22.10.2010 | 19:38
Aðgerðir í þágu fjármálafyrirtækja
Efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, sagði m.a. eftirfarandi í fréttum á RÚV kl. 18:
"Þetta hefur í för með sér verulega lækkun á skuldum heimilanna. Við erum að áætla að þetta séu hátt í 50 milljarðar sem eru færðir til heimilanna með þessari aðgerð."
Nýlegir dómsúrskurðir hafa staðfest það sem lengi hefur verið á margra vitorði, þ.e. að svokölluð "gengistrygging lána í íslenskum krónum er ólögleg samkvæmt lögum nr. 38/2001. Með því hefur það fengist staðfest að höfuðstól umræddra lána mátti ekki uppreikna í samræmi við gengismun íslensku krónunnar og erlendra gjaldmiðla. Höfuðstóll lánanna hækkaði því í raun aldrei og er það því beinlínis rangt að kveða svo að orði að þetta frumvarp hafi í för með sér lækkun á skuldum heimilanna.
Vissulega átti sér stað óskiljanlegt klúður þegar fjármálafyrirtækin fengu óáreitt að bjóða neytendum og fyrirtækjum upp á gengistryggð lán svo árum skiptir. Þar hljóta opinberar eftirlitsstofnanir að bera einhverja sök auk hinna sérhæfðu fjármálafyrirtækja sem sjálf settu skilmálana og sáu alfarið um samningagerð.
Því hlýtur það að teljast nokkuð sérstakt að boðaðar breytingar á þessum lögum séu helst á þann veg að styrkja stöðu kröfuhafa gegn lántakendum svo að ábyrgðin á klúðrinu falli í meginatriðum á neytendur. Í drögum að lagabreytingum er ítrekað vitnað til dóma Hæstaréttar frá 16. september 2010 (sem fjölluðu um vaxtaskilmála í uppgjörsútreikningi á bílaláni) og engin tilraun gerð til að láta lántakendur njóta sannmælis. Þannig skjóta ráðamenn sér í raun bak við úrskurð dómara í einu tilteknu máli í stað þess að taka pólitíska ákvörðun sem þjóðað gæti heildarhagsmunum þorra skuldara - nokkuð sem raunar hefði átt að gera 18 mánuðum fyrr.
Í þessu sambandi væri ekki úr vegi að minna á neytendalög Evrópusambandsins sem innleidd hafa verið í íslensk lög, (Annex XIX EEA Agreement og þá sérstaklega Council Directive 93/13/EEC of 5 April 1993 on unfair terms in consumer contracts, Official Journal No L 95, 21.4.1993, p.29). Það á ekki að vera hlutskipti neytenda að axla ábyrgð þegar að sérhæfðar fjármálastofnanir eða eftirlitsstofnanir ríkisins bregðast skyldu sinni. Þannig gæti ríkið hæglega skapað sér bótaskyldu ef þessar ófrávíkjanlegu tilskipanir væru virtar að vettugi, hvort heldur sem það væri af völdum dómstóla, löggjafans eða framkvæmdavaldsins. Þannig myndi ríkissjóður í raun þurfa að sitja uppi með skaðann sem kröfuhafar hefðu ellegar þurft að axla í flestum tilvikum.
Vafalaust munu einhverjir neytendur leita réttar síns og skjóta málinu til annarra þar til bærra aðila ef úrræði stjórnvalda verða á svipuðum nótum og dómstóla hingað til. Afar ólíklegt er að sátt skapist um þá niðurstöðu. Þess vegna væri skynsamlegra að leita að réttlátari lausn sem myndi létta lántakendum greiðslubyrðina og gera fólki kleift að standa í skilum. Að mínu mati er hinn "fordæmisgefandi" úrskurður Hæstaréttar sem fjallaði um uppgjör bílaláns algerlega úr samhengi við stöðu hárra myntkörfulána sem tekin voru til húsnæðiskaupa með skuldbindingu í a.a. 40 ár.
Í öllu falli er nauðsynlegt er að greina á milli ex tunc og ex nunc lagaáhrifa þannig að
1) það sem neytendur hafa staðið skil á í góðri trú fái að standa og
2) skilmálabreytingar taki einungis gildi frá og með lagabreytingu.
Frumvarp um gengislán lagt fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.