Líklegir kjósendur Sjálfstæðisflokksins

Í dag, daginn fyrir kjördag, mælist Sjálfstæðisflokkurinn aftur með mestan stuðning stjórnmálaflokka. Svo virðist sem fjórðungur kjósenda eða rúmlega það sé enn og aftur reiðubúinn að styðja flokkinn sem átti fjóra ráðherra á liðnu kjörtímabili sem urðu uppvísir að spillingu og misbeitingu valds. Flokkinn sem setti nýtt heimsmet þegar bæði formaðurinn og varaformaðurinn skutu upp kollinum í Panamaskjölunum með félög í skattaskjólum. Flokkinn sem lækkaði skattbyrði, að vísu einungis hjá hinum tekjuhæstu og lækkaði í leiðinni auðlindagjöldin sem þjóðin fær í sinn hlut frá helstu stuðningsaðilum flokksins. Flokkinn sem sveik marg ítrekað loforð sitt um þjóðaratkvæðagreiðslu sem formaðurinn tók sérstaklega fram að þeir myndu standa við. Flokkinn sem fann upp hugtakið “pólitískur ómöguleiki” þegar þjóðaratkvæðagreiðslur virðast ekki henta hagsmunum innanbúðarmanna.

Ís-land

 

En hvaða fólk skyldi það vera sem lætur allt þetta sig engu varða og kýs samt flokkinn eins og ekkert annað sé í boði? Hér eru nokkrir hópar sem koma sterklega til greina, þeir eru líklega enn fleiri:

1) Innanbúðarmenn sem hafa bein áhrif á ákvarðanatökur.
2) Stóreignamenn.
3) Fólk með falda fjársjóði í skattaskjólum.
4) Fólk sem ætlar sér að njóta góðs af einkavæðingaráformum.
5) Starfsmenn útgerðarfyrirtækja.
6) Eldra fólk.

 

Eflaust er sama fólkið að einhverju leyti í fyrstu fjórum hópunum og er það skiljanlegt að þeir kjósi Sjálfstæðisflokkinn sem þannig er háttað um. Sá hópur er varla mjög fjölmennur en þó varasamur því að hagsmunir hans fara ekki endilega saman við hagmuni okkar flestra. Þeir sem eiga t.d. falda fjársjóði í skattaskjólum gætu beinlínis haft hag af því að hér yrði annað hrun. Þá eru þeir einnig tilbúnir með óskattlagt fé sem þeir gætu viljað nota til að kaupa arðbær fyrirtæki í eigu ríkisins, Landvirkjun, bankana og fl. Innanbúðarmenn fá upplýsingar sem almenningur hefur ekki aðgang að og á því auðveldara með að verjast aðsteðjandi áföllum líkt og gerðist í aðdraganda Hrunsins. Stóreignamenn láta sér það eflaust vel líka að skattar séu lækkaðir á þá en óttast að sama skapi aðra flokka sem hafa talað um aukna skattheimtu á þá tekjuhæstu.

 

Öllu stærri er sá hópur sem starfar fyrir útgerðina í landinu. Það eru sjómenn og fólk í sjávarplássum úti á landi sem skiljanlega hefur áhyggjur af því ef stórfelldar breytingar verða á högum fyrirtækjanna sem þau starfa fyrir. Fólk getur trúlega sætt sig við að útgerðarmenn fái hundruðir eða þúsundir milljóna í arð á meðan að lífsviðurværi Jóns og Gunnu er viðunnandi. Það er vel þekkt að þau boð hafi verið látin ganga að fólk eigi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn því að annars hljótist verra af. Augljóslega er meiri stuðningur við flokkinn úti á landi en í Reykjavík en eins og flestir vita getur hvert atkvæði vegið næstum tvöfallt í landsbyggðarkjördæmunum miðað við höfuðborgarsvæðið.

 

Síðasti hópurinn er sá fjölmennasti. Kannanir sýna að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þar óskoraðs stuðnings. Það er vissulega mjög stór hópur, rúm 31 þúsund manns eru 70 ára og eldri og ef miðað er við 65 ára og eldri eru þetta rúm 46 þúsund manns. Það er auðvitað allur gangur á því hversu vel fólk fylgist með stjórnmálum á efri árum. Sumir eru við góða andlega heilsu alveg fram á tíræðisaldur meðan margir aðrir eru ekki svo heppnir. Á Íslandi tíðkast það að senda fulltrúa sýslumannsembætta inn á dvalarheimili eldri borgara, hjúkrunarheimili og spítala. Þetta gerist daga og jafnvel vikur fyrir kjördag og veldur því að atkvæði þessa fólks skila sér í mun ríkara mæli en atkvæði þeirra sem yngri eru. Það er ekki einu sinni gert ráð fyrir því að þessir eldri borgarar þurfi að fylgjast með kappræðum fram að kjördegi enda ekki víst að þeir hafi trú á öðrum flokkum en þeim gömlu. Heyrst hefur að farið sé inn á vistarverur fólks sem man varla hvað það sjálft heitir og því boðið að merkja við á kjörseðli. Augljóslega skapar þetta rótgrónum flokkum óeðlilegt forskot.

 

Núna um helgina munum við vita hvort Ísland verður aðhlátursefni enn eina ferðina eða ekki. Erlendir fjölmiðlar hafa flykkst til landsins til að gera kosningunum skil. Munu kjósendur veita stjórnmálamönnum úr Panaskjölunum umboð til að fara áfram með stjórn landsins eða verða þeir settir á ís? Ætla kjósendur að leggja lóð sitt á aðgerðir í loftlagsmálum og náttúruvernd eða vilja þeir olíuleit og meiri stóriðju með skattaundanskotum? Vilja þeir aukinn jöfnuð eða er þeim sama þótt ríkasta prósent landsmanna verði enn ríkara og stingi af með peninga fram hjá skatti og samneyslu og kaupi sér þess í stað bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum? Ætla kjósendur að standa með nýju stjórnarskránni sem eykur aðhald og bætir lýðræðið eða láta stjórnmálaflokkunum eftir að ráða því sjálfir hvernig þeir eru kosnir eða hvernig þeir fara með vald sitt? Er það sanngjarnt að örvasa gamalt fólk hafi jafnvel úrslitavald um það hvernig hinir yngri munu hafa það eftir 20-30 ár? Það verður fróðlegt að sjá.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Almenningur vill spillingu. Frekari krufning á þjóðarsálinni er tímasóun

Sjálfskipaður fulltrúi áhugafólks um hið rétta og sanna (IP-tala skráð) 28.10.2016 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband