EKKI EFTIR NEINU AÐ BÍÐA

Umræðan um Ísland og ES hefur því miður verið á lágu plani. Fólk virðist skiptast í tvær jafn stórar andstæðar fylkingar og margir hafa myndað sér skoðun á málinu án þess að kostir og gallar hafi verið skoðaðir vel og vandlega. Stjórnmálamenn hafa því miður ekki heldur haft þroska til að ræða þetta af mikilli skynsemi og bera því ábyrgð með framtaksleysi sínu og hugleysi. Á stundum er eins og um einhverns konar trúarbrögð sé að ræða því að flokkarnir hafa ákveðið stefnuna, punktur og basta. Ef betur er að gáð eru hins vegar ólíkar skoðanir innan flokkanna þó svo að reynt sé að láta eins og allir tali einum rómi.

Tvö einstök atriði hafa helst verið í brennipunkti þegar ES-aðild kemur til tals. Annað snýst um yfirráð yfir auðlindum okkar í hafinu umhverfis landið og hitt snýst um að taka upp Evru í stað krónu. Það eru hins vegar tugir ef ekki hundruðir annara atriða sem þyrfti að skoða vandlega í undirbúningsferli eða aðildarviðræðum og er í raun skelfilegt að umræðan hafi ekki komist úr startholunum enn. Sem dæmi má nefna áhrifaleysi okkar á þá löggjöf sem þing Evrópusambandsins ákveður en við erum bundin af samkvæmt EES-samningnum. Í ofanálag hafa íslenskir þegnar, félög og fyrirtæki ekki beinan aðgang að dómskerfi EFTA ef þeir telja á sér brotið samkvæmt Evrópulögum, ólíkt þegnum ES-ríkja. Þannig eru þegnar landsins í raun algjörlega annars flokks hvað varðar lög og reglur og í mun erfiðari aðstöðu að ná fram rétti sínum þegar yfirvöld gerast brotleg.

Að mínu mati þarf að koma þessari umræðu af stað hér og nú og gera ráð fyrir að framtíð Íslands innan ES sé raunhæfur möguleiki. Til að byrja með mætti binda gengi krónunar við Evruna líkt og gert hefur verið í Danmörku, en með því móti væri allavega hægt að snúa við ef í ljós kæmi að sú ráðstöfun skapaði erfiðari vandamál en þau sem nú er verið að glíma við. Hvað fiskveiðistjórnun varðar þá kæmi það væntanlega ekki í ljós fyrr en í aðildarviðræðum hvort að Íslendingar fengju að halda fullum yfirráðum yfir lögsögunni.

Ef við höldum áfram að bíða og sjá til þá mun okkur á endanum vera ýtt út í djúpu laugina og þá gæti samningsstaða Íslands orðið harla veik. Vinnum þetta mál af yfirvegun og skynsemi.


mbl.is Aðildarviðræður að ESB gætu tekið hálft ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

Íslenskir þegnar og félög eiga mjög greiðan og einfaldan aðgang að dómstólum EFTA.

Hitt skal játa að þeir sem sérstaklega eru ráðnir til að leiðbeina okkur og starfa hjá íslenskum stjórnvöldum, hjálpa okkur ekki við að finna réttu leiðirnar og eru vendilega faldir í kerfinu. En staðreyndin er  það má jafnvel senda inn kvörtun á Íslensku !

Tilskipanir Evrópusambandsins hafa fyrir tilstilli EFTA samningsins stöðu sérreglna sem ryðja burt Íslenskum lögum sem stangast á við þær.

Þetta gildir um allt nema landbúnað og sjávarútveg. Jafnvel Össur Skarphéðinsson er að átta sig á þessu og er byrjaður að vinna í málinu í rétta átt.

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 13.10.2007 kl. 13:11

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það er rétt sem Þorsteinn segir að við getum lagt fram kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel.

Það breytir ekki því sem ég átti við, að við höfum EKKI beinan aðgang að EFTA dómstólnum í Luxembourg og verðum að treysta á að Eftirlitsstofnunin taki að sér málið í okkar nafni. Það er hins vegar alls ekki sjálfgefið. T.d. var lögð fram kvörtun vegna þess að Siv Friðleifsdóttir þáverandi umhverfisráðherra sneri við niðurstöðu Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun. Eftirlitsstofnunin komst að þeirri niðurstöðu að þetta bryti í bága við lög EES, en samt sem áður hafnaði hún því að taka málið upp fyrir dómstólnum. Skrýtið???

Ef Ísland væri með í ES hefði kvörtunin komið beint fyrir dómstól ES í Luxembourg og þá hefði niðurstaðan hugsanlega orðið önnur.

Sigurður Hrellir, 13.10.2007 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband