Pulsu- og kókhátíð

Í bænum í dag var ég að velta fyrir mér þjóðareinkennum okkar Íslendinga. Við söfnumst saman í miðbænum á þjóðhátíðardaginn, göngum vanabundinn rúnt um Lækjargötu og Austurstræti. Einstaka ofurhugar hætta sér fótgangandi í kring um Tjörnina. Fólk fær sér pulsu og kók á uppsprengdu þjóðhátíðarverði og borgar svimandi upphæðir fyrir helíumfylltar spædermannblöðrur. Fæstir eru þjóðlegir í fasi og jafnvel fáninn er fremur sjaldgæf sjón, þykir trúlega púkó á þessum miklu hagsældartímum. Flestar gangstéttir í Þingholtunum eru ófærar vegna þess að Range Roverar og upphækkaðir pikköppar þurfa einhvers staðar að vera.

Í sunnanverðri álfunni eru víða haldnar þorpshátíðir þar sem öllum gestum og heimamönnum er boðið upp á ókeypis góðgæti, svo sem grillaðan fisk og vín í ómældu magni. Fólk á þessum stöðum er sjaldnast mjög ríkt en kann hins vegar að gera sér dagamun þegar svo ber undir. Við hér á norðurhjara erum rík þjóð, veiðum fisk í massavís og kunnum nú orðið ágætlega að grilla. Er ekki kominn tími til að bæta aðeins ímyndina og sýna að hér búi ekki bara eintómir okurkaupmenn? Hvaða sögu viljum við að erlendir ferðamenn segi eftir veru sína hér? Eigum við það ekki líka skilið sjálf að gera okkur glaðan dag án þess að það sé "í boði" SS og co.?

Uppástunga mín fyrir 17. júní 2008 er að biðja innflytjendur um að skipuleggja hátíðahöldin í þeirra eigin anda. Nýlega var haldin þjóðhátíð þeirra í Hafnarfirði og var hún svo margfalt áhugaverðari en þessi neytendasamkoma sem við fengum enn eina ferðina í dag.


mbl.is Á milli 20-30 þúsund manns í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband