7.7.2010 | 17:29
Bitlaus málsókn dótturfyrirtækis
Ég mætti í Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun til að hlýða á málflutning í mikilvægu máli Lýsingar gegn einum viðskiptavini sínum. Málið snýst um vaxtakjör af gengistryggðu bílaláni, en eins og Hæstiréttur hefur nýlega úrskurðað er það ólöglegt að gengistryggja lán í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla.
Lögmaður sóknaraðila mætti með margar kröfur og varakröfur í farteskinu en lítið af haldbærum lagarökum. Helst bar hann fyrir sig sanngirnisrökum sem hlýtur að vera nýyrði hjá bílalánafyrirtækjum. Einnig brá hann fyrir sig pólitískum rökum (enda kvæntur inn í ríkisstjórnina) og sagði að niðurstaða óhagstæð fjármálafyrirtækjum gæti eyðilagt hér allt sem gert hefur verið síðan í hruninu.
Lögmaður varnaraðila mætti hins vegar vel undirbúinn og benti m.a. á það að Hæstiréttur hefði í nýgengnum dómi sínum nr. 153/2010 (sem sækjandi var einnig aðili að) staðfest það sem Héraðsdómur hefði áður úrskurðað, að umræddur samningur væri ekki ógildur í heild sinni þó svo að gegistryggingin væri ólögleg. Einnig vísaði hann til samningalaga, neytendaréttar og ESB tilskipunar máli sínu til stuðnings og fannst mér rökstuðningur hans vera góður og sannfærandi. Auk þess lýsti hann því hvernig Exista tók stöðu gegn krónunni og græddi á því himinháar upphæðir á meðan að dótturfyrirtækið Lýsing innheimti ört hækkandi afborganir af ólöglegum gengistryggðum lánum.
Nú er málið sem sagt á borði dómarans sem væntanlega lætur lagalegar forsendur ráða fremur en pólitískar, eða hvað?
![]() |
Exista leitar nauðasamninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2010 | 10:12
Ólögmætir reikningar
Ég hef heimilidir fyrir því að einhver fjármálafyrirtæki rukki nú inn afborganir af ólöglegum gengistryggðum lánum eins og ekkert hafi í skorist. Í viðbót við viðbrögð sbr. tilmæli Hagsmunasamtaka heimilanna held ég að viðkomandi lántakendur ættu að gera sér ferð til lögreglunnar og kæra þessar stofnanir fyrir að gefa út ólögmæta reikninga. Slíkt er refsivert.
Svo held ég að hádeginu í dag sé vel varið við Seðlabanka Íslands.
![]() |
Hagsmunasamtökin beina tilmælum til lántaka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2010 | 13:04
Áskorun frá BH
Í ljósi tilmæla FME og Seðlabankans um vexti af ólöglegum gengistryggðum lánum vill Borgarahreyfingin koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri:
Þau fjármálafyrirtæki sem hafa á undanförnum árum boðið viðskiptavinum sínum íslensk lán bundin gengi erlendra gjaldmiðla hafa samkvæmt nýgengnum dómi Hæstaréttar brotið gegn lögum um vexti og verðbætur frá árinu 2001. Af því leiðir að umræddir lántakendur hafa verið krafnir um greiðslur langt umfram það sem lögmætur hluti lánasamninganna segir til um og í sumum tilfellum verið sviptir eigum sínum á ólögmætum forsendum.Það væri fullkomlega óásættanlegt og vafalaust ólöglegt ef sömu fyrirtæki breyttu einhliða vaxtaákvæðum samninganna sér í hag til að koma í veg fyrir að fjárhagsstaða þeirra versni sökum eigin brota. Ábyrgð eftirlitsstofnana er einnig mikil í þessu máli og því er holur hljómur í tilmælum þeirra nú, sem ekki byggja á traustum lagalegum grunni.
BH skorar á yfirvöld að standa með brotaþolum, sem í þessu tilfelli eru lántakendur og neytendur, með takmarkaða burði til að berjast við harðsvíraða sveit lögfræðinga fjármálafyrirtækjanna. Eðlilegast væri að fresta afborgunum af öllum gengistryggðum lánum þangað til dómstólar hafa gefið út úrskurð um vaxtaákvæði samninganna byggðan á gildandi lögum.
BH skorar á neytendur og talsmenn þeirra að standa saman og láta ekki bjóða sér yfirgang og lögleysu. Nóg hefur almenningur þurft að sætta sig við fram að þessu. Að mati BH er refsivert athæfi að gefa út reikning án lögmætrar kröfu og slíkt ber að kæra til lögreglunnar.
![]() |
X-mál og ákærur vegna hruns vofa yfir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.7.2010 | 09:04
66 árum síðar
Það er gleðiefni að undirbúningur stjórnlagaþings sé loksins að hefjast. Framundan er ferli sem gæti orðið, ef vel er á málum haldið, þjóðinni til mikillar gæfu. Ég ætla að gera orð Ragnars Aðalsteinssonar að mínum, en eftirfarandi er svar hans við spurningunni: Er ekki bara allt í lagi með stjórnarskránna?
Ragnar svaraði: "Nei, satt að segja, þá er ekki allt í lagi með hana og það er að sjálfsögðu kominn tími til að við setjumst niður og semjum okkar eigin lýðveldisstjórnarskrá. Það er að mínu viti brýn nauðsyn að þeir sem hér búa í þessu landi eigi sér sína eigin stjórnarskrá. Þeir hafa ekki átt hana fram að þessu. Við höfum átt þessa stjórnarskrá sem konungurinn lét okkur í té á sínum tíma. Við höfum aðlagað hana að litlu leyti að lýðveldisstofnuninni 1944 og gert smá breytingar síðan, en við höfum ekki reynt að spegla okkur í okkar eigin stjórnarskrá og þetta hefur leitt til þess að allt hefur farið hér á verri veg en ella og kannski er stjórnarskráin völd að því að nokkru leyti að lýðræði hefur ekki þróast hér með eðlilegum hætti."
"Það fer ekkert á milli mála að leiðtogar okkar á þeim tíma [1944] voru þess fullvissir að á næstu árum, að fengnum friði í heiminum, þá myndum við á tiltölulega skömmum tíma setja okkur okkar eigin lýðveldisstjórnarskrá og varpa fyrir róða gömlu stjórnarskrá konungsins. En síðan hafa menn leitast við að gera þetta, og hverjir hafa verið að leitast við að skrifa okkur nýja stjórnarskrá? Það eru stjórnmálaflokkarnir á þingi og forystumenn stjórnmálaflokkanna. Óhjákvæmilega og ósjálfrátt hafa þeir haft í fyrirrúmi hagsmuni sem lúta að flokkunum sjálfum og valdastöðu þeirra í samfélaginu og á Alþingi og af þeirri ástæðu hefur þeim ekki tekist að setja okkur nýja stjórnarskrá. Eitt af hlutverkum stjórnarskrár er að kveða á um valdmörk löggjafarvaldsins, framkvæmdavaldsins og stöðu dómstólanna í ríkinu. Þarna er erfitt fyrir þá sem eru sjálfir valdhafarnir að setja sjálfum sér mörk og það er líka hlutverk stjórnarskrár að taka afstöðu til þátttökuréttinda almennings í stjórn ríkisins með kosningum og með öðrum afskiptum á milli almennra kosninga, svo sem eins og með þjóðaratkvæði. Kannski upplifa stjórnmálamenn það svo að ef að þeir leggja of mikla áherlsu á þátttöku almennings og á þjóðaratkvæðagreiðslu og takmörkun á valdi sínu, að þá séu þeir á rýra vald Alþingis og þar með sitt eigið vald og það hugnast þeim ekki."
![]() |
Alþingishúsið kemur ekki til greina undir stjórnlagaþingið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.6.2010 | 09:52
Harðsvírað
Hæstiréttur dæmdi gengistryggingu lána í íslenskum krónum ólöglega. Með því staðfesti hann það sem Samtök fjármálafyrirtækja höfðu vitað síðan 2001, sjá hér. Fjármálafyrirtækin ákváðu sjálf að fara ekki eftir lögum um vexti og verðtryggingu þegar þau buðu viðskiptavinum sínum að taka gengistryggð lán.
Á meðan að beðið er eftir endanlegri niðurstöðu dómstóla hvort leyft verði að endurskoða vaxtaákvæðin í ljósi hinnar ólöglegu gengistryggingar, ættu fjármálafyrirtækin að sjálfsögðu að sjá sóma sinn í að rukka ekki afborganir af þessum lánum. Hvernig svo sem málið endar er ljóst að brotaþolarnir hafa nú þegar verið látnir greiða langt umfram það sem réttmætt er.
Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn brugðust bæði eftirlitsskyldu sinni í þessu tiltekna máli, ásamt Neytendastofu og Viðskiptaráðuneytinu. Það er engin sanngirni í því að þessar stofnanir leggi nú til að fólk sem greitt hefur langt umfram réttmæti skuli áfram eiga að greiða upphæðir sem eru hærri en löglegi hluti samninganna segir til um. Auk þess er verið að flækja málið að óþörfu því að hver segir að dómstólar muni fallast á þessa niðurstöðu?
Sjaldan hefur maður orðið vitni að annarri eins meðvirkni. Einbeittur brotavilji?
![]() |
Miða við lægstu vexti á hverjum tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.6.2010 | 11:20
Dýrt skal það vera

![]() |
Segir saksóknara vanhæfan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2010 | 15:56
Fráleit ummæli
Miðað við málflutning ráðherrans lengst af var hann alveg sáttur við að dómstólar hefðu úrskurðarvald í þessi mikla deilumáli sem varðar tugþúsundir einstaklinga. Nú kveður við annan tón og ljóst að ríkisstjórnin var ekki viðbúin þessari niðurstöðu, svo ótrúlegt sem það kann að virðast.
Gylfi Magnússon er hluti af framkvæmdavaldinu sem hefur verið legið á hálsi að valta yfir löggjafarvaldið. Nú hikar hann ekki við að leggja dómsvaldinu línurnar með svo ótvíræðum skilaboðum og gerir í leiðinni lítið úr áliti margra valinkunnra lögspekinga. Það er fullkomlega óeðlilegt og því ætti Gylfi að víkja úr sæti sínu sem fyrst.
![]() |
Fjarstæðukennd niðurstaða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.6.2010 | 23:49
Að spara sér sporin
Ég hugsa stundum til 4x4 gaursins á upphækkuðum Econoline sem ók framhjá mér á 100 km/klst á miðjum Kjalvegi. Sjálfur var ég á reiðhjóli og það rigndi yfir mig grjóti af öllum stærðum og gerðum. Klukkutíma síðar sá ég bílinn og ökumann hans á Hveravöllum og spurði kurteislega hvort hann gerði sér grein fyrir því að sumir ferðalangar væru algjörlega berskjaldaðir fyrir tillitslausum ökumönnum. Vinurinn sagði að Kjalvegur væri fyrir bíla og að reiðhjólamenn ættu bara að halda sig á þar til gerðum stígum. Það er sjónarmið út af fyrir sig!
Reynsla mín af íslenskum hálendisökumönnum er frekar dapurleg. Þeir eru oft tillitslausir og því stærra sem ökutækið er, því minna tillit sýna þeir iðulega. Erlendir ökumenn eru hins vegar oftast mjög tillitssamir og hægja verulega á sér þegar þeir aka framhjá fólki sem kýs annan og rólegri ferðamáta. Þeir eru ekki heldur haldnir þeirri áráttu að þurfa helst að leggja bílnum á miðju tjaldsvæðinu til þess að spara sér örfá spor.
Skyldu meðlimir 4x4 ferðaklúbbsins ekki átta sig á sérstöðu þeirra svæða sem lokuð eru fyrir umferð vélknúinna ökutækja? Hvað með rétt þeirra ferðalanga sem leita í kyrrð og ró fjarri byggðu bóli?
![]() |
Mótmæla fyrirætlunum að loka fyrir bílaumferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.6.2010 | 10:43
Þetta eru asnar, Guðjón
Í apríl 2001 fékk Alþingi í hendur umsögn frá Guðjóni Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, þar sem hann varar við því að samkvæmt óbreyttu frumvarpi (til laga um vexti og verðbætur) sé óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt.
http://www.visir.is/article/20100313/VIDSKIPTI06/337637238/-1
9 árum síðar virðist sami Guðjón Rúnarsson ganga út frá því að fjármálafyrirtækin hafi talið sig vera að veita lögleg lán!? Í Fréttablaðinu í dag kallar hann svo enn eftir aðkomu stjórnvalda, í þetta sinn til að koma í veg fyrir mögulega ringulreið tengdri gengistryggðu bílalánunum. Ringulreið hverra? Lögin eru skýr og dómsúrskurðir afdráttarlausir. Einnig er það skýrt samkvæmt áliti sérfræðings að dómarnir hafi fordæmigildi fyrir öll gengistryggð lán.
Það er gott til þess að vita að Kristinn H. Gunnarsson sem sat á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn vorið 2001 og samþykkti umrædd lög eigi ekki lengur sæti í leikhúsinu við Austurvöll. Það er einfaldlega ekki boðlegt að ætla framkvæmdavaldinu að grípa fram fyrir hendur dómsvaldsins í máli sem þessu þar sem eftirlitsstofnanir og kjörnir fulltrúar hafa einfaldlega brugðist skyldu sinni. Það gæti þar að auki skapað gífurlega skaðabótaskyldu fyrir ríkið á hvorn veginn sem færi. Verst er að Kristinn virðist eiga a.m.k. einn skoðanabróður á þingi.
Að lokum mæli ég með Benedikt Erlingssyni í Morgunútvarpi Rásar 2 á föstudögum. Einungis frjálsir menn og fordómalausir tjá sig með þeim hætti sem hann gerir. Eru Íslendingar upp til hópa ó-frjálsir? Hægt er að hlusta á Benedikt í spiladósinni hér á síðunni.
![]() |
Vill verðtryggingu á lánin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.6.2010 | 13:17
ÍSK+ÍSK=ÍSK
Hæstiréttur hefur síðasta orðið í lagalegum álitaefnum. Sem betur fer virðist ríkisstjórnin ekki ætla að gera neitt til að skerða rétt brotaþola eins og einn fyrrverandi þingmaður gerði að tillögu sinni. Lán veitt í íslenskum krónum og borguð til baka í íslenskum krónum má ekki verðtryggja við erlenda gjaldmiðla!
Eyvindur G. Gunnarsson er lektor við lagadeild HÍ og hefur manna mest rannsakað umrædd lög, lögskýringargögn, forsendur og dómafordæmi sl. 50 ár. Á vef RÚV stendur m.a.:
"Eyvindur telur dómana hafa víðtækt fordæmisgildi fyrir öll gengistryggð lán. Þannig nái áhrif dómsins langt út fyrir þessa tvo bílalánasamninga sem dæmt var um og taki þá einnig til húsnæðislána og annarra lána sem eins er ástatt um. Aðalatriðið sé að hafi lántaki fengið íslenskar krónur að láni og greiði til baka miðað við gengi annarra miðla, þá sé það ólögmæt gengistrygging."
"Eyvindur segir dómana staðfesta það réttarástand sem gilt hefur á Íslandi síðustu 50 ár, að gengistryggð lán séu ólögmæt. Hann telur jafnframt að dómarnir muni koma lántökum gengistryggðra lána afar vel. Þannig muni þeir hafa þau áhrif að höfuðstóll lána sem veitt voru miðað við gengistryggingu lækkar verulega. Lánin séu eins og staðan er í dag óverðtryggð og ógengistryggð, þannig að höfuðstóllinn lækkar gríðarlega mikið, og þá væntanlega afborganir."
Loksins örlar fyrir réttlæti í þágu neytenda. Næst á dagskrá er baráttan við verðtrygginguna þannig að aðrir lántakendur sitji ekki eftir í súpunni.
![]() |
Meiriháttar áfellisdómur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)