Fleiri góðar hugmyndir fyrir Vesturbyggð

Það voru margir sem litu á það sem fjarstæðukennda hugmynd að olíuhreinsistöð risi á Vestfjörðum. Líklega vöknuðu sumir þeirra upp við vondan draum þegar Ragnar Jörundsson bæjarstjóri Vesturbyggðar lýsti því yfir að 99,9% öruggt væri að olíuhreinsistöðin risi. En nú er sem sagt komið að næsta skrefi - umhverfismatinu.

Þá væri ekki úr vegi að skoða hvort að umrædd olíuhreinsistöð gangi fyrir rafmagni eða olíu. Því hefur verið haldið fram af Ragnari og aðstandendum fyrirbærisins að ekki sé um stóriðju að ræða því að orkuþörfin sé einungis 15 MW, sjá hér. Hins vegar hafa þeir minna talað um að langstærstur hluti orkunnar fengist með brennslu á olíu því að í raun er orkuþörfin svipuð og hjá hinu nýja álveri í Reyðarfirði, eða um 500 MW. Afleiðing þess yrði m.a. gríðarleg aukning á útblæstri CO2, eða um þriðjungsaukning af heildarútblæstri Íslands. Nánar má kynna sér þetta ferli hér

Það er vitaskuld verið að afvegaleiða umræðuna með því að segja að 8 milljón tonna olíuhreinsistöð sé ekki stóriðja. Einnig er Ólafur Egilsson að að bulla þegar hann líkir útliti stöðvarinnar við Pompidou safnið í París og sendir út þau skilaboð að um fegrunarátak sé að ræða í Arnarfirðinum. Það er ekki sæmandi fyrrum sendiherra og fulltrúa landsins í fjarlægum heimsálfum að bjóða upp á svoleiðis málflutning.

Fyrir um 10 árum síðan var ákvörðunarvald í skipulags- og framkvæmdamálum fært frá ríki til sveitarfélaga. Það má þakka þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins fyrir þær breytingar. Þess vegna geta menn eins og Samfylkingarmaðurinn Ragnar Jörundsson viðstöðulítið leyft umboðsmönnum rússneskra olíufyrirtækja að reisa mengandi stórverksmiðjur í íslenskri náttúruparadís. Hins vegar er svo sem ekki víst að rússarnir vilji fleiri stöðvar að sinni, erfitt er um slíkt að spá, en samkvæmt bæjarstjóranum mun einungis 0,1% líkur vera á því að hætt verði við framkvæmdina.

Ragnar mun eftir sem áður hrinda mis-góðum hugmyndum í framkvæmd og ekki láta mótbárur náttúruunnenda og fólks úr ferðamannaiðnaði stöðva sig. Mér dettur t.d. í hug að opna mætti heimsins stærstu sorphauga í utanverðum Ketildölum þar sem fáir búa og leysa sorpvandræði Ítala og jafnvel alls Evrópusambandsins. Berlusconi myndi örugglega borga vel fyrir slíka þjónustu. Sorphaugarnir myndu eflaust líkjast einhverri frægri byggingu erlendis og svo mætti jú framleiða metangas fyrir alla bíla og báta í Vesturbyggð. Hér væri því sterkur umhverfislegur undirtónn og á sama tíma verið að hugsa hnattrænt, ekki satt?

 


mbl.is Olíuhreinsistöð: Umhverfismat er næsta skref
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Það þarf mikið hugmyndaflug til að setja sig í stöðu þessa bæjarstjóra ... ef hann telur að gæfa fólks og landhluta fáist með að setja niður rússneska olíuhreinsunarstöð heima hjá sér... er stærsta spurningin.. er maðurinn á réttri hillu í lífinu..

Menn sem mæla heiminn út frá sjónarhorni augabliksins eru hættulegir... en þeir hverfa og það verða börnin þeirra og barnabörnin sem sitja uppi með mistök og skammsýni forfeðranna.

Jón Ingi Cæsarsson, 7.8.2008 kl. 10:24

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Minni á myndbandið mitt í þessu samhengi með hinni fögru framtíðarsýn Vestfjarða.

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.8.2008 kl. 11:58

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Rétt áðan var hinn spotzki fréttamaður RÚV, Gísli Einarsson að flytja fréttir af því að fyrirhuguð olíuhreisistöð laði nú þegar að ferðamenn í Arnarfirði. Ekki er mér fullljóst hvort að Gísli var að grínast eins og venjulega en mér var ekki skemmt.

Sigurður Hrellir, 7.8.2008 kl. 13:19

4 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

ótrúlegt, hélt alltaf að þetta væri grín. Það er ekki í lagi með þessa menn.

Auðvitað flykjast menn í Arnarfjörðinn núna til að sjá hvað eyðileggst. Það að eyðileggja náttúruna eða sökkva henni setur flesta íslendinga í hlaupaskóna og þeir flykjast af stað til að skoða....á síðustu stundu.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 7.8.2008 kl. 14:21

5 identicon

Ég geri ráð fyrir að Lára Hanna sé íbúi á Vestfjörðum?

kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 12:14

6 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ef ég skil sneiðina frá Hjálmari Boga rétt þá er það að hans mati einkamál Vestfirðinga hvort þeir byggi olíuhreinsistöð eða ekki. Vissulega er búið að færa sveitarstjórum og stjórnum gríðarleg völd og erfitt gæti reynst að stöðva þessa framkvæmd ef fjármagn fæst til verksins. Hins vegar er málfrelsi og skoðanafrelsi víðast hvar á landinu þó svo að Hjálmar Bogi og sumir skoðanabræður hans reyni að þagga niður í mótbárum náttúruverndarsinna og andstæðingum frekari stóriðju. Ég leyfi mér að vitna í Hjálmar Boga á bloggsíðu Ómars Ragnarssonar frá því í gær:

"Við Sigurð Hrelli vil ég segja, slepptu því að setja inn athugasemdir sem til þess eru fallnar að grafa undan málinu og ég er ekki miðaldra karlmaður gargandi á stóriðju. Þín innlegg í umræðuna eru tilgangslaus með öllu og í raun afar ómerkilegur málflutningur."

og 

"Innlegg Sigurðar eru ekki skoðanir heldur tilgangslausar athugasemdir sem ýta undir neikvæðni og marklaust hjal. Ég bið Sigurð ekki um að vitna í mína atvinnu heldur skipa honum að hætta því strax en starf mitt ekkert að gera með framkvæmdir við Bakka. Því var þetta innlegg hans afar dapurlegt og honum til verulegrar minnkunar."

Sigurður Hrellir, 8.8.2008 kl. 15:00

7 identicon

Það sem ég hafði í huga með mínu innleggi var að vita hvar Lára þessi væri búsett? Annað var það nú ekki. Það að vilja skilja einhvern sneið frá mér dæmir sig sjálft og staðfestir það sem ég hef áður sagt við og um Sigurð Hrelli.

kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 15:25

8 Smámynd: Sigurður Hrellir

Sigurður Hrellir, 8.8.2008 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband