LOKSINS FRJÁLS!

Ég vil nota tækifærið og óska Randveri til hamingju með að vera loksins laus við Spaugstofuna. Það hlýtur að vera martröð flestra leikara að vera fastir í sömu hlutverkunum í 17 ár og vera í raun búinn að missa eigin tilverurétt. Þetta gefur meira að segja fyrirheit um að Spaugstofan muni ekki endast í önnur 17 ár eins og margir eflaust óttast.

Því miður þorði Þórhallur ekki að taka stökkið og leggja Spaustofuna niður með manni og mús. Skoðanakannanir hafa sýnt mikið áhorf á þetta þreytta dagskrárefni en það gleymist að besti útsendingartími á laugardagskvöldum er nokkuð augljóslega fyrir augunum á fólki hvað sem er í boði. Ég gæti best trúað að endursendar áramótahugvekjur Markúsar Arnar myndu fá þokkalegasta áhorf á þeim tíma. Er þar kannski komið framtíðarstarf fyrir Randver fyrst að Páll Magnússon neitar sjálfur að flytja slíkar hugvekjur?


mbl.is Randver hættir í Spaugstofunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er hin raunverulega ástæða??

Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvaða persónulegu ástæður liggi að baki ákvörðun Þorkels. Sá mikli gassagangur sem hlaupinn er í menn út af jarðorkunni bendir til þess að gífurlegir gróðahagsmunir búi að baki.

Einn möguleikinn er sá að Þorkell vilji fría sig ábyrgð á einhverju ferli sem erfitt getur verið að snúa við eða réttlæta. Annar möguleikinn er sá að hann vilji sjálfur taka þátt í gullæðinu en hafi ekki getað það stöðu sinnar vegna. Svo er auðvitað sá möguleiki að hann hafi fengið val um að "hætta að eigin ósk" eða vera ýtt til hliðar.

Einhvern veginn á ég erfitt með að kaupa þá opinberu útskýringu að Þorkell vilji nú helga tíma sinn fræðamennsku og kosningamálum á þessum villtu tímum í orkuvímunni.


mbl.is Þorkell hættir sem orkumálastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaða um allt á skítugum skónum!

Landsvirkun hefur nú fengið harða samkeppni í hernaðinum gegn landinu. Þessar orkuveitur og nýju orkufyrirtæki með fín útlensk nöfn sem skjóta upp kollinum á ólíklegustu stöðum keppast nú um að eyðileggja fallegar náttúruperlur, fornminjar og hvað sem fyrir þeim verður í leit að skjótfengnum gróða. Notuð eru hugguleg nöfn eins og rannsóknarleyfi en þegar búið er að rústa svæðinu með rannsóknarborunum, vegalagninu og alls kyns raski, þá er skaðinn skeður og lítill tilgangur með friðun. Hvenær ætla íslenskir náttúruverndarsinnar að safna kröftum sínum og bjóða þessu liði birginn?

mbl.is Boranir tilkynntar allar í einu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin afsláttartilboð

Þær fréttir hafa birst í ýmsum fjölmiðlum, m.a. BBC og Fréttablaðinu í
dag að portúgalska lögreglan hafi boðið móður Madeleine 2 ára fangelsi
eða skemur gegn játningu. Þetta hlýtur að vera slúður sem ekki á við
nein rök að styðjast. Í evrópsku réttarkerfi eru það einungis dómarar
sem ákvarða refsingu sakborninga og hvorki lögregla né saksóknarar geta
boðið afsláttarkjör fyrirfram. Spænska dagblaðið El País hefur reynt að
leiðrétta þennan misskilning.
mbl.is Foreldrar Madeleine á heimleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking aumingja?

Þegar verktakafyrirtæki stunda kolólöglega starfsemi og uppfylla ekki lagaskyldur eru 2 lögreglumenn sendir á staðinn og enda í kaffi inni á kontór. Þegar nokkrir aumir mótmælendur láta sjá sig í nágrenni vinnusvæða þar sem nútíma þrælahald er stundað óáreitt og menn vinna óskráðir og ótryggðir, er hins vegar send af stað 30 manna sveit og mótmælendurnir teknir höndum.

Kárahnjúkavirkjun skal rísa hvað sem hver segir og skiptir þá litlu máli hvort að níðst er á erlendu verkafólki eða íslenskum náttúruunnendum. Og þjóðin virðist hafa meiri áhuga á auglýsingu Símans með Jesú og lærisveinunum heldur en æru sína og dýrmætustu djásn. Vonandi verða sagnfræðingar framtíðarinnar stjórnvöldum og okkur hinum ekki miskunsamir. Samfylking aumingja.


mbl.is Talið að starfsemi Hunnebek og GT verði ekki stöðvuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagur almennings

Mig grunar að þessi breyting sé einungis undirbúningur að einkavæðingu
Orkuveitunnar þó svo að Villi borgarstjóri þræti fyrir það. Reynsla
annarra þjóða af slíku ætti að vera okkur víti til varnaðar,
sérstaklega miðað við smæð markaðarins, en það er jú margt sem bendir
til þess að hagur almennings (eigenda OR) sé látinn liggja á milli
hluta. Spennandi verður að sjá hvaða gæðingum eigi að afhenda bestu
mjólkurkúna.
mbl.is Tillaga um að breyta OR í hlutafélag samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lummó

Mig langar að óska hinum 216 (eða 217?) alsælu nýju Land Rover eigendum til hamingju með bílana sína sem þeir eru trúlega mjög stoltir af líkt og afi þeirra í sveitinni var á sínum tíma. Því miður verð ég að hryggja þá með því að það þykir lummó að aka um höfuðborgarsvæðið á jeppa sem varla kemst fyrir í venjulegu bílastæði. Þeir sem nota kollinn sinn til að hugsa um lífið og tilveruna hafa sumir hverjir komist að því að það er ekkert vit í því að kaupa sífellt stærri bíla til að bæta samgöngumálin og umhverfismálin. Að aka um á jeppa vegna þess að það minnkar líkur á alvarlegum meiðslum í árekstri ber auk þess vott um sjúklega eiginhagsmunasemi.

Þeir sem eru vaxnir upp úr jeppadellunni ættu hins vegar að spá í mengunarlausa og hljóðlausa bíla eins og þennan eða þennan eða þennan eða jafnvel þennan sem er þrátt fyrir allt líklega ódýrari en Land Rover og sneggri en Porsche. Í Noregi er það orðið mjög góður kostur að aka um á rafmagnsbílum því að þeir njóta forgangs í umferðinni og geta ekið á strætisvagnaakreinum. Auk þess borga ökumenn þeirra engin gjöld fyrir bílastæði eða vegatolla inn og út úr Osló. Eru íslenskir alþingismenn almennt ekki með á nótunum? Meira um þetta hér.
 


mbl.is Einn Land Rover selst á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

H í stað L

Þetta er einhver sú afleitasta hugmynd sem ég hef heyrt lengi. Ketildalir heita dalirnir sunnanmegin við Arnarfjörð og er Hvestudalur einn þeirra stærri þó að Selárdalur sé sá stærsti og þekktasti. Í Hvestudal er gulleit sandfjara og mjög fagurt um að litast. Sigurgeir Sigurjónsson ljósmyndari hefur sagt að Arnarfjörðurinn sé hans uppáhaldsstaður á Íslandi til að taka myndir og tek ég undir með honum að náttúrufegurðin þar er engu lík. Því miður hafa líklega allt of fáir lagt leið sína á þessar slóðir og þess vegna lætur fólk sér trúlega standa á sama eins og svo oft áður. Þessa slæmu hugmynd verður að endursenda til aðstandenda "Íslensks hátækniiðnaðar" og nafnlausu rússnesku bakhjarlanna sem hljóta að hafa farið stafavillt og skrifað h í stað l. Það er líka reginhneisa að bæjarstjórn Vesturbyggðar gleypi hana hráa og segi ekkert því til fyrirstöðu að planta einni risavaxinni olíuhreinsunarstöð mitt í náttúruparadís eins og Arnarfjörðurinn er. Hvers konar endemis aumingjar hafa valist í bæjarstjórn Vesturbyggðar? 
mbl.is Óskynsamlegt að staðsetja olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt mótmælendafélag

Af hverju stofna þeir sem kveina hvað mest yfir SI hér á blogginu ekki
félagasamtök sín á milli? Þeir gætu hittst og rætt sín á milli hvernig
ætti að koma þessum erlendu atvinnuleysingjum úr landi í eitt skipti
fyrir öll og jafnvel mótmælt óvelkomnum mótmælendum á "friðsamlegan
hátt". Svo gætu þeir stofnað styrktarsjóð til kaupa á fleiri handjárnum
fyrir lögregluna og stigabíl. Síðast en ekki síst gætu þeir barist
fyrir því að einstaklingar af erlendum uppruna mættu ekki undir neinum
kringumstæðum taka þátt í mótmælum hér á landi hvort heldur sem það
beinist gegn kínverskum þjóðarleiðtogum eða alþjóðlegum auðhringjum.
Höldum Íslandi hreinu!
mbl.is Átta mótmælendur handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rán um hábjartan dag!

Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun er í þann veginn að stela þjóðargersemi frá íslensku þjóðinni. Að vísu vita fæstir um hvað málið snýst, enda  liggur enginn vegarslóði upp eftir Norðurdal. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi sl. sumar að ganga daglangt niður með ánni, skoða fegurð dalsins og stórkostlega fossa sem nú eru að hverfa vegna græðgi fólks og skorts á hugmyndaflugi.

Ég veit ekki hvort ég á að vorkenna þeim sem ákváðu og studdu þessa framkvæmd vegna vanþekkingar sinnar eða hvort ég eigi að fyrirlíta þá fyrir ósvífni þeirra og heimsku. Ég öfunda á vissan hátt þá sem vita ekki hvað þeir fara á mis við vegna þess að maður saknar ekki þess sem maður þekkir ekki. En neðantaldir stjórnmálamenn og starfsmenn Landsvirkjunar ættu bara að skammast sín.

Ég birti hér að lokum smá part úr ádrepu Hallgríms Helgasonar frá því í fyrrahaust:

"Þau sem ákváðu Kárahnjúkavirkjun voru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni M. Mathiesen, Ásta Möller, Bryndís Hlöðversdóttir, Drífa Hjartardóttir, Einar K. Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson, Einar Már Sigurðarson, Geir H. Haarde, Gísli S. Einarsson, Guðjón Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson, Guðni Ágústsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Halldór Ásgrímsson, Halldór Blöndal, Helga Guðrún Jónasdóttir, Hjálmar Árnason, Ísólfur Gylfi Pálmason, Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Kristjánsson, Jónína Bjartmarz, Karl V. Matthíasson, Kjartan Ólafsson, Kristinn H. Gunnarsson, Kristján L. Möller, Kristján Pálsson, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Stefánsson, Margrét Frímannsdóttir, Páll Pétursson, Pétur H. Blöndal, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Sturla Böðvarsson, Svanfríður Jónasdóttir, Tómas Ingi Olrich, Valgerður Sverrisdóttir, Vilhjálmur Egilsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Össur Skarphéðinsson.

Ég efast stórlega um að einhver þeirra hafi, á ákvörðunardegi, verið búin að sjá fossana í Jökulsá á Fljótsdal. Og vart hafa mörg þeirra staðið við Stuðlagátt eða gengið upp með Sauðárfossi. Þau þekktu ekki landið sem þau völdu að sökkva og þau þekktu ekki ána sem þau ákváðu að skrúfa fyrir. Nokkrum dögum fyrir tappasetningu mæta svo nokkur þeirra fljúgandi, kasta augum yfir svæðið og segja “nei nei, þetta er hvort eð er ekkert spes”. Með fullri virðingu fyrir Ómari má segja: Að ætla sér að dæma svæðið úr flugvél með einu tíu mínútna stoppi við Rauðuflúð er líkt og að reka nefið inn á veitingastað, narta í eina ólívu, og fara svo heim og skrifa gagnrýni um staðinn."

 

 


mbl.is Jökulsá í Fljótsdal trúlega veitt í botnrás á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband