31.10.2017 | 12:48
"Happy hour" norðan Hvalfjarðarganga
Það er dáldið kyndugt að þingmenn SV-kjördæmis, Vilhjálmur Bjarnason og margir aðrir, hafi ekki sýnt minnsta áhuga á því mikla hagsmunamáli kjósenda kjördæmisins hvað atkvæðavægi þeirra er lítið. Það má segja að í nýafstöðnum kosninum hafi hver kjósandi norðan Hvalfjarðarganga fengið tvo kjörseðla á meðan hver kjósandi sunnan megin hafi fengið einungis einn þar sem atkvæðamisvægið var rétt tæplega tvöfalt. Ekki skal hér fullyrt hvort jafnt atkvæðavægi hefði snúið gæfu Vilhjálms og grettunni upp í bros en það kann vel að vera þar sem næsti þingmaður SV-kjördæmisins inn gæti hafa orðið Vilhjálmur.
Atkvæðamisvægi ætti reyndar að heyra sögunni til því að í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir 5 árum síðan var beinlínis spurt:
"Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?"
Um 2/3 hlutar þeirra sem afstöðu tóku svöruðu spurningunni játandi. Ég veit ekki til þess að Alþingi hafi tekið málið til umræðu síðan þá enda hluti af hinni nauðsynlegu og lýðræðislegu endurskoðun stjórnarskrárinnar sem reynt hefur verið að tefja með ýmsum ráðum. Andstæðingar breytinga halda því iðulega fram að slíkt þurfi að gera í mikilli sátt og samvinnu allra flokka. Sagan segir okkur hins vegar að stjórnarskrárbreytingar hafa oft valdið miklum deilum og illindum á Alþingi, ekki síst þegar breytingar voru gerðar á kjördæmaskipan og kosningakerfinu 1959.
Svo má einnig rifja það upp að ÖSE skilaði skýrslu með ýmsum athugasemdum við löggjöf og framkvæmd kosninga á Íslandi árið 2009. Þau bentu á að misvægi atkvæða væri hér allt of mikið en samkvæmt viðmiðunum þeirra telst meiri munur en 15% óásættanlegur:
"The Council of Europes Commission for Democracy through Law (Venice Commission) recommends for equal suffrage that the permissible departure from the norm should not be more than 10 per cent, and should certainly not exceed 15 per cent except in special circumstances (protection of a concentrated minority, sparsely populated administrative entity).
Hlýt að hafa verið óæskilegur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2016 | 10:19
Lýðræðislegur ómöguleiki
Ríkisstjórn þriggja flokka með einungis 46,7% gildra atkvæða samtals getur vart kallast meirihlutastjórn. Aðrir flokkar á þingi hefðu 47,6%. Forsenda þess að slík stjórn hefði nauman meirihluta þingmanna að baki sér er ójafnt atkvæðavægi. Nýr stjórnmálaflokkur sem segir í grunnstefnu sinni: "Vægi atkvæða skal vera jafnt, óháð búsetu", hyggst nú taka þátt í að mynda þannig stjórn. Er það ekki lýðræðislegur ómöguleiki?
Funda í fjármálaráðuneytinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2016 | 09:30
Persónukjör
Kosningalögin gefa kjósendum færi á útstrikunum og/eða að breyta röð frambjóðenda á þeim lista sem valinn er. Gallinn er sá að fáir nýta sér þessa möguleika, enda þurfa mjög margir að breyta listum sínum á svipaðan hátt til að það hafi eitthvað að segja. Einnig er hætta á því að kjörseðlar verði ógildir, t.d. ef strikað er yfir nafn á öðrum lista en þeim sem valinn er.
Kjósendur vilja samt greinilega hafa eitthvað meira um það að segja hvaða fólk það kýs, ekki bara flokka. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni haustið 2012 var beinlínis spurt að því hvort persónukjör í alþingiskosningum ætti að heimila í meira mæli en nú er. Um 78% þeirra sem afstöðu tóku studdu það en Alþingi hefur hingað til hunsað þann skýra þjóðarvilja.
Í júní 2014 skipaði forseti Alþingis vinnuhóp til endurskoðunar á kosningalögum. Hópurinn fékk það verkefni að skoða tiltekin mál en hvorki persónukjör né atkvæðavægi var þó að finna á verkefnalista nefndarinnar. Tekið var sérstaklega fram að í heildarendurskoðun kosningalaga yrði ekki ráðist fyrr en lagaatriðum er lúti að kosningum yrði breytt í stjórnarskrá. En þar stendur hnífurinn í kúnni og ákveðnir flokkar lýst sig andvíga breytingum. Því kusum við enn og aftur til Alþingis samkvæmt kerfi sem við sjálf kröfðumst breytinga á en fulltrúar okkar stöðva. Það er ekki í anda lýðræðis.
Fólk hvatt til útstrikunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.10.2016 | 12:41
Bremsur
Hver myndi vilja aka hringveginn á bremsulausum bíl? Myndu ekki flestir láta laga bremsurnar áður en lagt er af stað með fullan bíl af fólki?
Það vantar bremsur í lýðræðið hjá okkur. Okkar sjálfra vegna og afkomenda okkar vegna getum við ekki látið stjórnmálaflokka útdeila afnotum af auðlindum landsins til langs tíma eða selja ábatasöm fyrirtæki í sameign þjóðarinnar nema að víðtæk sátt ríki um slíkt.
Hvernig á að koma í veg fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu? Stöðva umdeild virkjanaáform á hálendinu? Eða olíuvinnslu sem ógnar lífríki hafsins? Með því að hlekkja sig við vinnuvélar eða pramma? Það þýðir lítið að fara með bænaskjal til Bessastaða í hvert sinn þegar ráðamenn misnota vald sitt. Þá er vissara að hafa lýðræðið í lagi.
Úr nýju stjórnarskránni:
"Allt ríkisvald sprettur frá þjóðinni og beitir hún því annaðhvort beint eða fyrir milligöngu handhafa þess."
"Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt."
"Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi."
"Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi."
"Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.... Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn."
Látum laga bremsurnar áður en það verða alvarleg slys.
Um 40 erlendir fjölmiðlar fylgja Pírötum eftir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2016 | 17:06
Líklegir kjósendur Sjálfstæðisflokksins
Í dag, daginn fyrir kjördag, mælist Sjálfstæðisflokkurinn aftur með mestan stuðning stjórnmálaflokka. Svo virðist sem fjórðungur kjósenda eða rúmlega það sé enn og aftur reiðubúinn að styðja flokkinn sem átti fjóra ráðherra á liðnu kjörtímabili sem urðu uppvísir að spillingu og misbeitingu valds. Flokkinn sem setti nýtt heimsmet þegar bæði formaðurinn og varaformaðurinn skutu upp kollinum í Panamaskjölunum með félög í skattaskjólum. Flokkinn sem lækkaði skattbyrði, að vísu einungis hjá hinum tekjuhæstu og lækkaði í leiðinni auðlindagjöldin sem þjóðin fær í sinn hlut frá helstu stuðningsaðilum flokksins. Flokkinn sem sveik marg ítrekað loforð sitt um þjóðaratkvæðagreiðslu sem formaðurinn tók sérstaklega fram að þeir myndu standa við. Flokkinn sem fann upp hugtakið pólitískur ómöguleiki þegar þjóðaratkvæðagreiðslur virðast ekki henta hagsmunum innanbúðarmanna.
En hvaða fólk skyldi það vera sem lætur allt þetta sig engu varða og kýs samt flokkinn eins og ekkert annað sé í boði? Hér eru nokkrir hópar sem koma sterklega til greina, þeir eru líklega enn fleiri:
1) Innanbúðarmenn sem hafa bein áhrif á ákvarðanatökur.
2) Stóreignamenn.
3) Fólk með falda fjársjóði í skattaskjólum.
4) Fólk sem ætlar sér að njóta góðs af einkavæðingaráformum.
5) Starfsmenn útgerðarfyrirtækja.
6) Eldra fólk.
Eflaust er sama fólkið að einhverju leyti í fyrstu fjórum hópunum og er það skiljanlegt að þeir kjósi Sjálfstæðisflokkinn sem þannig er háttað um. Sá hópur er varla mjög fjölmennur en þó varasamur því að hagsmunir hans fara ekki endilega saman við hagmuni okkar flestra. Þeir sem eiga t.d. falda fjársjóði í skattaskjólum gætu beinlínis haft hag af því að hér yrði annað hrun. Þá eru þeir einnig tilbúnir með óskattlagt fé sem þeir gætu viljað nota til að kaupa arðbær fyrirtæki í eigu ríkisins, Landvirkjun, bankana og fl. Innanbúðarmenn fá upplýsingar sem almenningur hefur ekki aðgang að og á því auðveldara með að verjast aðsteðjandi áföllum líkt og gerðist í aðdraganda Hrunsins. Stóreignamenn láta sér það eflaust vel líka að skattar séu lækkaðir á þá en óttast að sama skapi aðra flokka sem hafa talað um aukna skattheimtu á þá tekjuhæstu.
Öllu stærri er sá hópur sem starfar fyrir útgerðina í landinu. Það eru sjómenn og fólk í sjávarplássum úti á landi sem skiljanlega hefur áhyggjur af því ef stórfelldar breytingar verða á högum fyrirtækjanna sem þau starfa fyrir. Fólk getur trúlega sætt sig við að útgerðarmenn fái hundruðir eða þúsundir milljóna í arð á meðan að lífsviðurværi Jóns og Gunnu er viðunnandi. Það er vel þekkt að þau boð hafi verið látin ganga að fólk eigi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn því að annars hljótist verra af. Augljóslega er meiri stuðningur við flokkinn úti á landi en í Reykjavík en eins og flestir vita getur hvert atkvæði vegið næstum tvöfallt í landsbyggðarkjördæmunum miðað við höfuðborgarsvæðið.
Síðasti hópurinn er sá fjölmennasti. Kannanir sýna að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þar óskoraðs stuðnings. Það er vissulega mjög stór hópur, rúm 31 þúsund manns eru 70 ára og eldri og ef miðað er við 65 ára og eldri eru þetta rúm 46 þúsund manns. Það er auðvitað allur gangur á því hversu vel fólk fylgist með stjórnmálum á efri árum. Sumir eru við góða andlega heilsu alveg fram á tíræðisaldur meðan margir aðrir eru ekki svo heppnir. Á Íslandi tíðkast það að senda fulltrúa sýslumannsembætta inn á dvalarheimili eldri borgara, hjúkrunarheimili og spítala. Þetta gerist daga og jafnvel vikur fyrir kjördag og veldur því að atkvæði þessa fólks skila sér í mun ríkara mæli en atkvæði þeirra sem yngri eru. Það er ekki einu sinni gert ráð fyrir því að þessir eldri borgarar þurfi að fylgjast með kappræðum fram að kjördegi enda ekki víst að þeir hafi trú á öðrum flokkum en þeim gömlu. Heyrst hefur að farið sé inn á vistarverur fólks sem man varla hvað það sjálft heitir og því boðið að merkja við á kjörseðli. Augljóslega skapar þetta rótgrónum flokkum óeðlilegt forskot.
Núna um helgina munum við vita hvort Ísland verður aðhlátursefni enn eina ferðina eða ekki. Erlendir fjölmiðlar hafa flykkst til landsins til að gera kosningunum skil. Munu kjósendur veita stjórnmálamönnum úr Panaskjölunum umboð til að fara áfram með stjórn landsins eða verða þeir settir á ís? Ætla kjósendur að leggja lóð sitt á aðgerðir í loftlagsmálum og náttúruvernd eða vilja þeir olíuleit og meiri stóriðju með skattaundanskotum? Vilja þeir aukinn jöfnuð eða er þeim sama þótt ríkasta prósent landsmanna verði enn ríkara og stingi af með peninga fram hjá skatti og samneyslu og kaupi sér þess í stað bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum? Ætla kjósendur að standa með nýju stjórnarskránni sem eykur aðhald og bætir lýðræðið eða láta stjórnmálaflokkunum eftir að ráða því sjálfir hvernig þeir eru kosnir eða hvernig þeir fara með vald sitt? Er það sanngjarnt að örvasa gamalt fólk hafi jafnvel úrslitavald um það hvernig hinir yngri munu hafa það eftir 20-30 ár? Það verður fróðlegt að sjá.
Sjálfstæðisflokkurinn stærstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2016 | 01:27
Vonarland
Ég ólst upp með húsið Vonarland (Sogaveg 75) fyrir augunum öll mín uppvaxtarár. Foreldrar mínir byggðu sitt hús þar beint á móti um miðja síðustu öld meðan Sogamýrin var enn lengst uppi í sveit. Þá var Sogavegurinn holóttur malarvegur þar sem nokkrir sveitabæir stóðu, m.a. Vonarland, Réttarholt, Fagridalur, Brekka og fleiri.
Ingvar Helgason og Sigríður Guðmundsdóttir keyptu Vonarland um 1960 og bjuggu þar með stórum barnahópi, heildsölu og bílaumboði í kjallaranum. Eldri hluti hússins með kastalaþaki var upphaflega byggður 1926 en stórri viðbyggingu bætt við um miðjan sjötta áratuginn af Guðmundi Magnússyni byggingameistara sem hafði keypt húsið 1953. Þau Ingvar og Sigríður voru sérlega góðir og kærleiksríkir nágrannar og var ég svo heppinn að fá sumarvinnu hjá þeim frá 12 ára aldri og fram undir tvítugt, fyrst við garðyrkju og síðar við ýmis störf í fyrirtæki þeirra.
Garðyrkja og trjárækt var eitt helsta áhugamál Ingvars, enda lóðin að Vonarlandi býsna stór. Garðurinn var eins konar lystigarður sem skipt var upp í reiti og mikil vinna lögð í að halda honum snyrtilegum og fallegum. Ósjaldan tók Ingvar sér pásu frá erilsömu forstjórastarfi og settist upp á traktorsláttuvél eða rölti um garðinn og gróðursetti nýjar plöntur. Þá þýddi lítið fyrir sumarvinnumanninn að slugsa.
Nýir eigendur Vonarlands hafa áform um að jafna þetta stóra og glæsilega hús við jörðu og byggja tvær stórar blokkir á lóðinni með allt að 49 íbúðum. Það yrði dapurlegur minnisvarði um Ingvar Helgason og arfleið hans í þessu hverfi. Einnig stendur til að rífa lítið hús við hliðina sem byggt var 1942. Ég vona að hætt verði við þessi áform og velti því fyrir mér hvort að ekki sé hægt að finna öllum þessum íbúðum annan stað en þennan ágæta sælureit í Sogamýri.
Vilja tvö fjölbýlishús við Sogaveg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.1.2016 | 13:03
Tilbúnar breytingar læstar ofan í skúffum ráðamanna
Eins og margir muna bauð Alþingi kjósendum að taka afstöðu til eftirfarandi spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012:
"Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?"
Afgerandi meirihluti þeirra sem afstöðu tóku svöruðu spurningunni játandi eða 66,9%.
Tillögur stjórnlagaráðs leggja til umtalsverðar breytingar á reglum um forsetakjör. Þar er t.d. gert ráð fyrir mun fleiri meðmælendum en nú er, minnst eins af hundraði kosningabærra manna sem gerir líklegast um 2.500 manns núna. Einnig er nokkuð tryggilega séð til þess að meirihlutastuðningur sé við þann frambjóðanda sem nær kjöri ólíkt því sem nú er. Loks er mælt fyrir um að forseti geti ekki setið lengur en í 3 kjörtímabil.
Það kemur tæplega á óvart að Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, skuli lítið þekkja til nýju stjórnarskrárinnar sem flokkur þeirra reyndi að bregða fæti fyrir og gerir enn. Þar ættu fjölmiðlar að standa vaktina en því er ekki að heilsa þar sem jafnvel sumir sérfræðingar í stjórnmálafræði og stjórnskipunarrétti virðast ekki þekkja vel til nýju stjórnarskrárinnar, hvað þá fjölmiðlamenn sjálfir.
Hér eru að lokum þær tvær greinar úr nýju stjórnarskránni sem vísað er til:
78. gr. Forsetakjör
Forseti Íslands er kosinn í leynilegri atkvæðagreiðslu þeirra er kosningarétt hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst eins af hundraði kosningabærra manna og mest tveggja af hundraði. Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Sá er best uppfyllir forgangsröðun kjósenda, eftir nánari ákvæðum í lögum, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu. Að öðru leyti skal ákvarða með lögum um framboð og kosningu forseta Íslands.
79. gr. Kjörtímabil
Kjörtímabil forseta hefst 1. ágúst og endar 31. júlí að fjórum árum liðnum. Forsetakjör fer fram í júní- eða júlímánuði það ár, þegar kjörtímabil endar. Forseti skal ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil.
Sömu kröfur gerðar frá 1952 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2015 | 19:17
TABÚ stjórnmálamenn
Ef það er einhverjum einum að þakka að fjárhagsstaða Íslands er almennt vel yfir meðallagi í Evrópu árið 2015 þá er það Björku Guðmundsdóttur að þakka. Sá gríðarlegi fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið árlega skilur eftir sig raunverulegar gjaldeyristekjur sem bæði gagnast fyrirtækjum og einstaklingum, og ekki síst Ríkissjóði og Seðlabanka. Það er engin tilviljun að landið er orðið vinsæll ferðamannastaður en ekki er það stóriðjunni að þakka og örugglega ekki íslenskum stjórnmálamönnum heldur.
Ef það væri ekki fyrir heimsþekkta listamenn sem vakið hafa verðskuldaða athygli á landi og þjóð væri landið örugglega enn utarlega á jaðri ferðamannastaða. Gráðugum og ósvífnum aðilum í ferðaþjónustu hefur meira að segja ekki enn tekist að spilla orðspori landans sem neinu nemur.
Þetta afleita eintak af stjórnmálamanni, að vísu bara einn af mörgum, á að vera áminnig til kjósenda að hugsa sig vel um áður en þeir spandera atkvæði sínu á illa innrættan fauta eins og 6. þingmann SV-kjördæmis.
Já ég borga skatta á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.9.2015 | 22:37
Það sem Ólafi Ragnari finnst andlýðræðislegt
Ólafur Ragnar telur það andlýðræðislegt að láta þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar fara fram samhliða forsetakosningum næsta sumar. Varla getur það þó talist andlýðræðislegra en að kjósa um stjórnarskrárbreytingar í bland við allan loforðaflaum stjórnmálaflokkanna í alþingiskosningum? Svo ekki sé nú minnst á hversu andlýðræðislegt það er að efna til sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá og virða svo niðurstöðurnar algjörlega að vettugi.
Fræðimenn ósammála forseta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.5.2015 | 10:16
50 ára reynsla talar sínu máli
Í grein fjármálaráðherra í Mogganum í dag kemur fram að tillögur um eignarhald á náttúruauðlindum hafi ítrekað verið lagðar fram síðan á 7. áratug síðustu aldar. Rétt er það, þær hafa verið ófáar tillögurnar um stjórnarskrárvarinn eignarétt þjóðarinnar á auðlindum landsins sl. 50 ár. En hvers vegna hefur slíkt auðlindaákvæði aldrei ratað inn í stjórnarskrá? Líkast til vegna þess að engin samstaða var á þingi um orðalag og útfærslu.
Ráðherrann skautar hins vegar algjörlega framhjá þeirri staðreynd að tillögur að nýrri stjórnarskrá með nýju auðlindaákvæði voru lagðar í dóm þjóðarinnar þann 20. október 2012. Til stóð að sú þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram samhliða forsetakjöri vorið 2012 en þáverandi minnihluti (Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) tafði málið með málþófi líkt og lesa má um í endurminningabók Össurar Skarphéðinssonar sem svo vinsælt er að vitna í við ýmis tækifæri.
Auðlindagrein Stjórnlagaráðs kveður skýrt á um þjóðareign þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru í einkaeigu. Þar er tekið fram að stjórnvöld megi gefa leyfi til afnota eða hagnýtingar til hóflegs tíma í senn en einungis gegn fullu gjaldi. Slík leyfi muni aldrei leiða til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 kom fram mjög afgerandi stuðningur kjósenda við tillögur Stjórnlagaráðs og sér í lagi við nýtt auðlindaákvæði. Þar var enginn umtalsverður ágreiningur um orðalag eða útfærslu.
Á 50 árum hefur Alþingi ekki tekist að gera það sem þjóðinni tókst að gera á 4 árum, þ.e. að koma sér saman um nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá og reyndar heildarendurskoðun á stjórnarskránni sömuleiðis. Það eina sem þarf að gerast er að alþingismenn virði afgerandi niðurstöður lögmætrar þjóðaratkvæðagreiðslu og hætti að slá ryki í augu fólks. Einnig mættu þeir að skaðlausu hætta að æla yfir meðborgara sína í flugvélum og úr ræðustól Alþingis.
Þjóðaratkvæði samhliða kosningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)