Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Brennuvargar og besserwisserar

Fyrir 6 mánuðum síðan var það varla að fjölmiðlar gætu borið nafn Borgarahreyfingarinnar óbrenglað fram ef þeim þá þóknaðist að hafa hana með í umfjöllunum um stjórnmálaflokka. Nú er öldin önnur en óneitanlega leitt að sjá svo mikla neikvæða umfjöllun um þessa "nýju" hreyfingu. Í tilefni af því vil ég bara benda á þá augljósu staðreynd að Borgarahreyfingin er eina stjórnmálahreyfingin á Alþingi sem ekki getur mögulega átt neina sök á því hvernig komið er fyrir þjóðinni

BúsáhöldinStrax eftir kosningar fór fýldur besserwisser hér á netinu að kenna bæði Friðrik Þór Guðmundsson og mig við svokallaðan "Þráins-arm" í Borgarahreyfingunni. Ég man hvað mér þótti þetta fjarstæðukennt rugl í manninum enda taldi ég mig vera í góðri sátt við alla þingmenn og aðra félagsmenn.

Nú 5 mánuðum síðar mætti hugsanlega tala um e-s konar "Þráins-arm", þó ekki innan Borgarahreyfingarinnar heldur einungis innan Félags Þinghóps Borgarahreyfingarinnar (sem fjórmenningarnir stofnuðu sjálf) en Þráinn sagði sig úr því félagi með yfirlýsingu á Alþingi. Mér vitanlega eru ekki fleiri en Þráinn í þessum "armi" enda eru einungis 4 félagar skráðir í umræddu félagi. Klofningurinn er því ekki innan Borgarahreyfingarinnar.

Um næstu helgi verður haldið Borgaraþing/landsfundur hreyfingarinnar. Þar verða samþykktar nýjar og ítarlegar reglur fyrir félagið og ný stjórn kosin sömuleiðis. Ég undirritaður er í hópi fólks sem vill að Borgarahreyfingin einbeiti sér að því sem hún var stofnuð til, að vera öflug grasrótarsamtök með fótgönguliða á Alþingi. Við kynnum nú framboð okkar til stjórnar með sameiginlega framtíðarsýn fyrir hreyfinguna en bjóðum okkur fram sem einstaklingar hvert fyrir sig. Ég á von á hressum fundi þar sem fólk liggur ekki á skoðunum sínum. Það verður ekkert halelúja eins og tíðkast á sumum bæjum.

Ég bið fólk að hugsa sig um tvisvar áður en það leggst í þann forarpytt að rakka niður Borgarahreyfinguna. Er virkilega engra breytinga þörf í þessu þjóðfélagi eða er brennuvörgunum best treystandi til þess að lagfæra tjónið?

 


mbl.is Á von á átakafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin á þing

Borgarahreyfingin var stofnuð af fólki með hugsjónir og væntingar um að koma á lýðræðislegum umbótum, réttlátara samfélagi með gagnsæjum vinnubrögðum og umfram allt, heiðarleika að leiðarljósi.

Slagorðið “þjóðin á þing” er engin tilviljun. Það var valið vegna þess að vildum að þjóðin fengi rödd inni á Alþingi Íslendinga. Þinghópur hreyfingarinnar var hugsaður sem brú frá grasrótinni þangað inn.

Að okkar mati hefur það mistekist. Þess í stað hafa hugsjónir, stefna og kraftur hreyfingarinnar týnst í deilum og óánægju á alla kanta.

Við sem undir þetta ritum erum stolt af Borgarahreyfingunni eins og hún var hugsuð. Í stað þess að gefast upp fyrir þeim mistökum sem gerð hafa verið langar okkur að leggja okkar að mörkum til að hreyfingin finni uppruna sinn á ný og að vegur hennar verði sem mestur.

Þess vegna ætlum við að bjóða fram krafta okkar til stjórnar Borgarahreyfingarinnar.

Við komum fram sem hópur og gerum okkur vonir um að fá stuðning sem slíkur. Engu að síður bjóðum við okkur hvert og eitt fram til starfsins sem einstaklingar.

Sem hópur höfum við sett saman grunn að stefnu þeirri sem við munum fylgja í störfum okkar og hana má skoða í tengdri skrá hér fyrir neðan.

Við munum kynna stefnuna nánar á næstu dögum og á landsfundi hreyfingarinnar.

Ásthildur Jónsdóttir, Bjarki Hilmarsson, Björg Sigurðardóttir, Guðmundur Andri Skúlason, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Sigurðsson, Heiða B. Heiðarsdóttir, Ingifríður Ragna Skúladóttir, Jón Kr. Arnarson, Lilja Skaftadóttir, Sigurður Hr. Sigurðsson og Valgeir Skagfjörð.

framtíðarsýn.pdf


Stökkbreyttur Steingrímur

Úr öskunni í eldinn!Ólafur talar um stökkbreytt lán sem hafa meira en tvöfaldast á sama tíma og verð íbúðahúsnæðis hefur lækkað um 30%. Ég myndi líka tala um stökkbreytingu stjórnmálamannsins sem löngum stóð stórmæltur í ræðustóð Alþingis. Steingrímur J. étur nú ofan í sig flest sín fögru fyrirheit, hvort sem þau snúast um hvalveiðar, AGS, ESB, virkjanir eða sölu á náttúruauðlindum!

mbl.is Saka ráðherra um hótanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blórabögglar

Í ballarhafiÍ dag er sorgardagur því að meirihluti Alþingis hefur lagt blessun sína yfir að almenningur sé gerður ábyrgur fyrir glæpsamlegri starfsemi einkaaðila. Fulltrúar smáþjóðar norður í ballarhafi hafa samþykkt að gera þjóð sína að blóraböggli í vanhugsaðri reglugerð ESB þrátt fyrir að öll réttlætissjónarmið séu fyrir borð borin. Þau lögðu hart að sér að útbúa alls kyns fyrirvara sem breskir dómstólar geta stungið undir stól en hversu hart lögðu þau að sér að ná eyrum annarra Evrópuþjóða til að útskýra stöðu Íslands og krefjast sameiginlegrar ábyrgðar?

Illt er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti.


mbl.is Icesave-frumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón eða séra Jón

Þetta er enn og aftur spurning um réttlæti. Hvorki Guðmundur Andri né ég áttum kost á kúluláni fremur en almennir borgarar í þessu landi þegar við fjárfestum sparifé okkar í fasteignum. Valið stóð á milli þess að taka verðtryggð lán á háum vöxtum eða gengistryggð lán nokkuð lægri vöxtum. Bankarnir sömdu lánasamningana einhliða og bjuggu svo um hnútana að áhætta þeirra var engin. Þeir voru bæði með belti og axlarbönd en okkur var gert að setja allt að veði, ekki bara umræddar fasteignir heldur allt.

Þrátt fyrir þetta tókst stjórnendum bankanna ekki að halda þeim á floti. Frjálsi Fjárfestingarbankinn er rekstrarlega liðið lík og er það með ólíkindum miðað við það sem að ofan er lýst. Okkur sem fjárfestum að hluta til með lánsfé frá bankanum er nú sagt að við séum ekki "fjárfestar" samkvæmt skilgreiningu bankans og þess vegna ekki þess verðir að semja um yfirtöku okkar eigin skulda. Kúlulána-Kristján fengi hins vegar aðrar móttökur enda nokkuð vel giftur. Það er ekki sama að vera Jón eða séra Jón í þessu landi, það er margsegin saga.

Engu að síður mjög góð hugmynd hjá Guðmundi Andra svo langt sem hún nær.


mbl.is Vilja taka yfir Frjálsa fjárfestingabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreyttur, reiður og illa fyrir kallaður

Sumir stjórnmálamenn segjast hafa prófað kannabisreykingar án þess að hafa tekið ofan í sig. Því eiga flestir erfitt með að trúa. Þeir flækjast í eigið net ósanninda og hefðu eflaust betur viðurkennt "syndir" sínar strax og þeir urðu uppvísir að þeim.

Þreyttur og reiðurSigmundur Ernir fer svipaða leið jafnvel þó að áfengisdrykkja sé alls ekki ólögleg. Með þessu hefur hann ekki einungis gert sig að athlægi í ræðustól Alþingis heldur líka að ótrúverðugri smásál sem ekki þorir að játa á sig tímabundið dómgreindarleysi.

Hvað títtnefnda "virðingu" Alþingis varðar mun þetta atvik litlu skipta. Einungis 13% þjóðarinnar báru virðingu fyrir löggjafarþinginu sl. vetur og sú tala hefur tæpast hækkað síðan þá. Kannski væri það athugunarvert að hafa vín í boði mötuneytis þingsins og sjá hvort það yki ekki á djörfung og dugnað þingmanna. Verra gæti það varla orðið.


mbl.is Fékk sér léttvín með mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistarinn

Með frænda hans SiggaHinir fjölmörgu aðdáendur meistarans geta nú rifjað upp nokkur ódauðleg gullkorn hér. Nú má ljóst vera að frændi minn dýrlingurinn var hafður fyrir rangri sök þegar þjóðin krafðist afsagnar hans. Nú er að sjá hvort upprisan lætur á sér standa.
 
 
Með Margarítu Með Silla

mbl.is Hinir vammlausu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málefni framar persónum

Af persónulegum ástæðum sagði ég mig í gær úr stjórn Borgarhreyfingarinnar. Það geri ég ekki af neinum illdeilum við félaga mína í hreyfingunni heldur fremur vegna vonbrigða með hvernig innri átök hafa náð að spilla fyrir þeim mikla eldmóði sem lagt var af stað með í kosningabaráttunni. Á undraskjótum tíma virðist þinghópnum hafa tekist að gleyma helsta slagorði okkar "Þjóðin á þing" og farið að líta á sjálfa sig sem algjörlega ómissandi einstaklinga. "Það er ekki svo að maður komi í manns stað" svöruðu þingmennirnir þrír við tillögu stjórnarinnar um að láta varaþingmenn spila stærra hlutverk og létu það fylgja með að það væri ekki hægt að leggja það á þingmenn að fylgjast launalaust með umræðunni 3 mánuði á ári! Þráinn var heldur ekki til viðræðu með að hleypa að sínum varamanni vegna þess að hún var í of góðum tengslum við hin þrjú!

Stjórn hreyfingarinnar hefur verið vanmáttug að taka á þessum persónulegu árekstrum, að hluta til vegna þess að hlutverk hennar var ekki nógu skýrt, að hluta til vegna þess að hún var innbyrðis ósammála og að hluta til vegna einkennilegra árekstra milli stjórnar og þinghóps. Þinghópurinn tók ekkert mark á stjórninni og stofnaði meira að segja nýtt félag um starfsemi sína án samþykkis hennar.
 
Með óskiljanlegum og illa ígrunduðum ESB viðsnúningi Birgittu, Þórs og Margrétar dæmdu þremenningarnir sig úr leik sem trúverðugir fulltrúar kjósenda sinna og geta í framhaldi af því tæpast búist við að geta haft nokkur áhrif á framvindu mála í því mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar allrar. Yfirlýstur stuðningur við frumvarp ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn reyndist marklaust gaspur og yfirklór Birgittu um að hún hefði talið þetta snúast um könnunarviðræður í besta falli hlægilegt.

En ég hef enn fulla trú á Borgarahreyfingunni því að gömlu flokkarnir hafa einfaldlega ekki siðferðislegan rétt til að sitja áfram við völd. Hvernig í ósköpunum á fólk að geta treyst Þorgerði Katrínu og Sjálfstæðisflokknum? Eða Björgvini G. og Samfylkingunni? Nýja-Framsókn, hvernig hljómar það? Þegar rannsókn á aðdraganda efnahagshrunsins verður komin á endastöð mun að mínu áliti ekki standa steinn yfir steini í gamla fjórflokknum.  Það væri miklu frekar að sómakært fólk innan þessara flokka segði skilið við þá og stofnaði nýjar stjórnmálahreyfingar með heiðarleg markmið. En því miður virðist "kerfið" éta börnin sín. Er það virkilega svo að "heiðvirt fólk" getur ekki sloppið óskaddað út úr hringiðu stjórnmálanna? 

Ég skora á alla þingmenn BH að tilkynna um að þau stigi til hliðar að loknu sumarþingi til að hleypa þjóðinni að. Borgarahreyfingin byggist á stefnu og málefnum en ekki ákveðnum einstaklingum eða leiðtogum. Erum við virkilega ekki sammála um það? Enginn skortur er á hæfileikaríku fólki á framboðslistum hreyfingarinnar og öll vorum við í sama bátnum fyrir 25. apríl sl. Vonandi dettur engum þeirra í hug að stela þingsæti sínu frá hreyfingunni í þeirri trú að þau sjálf séu svo ómissandi.

Stjórn BH á einungis að mínu mati úr því sem komið er að sjá til þess að landsþingið 12. og 13. september sé vel undirbúið og hvetja alla félagsmenn til dáða. Ný stjórn verður kosin á því þingi og augljóslega samþykktar nýjar vinnureglur og bætt innra skipulag sem vinnuhópur hefur unnið ötullega að. Ég óska þeim alls hins besta í þeim undirbúningi.
 
Með baráttukveðju,

Sigurður Hr. Sigurðsson.
 

mbl.is Vilja Þráin af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er embættismannakerfið að gera út af við okkur?

Það hefur verið lyginni líkast að fylgjast með sumarþinginu og þeirri leiksýningu sem þar á sér stað. Meginviðfangsefnin tvö, ESB og Icesave hafa skyggt á öll önnur mál, enda bæði hluti af sama harmleiknum sem enginn endir virðist vera á. Helstu ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa þráfaldlega neitað að nokkur tenging sé á milli þessara umdeildu mála jafnvel þó að ýmsar vísbendingar um annað hafi lekið út og hollenski utanríkisráðherrann ekki farið leynt með lítt dulbúnar hótanir sínar.

Margir hljóta að klóra sér í hausnum yfir því að á sama tíma og viss hópur fólks telur Icesave samninginn ásættanlegan og jafnvel hagstæðan Íslendingum skuli sífellt stækkandi hópur sérfræðinga vara við honum og telja hann að flestu leyti óboðlegan, jafnvel stórhættulegan. Nú síðast í gær hlustaði ég á virtan hæstaréttarlögmann, Ragnar H. Hall lýsa mjög eindregið yfir þeirri skoðun sinni að samningurinn væri skelfileg mistök. Ragnar hafði verið þeirrar vafasömu ánægju aðnjótandi að fá að kynna sér leynileg fylgiskjöl með samningnum og taldi afar brýnt að leyndinni yrði létt af skjölunum.

Vanhæfir embættismennAð mínu mati blasir við okkur í þessu sambandi langvarandi og síversnandi vandamál sem er vanhæft embættismannakerfi. Hér hefur það tíðkast áratugum saman að ráða valdamikla embættismenn á pólitískum forsendum fremur en faglegum. Þannig hefur stjórnsýslan orðið að ákveðinni stétt út af fyrir sig - stétt sem stendur vörð um eigin hag, hátt yfir aðra hafin.

Það skyldi engan undra að Icesave samninganefndin var skipuð embættismönnum úr ýmsum ráðuneytum, Seðlabankanum og utanríkisþjónustunni. Eins og embættismanna er siður var pukrast með samningaferlið og heim komu þau (flest karlar) með samning til undirritunar sem halda átti leyndum fyrir þjóðinni og hennar lögkjörnu fulltrúum. Aðspurðir báru þó embættismennirnir höfuðið hátt og töldu sig mikinn sigur hafa unnið.

Í framhaldi af þessu væri eðlilegt að spyrja hvort embættismönnum sé yfirleitt treystandi til að fara í mikilvægar samningaviðræður fyrir hönd íslenska ríkisins. Það hlýtur að vera líklegra til árangurs að fá hæfasta fólkið til að semja fyrir okkar hönd frekar en mishæfa hrokagikki úr stjórnsýslunni. Er ekki einfaldlega kominn tími til að breyta algjörlega þeirri ömurlegu hefð að ekki eigi skilyrðislaust að láta faglegar forsendur ráða þegar ráðið er fólk í þessi störf?


mbl.is Rýnir í gögn vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ICESAVE - hvaða val höfum við?

Það sér hver heilvita maður að það eru sterk tengsl milli ICESAVE samningsins og ESB aðildarumsóknar. Spurningin er hvort að fólki finnist það virkilega ásættanlegt að ganga til samninga við ESB með slíkan farangur meðferðis. Það er deginum ljósara að reynt verði að semja um niðurfellingu skulda eða ríkisábyrgðar að einhverju marki í samningaviðræðunum en á móti kæmi að samningsstaða Íslands yrði enn veikari fyrir bragðið.

Icesave svartholHugsum okkur aðeins hvernig dæmið gæti litið út eftir 3-4 ár þegar gengið verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB aðild. Þá má reikna með að mun betri yfirsýn verði yfir stöðu þjóðarbúsins og verðmæti eigna gamla Landsbankans. Ef hinar ótrúlega bjartsýnu spár Seðlabankans um stöðugan hagvöxt og jákvæðan vöruskiptajöfnuð í mörg ár samfellt rætast ekki er viðbúið að skuldir ríkissjóðs verði komnar langt yfir raunhæft greiðsluþol. Valið gæti því staðið á milli þess að samþykkja inngöngu í ESB með afarkostum eða sætta sig við algjört efnahagslegt hrun og vonlausa stöðu gagnvart öðrum þjóðum. Því væri í raun ekki um neitt val að ræða.

Ég velti því fyrir mér hvernig stuðningmönnum VG hugnast að þurfa að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem auðlindir landsins ganga okkur úr greipum hvernig sem kosið er. Þingmenn þeirra ættu allavega að hugsa vel sinn gang áður en þeir fylgja foringjanum sem virðist vera í krossferð fyrir hönd Hollendinga og Breta sem hafa hótað að standa í vegi fyrir aðildarumsókn Íslands ef ICESAVE samningurinn verður ekki samþykktur.

Í þessu ljósi verður upphlaup þriggja þingmanna Borgarahreyfingarinnar að skoðast þó svo að aðferðin sé vissulega umdeilanleg. Þau krefjast þess:

  1. Breytingar í aðsigiAð málinu verði frestað til haustsins og þá tekið upp að nýju.  Þannig gæfist tími gefist að gaumgæfa það betur og hugleiða jafnframt betur aðra möguleika í stöðunni, en komið hefur skýrt fram að þeir eru til.
  2. Að þingið skipi nýja nefnd, ICESAVE nefnd með sérfræðingum þingsins, en þess má geta að þegar eru í Efnahags- og skattanefnd fjórir hagfræðingar, allir úr sitt hvorum flokknum, sem hefði það hlutverk að fara yfir málið faglega til haustsins m.t.t. skuldaþols þjóðarbúsins og fleira.
  3. Að skýrt verði kveðið á um hvenær og með hvaða hætti eignir þeirra sem stofnuðu til ICESAVE skuldbindinganna verði frystar og hvernig reynt verður að ná til þeirra.

Sjá nánar bloggfærslu Þórs Saari og lagalegt álit dr. Elviru Méndez Pinedo, einnig hér.

mbl.is Icesave hugsanlega frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband