Kvörtun mín til FME, UMS og Neytendastofu

Formaður slitastjórnar Frjálsa fjárfestingarbankans og SPRON lýsti í gær furðu sinni á því að fólk hafi ekki kvartað beint til sín eða Dróma ef það taldi sig ekki fá eðlilega fyrirgreiðslu hjá þrotabúum þessara lánastofnana. Sjálfur hafði ég ríka ástæðu til að kvarta en gerði það að sjálfsögðu við þær eftirlitsstofnanir sem hafa það hlutverk að standa vörð um rétt neytenda og að fjármálastofnanir starfi á eðlilegan hátt. Það væri hins vegar ofsagt að kvartanir mínar hafi fengið mikið viðbrögð þessara stofnana. Viðbrögðin voru helst í ætt við staðlaðan móttökupóst.

Hér á eftir fer kvörtun mín til FME og UMS sem send var 30. mars 2011. Svipuð kvörtun var svo síðar send Neytendastofu þann 31. maí.

----------

Góðan dag,

Erindi mitt er sent með tilvísun til eftirfarandi greinar í Fréttablaðinu í dag um endurútreikning gengistryggðra lána:

http://www.visir.is/eru-fjarmalafyrirtaekin-visvitandi-ad-hagnast-a-rongum-adferdum-vid-endurutreikning-ologmaetra-lana-/article/2011110328808

Í niðurlagi greinarinnar fullyrðir höfundur sem er löggiltur endurskoðandi eftirfarandi:

"Ekki er hægt að túlka aðferðar fræði fjármálafyrirtækjanna öðruvísi en sem alvarlega tilraun til að hagnast óeðlilega á kostnað lántakenda. Að mati undirritaðs getur verið um milljarða króna að ræða sem fyrirtækin eru að hafa af lánþegum með ólögmætum hætti. Það eitt og sér að fjármálafyrirtækin beita ekki sömu aðferðum við endurútreikninginn ætti að klingja bjöllum hjá eftirlitsaðilum um að ekki sé allt með felldu. Hér er rannsóknar þörf."

Ég undirritaður tók á sínum tíma gengistryggð lán hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum. Í dómsmáli nr. 604/2010 sem ég sótti gegn bankanum úrskurðaði Hæstiréttur að gengistrygging lánanna væri óheimil (sjá niðurlag III. hluta). Hins vegar kvað dómurinn ekki úr um að hægt væri að krefjast viðbótargreiðslna aftur í tímann á grundvelli endurútreiknings eða að heimilt væri að bæta endurútreiknuðum viðbótarvöxtum sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 við höfuðstól lánanna. Í dómnum kemur fram (V. hluti) að varnaraðili (Frjálsi fjárfestingarbankinn) hafi við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti fallið frá eigin þrautavarakröfu sem Héraðsdómur hafði þó áður tekið til greina. Með því móti þurfti Hæstiréttur ekki að úrskurða um greiðsluskyldu undirritaðs fram að dómsuppsögu og verður ekki annað séð en að bankinn hafi með ásetningi komið í veg fyrir að úrskurður félli um þá lögspurningu.

Frjálsi fjárfestingarbankinn eða slitastjórn hans hefur nú birt endurútreikninga sína á umræddum lánum og gerði lántakendum að staðfesta á heimasíðu sinni frjalsi.is fyrir 28. mars sl. og í leiðinni að velja eina leið af fjórum um framtíðarfyrirkomulag lánanna. Ég varð ekki við þeirri áskorun slitastjórnarinnar enda tel ég að forsendur endurútreikninga þeirra séu rangar og lít svo á að með skilvísum afborgunum mínum af lánunum hafi ég staðið í skilum á fyrirvaralausum kröfum bankans, þ.m.t. reglubundnum afborgunum af höfuðstól. Lögfræðingur minn sendi slitastjórninni tilkynningu um þetta ásamt rökstuðningi og eigin útreikningi.

Á grundvelli þess að Frjálsi fjárfestingarbankinn og aðrar bankastofnanir séu að beita ólögmætum aðferðum við endurútreikninga umræddra lána og með því móti að hagnast óeðlilega á kostnað lántakenda, fer ég fram á það að bæði Fjármálaeftirlitið og Umboðsmaður skuldara fari nú þegar í saumana á þessu og beiti öllum tiltækum úrræðum ef í ljós kemur að þeir séu ekki hafnir yfir allan vafa.

Vinsamlegast staðfestið móttöku þessa erindis sem fyrst.
Ennfremur óska ég eftir því að erindi þetta berist ekki lánastofnunum eða slitastjórnum þeirra.

Með kveðju,

Sigurður Hr. Sigurðsson.


mbl.is Nokkur fjöldi mála í athugun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hrellir

Reyndar fékk ég í lok júní sl. svar frá lögfræðingi Neytendastofu þar sem það var rakið í löngu máli að stofnunin taldi sig ekki geta brugðist við kvörtun minni og nokkura annarra sem einnig höfðu kvartað vegna Dróma.

Sigurður Hrellir, 23.2.2012 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband