Engir iðjuleysingjar

Margir sem blogga um upptátæki Saving Iceland hópsins tala um þá sem iðjuleysingja eða atvinnuleysingja. Það er furðuleg ályktun í ljósi þess að SI virðast hafa ærið nóg fyrir stafni þessa dagana. Á hverjum degi berast fréttir af aðgerðum þeirra og uppátækjum. Af hverju er ekki talað um bloggara á sama hátt? Þeir hafa skoðanir á öllu mögulegu á milli himins og jarðar en gera ekkert annað en að láta ljós sitt skína á blogginu. Þeir ættu kannski að taka sér SI til fyrirmyndar og reyna að ná rassinum upp úr stólnum til að framkvæma eitthvað og hætta að nöldra yfir framtakssemi annarra.

Svo eru aðrir sem vilja láta reka þetta lið úr landi strax. Væri þá ekki tilvalið að láta sömu reglur gilda um ölvaða Íslendinga á Benidorm og víðar þar sem þeir eru engum öðrum til ánægju og yndisauka og hafa hvorki markmið né tilgang með framferði sínu.

 


mbl.is Aðgerðarsinnar mótmæla við álverið í Straumsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott framtak

Það er ágætt að fólkið gefi sér tíma til að mótmæla þessu álveri.
Einhverra hluta vegna hefur álver Norðuráls fengið miklu minni
fjölmiðlaathygli en álverin í Straumsvík og á Reyðarfirði. Þetta álver
hefur hins vegar verið að tútna út og er enn að auka við
framleiðslugetu sína og mengun. Svo hafa slys verið tíð hjá þeim þó svo
að lítið hafi verið skrifað um það á síðum blaðanna.
mbl.is Umhverfisverndarsinnar loka veginum upp á Grundartanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningssamgöngur á 21. öldinni

Fyrir 5-6 árum síðan var gerð hagkvæmnisathugun á lagningu og rekstri rafmagnslestar á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Niðurstaðan var sú að reksturinn myndi standa undir sér en mjög hár stofnkostnaður stöðvaði hins vegar frekari áform. 

Á þessum örfáu árum hefur hins vegar margt breytst. Herinn er farinn og skyndilega er orðið til nýtt svefnhverfi á vallarsvæðinu. Mikið af því fólki sem þangað flytur þarf að fara daglega til Reykjavíkur. Erlendum ferðamönnum fjölgar með ári hverju og sömuleiðis ferðum Íslendinga erlendis. Á einhverjum tímapunkti hlýtur það að teljast hagkvæmt að leggja slíka lest. Hún hefði marga stóra kosti, s.s. helmingi styttri ferðatíma, gengi fyrir vistvænni innlendri orku og sparaði innflutning á olíu - engin umtalsverð mengun eða CO2 útblástur. Hafa mætti slíka lest ómannaða og þannig spara laun bílstjóra auk þess sem viðhald á vegum myndi minnka. Síðast en ekki síst ætti öryggi hennar að vera mikið í samanburði við hefðbundna umferð á vegum.

En ekki mætti láta þar við sitja. Lestin sú arna myndi vera upphafið að lestarkerfi fyrir höfuðborgarsvæðið og jafnvel austur fyrir fjall. Hún myndi tengja úthverfin við "nýja miðbæinn" og "gamla miðbæinn" og gera fólki kleift að eiga fleiri mínútur á hverjum degi fyrir annað en að sitja stressað undir stýri. Það mætti hugsa sér að lesa blöðin eða skrifa bloggið á leiðinni úr og í vinnu. Svona lest gæti hæglega ekið á 5 mín. fresti yfir háannatímann og komið fólki mjög hratt á milli staða.

En hvaðan ættu svo peningarnir að koma til að fjármagna alla dýrðina? Með því að minnka Reykjavíkurflugvöll niður í eina flugbraut eða leggja hann alfarið niður. Eins og oft hefur verið bent á liggja gífurlegir fjármunir í öllu því byggingarlandi sem bíður í Vatnsmýrinni. Það er rosalegt bruðl að reka 2 stóra flugvelli með 50 km millibili og þó svo að sumir telji það nánast því guðlast að ætla leggja Reykjavíkurflugvöll niður þá hlýtur annar hvor völlurinn að þurfa að víkja. Ekki má heldur gleyma því að Reykvíkingar kusu um það á sínum tíma að hann skyldi víkja. En með 20 mín. lestarferð til Keflavíkur væri það heldur engin goðgá að fara með innanlandsflugið þangað. Annar eins tími fer í að aka á bílnum frá Reykjavíkurflugvelli til Hafnarfjarðar eða upp í Mosfellsbæ.


Ég læt mér standa á sama

Því miður er allt of stór hluti þjóðarinnar því marki brenndur að láta sér sífellt standa á sama. Þegar fjársterkir og oft á tíðum gráðugir aðilar seilast sífellt lengra í að vaða yfir landið á skítugum skónum, ypptir fólk bara öxlum og lætur sig það litlu varða.

Fjölmiðlar bera hér mikla ábyrgð og eru langt frá því að vera hlutslausir í umfjöllun sinni og dagskrárstefnu. T.d. sýndi RÚV ohf fyrir nokkrum dögum mynina "Er hnatthlýnun gabb?" (e. The great global warming swindle), sérlega ósvífna áróðursmynd sem reynir að gera sem minnst úr áhrifum manna á hlýnun jarðarinnar. Þeir hafa hins vegar látið það eiga sig að sýna öllu vandaðri og umtalaðri mynd Al Gore "An invonvenient truth" þar m.a. eru skoðaðar ástæður þess að sumir sjá hag í að halda áfram á feigðarbrautinni.

Einnig má nefna íslenskar myndir sem ekki hafa hlotið hljómgrunn í dagskrá Sjónvarpsins, t.d. mynd Ómars Ragnarssonar "Meðan land byggist" og mynd Páls Steingrímssonar "Land of solitude". Báðar þessar myndir fara gagnrýnum orðum um virkjanastefnu stjórnvalda og mætti vel hugsa sér að það sé ástæðan fyrir áhugaleysi RÚV ohf. Hins vegar hafa þar verið sýndar einar 6 myndir framleiddar fyrir Landsvirkjun þar sem dregin er upp jákvæð mynd af framkvæmdunum á hálendinu fyrir austan.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni að miðill í ríkiseigu sem hefur svo mikil skoðanamyndandi áhrif sé ekki hlutlaus og reyni markvisst að útiloka gagnrýnisraddir umhverfissinna. Er þetta ef til vill brot á tjáningafrelsi?


Bæjarstjóri með skoðanir og hugmyndir!

Athyglisvert er að heyra það haft eftir Alcan forstjóranum að bæjarstjórinn í Hafnarfirði stingi sjálfur upp á stækkun álversins í Straumsvík á landfyllingu. Var það ekki þessi sami bæjarstjóri sem ákvað að íbúar Hafnarfjarðar ættu að ráða um stækkun? Var það ekki þessi sami bæjarstjóri sem vildi aldrei gefa upp skoðun sína í aðdraganda kosninganna? Nú hlýtur skoðun hans að liggja í augum uppi en hvernig samræmist hún "Fagra Íslandi"?
mbl.is Engin ákvörðun hefur verið tekin um aðra staðsetningu álvers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landbúnaður 21. aldarinnar?

Fólk verður að horfast í augu við að orkulindir okkar eru ekki óþrjótandi. Ef hér væri hægt koma upp netþjónabúum með alvöru hátæknistörfum væru líkur á að sátt næðist um nýtingu orkunnar. En því miður virðast sumir vera með ál á heilanum og sjá ekki möguleikana sem framtíðin býður upp á.
mbl.is Kostnaður við orku til netþjónabús 20-30% lægri hér en í samkeppnislöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pulsu- og kókhátíð

Í bænum í dag var ég að velta fyrir mér þjóðareinkennum okkar Íslendinga. Við söfnumst saman í miðbænum á þjóðhátíðardaginn, göngum vanabundinn rúnt um Lækjargötu og Austurstræti. Einstaka ofurhugar hætta sér fótgangandi í kring um Tjörnina. Fólk fær sér pulsu og kók á uppsprengdu þjóðhátíðarverði og borgar svimandi upphæðir fyrir helíumfylltar spædermannblöðrur. Fæstir eru þjóðlegir í fasi og jafnvel fáninn er fremur sjaldgæf sjón, þykir trúlega púkó á þessum miklu hagsældartímum. Flestar gangstéttir í Þingholtunum eru ófærar vegna þess að Range Roverar og upphækkaðir pikköppar þurfa einhvers staðar að vera.

Í sunnanverðri álfunni eru víða haldnar þorpshátíðir þar sem öllum gestum og heimamönnum er boðið upp á ókeypis góðgæti, svo sem grillaðan fisk og vín í ómældu magni. Fólk á þessum stöðum er sjaldnast mjög ríkt en kann hins vegar að gera sér dagamun þegar svo ber undir. Við hér á norðurhjara erum rík þjóð, veiðum fisk í massavís og kunnum nú orðið ágætlega að grilla. Er ekki kominn tími til að bæta aðeins ímyndina og sýna að hér búi ekki bara eintómir okurkaupmenn? Hvaða sögu viljum við að erlendir ferðamenn segi eftir veru sína hér? Eigum við það ekki líka skilið sjálf að gera okkur glaðan dag án þess að það sé "í boði" SS og co.?

Uppástunga mín fyrir 17. júní 2008 er að biðja innflytjendur um að skipuleggja hátíðahöldin í þeirra eigin anda. Nýlega var haldin þjóðhátíð þeirra í Hafnarfirði og var hún svo margfalt áhugaverðari en þessi neytendasamkoma sem við fengum enn eina ferðina í dag.


mbl.is Á milli 20-30 þúsund manns í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orf og ljár...

Mætti ég benda hinum dugmiklu sláttumönnum í austurbænum og öðrum
hverfum höfuðborgarsvæðisins á þá aðferð sem dugði forfeðrum þeirra vel
í hundruðir ára. Þeir létu sér ekki muna um að slá nokkurra hektara
engi með orfi og ljá og því ætti afkomendum þeirra varla að vera
vorkunn að slá blettinn sinn á þjóðlegan og heilsusamlegan hátt.
Bensínsláttuvélar eru miklir umhverfisskaðvaldar sem valda bæði mikilli
hávaðamengun og loftmengun eins og flestum ætti að vera ljóst.
mbl.is Garðsláttur að næturlagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð frétt

Það segir líklega allt sem segja þarf að þetta sé mest lesna fréttin á
mbl.is. Ég vil nota tækifærið og óska foreldrunum til hamingju. Megi sú
litla dafna vel og lengi.  
mbl.is Önnur stelpa hjá Jakobi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn árangur - áfram stopp!

Getur ekki einhver góður maður gefið þessum Framsóknarmönnum eitthvað
örvandi? Geir og óðalsbóndinn á Stórhöfða geta ekki endalaust beðið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband