Spurt og svarað um olíuhreinsunarstöð

Ég spurði bæjarstjóra Vesturbyggðar á bloggsíðu hans nokkurra spurninga um olíuhreinsunarstöðina sem hann vill gjarnan sjá rísa í Ketildölum við Arnarfjörð:

  1. Hversu mikla raforku mun svona olíuhreinsunarstöð nota á ári?
  2. Nýtir hún einnig orku frá brennslu olíu eða jarðefna? Hversu mikla?
  3. Hversu mikla orku þarf að nota svo að þetta teljist vera stóriðja?
  4. Eru einhver mengandi spilliefni sem fara út í sjó eða andrúmsloftið?
  5. Hversu mikil losun koltvísýrings fylgir starfseminni árlega?
  6. Hefur verið gerð könnun meðal íbúa á Vestfjörðum um fyrirhugaða framkvæmd?
  7. Hafa Vestfirðingar verið spurðir hvort þeir hafi áhuga á að starfa í þessari stöð?
  8. Hvernig sér bæjarstjórinn að hægt verði á finna 500 manns til starfa í stöðinni?
  9. Ef stöðin verður að miklum hluta mönnuð útlendingum/innflytjendum, má jafnvel búast við því að Vesturbyggð verði fyrsta sveitastjórnarsvæðið á Íslandi þar sem Íslendingar eru í minnihluta. Sér bæjarstjórinn einhver vandamál samfara því eða er óþarfi að hafa af því áhyggjur?

Bæjarstjórinn svaraði nokkru síðar:

  1. 15 KW.
  2. Hún getur notað jarðolíu og eru það ca. 3 tonn fyrir vinnslu á hverjum 100 tonnum.
  3. Olíuhreinsistöð telst hvorki til stóriðju né orkufreks iðnaðar.  Orkunotkun er ekki í nokkrum tengslum við það hvort eitthvað teljist stóriðja eða ekki, en orkufrekur iðnaður er m.a. skilgreindur sem iðnaður þar sem orkunotkun er hátt hlutfall af framleiðsluverðmæti  - t.d. miðað við 15% eða meira.
    Stóriðja er líka skilgreind sem iðnaður þar sem framleidd eru hráefni og hálfunnin vara, svo sem járn- og stáliðnaður.  Það er ekki hægt að segja hest vera naut eða naut hest þótt bæði hafa fjóra fætur....
  4. Nei.
  5. 400 - 560 þús. Tonn.
  6. Ég vísa til Capasent Gallup könnunar sem gerð var í apríl sl. skv. meðf. Það er of langur texti að setja alla könnunina hér inn, en smá sýnishorn. Sjálfsagt er hægt að sækja þetta hjá RUV. [Sé þeim sleppt, sem hvorki eru hlynnt né andvíg, eru 62% hlynnt og 38% andvíg á landsvísu (kvöldfréttir Sjónvarpsins 29.4.2007] Í Vesturbyggð hefur farið fram óformleg könnun og eru u.þ.b 90% allra íbúa í Vesturbyggð hlynntir þessari framkvæmd.
  7. Já og margir bíða spenntir.
  8. Ætli það verði ekki svipaða og hvernig það gekk að leysa mannþörfina austur á Reyðarfirði, en á sínum tíma voru margar sem sögðu að það yrði ekki mögulegt.
  9. Ég tel óþarft að hafa áhyggjur af þessu máli. Nú þegar er yfir 16% íbúa á Vestfjörðum af erlendum uppruna. Það má segja að það sé þeim að þakka að íbúatalan er ekki lægri hér. Þessir útlendingar eru langflestir alveg afbragðs fólk og mjög góður vinnukraftur. Við höfum góða reynslu af þeim og kvíðum því ekki að fá fleiri.

Ég bætti við nokkrum athugasemdum og fleiri spurningum sem vöknuðu í framhaldi:

  1. Er þetta ekki misritun? Venjuleg fjölskylda getur hæglega notað 15 kW þegar mikið gengur á.
  2. Þýðir það ekki að orkan kemur að miklu leyti úr olíunni? Þegar rætt er um hvort að iðnaður sé orkufrekur hlýtur að þurfa að skoða heildarorkunotkunina.
  3. Á bb.is sá ég þetta, líklega ættað frá visir.is. Þar er því haldið fram að olíuhreinsunarstöð með öllu sé stóriðja, hvernig sem menn túlki skilgreiningar úr orðabókum um orkuþörf. Þeir eru reyndar ekki með neinar samlíkingar við ferfætlinga.
  4. Ef 3 tonnum af olíu er brennt fyrir hver 100 tonn sem hreinsuð eru, hljóta að verða til mengandi efni í umtalsverðu magni. Hvað er annars reiknað með að hreinsa mörg tonn af hráolíu á hverjum sólarhring?
  5. Með öðrum orðum er þetta 11-15% af heildarkvóta Íslands á tímabilinu 2008-2012. Vandamálið er að af litlu er að taka. Álverum fer fjölgandi, almenningur kaupir sífellt stærri ökutæki og ferðast meira en nokkru sinni fyrr auk þess sem að ferðamannastraumur til landsins eykst. Hvernig hyggjast forsvarsmenn ÍH leysa þetta vandamál?
  6. Það væri ekki úr vegi að kanna viðhorf fólks á nýju ári. Persónulega finnst mér að þessi 38% eigi betra skilið.
  7. Ég bíð líka spenntur. Ef af þessu verður sæki ég um starf til að sjá það með eigin augum hversu dásamlegur þessi vinnustaður verður. Vonandi er ég ekki kominn á svartan lista hjá Vesturbyggð. Vissara að setjast að á Tálknafirði.
  8. Líklega hafðist það að lokum á Reyðarfirði. Það tók þá reyndar langan tíma og kostaði fleiri heilsíðuauglýsingar en ég hef tölu á. Þeir aka að vísu með starfsfólk úr og í vinnu til Stöðvarfjarðar, Fáskrúðsfjarðar, Eskifjarðar, Norðfjarðar og Egilsstaða.
  9. Mér finnst sérlega ánægjulegt að heyra hvað bæjarstjórinn er jákvæður í garð innflytjenda. Sjálfur átti ég mjög skemmtilegt spjall við nokkra hressa Pólverja í heita pottinum á Tálknafirði í fyrrasumar og var hissa að heyra hversu mörg þau eru þar á bæ. Það hlýtur samt að vera talsvert átak að taka við stórum hópi fólks og reyna með öllum tiltækum ráðum að fá þau til að aðlagast tungumáli og menningu.
Nú er bara að bíða og sjá hvort að frekari upplýsingar berist. Það sem mig langar mest að vita er hveru mikið af orkuþörfinni kemur úr olíunni sjálfri. Því hefur verið haldið fram að þetta sé ekki orkufrekur iðnaður en það er alls ekki nóg að skoða einungis raforkuþörf í því sambandi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég vil gera athugasemd við 8. lið hjá þér í viðbótarathugasemd þinni, þar sem hún stendur mér nærri.

Það gekk EKKI erfiðlega að manna álverið á Reyðarfirði þrátt fyrir óskhyggju þína, nema etv. í rafiðnaðargeiranum vegna þenslu á vinnumarkaðinum. Mörgum umsækjendum var vísað frá vegna einhverskonar "síjunar" eftir 100 spurninga krossapróf. Reyndar var mörgu hæfu starfsfólki vísað frá sem fáir botna í. Um eða yfir 3000 umsóknir bárust um 400 störf.

Og er það neikvætt að Alcoa skuli veita starfsfólki sínu þá þjónustu að keyra það í og úr vinnu? Gerir ekki Alcan í Straumsvík og Grundartangi ekki það sama?

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.1.2008 kl. 22:53

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Gunnar, þú mátt ekki taka öllu sem ég segi sem eintómri neikvæðni. Ég hef aldrei óskað þess að illa gangi með þetta álver ykkar fyrst það var byggt á annað borð. Ég dró þá ályktun að illa hefði gengið að manna allar stöðurnar fyrst Alcoa þurfti að auglýsa eins mikið og raun bar vitni. Þú ferð þó varla að neita því að auglýsingarnar voru bæði margar og stórar?

Varðandi aksturinn þá er það tvímælalaust mjög jákvætt að fólki sé ekið úr og í vinnu. Hins vegar eru aðstæður mun erfiðari í Vesturbyggð og gæti reynst þrautin þyngri að aka þar yfir heiðar í hvaða veðri sem er. Hins vegar máttu ekki skilja það sem svo að ég sé á móti jarðgöngum á Vestfjörðum!

P.S. Varst þú einn af þessum 3000 sem sóttir um? 

Sigurður Hrellir, 10.1.2008 kl. 23:36

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, ég sótti um dagvinnu hjá þeim, hugnaðist ekki vaktavinna en mér var hafnað  Það er alveg rétt að þeir auglýstu grimmt

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.1.2008 kl. 18:49

4 identicon

Ég heyrði í sveitarstjóranum í Vesturbyggð í speglinum í kvöld og hann var síður en svo sannfærandi þótti mér. 

Hvers vegna hrinda menn ekki í framkvæmd áætlunum um bættar samgöngur, menntun og annað sem geta bætt lífskjör og líðan fólks þar vestra. Ég var fyrir vestan þegar ég var um tvítugt bæði á sjó og á landi og þótti það yndislegt bæði fólkið og fegurð landsins en hafði ekki komið þangað í langan tíma fyrr en í sumar. Ég ók vestfjarðahringinn með fjölskyldu minni (konu og 3 börnum) og fannst það frábært, virkilega gaman að koma þarna og njóta náttúrnnar og gestrisninnar aftur.  Það er mín einlæga von að vestfirðingar beri gæfu til að rísa upp á afturlappirnar og slá þetta út af borðinu.  Hlífið þessu frábæra svæði (og öðrum) fyrir ágangi hnignandi olíurisa.

Baráttukveðja, Jón Gunnar Kristinsson

Jón Gunnar Kristinsson (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 01:37

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Jón Gunnar, ég hlustaði á þetta viðtal eins og þú og hef svipaða sögu að segja. Hann sagði m.a. "Það er enginn sóðaskapur af þessu og það er lítil sjónmengun ... þetta gæti bara fallið ágætlega inn í landslagið." Trúir þessu nokkur maður? Það er því miður einhver örvæntingarfullur tónn í röksemdum bæjarstjórans og þó svo að hann reyni hvað hann getur að draga upp fagra mynd af olíuhreinsunarstöð í Ketildölum þá býst ég ekki við að mjög margir kyngi útskýringum hans hugsunarlaust.

Það er alls ekki hægt að horfa fram hjá þeirri hættu sem svona iðnaður hefur í för með sér og er listinn yfir stór mengunarslys af völdum olíuflutninga því miður langur; jafnvel bara á síðasta ári urðu alvarleg slys bæði í Kóreu og á Svartahafinu. Með tilliti til veðurs og hafstrauma er svæðið við Vestfirðina hreint ekki árennilegt. Auk þess er ekki alveg sambærilegt að bera saman skipaumferð í 100 sjómílna lágmarksfjarlægð frá landi og umferð um Arnarfjörð auk löndunar og lestunar.

Svo var einhverra hluta vegna ekkert minnst á útblástur koltvísýrings og það vandamál sem hann hefur í för með sér. Losunin yrði a.a. 15% af heildarkvóta Íslands fyrir árin 2008-2012 en búast má við enn hærra hlutfalli eftir það. Miðað við það sem bæjarstjórinn segir gæti stöðin tekið til starfa í fyrsta lagi árið 2013. Hvar ætla þeir sér að finna kvóta fyrir þennan koltvísýring?

Með baráttukveðju sömuleiðis. 

Sigurður Hrellir, 15.1.2008 kl. 14:02

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það yrði nú lítið um framkvæmdir ef viðkvæðið væri alltaf að það geti orðið slys. Þegar inn í firðina er komið þá er lítil hætta á ferðum, þó alltaf geti orðið vélarbilun hvar sem er.

Jón Gunnar talar um hrinda í framkvæmd áætlunum um bættar samgöngur, menntun og annað sem geta bætt lífskjör og líðan fólks þar vestra. Þegar ráðist er í slíkar framkvæmdir þá skoða menn gjarnan arðsemi slíkra framkvæmda og oft eru lífvænleg svæði látin í forgang hvað þetta varðar. T.d. hefðu Fáskrúðsfjarðargöng að öllum líkindum ekki komið nærri strax hér eystra ef ekki hefði verið fyrir álversframkvæmdirnar. Auðvitað eiga allir landsmenn að vera í sómasamlegu vegasambandi en betra er að tryggja og treysta undirstöður atvinnulífs og mannlífs, þá fylgja ýmsar hliðarframkvæmdir í kjölfarið. Auðvitað mun verða sjónmengun af svona olíuhreinsistöð. Það er sjónmengun af álverinu hérna á Reyðarfirði, en yfirgnævandi meirihluti íbúanna kaus sér þetta og sjá ekki eftir því. Þetta er einfaldlega spurning um hvað íbúarnir vilja á svæðinu. Vilja þeir búa á afskektu fámennu svæði með litla þjónustu, eða fjölmennara með meiri þjónustu. Það eru kostir og gallar við flest, en þetta er fyrst og fremst spurning hvað íbúarnir á svæðinu vilja sjálfir. Ég styð þá heilshugar ef þeir vilja olíuhreinsunarstöð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.1.2008 kl. 10:26

7 Smámynd: Sigurður Hrellir

Gunnar, hlustaðir þú á Spegilinn í gær? Þar var viðtal við Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing og kom upp úr dúrnum að sú fagra mynd sem aðstandendur olíuhreinsunarstöðvarinnar og bæjarstjórinn í Vesturbyggð hafa dregið upp er hreint ekki sannleikanum samkvæmt. T.d. mun orkuþörfin vera svipuð og hjá álverinu ykkar á Reyðarfirði þó svo að einungis 2,5% orkunnar sé raforka. Útblástur koltvísýrings verður helmingi meiri en bæjarstjórinn hefur látið hafa eftir sér og ekki hef ég heyrt þá félaga nefna gífurlegt magn af aukaefnum sem nauðsynleg eru í framleiðsluferlinu.

Því miður er verið að vekja falskar vonir hjá fólki fyrir vestan og að hafa ekki öll spilin uppi á borðinu gerir þessa framkvæmdamenn ótrúverðuga, líka með tilliti til fjármögnunar.

Sigurður Hrellir, 17.1.2008 kl. 14:44

8 Smámynd: Benedikt V. Warén

Tvær spurningar til Sigurðar Hr.

1. Hvaða tryggingu hefur þú fyrir því að nefndur Stefán sé að segja satt um raforkuþörfina?

2. Inn á hvaða landssvæði koma flest tonnin af olíu? 

Benedikt V. Warén, 18.1.2008 kl. 01:56

9 Smámynd: Sigurður Hrellir

Benedikt, stóra vandamálið í umræðunni um þessa olíuhreinsunarstöð er hvað upplýsingar eru misvísandi. Þó virðast allir vera sammála um að raforkuþörfin sem þú nefnir sé 15 MW. Hins vegar bendir Stefán á að það sé ekki nema 2,5% af allri orkuþörf stöðvarinnar þar sem að olíubruni skapar langstærstan hluta af orkunni (og því miður gífurlegan útblástur koltvísýrings í leiðinni). Þetta virðast framkvæmdaaðilar og Ragnar bæjarstjóri vera tregir til að tala um.

Stefán þekki ég ekki persónulega en hef enga ástæðu til að ætla annað en að hann skrifi hlutlaust og fræðilega um þessi mál líkt og flestir sérfræðingar á hvaða sviði sem er.  

Spurningu 2 er ég ekki viss um að ég skilji rétt. Ef þú átt við hvar flestum tonnum af olíu er dælt í land hlýtur það að eiga sér stað hér á SV-horninu. Þar er líka notkunin langsamlega mest. Ef þú ert að tala um skipaumferð í nágrenni við landið þá hef ég fyrir satt að um 250 stór olíuflutningaskip sigli hér hjá á hverju ári, ýmist fyrir norðan eða sunnan landið. Þau þurfa þó að virða lágmarksfjarlægð frá landi sem er um 100 sjómílur.

Sigurður Hrellir, 18.1.2008 kl. 10:38

10 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég hafði upp á grein Stefáns Gíslasonar frá því í fyrravor á strandir.is - þar útskýrir hann hvernig olíuhreinsunarstöð virkar og kemur fram með ýmsar fróðlegar upplýsingar.

Sigurður Hrellir, 18.1.2008 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband