Almenningssamgöngur á 21. öldinni

Fyrir 5-6 árum síðan var gerð hagkvæmnisathugun á lagningu og rekstri rafmagnslestar á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Niðurstaðan var sú að reksturinn myndi standa undir sér en mjög hár stofnkostnaður stöðvaði hins vegar frekari áform. 

Á þessum örfáu árum hefur hins vegar margt breytst. Herinn er farinn og skyndilega er orðið til nýtt svefnhverfi á vallarsvæðinu. Mikið af því fólki sem þangað flytur þarf að fara daglega til Reykjavíkur. Erlendum ferðamönnum fjölgar með ári hverju og sömuleiðis ferðum Íslendinga erlendis. Á einhverjum tímapunkti hlýtur það að teljast hagkvæmt að leggja slíka lest. Hún hefði marga stóra kosti, s.s. helmingi styttri ferðatíma, gengi fyrir vistvænni innlendri orku og sparaði innflutning á olíu - engin umtalsverð mengun eða CO2 útblástur. Hafa mætti slíka lest ómannaða og þannig spara laun bílstjóra auk þess sem viðhald á vegum myndi minnka. Síðast en ekki síst ætti öryggi hennar að vera mikið í samanburði við hefðbundna umferð á vegum.

En ekki mætti láta þar við sitja. Lestin sú arna myndi vera upphafið að lestarkerfi fyrir höfuðborgarsvæðið og jafnvel austur fyrir fjall. Hún myndi tengja úthverfin við "nýja miðbæinn" og "gamla miðbæinn" og gera fólki kleift að eiga fleiri mínútur á hverjum degi fyrir annað en að sitja stressað undir stýri. Það mætti hugsa sér að lesa blöðin eða skrifa bloggið á leiðinni úr og í vinnu. Svona lest gæti hæglega ekið á 5 mín. fresti yfir háannatímann og komið fólki mjög hratt á milli staða.

En hvaðan ættu svo peningarnir að koma til að fjármagna alla dýrðina? Með því að minnka Reykjavíkurflugvöll niður í eina flugbraut eða leggja hann alfarið niður. Eins og oft hefur verið bent á liggja gífurlegir fjármunir í öllu því byggingarlandi sem bíður í Vatnsmýrinni. Það er rosalegt bruðl að reka 2 stóra flugvelli með 50 km millibili og þó svo að sumir telji það nánast því guðlast að ætla leggja Reykjavíkurflugvöll niður þá hlýtur annar hvor völlurinn að þurfa að víkja. Ekki má heldur gleyma því að Reykvíkingar kusu um það á sínum tíma að hann skyldi víkja. En með 20 mín. lestarferð til Keflavíkur væri það heldur engin goðgá að fara með innanlandsflugið þangað. Annar eins tími fer í að aka á bílnum frá Reykjavíkurflugvelli til Hafnarfjarðar eða upp í Mosfellsbæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Góðar pælingar!

Valgerður Halldórsdóttir, 15.7.2007 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband