Vitlaust gefið?

Þrátt fyrir að umhverfismálin hafi að sumra mati ekki verið kosningamál í vor eru þau meira áberandi nú en nokkru sinni fyrr. Sífellt fleira fólk er farið að taka beinan þátt í umræðunni og því ferli sem liggur til grundvallar skipulags- og framkvæmdaáætlana samkvæmt lögum. Því miður er löggjöfin enn ófullkomin og býsna hliðholl framkvæmdaaðilum en þær leiðir sem standa almenningi til boða mjög takmarkaðar.

Þetta hefur komið vel í ljós í yfirstandandi matsferli um umhverfisáhrif fyrirhugaðra jarðvarmavirkjana OR í nágrenni Hveragerðis, en þar er það framkvæmdaraðilinn sjálfur sem hefur umsjón með matinu og getur þ.a.l. farið nokkuð frjálslega með túlkunaratriði og rannsóknarniðurstöður. Almenningi er að vísu heimilt að senda inn athugasemdir en þegar öllu er á botninn hvolft er fulltrúum viðkomandi sveitarfélags það í sjálfsvald sett hvort nokkuð mark sé á þeim tekið eða því sem Skipulagsstofn ályktar.

Þetta er með öðrum orðum leikur kattarins að músinni. Því miður er þetta ekkert nýtt. Alþjóðlegar rannsóknir dr. Cappelletti “Access to justice” (Stanfordháskóli 1978) sýndu fram á hvar mestu hindranirnar voru í baráttunni fyrir verndun umhverfisins. Löggjöfin var og er enn samin fyrir hagsmuni stórra fyrirtækja fremur en almenning. Þetta verður enn greinilegra þegar sameiginlegir hagsmunir koma til álita.

Framkvæmdaaðilar hafa tímann, fjármunina og jafnvel heilu sveitastjórnirnar með í sínu liði. Þeir undirrita vilyrði um orkusölu löngu áður en umhverfismatsferli er lokið og gefa almenningi langt nef þegar svo ber undir. Tökum nokkur nýleg dæmi:

Upplýsingafulltrúinn

Upplýsingafulltrúi OR hefur að undanförnu gefið fremur lítið fyrir mikinn fjölda innsendra athugasemda vegna fyrirhugaðra jarðvarmavirkjana. Í fréttum RÚV 6.11. talaði hann um þær "stöðluðu athugasemdir sem dreift var á Netinu" og í Fréttabl. 18.11. er haft eftir honum að 540 af 660 athugasemdum hafi "því miður" verið efnislega samhljóða.

Ekki veit ég hvort það standi í starfslýsingu upplýsingafulltrúans að honum beri að gera lítið úr skoðunum þeirra sem gera athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir OR. Hins vegar finnst mér skringileg sú túlkun hans að efnislega samhljóðandi skoðanir fólks séu minna virði vegna þess eins að þær séu samhljóðandi. Hér eru fram komnir 540 aðilar sem gera svipaðar athugasemdir við framkvæmdaáætlun 1 fyrirtækis samkvæmt lögbundnum rétti sínum. Hvers vegna skyldi vera gert lítið úr þeim?

Bæjarstjórinn

Ekki tók nú betra við þegar bæjarstjóri sveitarfélagsins Ölfuss fór að tjá sig um sama mál. Það var ekki að heyra að 660 innsendar athugasemdir skiptu hann nokkru máli. Í Fréttablaðinu 9.11. er eftir honum haft að sveitarfélagið gæti allt eins tekið ákvörðun í tráss við úrskurð Skipulagsstofnunar líkt þeir hafa áður stundað. Það hlýtur að vekja furðu að bæjarstjórinn skuli á þennan hátt ögra þeim sem ekki eru sáttir við framkvæmdirnar áður en að Skipulagsstofnun hefur komist að neinni niðurstöðu. Sérstaklega hlýtur nágrönnunum í Hveragerði að finnast yfirlýsingar hans vera kaldar kveðjur en þeim er umhugsað um skaðleg áhrif á möguleika bæjarins sem íbúðar- og ferðamannasvæðis, enda einungis í rúmlega 4 km fjarlægt frá fyrirhugaðri virkjun.

Aðstoðarframkvæmdastjórinn

Enn annar atvinnutalsmaður virkjanaframkvæmda, titlaður aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, hefur einnig verið iðinn við að gera lítið úr skoðunum “sumra” umhverfissinna í Mogganum að undanförnu. Í greinum sínum 3.11. og 13.11. fer hann nokkuð háðuglegum orðum um þá sem um þessi mál fjalla, þ.m.t. mig undirritaðan sem hann segir ályktunarglaðan.

Arðsöm fjárfesting?

Hið eilífa vandamál í umræðunni um virkjanir og náttúruvernd á Íslandi er skortur á tölulegum upplýsingum. Ekki liggja neinar tölur til grundvallar um verðmæti þeirrar náttúru sem verið er að strauja yfir. Að sama skapi er orkuverðið ekki gefið upp af svonefndum viðskiptahagsmunum.

Á heimasíðu Alcoa í Brasilíu (sjá hér) kom fram að orkuverðið á Íslandi til Alcoa væri rétt undir 1 kr./kWH. Samkvæmt ágætum nýlegum heimildum mínum mun það þó vera örlítið hærra núna, á bilinu 1kr./kWH til 1kr. og 10 aurar. Ef miðað væri við fulla afkastagetu Kárahnjúkavirkjunar allt árið um kring og 100% nýtingu þýddi þetta orkusölu á bilinu 6 til 6,6 milljarðar á ári. Er það ásættanleg ávöxtun af meira en 120 milljörðum?

Niðurlag

Markmið laga um umhverfismat áætlana er að tryggja að umhverfisáhrif stórframkvæmda séu metin áður en endanlegri afgreiðslu lýkur og að gefa almenningi færi á að koma athugasemdum á framfæri. Þessi löggjöf er ný af nálinni og afar ófullnægjandi. Þess vegna er það margendurtekin aðferðarfræði hjá framkvæmdaaðilum að stinga upplýsingum undir stól (Fréttabl. 11.11. bls. 6), stilla fræðimönnum upp við vegg (Fréttabl. 19.11. bls. 10) eða einfaldlega að halda staðreyndum frá almenningi í nafni viðskiptaleyndar. Því miður er þetta í algjörri mótsögn við tilgang laganna og til mikillar skammar fyrir atvinnuvirkjanasinna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Sæll, Sigurður og þakka þér fyrir áhugaverða grein.

Ég rakst á færslu frá þér á bloggsíðu Láru Hönnu áðan og kommentaði þar.

Látum ekki satt kyrrt liggja í þessu máli. 

Soffía Sigurðardóttir, 11.12.2007 kl. 15:57

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Flott grein og mjög málefnaleg, Sigurður. Af hverju ætli Mogginn sé ekki búinn að birta hana?

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.12.2007 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband