Nýja stjórnarskráin

Það er einfaldlega ekki rétt sem stendur á mbl.is að forsætisráðherra hafi talið "málið of skammt á veg komið til að það gæti verið samhliða forsetakosningum". Hún lýsti hins vegar þeim vilja sínum að þjóðin greiddi atkvæði um tillögu að nýrri stjórnarskrá samhliða forsetakosningum í júní.

Jóhanna veit af fenginni reynslu að málið nýtur ekki stuðnings allra stjórnmálaflokka á Alþingi og gæti því hugsanlega tafist þegar andstæðingar þess láta sverfa til stáls. Það er auðvitað ekki það sama og að "málið sé of skammt á veg komið".

Bjarni Benediktsson kom líklegast fáum á óvart þegar hann lýsti áhyggjum sínum af því að leggja tillögur Stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann talaði um "ófullburða drög að nýrri stjórnarskrá" og vísaði til einhverra fræðimanna sem hann nafngreindi þó ekki. Mér kæmi ekki á óvart að "fræðimaðurinn" Hannes Hólmsteinn hafi sitthvað við tillögurnar að athuga en fæstir fræðimenn sem mark er tekið á hafa hins vegar tjáð sig mikið um þær.

Reyndar er það nú svo að stjórnarskráin er fyrst og fremst pólitískt plagg og álit ákveðinna fræðimanna á ekki að vega þyngra en álit annarra kjósenda. Gamla stjórnarskráin var reyndar við lýðveldisstofnun "ófullburða drög að nýrri stjórnarskrá" en í tímans rás hefur hún verið afbökuð, túlkuð og teygð af ráðandi stjórnmálaflokkum og lögfræðingum sem þeir hafa velþóknun á. Nú eru það fyrst og fremst sérhagsmunaöfl sem standa í vegi fyrir því að kosið sé um nýja stjórnarskrá sem gæti orðið vegvísir fyrir þjóðina á 21. öldinni. Látum ekki hafa okkur að fíflum.


mbl.is Tillögur standi sem mest óbreyttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Reyndar er það nú svo að stjórnarskráin er fyrst og fremst pólitískt plagg..." 

 Nei Stjórnarskrá viðkomandi ríkis er grunnurinn að allri löggjöf viðkomandi lands.  Öll önnur lög verða að taka tillit til hennar og mega ekki vera í mótsögn við Stjórnarskrána.  Þetta er nú grundvallaratriði.

 Stjórnarskráin er nefnilega lagagrunnur, ekki pólitískur grunnur.

"Nú eru það fyrst og fremst sérhagsmunaöfl sem standa í vegi fyrir því að kosið sé um nýja stjórnarskrá sem gæti orðið vegvísir fyrir þjóðina á 21. öldinni. Látum ekki hafa okkur að fíflum."

 Er það ?  Mér sýnist nú lögmenn hafa almennt verið á þeirri skoðun að fyrirliggjandi drög séu ekki nægjanlega góð til að tryggja að ekki muni rísa upp lögfræðilega óvissa.  Ekki viljum það !

Í annan stað hafa kannanir sýnt að fyrirliggjandi drög muni ekki hljóta náð í kosningum og verða hafnað, þ.e. ef öll drögin verða lögð fyrir í kosningum eins og þau komu frá Stjórnlagaráði.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 19.1.2012 kl. 12:16

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Björn, löggjöf okkar er sett af pólitískum fulltrúum. Það er auðvitað rétt að stjórnarskráin er grunnurinn að löggjöf í landinu en innihald hennar er að mestu leyti pólitískt val - hvernig stjórnkerfi við kjósum, hvernig mannréttindamálum sé hagað, hvernig skipa á dómara og mikilvæga embættismenn, hvernig auðlindamálum sé fyrir komið, framkvæmd kosninga, o.s.frv. Þannig er hún pólitískur grunnur, og jú, lagalegur sömuleiðis.

Lögmenn eru ekki allir á sama máli um þessar tillögur Stjórnlagaráðs, fremur en um flest önnur lagaleg ágreiningsefni. Það geta aldrei allir fengið nákvæmlega þá stjórnarskrá sem þeir vilja - í eðli sínu er hún málamiðlun. Stjórnlagaráð, skipað 25 fulltrúum, þ.a. 4 lögfræðingum, kom sér saman um þessar tillögur sem þau samþykktu einum rómi.

Það er einfaldlega ekki rétt að lögmenn hafi almennt verið á þeirri skoðun sem þú lýsir. Þeir hafa fáir tjáð sig opinberlega, og sumir verið jákvæðari en aðrir. Stóra spurningin sem kjósendur þurfa hins vegar að svara er þessi: Hvort er tillaga Stjórnlagaráðs í heild sinni betri eða lakari kostur en gildandi stjórnarskrá?

Sigurður Hrellir, 19.1.2012 kl. 12:49

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Og vel á minnst, hvaða kannanir um stuðning vísar þú til, Björn? Ég hef ekki séð neinar slíkar kannanir ennþá.

Sigurður Hrellir, 19.1.2012 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband