga sig í hlé og fela nýjum hreyfingum fólkins að standa vörð um lýðræðið til frambúðar.

Breiðfylking almennings hefur allt að vinna og engu að tapa. Ef hún vinnur kosningarnar, getur hún hafið nauðsynlegar umbætur á íslensku þjóðfélagi. Boðað til stjórnlagaþings, breytt stjórnarskrá, undirbúið tillögur um fækkun alþingismanna í 30 til 40, að landið verði eitt kjördæmi, nýja kosningalöggjöf til að koma í veg fyrir flokkræðisvald, og að forsætisráðherra verði kjörinn beinni kosningu. Þá ætti að innkalla allan fiskveiðkvótann og búa til nýtt úthlutunarkerfi þar sem meira tillit er tekið til smábátaveiða, er henta hinum dreifðari byggðum betur en skuldsett stórtogaraútgerð. Ég minni á gamla hugmynd um 50 mílna togveiðilandhelgi, innan hennar enginn togari aðeins smábátar. Verði þetta að veruleika rís nýtt Ísland upp út öskustónni. Ef ekki tekst að ná meirihluta á alþingi, mun allt sitja við það sama. Gömlu flokkarnir hrósa happi og halda uppteknum hætti, skipta með sér gæðum landsins og raða vanhæfum flokksþjónum í bitlingastöður.

Júlíus Sólnes
mbl.is Það þarf að upplýsa alla atburðarásina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorri Almennings Forni Loftski

Þetta sannar í eitt skipti fyrir öll að Smáborgarahreyfingin er framhald Borgaraflokksins sem samanstóð af plebbum, kverúlöntum, litlu mönnunum og smáborgurunum úr Sjálfstæðisflokknum. Skríllinn þaðan stofnaði Borgaraflokkinn til þess að verja spillingu fyrirgreiðslu Alberts. Það er verst að það sé búið að útrýma flest öllum litlu heildsölunum. Var Borgaraflokks Júlíus ekki fyrsti ónýti umhverfisráðherrann eftir að hann flaut inn á þing sem boðberi spillingarinnar? Fyrgreiðslurnar sem viðheldur almenna óréttlætinu?

Þorri Almennings Forni Loftski, 16.4.2009 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband