Tilraunastarfsemi á SV-horninu?

Hvernig væri að gera þá kröfu að hreinsunarbúnaður verði settur á þær virkjanir sem búið er að reisa nú þegar? Eru íbúar á höfuðborgarsvæðinu sáttir við að vera notaðir sem tilraunadýr? Hveru mikið magn af brennistinsvetni má dæla yfir börn og fullorðna áður en það fer að hafa neikvæð áhrif á heilsuna? Hvað með lyktina, er fólk sátt við að hafa hana í nösunum?

Í framhaldi af því mætti svo huga að því að dempa niður hljóðið úr Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun sem heyrist í margra kílómetra fjarlægð og spillir upplifun ferðamanna þegar vel viðrar vel til útiveru. Er ekki kominn tími til að gerðar séu kröfur til verkfræðinga og framkvæmdaaðila?

Verst að stjórnvöld eru búin að auglýsa "lowest energy prices" og því verður að spara allt sem heitir mengunarvarnir og tillitssemi við umhverfið.

 - Munið að senda inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar fyrir 9. nóv. - 

 www.hengill.nu

 


mbl.is Meta þarf hvort setja eigi hreinsibúnað á virkjanir á Hellisheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einmitt, hættum að fara í sturtu eða sund á höfuðborgarsvæðinu, hver veit nema lyktin sé hættuleg. Og glataðir þessir verkfræðingar að geta ekki gert allt eins og í teiknimynd. Gerum nú kröfur um götuljós án ljósastaura, kröfur um vatn án leiðslna, og helst bara kröfur um tíma og frið til alls kyns kröfugerða á alla sem eru að gera eitthvað.

Fossvoxari (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 15:16

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það er ekki við umhverfissinna að sakast þó að álver og annar orkufrekur iðnaður hreiðri um sig víða um land. Landsvirkjun hefur hegðað sér eins og ríki í ríkinu og menn þar á bæ kært sig kollótta um eignarhald jarða, skoðanir almennings og svoleiðis sérvisku. Nú ætlar OR að fara svipaða leið og gefur bæði Reykvíkingum og kjörnum fulltrúum þeirra langt nef.

Sigurður Hrellir, 31.10.2007 kl. 16:09

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Guðjón, það fyrirfinnst vart ósamstilltari hópur en sá sem þú nefnir einu orði "umhverfissinna". Ég hvorki get né vil svara fyrir eitthvað innantómt froðusnakk sem þú hefur þurft að hlusta á í gegnum tíðina og ætla heldur ekki að bæta bölið með að benda á eitthvað annað þaðan af verra.

Það er rétt að margir hafa bundið töluverðar væntingar við jarðhitavirkjanir og álitið þær betri kost en vatnsaflsvirkjanirnar. Hins vegar er hér farið af stað með miklu offorsi  vegna þeirrar miklu álversvæðingar sem á sér stað og að mínu mati án forsjár. Nýtingin á orkunni er alls ekki ásættanleg og sjálfbærni er ekki höfð að leiðarljósi. Svæðið verður líklega þurrausið á 30 árum.

Vegna þess að settur hefur verið mjög svo knappur tímarammi á að gera athugasemdir við fyrirhugaðar virkjanir á Hellisheiði og Hengilsvæðinu ætla ég að einbeita mér að því máli og vil síður kasta mér út í rökræður um hinar ýmsu skoðanir umhverfissinnaðs fólks. Ef þú ert sá umhverfissinni sem þú vilt vera láta skaltu sjálfur kynna þér frummatsskýrslurnar og senda inn athugasemdir fyrir þann 9. þ.m.

Með góðri kveðju, 

Sigurður Hrellir, 1.11.2007 kl. 01:05

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir


Rányrkja á Hellisheiði

Skrifað af Framtíðarlandinu 30. okt. 07

Í tilefni af frummatsskýrslu um virkjanir OR á Hellisheiði vill Framtíðarlandið vekja máls á eftirfarandi:

Það er sláandi að í frummatsskýrslunni kemur fram að orkuvinnslan sé „ágeng“, eins og það er kallað. Á mannamáli heitir það að vinnslan stendur ekki undir sér til lengri tíma, heldur mun hitastig og vatnsborð fara stöðugt lækkandi. Í Bitruvirkjun er enda gert ráð fyrir að bora fyrst 27 vinnsluholur en síðan nýja holu á um það bil 3 ára fresti til að mæta minnkandi framleiðslugetu. Sambærileg vinnsla er einnig fyrirhuguð í Hverahlíðarvirkjun. Ef auðlindin sem um ræðir væri fiskur í sjónum væri þetta kallað rányrkja.

Þó er í skýrslunum staðhæft að um sjálfbæra vinnslu sé að ræða. Því er haldið fram að kynslóðir framtíðarinnar muni hafa aðgang að þróaðri tækni sem geri þeim kleift að sækja sjálfar orku í iður jarðar á þessum svæðum, þó svo að þessi tiltekna nýting éti sjálfa sig upp á einhverjum áratugum.

Á öðrum vettvangi hefur komið fram að þessi nýtingaraðferð – að nýta jarðvarma eingöngu til raforkuvinnslu – þýðir að um 88% orkunnar sem kemur upp er hent í formi varma út í umhverfið. Fari svo fram sem heldur verður Íslendingum æ erfiðara að rökstyðja að orkuvinnsla þeirra sé „sjálfbær“, en gagnrýnisraddir heyrast nú æ oftar um að þetta hugtak sé gróflega misnotað hér á landi, einkum í kynningarskini gagnvart hugsanlegum erlendum orkukaupendum.

Það má draga í efa að það sé almennt viðurkennd staðreynd í huga almennings að fyrirhugað sé að nýta jarðhitasvæði landsins þannig að mokað sé upp úr þeim eins og námu í 3-5 áratugi, 88% auðlindarinnar verði hent vegna aðstæðna, og að afgangnum sé ráðstafað í orkusölu til fáeinna álvera.

Góð ímynd Íslands er auðlind, en sé hún notuð án innistæðu verður hún fljótt uppurin, rétt eins og borholurnar á Hellisheiði.

Frummatsskýrslunar eru til skoðunar hér:
http://www.skipulag.is/focal/webguard.nsf/key2/frummatsskyrsla.html

Af vef Framtíðarlandsins: http://framtidarlandid.is/ranyrkja

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.11.2007 kl. 12:10

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir


Ekki stóð nú til að fara að munnhöggvast við fólk sem skilur ekki kjarnann í þessari umræðu og talar niður til fólks eins og illa innrættir stjórnmálamenn.  Ég er nú svo fávís að ég skil ekki hvað olía kemur texta Framtíðarlandsins við.
Hér eru jarðvarmavirkjanir af ólíkum gerðum, tilgangurinn með og þörfin á þeim, og náttúra Íslands til umræðu.

Guðjón hlýtur að vita að hugtakið "hrein ímynd Íslands" varð til mörgum áratugum áður en Framtíðarlandið var stofnað.  Ef það er falskur áróður þá er við allt aðra aðila að sakast, svo sem flugfélög, ferðaskrifstofur, Ferðamálaráð/Ferðamálastofu, fjölda ráðuneyta eins og t.d. landbúnaðarráðuneytið sem reynt hefur að markaðssetja íslenskt lambakjöt erlendis í ljósi "hreinnar ímyndar Íslands" og svo mætti ansi lengi telja.

Skítkast og ómálefnaleg umræða þar sem innihald og orð eru tekin úr samhengi skilar engum árangri.
Ég tek ekki þátt í slíkum farsa.

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.11.2007 kl. 15:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband