Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.1.2011 | 13:06
Gamla Ísland á útsölu
Orkustofnun veitti í gær leyfi til "rannsóknarborana" í trássi við tilmæli umhverfisráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Náttúrustofnunar. Ég hlustaði á viðtal við Guðna A. Jóhannesson orkumálastjóra í hádegisfréttum RÚV. Hann sagði eitthvað á þá leið að ekki væri verið að gefa skotleyfi á svæðið við Gjástykki, því einungis væri um "rannsóknarleyfi" að ræða.
Fólk sem gengur um Reykjanesið getur þar virt fyrir sér alls konar mannvirki og ófagurt rask sem eru afleiðingar rannsóknarleyfa. Ef til stendur að friða svæði eins og Gjástykki er rannsóknarleyfi einmitt mjög slæm hugmynd. Hvers vegna skyldi eiga að minnka verndunargildi staðarins og eyða til þess miklum fjármunum nema einmitt til þess að koma í veg fyrir friðun?
![]() |
LV fær rannsóknarleyfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.1.2011 | 08:32
Össur og Ögmundur eiga næsta leik
Það hlýtur að vekja fólk til umhugsunar hvað gögn um samskipti þeirra á Netinu eru berskjölduð fyrir alríkisstjórninni í BNA. Svo virðist sem þeir geti gefið stórfyrirtækjum skipanir um að skila inn upplýsingum að eigin ósk, án nokkurrar fyrirstöðu. Trúlega á þetta ekki einungis við um Twitter heldur líka Facebook og Gmail auk margra annarra. Einnig er ljóst að upplýsingar frá VISA, MasterCard, PayPal og Amazon eru aðgengilegar fyrir alríkisstjórnina og hlýtur það að vekja óhugnað nú þegar að ofsóknaræði virðist hafa runnið á þarlend stjórnvöld.
Ef íslenskir ráðamenn eru ekki gungur og druslur þurfa þeir að bregðast við strax. Ég skora á þá félaga Össur og Ögmund að beita sér fyrir því að Julian Assange verði boðinn íslenskur ríkisborgararéttur líkt og gert var með Bobby Fischer, og þannig að sýna tilburðum bandaríska dómsmálaráðuneytisins lítilsvirðingu. Almenningsálitið mun vinna með Íslendingum ef þeir sýna kjark í þessu máli og lúta ekki höfði fyrir ömurlegum yfirgangi og tilburðum sem engu lýðræðisríki er sæmandi.
Alþingismenn mættu rifja upp þingsályktun frá því í sumar sem þeir samþykktu með öllum atkvæðum viðstaddra nema einu(*), en hún hefst á þessum orðum:
"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verið tryggð".
* Varasjálfstæðismaðurinn Óli Björn Kárason sat hjá við þessa atkvæðagreiðslu.
![]() |
Twitter gert að afhenda öll skilaboð Birgittu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.1.2011 | 01:03
Nokkrar áleitnar spurningar
Nokkrir punktar um sölu á HS Orku til Magma
Með sölunni á HS Orku til Magma Energy Sweden er verið að framselja nýtingarrétt af mikilvægum auðlindum í heilan mannsaldur eða jafnvel lengur. Salan er í meira lagi vafasöm vegna þess að:
- Magma sniðgengur íslensk lög sænskt málamyndafyrirtæki sett á svið
- Stór hluti kaupverðsins er fenginn að láni innanlands (kúlulán)
- Lánið er með óverulegum vöxtum (1,5%)
- Reiðufé er greitt með aflandskrónum
- Veð er tekið í bréfunum sjálfum
- Öðrum kaupendum var hafnað án viðræðna
- Óljóst er hvort verðmætir kolefniskvótar hangi á spýtunni
- Magma hefur enga þekkingu á rekstri sem þessum
- Ábyrgð ef Magma fer í þrot skilin eftir hjá almenningsfyrirtækjunum HS Veitum og Orkuveitu Reykjavíkur.
- Hlutur OR var seldur með gífurlegu tapi (9 milljarðar?) á grundvelli úrskurðar Samkeppniseftirlitsins sem m.a. vitnaði í bandarísk lög. OR neitar að birta gögn sem málinu tengjast.
Hér kveður því við kunnuglegan tón. Auk þess blasir við að undirbúningur stjórnvalda var og er algjörlega ófullnægjandi. Fjölmargar áleitnar spurningar mætti betur ígrunda:
- Hafa verið settar skorður við að orkunýtingin verði ekki of ágeng? Nei.
- Er búið að setja ákvæði um auðlindagjald í samningana? Nei.
- Er búið að setja ákvæði sem takmarka verðhækkanir á orku til neytenda? Nei.
- Er búið að setja ákvæði sem takmarka tímalengd samningsins? Nei.
- Eru takmarkanir á sölu til þriðja aðila, t.d. Alcoa, Rio Tinto, Kína eða Bjögga Thor? Nei.
- Langtíma sýn og langtíma áætlun. Er hún einhver? Varla, en Magma vill tvöfalda orkuframleiðslu á Reykjanesi á næstu 5 árum. Auk þess hafa þeir nú þegar lýst yfir áhuga á að virkja á mörgum öðrum stöðum á landinu, t.d. í Kerlingafjöllum, en hafa ekki haft fyrir því að kanna áhuga almennings eða stjórnvalda á því.
Umræðan er á villigötum. Þetta er fyrst og fremst pólitískt ágreiningsefni fremur en lagalegt. Þjóðin hefur ekki fengið tækifæri til að segja sína skoðun og ríkisstjórnin hefur augljóslega ekki dug til að takast á við þetta mikilvæga mál. Þetta snýst öðru fremur um leikreglur, siðferði og tilgang með nýtingu auðlindanna og það hversu langt þjóðin vill ganga á þau gæði sem náttúra landsins býr yfir.
Það verður ekki hjá því komist að láta rannsaka allt ferlið í kringum einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja og aðkomu Geysir Green Energy að sölu á HS Orku til Magma Energy. Ekki er hægt að líta framhjá himinháum styrkjum til stjórnmálaflokka á sama tíma og Glitnir og GGE voru að bera í víurnar um að kaupa hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Hlut Orkuveitu Reykjavíkur í REI málinu þarf einnig að upplýsa þó svo að tekist hafi að stöðva það í tæka tíð. Varpa þarf ljósi á aðkomu bæjarfulltrúa og helstu stjórnenda umræddra fyrirtækja á það hvernig markvisst hefur verið unnið að því að færa yfirráð á auðlindum frá opinberum aðilum til útvaldra einkafyrirtækja og "athafnamanna".
![]() |
Skráð gegn vilja sínum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.1.2011 | 16:29
Samtakamáttur fólksins er sterkasta aflið
Fyrst langar mig að óska Björk og öllum sem að þessu standa til hamingju með hafa nú þegar fengið 30 þúsund manns til að setja nöfn sín undir þessa mikilvægu áskorun. Þess verður varla langt að bíða að 35 þúsund manna markinu verði náð og líklega gott betur áður en síðasti söngvarinn hefur lokið sér af. Ríkisstjórnin hins vegar heyrir ekkert, sér ekkert og gerir ekkert.
Spurningin er þessi: Hversu margar undirskriftir skyldi þurfa til þess að vekja VG til meðvitundar?
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður VG, talaði mjög afgerandi gegn sölunni á Magma sl. sumar. Í viðtali á Rás 2 sagði hún m.a.:
"Það er grundvallaratriði fyrir íslenskt samfélag að auðlindirnar okkar séu ekki settar í eigu einkaaðila. Þetta eru leifar af þessari hugmyndafræði, sem olli hruni á Íslandi. Þessi hugmyndafræði lifir alveg óskaplega sterku lífi í öllu okkar samfélagi. En þetta er algert grundvallarmál í okkar hreyfingu, að vinda ofan af þessari hugmyndafræði. Ég stóð í þeirri meiningu fyrir mörgum mánuðum síðan, við höfðum heit fyrir því, að þetta yrði stöðvað með einum eða öðrum hætti. Að ríkisstjórnin myndi gera allt sem hún gæti til að koma í veg fyrir þetta."
Svo var skipuð nefnd og málið svæft. Nefndin skilaði að vísu mjög áhugaverðri skýrslu en fjölmiðlar hafa ekki séð ástæðu til að fara neitt í efni hennar, enda virðist tilgangurinn með nefndinni helst hafa verið sá að róa "órólegu" deildina innan VG.
En nú hafa rúmlega 30 þúsund manns krafist þess að komið verði í veg fyrir söluna á íslenskum orkuauðlindum til skúffufyrirtækis í vafasamri eigu. Það eru skýr skilaboð sem verður að bregðast við. Annars hefur ríkisstjórnin grafið sína eigin gröf.
![]() |
Hátt í þrjátíu þúsund undirskriftir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.1.2011 | 10:26
Áhyggjur bæjarstjóra
Eftirfarandi er haft er eftir Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum:
Elliði hefur greinilega meiri áhyggjur af upplýstri umræðu heldur en krabbameinsvaldandi mengunarefnum sem safnast m.a. fyrir í fiski.
Nú er það svo að þegar díoxínmengun var síðast mæld í Vestmannaeyjum árið 2007 reyndist hún vera 80 sinnum meiri en leyfilegt hámark ESB segir til um. En líklegast segir Elliði bara líkt og kollegi og flokksbróðir sinn á Ísafirði, Halldór Halldórsson f.v. bæjarstjóri: "Hvað er 20 sinnum leyfilegt magn?". Hvað er þá 80 sinnum leyfilegt magn? Af hverju skyldi bæjarfélag sem bókstaflega byggir tilveru sína á fiskveiðum yfirleitt hafa áhyggur af krabbameinsvaldandi þungmálmum í fiski, Elliði?
Eitrunaráhrif geta verið margvísleg og koma fram við mjög lágan styrk efnanna. Díoxín og fúran eru meðal eitruðustu efna sem prófuð hafa verið og nægir um 0,001 mg af eitruðustu afleiðunni til að drepa lítil nagdýr. Einn slíkur örskammtur dregur dýrin til dauða á 14-28 dögum og enn minni skammtur veldur krabbameini í dýrunum. Ekki er ljóst hvernig efnin virka, en talið er að áhrifin megi rekja til bælingar á ónæmiskerfinu og áhrif á hormónabúskap dýrsins. Hormónar eru efnafræðilegir boðberar sem stjórna ýmsum viðkvæmum ferlum í lífverum og þessar sautján afleiður get hermt eftir hormónum. Hormónastjórnun er framkvæmd af örmagni af hormónum og eru þeir brotnir hratt niður af frumunum. Þannig takmarkast tímalengd áhrifanna við eðlilegar aðstæður. Þrávirku efnin sem herma eftir hormónunum brotna hins mjög hægt niður og skapa þannig ójafnvægi í frumum sem leiðir til ýmissa truflana á starfsemi þeirra.
Meðal þeirra áhrifa sem díoxín og fúran hafa eru
- Skemmdir á ónæmiskerfi, sérstaklega í ungviði
- Skemmdir á lifur
- Minnkuð viðkoma og áhrif á þroska fóstra og barna
- Skemmdir á miðtaugakerfi , hegðunarvandamál
- Krabbamein
- Húðsjúkdómur (chloracne)
- Tæring (Wasting Syndrome)
- Röskun á efnaskiptaferli vítamíns A
- Auk þess er talið að díoxin og fúran geti orsakað getuleysi og haft neikvæð áhrif á fjölda sæðisfruma
![]() |
Díoxínið var rétt yfir mörkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.1.2011 kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2011 | 09:13
Klúður eða spilling?
Á sínum tíma fékk ríkið alla stóru bankana í fangið. Kaupthing Luxembourg var dótturfélag Kaupþings á Íslandi en margir vissu að þar inni væri upplýsingar að finna um flesta vafasama vafninga, viðskiptafléttur, skattaundanskot og peningaþvætti síðustu ára. Því var sumum eflaust hugleikið að koma þessu fyrirtæki í erlent eignarhald sem fyrst og forða gögnum undan klóm réttvísinnar.
Það vakti hins vegar athygli hversu lítinn áhuga ráðamenn virtust hafa á því að fresta þessari sölu til að vernda rannsóknarhagsmuni. Ekki minnist ég þess að hafa séð neina forystumenn ríkisstjórnarinnar tjá sig á þeim nótum. Þetta vekur vissulega grunsemdir um víðtæka spillingu og skýtur stoðum undir það að stjórnmálamönnum hafi hreinlega verið umbunað fyrir greiðasemi og almennt aðgerðarleysi á tímum "gróðærisins".
Varla dregur það úr grunsemdunum að Magnús Guðmundsson sem var forstjóri Kaupthing Luxembourg skyldi áfram halda um stjórnartaumana eftir söluna á bankanum. Hér má lesa pistil Sölva um hrokagikkinn Magnús og hér er eitt lítið dæmi um "viðskipti" þau sem tíðkuðust innan veggja fyrirtækisins og nauðsynlegt er að fletta ofan af ef eitthvað réttlæti á að ríkja hjá íslenskri þjóð.
Það hlýtur allavega að flokkast undir alvarleg mistök í starfi að búa ekki svo um hnútana að sérstakur saksóknari hefði aðgang að gögnum til að fletta ofan af þeim sem settu líf heillar þjóðar í uppnám.
![]() |
Sérstakur væntir niðurstöðu í febrúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2010 | 12:20
Batnandi (stjórnmála)mönnum er best að lifa
Líklega hefur ríkisráðsfundurinn í morgun verið öllu rólegri en sá sem haldinn var fyrir sléttu ári síðan. Þann dag gerði ég mér ferð til Bessastaða fyrir birtingu í köldu en stilltu veðri og mótmælti í góðum félagsskap hlandvolgum Icesave-samningi sem naumur meirihluti Alþingis samþykkti kvöldið áður þrátt fyrir áköf mótmæli margra. Í ljósi þess sem síðar gerðist, synjunar forsetans og þjóðaratkvæðagreiðslu sem helstu fulltrúar stjórnarflokkanna beinlínis hunsuðu, get ég ekki annað en verið sáttur við eigin þátt í því.
Annars er við hæfi að líta til baka um áramót til að læra af reynslunni og setja sér háleit en raunhæf markmið á nýju ári. Öll höfum við ástæðu til að líta í eigin barm og velta því fyrir okkur hvort tíma okkar hafi verið vel varið. Einnig hlýtur fólk að þurfa að spegla sig sjálft í því umhverfi sem það býr við og spyrja sig hvort það sé sátt við eigin hag og sig sjálft í þessu samhengi.
Mig langar til að hvetja fólk til að hlusta á ágæta áramótadrápu Guðmundar Ólafssonar sem er hér í spilaranum vinstra megin. Ég veit ekki hvort að hagfræðingurinn hafi orðið fyrir eldingu eða heilögum anda hafi lostið niður, en pistill Guðmunar kom mér skemmtilega á óvart. Öðruvísi mér áður brá.
![]() |
Ríkisráðsfundur í morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2010 | 09:28
Jólamyndin í ár
Íslandsvinurinn Julian Assange er hetja. Hann lætur ekki ummæli varaforseta Bandaríkjanna hræða sig en sá síðarnefndi líkti Assange við "hátæknihryðjuverkamann". Hann virðist heldur ekki láta sérlega ógeðfelld og umhugsunarverð ummæli áhrifamikils fólks innan Repúblikanaflokksins halda fyrir sér vöku en þau hafa sum hver hvatt til þess að hann verði drepinn með köldu blóði án dóms og laga. Um forsetaframbjóðendurna Söru Palin og Mike Huckabee segir Julian Assange í þessu viðtali:
![]() |
Assange svarar Biden |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2010 | 21:51
Eru ályktanir Alþingis orðin tóm?
Ég hef sagt það áður og ég segi það enn: Ísland á að veita Julian Assange skjól og bjóða honum ríkisborgararétt í einum grænum.
Í sumar var samþykkt þingsályktun á Alþingi þar sem segir í upphafi: "Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verið tryggð".
Svo gæti hæglega farið að okkar eigin landsmenn yrðu sömuleiðis fyrir barðinu á alríkisstjórninni fyrst hún á annað borð virðist ætla að brjóta Wikileaks niður með fantabrögðum og lögleysu.
Hér má sjá nánar um það sem er í gangi:
http://www.armycourtmartialdefense.info/2010/12/typical-day-for-pfc-bradley-manning.html
http://www.democracynow.org/2010/12/16/alleged_wikileaks_whistleblower_bradley_manning_imprisoned
Og hér er svo tengill á ágæta heimildamynd um Wikileaks frá sænska sjónvarpinu:
http://svtplay.se/v/2264028/wikirebels_the_documentary
Þessi mynd sýnir ljóslega hversu margir Íslendingar hafa tekið þátt í starfsemi Wikileaks, ekki síst hinu óhugnanlega myndbandi frá Baghdad. Gleymum ekki þætti Íslands í þessu kaldrifjaða stríði.
Og hér er svo jólamyndin í ár, nöturlegur sannleikurinn um fjölmiðla, splunkuný heimildamynd í boði Láru Hönnu sem ég mæli mjög eindregið með:
http://blog.eyjan.is/larahanna/2010/12/20/sannleikurinn-og-fjolmiðlarnir
![]() |
Julian Assange kosinn maður ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.12.2010 kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.12.2010 | 16:37
Ríkið tekur á sig auknar ábyrgðir og lögbrjótar sleppa við refsingu
Í færibandaafgreiðslu síðasta vinnudaginn fyrir jól samþykktu stjórnarliðar í nafni "réttlætis" og "sanngirni" breytingar á einum umtöluðustu lögum síðustu ára, lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Í nóvember sendi ég inn umsögn til efnahags- og skattanefndar út af þessu makalausa breytingafrumvarpi sem byggir á mjög hæpnum forsendum, þ.e. úrskurði Hæstaréttar í frægu máli sem varðaði uppgjör á bílaláni.
Það er mér stórlega til efs að alþingismenn hafi allir sem einn kynnt sér þetta mál til hlýtar, enda er "réttlætið" og "sanngirnin" ekki meiri en svo að margir munu eflaust fara í mál og krefjast skaðabóta frá ríkinu vegna eignaupptöku af þessum sökum. Þannig hefur ábyrgðin verið flutt frá fjármálafyrirtækjum sem brutu lögin með því að bjóða þessi lán, yfir á ríkissjóð.
----------
Frumvarpið byggir á dómum Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september sl. en síðarnefndi dómurinn var efnislega samhljóða tilmælum Seðlabanka Íslands og FME frá 30. júní um endurútreikning lánasamninga vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða. Þau tilmæli voru gefin út til að skapa festu í viðskiptum á fjármálamarkaði og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi eins og segir í tilmælunum. Því er það ljóst að hagur fjármálastofnana og öryggi fjármálakerfisins hafa hér skipt meginmáli en ekki hagsmunir neytenda sem virðast engu síður eiga að taka skellinn af ólögmætum samningsskilmálum sem þeir þó áttu engan þátt í að útbúa. Erfitt er að koma auga á þá sanngirni sem í því felst.
Tilgreindir dómar Hæstaréttar fjölluðu auk þess um uppgjör bílaláns sem í meira lagi er vafasamt að leggja til grundvallar fyrir öllum gengistryggðum lánum til lengri eða skemmri tíma, sama hvort þau voru tekin til kaupa á fasteign, ökutæki, tjaldvagni, bíl eða einfaldlega til daglegrar neyslu.
Vert er að hafa í huga að þar sem gengistryggingarákvæði lánasamninganna eru ólögmæt og óskuldbindandi, máttu kröfuhafar ekki uppreikna höfuðstól þeirra og afborganir. Höfuðstóll lánanna stóð því í stað og meint stökkbreyting átti sér enga lagalega stoð. Því er það rangt sem iðulega er haldið fram og nú síðast á minnisblaði með þessu frumvarpi þar sem segir: Skuldir heimilanna lækka um 40-50 milljarða króna við þessa aðgerð, að meðaltali um nærri eina og hálfa milljón á heimili með gengisbundið lán. Hér er verið að afvegaleiða umræðuna og hlýtur að verða að gera þá kröfu til stjórnvalda að bera ekki svona upplýsingar á borð. Réttara er að skuldir heimilanna hækka verulega þar sem búast má við því að aukin greiðslubyrði eftir endurútreikning (afturvirkt) auk vaxta af mismuninum yrði bætt við höfuðstól lánanna eins og lýst er í 2. gr. Þannig gæti höfuðstóll láns með óskuldbindandi gengistryggingu hækkað í einu stökki um 60% eða meira í kjölfar fyrirhugaðra lagabreytinga.
Frumvarp þetta er lagt fram á sama tíma og tekist er á um fyrstu álitamálin sem varða gengistryggð húsnæðislán fyrir Hæstarétti. Erfitt er að sjá það fyrir hvernig dómarar muni bregðast við frumvarpinu verði það samþykkt, en augljóslega eru ítarlegar greinargerðir málsaðila miðaðar við allt önnur lög en frumvarpið hefur í för með sér. Lagagrundvelli yrði þ.a.l. kippt undan málsaðilum. Í nokkrum málum hefur verið óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um vexti af gengistryggðum lánum og hefur Héraðsdómur Reykjavíkur nýlega fallist á kröfu þess efnis.
Loks er ástæða til að minna á skattalega óvissu sem gæti skapast vegna frumvarps þessa. Háar upphæðir munu skipta um hendur eða færast til í bókhaldi þegar og ef lán verða endurútreiknuð miðað við gjörólíkar forsendur. Nauðsynlegt er að búa svo um hnútana að leiðréttingar á höfuðstól verði ekki skattlagðar fyrir neytendur sem staðið hafa í skilum með sín lán í góðri trú.
Með afturvirkum lagabreytingum virðast höfundar frumvarpsins algjörlega hafa gleymt lögmætisreglunni, verndun eignaréttar neytenda undir Evrópusáttmálanum (1. gr. Protocol 1 European Convention of Human Rights) og öllum meginreglum neytendaréttar EES sem eru ófrávíkjanlegar og í fullu gildi á Íslandi. Ríkið gæti hæglega orðið skaðabótaskylt gagnvart neytendum burtséð frá mögulegum skaðabótum sem kröfuhafar gömlu bankanna gætu áunnið sér með fulltingi dómstóla. Óvissan er slík að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú óskað eftir áliti EFTA-dómstólsins varðandi vaxtaskilmálabreytingar.
----------
Hér er svo að lokum línurit yfir greiðslubyrði af rúmlega 19 milljón króna gengistryggðu húsnæðisláni frá upphafi árs 2006. Afborganir eru á 3ja mánaða fresti og má sjá að ansi langt er orðið á milli upphaflegrar greiðsluáætlunar bankans og þeirra upphæða sem nýsamþykktar breytingar á lögum um vexti og verðbætur hafa í för með sér. Breytingarnar eru afturvirkar og þýðir það að fólk sem staðið hefur í skilum með afborganir af lánum sínum fær viðbótarálagningu aftur í tímann sem í flestum tilfellum verður líklegast klínt ofan á höfuðstól lánanna.
![]() |
Landsbankinn birtir endurútreikninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)