Ræðum tillögurnar efnislega

Stjórnarskrárfélagið boðar til spennandi fundar í Iðnó n.k. þriðjudagskvöld 13. mars:

"Kvótakerfið og nýja stjórnarskráin - Hvaða áhrif hefði ný stjórnarskrá á fiskveiðistjórnunarkerfið?"

Allir velkomnir.

 

Þórir Baldursson tónlistarmaður leikur stjórnlög af fingrum fram á Hammond-orgel meðan fundargestir koma sér fyrir.

Meðal frummælenda og þátttakenda í pallborðsumræðum:

 

  • Friðrik Friðriksson, lögfræðingur LÍÚ

  • Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður

  • Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur

  • Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður

 

Fundarstjóri: Katrín Oddsdóttir, lögmaður.

Í brennidepli er sem sagt fiskveiðistjórnunarkerfið eins og það gæti litið út, yrði frumvarp að endurskoðaðri stjórnarskrá að veruleika.

Til grundvallar yfirskrift fundarins er 34. gr. frumvarps Stjórnlagaráðs að endurskoðaðri stjórnarskrá:

 

34. gr. Náttúruauðlindir

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Allt frumvarpið með skýringum má sækja hér.


mbl.is Störfum stjórnlagaráðs lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Já það hefði átt að byrja á að setja niður hugmyndir á blað og ræða þær svo. Tökum dæmi þessa 34. grein.  Í henni blanda menn saman hlunnindum og jarphita og námuvinnslu og fella þetta allt undir merkingarlaust slagorð sjálfbærrar þróunar.  En hvernig er hægt að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við t.d vinnslu á kalkþörungum á bortni Arnarfjarðar eða kísils á botni Mývatns?  Og afhverju nota þau orðið þróun en ekki nýting?  Auðvitað átti að byrja á að skilgreina hvað fellur undir hugtakið Auðlind og sníða svo greinina utanum þá skilgreiningu.  Persónulega tel ég greinarmun á hlunnindum eins og fiskveiðum annars vegar og jarðhitanýtingu eða borun eftir köldu vatni eða olíu hins vegar. Hið fyrra fellur ekki undir skilgreiningu á auðlindarhugtakinu og er því ekki hægt að ríkisvæða eins og ætlunin er að gera með þessu ákvæði.  Orðið þjóðin hefur enga merkingu.  Það er verið að ríkisvæða auðlindir Íslands og öll fénýt hlunnindi til þess að styrkja stjórnmálaöflin í sessi.  Allar hugmyndir um nýtingarrétti sem boðnir verða eða úthlutað af stjórnmálamönnum kemur ekki til með að nýtast þjóðinni. Eina vitið væri að setja á fót auðlindasjóð sem stjórnmálamenn kæmu aldrei að og nota ætti til raunverulegrar búsetujöfnunar en það stendur ekki til.  Ekki samkvæmt stjórnarskránni og ekki samkvæmt tillögum auðlindanefndar Samfylkingarinnar sem Lúðvík Bergvinsson er að vinna að.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.3.2012 kl. 23:15

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Jóhannes, vonandi lætur þú sjá þig á fundinum í Iðnó á þriðjudaginn. Það kann vel að vera að það þyrfti að skilgreina betur hugtök eins og "auðlind" og "þjóð", en það væri þá einungis vegna þeirrar skæðu lagaþráhyggju sem virðist hafa lagst mjög illa á ákveðinn þjóðfélagshóp.

Sigurður Hrellir, 11.3.2012 kl. 23:49

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Kannski mæti ég ef vel liggur á mér   Og varðandi loðið og óljóst orðalag þá ættum við að hafa lært þá lexiu núna að stjórnarskráin verður að vera skýr og innihalda skýr fyrirmæli.  Ekkert sem túlka má að geðþótta og engar viljayfirlýsingar sem allt of algengar eru í þessu frumvarpi Stjórnlagaráðs.  Til dæmis mest allur mannréttindakaflinn.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.3.2012 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband