Er embættismannakerfið að gera út af við okkur?

Það hefur verið lyginni líkast að fylgjast með sumarþinginu og þeirri leiksýningu sem þar á sér stað. Meginviðfangsefnin tvö, ESB og Icesave hafa skyggt á öll önnur mál, enda bæði hluti af sama harmleiknum sem enginn endir virðist vera á. Helstu ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa þráfaldlega neitað að nokkur tenging sé á milli þessara umdeildu mála jafnvel þó að ýmsar vísbendingar um annað hafi lekið út og hollenski utanríkisráðherrann ekki farið leynt með lítt dulbúnar hótanir sínar.

Margir hljóta að klóra sér í hausnum yfir því að á sama tíma og viss hópur fólks telur Icesave samninginn ásættanlegan og jafnvel hagstæðan Íslendingum skuli sífellt stækkandi hópur sérfræðinga vara við honum og telja hann að flestu leyti óboðlegan, jafnvel stórhættulegan. Nú síðast í gær hlustaði ég á virtan hæstaréttarlögmann, Ragnar H. Hall lýsa mjög eindregið yfir þeirri skoðun sinni að samningurinn væri skelfileg mistök. Ragnar hafði verið þeirrar vafasömu ánægju aðnjótandi að fá að kynna sér leynileg fylgiskjöl með samningnum og taldi afar brýnt að leyndinni yrði létt af skjölunum.

Vanhæfir embættismennAð mínu mati blasir við okkur í þessu sambandi langvarandi og síversnandi vandamál sem er vanhæft embættismannakerfi. Hér hefur það tíðkast áratugum saman að ráða valdamikla embættismenn á pólitískum forsendum fremur en faglegum. Þannig hefur stjórnsýslan orðið að ákveðinni stétt út af fyrir sig - stétt sem stendur vörð um eigin hag, hátt yfir aðra hafin.

Það skyldi engan undra að Icesave samninganefndin var skipuð embættismönnum úr ýmsum ráðuneytum, Seðlabankanum og utanríkisþjónustunni. Eins og embættismanna er siður var pukrast með samningaferlið og heim komu þau (flest karlar) með samning til undirritunar sem halda átti leyndum fyrir þjóðinni og hennar lögkjörnu fulltrúum. Aðspurðir báru þó embættismennirnir höfuðið hátt og töldu sig mikinn sigur hafa unnið.

Í framhaldi af þessu væri eðlilegt að spyrja hvort embættismönnum sé yfirleitt treystandi til að fara í mikilvægar samningaviðræður fyrir hönd íslenska ríkisins. Það hlýtur að vera líklegra til árangurs að fá hæfasta fólkið til að semja fyrir okkar hönd frekar en mishæfa hrokagikki úr stjórnsýslunni. Er ekki einfaldlega kominn tími til að breyta algjörlega þeirri ömurlegu hefð að ekki eigi skilyrðislaust að láta faglegar forsendur ráða þegar ráðið er fólk í þessi störf?


mbl.is Rýnir í gögn vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daði Ingólfsson

Það er við þetta að bæta að æðstu embættismenn þjóðarinnar, ráðherrarnir, eru líka ráðnir á pólitískum forsendum fremur en faglegum. Það er sennilega alvarlegasta meinið á stjórnskipan landsins. Fyrir þá sem ekki vita, þá er ekkert í lögum eða stjórnarskrá sem segir til um að löggjafarvaldið eigi að hafa nokkuð með skipan framkvæmdavaldsins að gera. Það er bara venja.

Daði Ingólfsson, 24.7.2009 kl. 19:58

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Svakalega sammála þér, Siggi... og Daða.

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.7.2009 kl. 23:02

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.7.2009 kl. 00:37

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir góðan pistil Siggi.

Kæruleysi stjórnmálamanna við válegar aðstæður er sennilega það sem mest hefur komið mér á óvart eftir bankahrunið ásamt einbeittu viljaleysi þeirra til þess að bæta sig. Horfast í augu við að þessar aðferðir duga ekki lengur og þora að takast á við breytingar.

Nei stjórnmálamenn þráast við að reyna að færa ástandið til baka til 2007 í stað þess að horfa fram á við og reyna að bæta hag þjóðarinnar.

Samninganefndin um Icesave er kapítuli út af fyrir sig og birtingarmynd vanhæfni "gamalla" stjórnmálamanna sem hafa einangrað sig í úreltum hugsunarhætti.

Nefndin var skipuð níu einstaklingum átta körlum og einni konu. Eina konan í nefndinni var kona sem hafði farið fyrir nefnd í viðskiptaráðuneytinu sem átti að innleiða ákvæði sem hefði undanþegið tryggingasjóð ábyrgð á innistæðum lögaðila. Bretar innleiddu þetta ákvæði og ég held Hollendingar líka. Nefndi klúðraði þessu. Átti að skila af sér þessu verkefni í september 2007.

Embættismannastéttin er stétt skipuð einstaklingum sem hafa þegið stöður sínar án þess að þurfa að sanna sig sem hæfa vegna klíkuskapar, vinagreiða og spillingar. Þessir einstaklingar fá ekki einungis störf sem þeir oftar en ekki hafa menntun eða hæfni til að leysa heldur eru þeir einnig verndaðir vegna klíkutengsla og þurfa ekki að standa skil á endurteknu klúðri í starfi.

Þetta leiðir til þess að auk þess sem einstaklingar í þessari stöðu eru vanhæfir í grunninn eru þeir heldur ekki að leggja sig fram að því að þeir hafa ekki hvatann til þess.

Niðurstaðan

Vanhæfni og óreiða hjá hinu opinbera.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 30.7.2009 kl. 02:00

5 Smámynd: Sævar Finnbogason

Sæll Siggi, góður pistill að vana

Ég get heilshugar tekið undir að embættismannakerfið sem kolbrást í hrunadansinum. Ekki bara Seðlabankinn og Fme heldur nánast allt kerfið.... En það er bara sá hluti Ísjakans sem sést, stærsti hluti hans er alltaf neðansjávar.

Það sorglegasta við umræðuna um þessi mál og það sem síðar hefur gerst er að fólk áttar sig ekki á eigin ábyrgð á þessu rugli öllu saman. Ég velti því fyrir mér hvenær fólk ætlar að hætta að röfla bara um ónýtt embættismannakerfi, vanhæfa ráðherra, vondu kallana Breta og Hollendinga heldur taki til við að ræða hvað er að ÞJÓÐINNI.

Það má klæða það sem hér hefur gerst í hvaða sellófan sem er, en það sést alltaf í gegn um það.

Hver ber ábyrgð á embættismannakerfinu? Jú þú og ég!

Það er einu sinni þannig að stjórnmálamenn eiga að hafa eftirlit með því að embættismenn og embættismannakerfið virki eðlilega og hverjir kjósa þessa stjórnmálamenn?

Sævar Finnbogason, 3.8.2009 kl. 14:37

6 Smámynd: Sævar Finnbogason

Jaaaa... Skorrdal ef skilja má athugasemd þína þannig að þú skiljir að í lýðræðissamfélagi ræður árvekni almennings því hversu góð stjórnvöld eru, þá er ég líka feginn. það eru nefnilega ekki bara þeir sem taka þátt í stjórnmálum sem bera ábyrgðina, heldur líka þeir sem velja að taka ekki þátt.Þannig að ef það má skilja þig þannig þá skilur þú útá hvað lýðræði gengur og tekur þessvegna þátt í því með því að kjósa og reynir þá að vinna skoðunum þínum fylgi. Tökum sem dæmi að ef þú hefði mottóið "burt með spillingunna" þá veistu að það kemur ekki af sjálfu sér og reynir að gera eitthvað í málinu.

Ef þú ert að meina eitthvað annað með athugasemd þinni þá ert þú einmitt holdgerfingur þess sem er að.

Sævar Finnbogason, 3.8.2009 kl. 20:10

7 Smámynd: Sævar Finnbogason

Allt sem í mínu valdi stendur. Ég hef tekið þátt í stjórnmálaum, samfylkingunni, Lýðveldisbyltingunni, unnið að borgarafundunum, sit í stjórn Borgarahreyfingarinnar og bloggað og skrifað greinar í af ákefð undanfarin ár, og margt fleirra.

Við erum greinilega í sama liðinu og vonandi tekst okkur að vekja fólkið.

Ég er einfaldlega að reyna stuða fólk til þess að skilja að ef við (almenningur) horfum framhjá okkar mistökum og sinnuleysi fer hér allt á sama veg og áður.

Sævar Finnbogason, 4.8.2009 kl. 14:01

8 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég biðst velvirðingar á fjarveru minni sem orsakaðist m.a. af tjaldútilegu fjarri tölvum og því sem sumir kalla siðmenningu.

Ég þakka ágæt innlegg frá "fólki" sem án nokkurns vafa áttar sig á samhengi hlutanna, eigin ábyrgð og ábyrgð annarra. Öll hljótum við að líta í eigin barm og fást við spurninguna um ábyrgð á eigin forsendum. Við öxlum ábyrgð en krefjumst réttlætis. Réttlætið felst m.a. í því að vanhæfum og klíkutengdum embættismönnum og stjórnmálamönnum verði vikið frá. Réttlætið felst líka í því að helstu gerendur í stóru svikamyllunni verði látnir gjalda fyrir með eigum sínum og hæfilegri refsingu.

Ábyrgð er ekki einungis að taka á sig kjaraskerðingu s.s. eignamissi, launalækkun, skattahækkanir, lífeyristap og gengishrun. Að mínu mati felst ábyrgð miklu frekar í að fjalla á gagnrýnan og uppbyggilegan hátt um ýmis þjóðfélagsmál og benda á þau mein sem grassera víða í stjórnsýslunni og þjóðfélaginu öllu. Höfum við ekki öll lagt eitthvað af mörkum til þess?

Sigurður Hrellir, 5.8.2009 kl. 11:14

9 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Fínn pistill Siggi

Anna Karlsdóttir, 6.8.2009 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband