25.4.2009 | 09:13
Áfellisdómur
Það er auðvitað áfellisdómur yfir kosningalögunum og flokkakerfinu á Íslandi að ÖSE hafi séð ástæðu til að hafa eftirlit með kosningunum hér. Flokkarnir á Alþingi settu sjálfir leikreglurnar og tóku eigin hagsmuni fram fyrir lýðræðislega almenningshagsmuni. Nefnum nokkur dæmi:
- 5% þröskuldurinn gerir nýjum framboðum illmögulegt að ná mönnum inn á þing, einfaldlega vegna þess að hann er notaður sem áróðurstæki gegn þeim. Skoðanakannanir eru sjaldan nýjum framboðum mjög hjálplegar og stöðugt hamrað á að nýliðar eigi litla möguleika.
- Starfandi flokkar á þingi mylja undir sig hundruði milljóna af almannafé, m.a. til að heyja kosningabaráttu sína á meðan að ný framboð fá ekki krónu til að kynna sín mál. Hvers vegna í ósköpunum fá stærri flokkar meiri ríkisstyrki en hinir minni?
- Utankjörfundaratkvæðagreiðslur hefjast mörgum vikum áður en frestur til að skila framboðum er útrunninn. Þeir sem kjósa utankjörfundar snemma eru því augljóslega að kjósa gömlu flokkana.
- Farið er inn á elliheimili með atkvæðaseðla og einnig deildir þar sem heilabilað fólk býr. Þetta fólk er látið kjósa og vitaskuld kýs það eins og það var vant.
- Yfirkjörstjórnir eru skipaðar af Alþingi og þar sitja í mörgum tilfellum pólitískir varðhundar. Þeirra hlutverk er m.a. að gera nýjum framboðum erfitt fyrir eins og sannaðist fyrir nokkrum dögum þegar sumar kjörstjórnir settu fót fyrir nýju framboðin.
- Kjördæmaskipan gerir nýjum framboðum einnig mjög erfitt fyrir. Til að eiga raunhæfa möguleika á árangri þarf að bjóða fram í öllum kjördæmum en landsbyggðarfólk er í eðli sínu tortryggið og erfitt að ná til þess þar sem fjarlægðir eru miklar.
- Sitjandi stjórnmálamenn eru á fullum launum frá ríkinu í sinni kosningabaráttu, stundum með bíla frá ríkinu, á meðan að nýliðar þurfa að taka sér frí úr vinnu og útvega sér fé eftir öðrum leiðum.
- Ríkisútvarpið mismunar nú framboðum með því að hafa engar kynningar á þeim líkt og tíðkast hefur í fyrri kosningum. Þetta veldur því að þeir sem fjármagnið hafa kynna sig með auglýsingum en hinir ekki. Í flestum ríkjum sem við berum okkur saman við eru auglýsingar frá stjórnmálaflokkum bannaðar síðustu vikurnar fyrir kosningar.
Þá er ótalið hreint og klárt svindl sem sögur fara af; kjörkassar sem tínast, minnihlutahópum boðin greiðsla fyrir atkvæðin, hótanir og fl. Sjaldnast er hægt að sanna neitt af þessu en orðrómurinn vekur vissulega upp grunsemdir.
![]() |
ÖSE í öllum kjördæmum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.4.2009 | 02:28
BULL
"Aldrei stóð til að þingframboð fengju gjaldfrjálsa kynningu í Sjónvarpinu."
Þetta hljómar einkennilega í mínum eyrum því að 27. mars sl. talaði ég sjálfur við fulltrúa RÚV í síma og fékk þær upplýsingar að 10 mín. gjaldfrjáls kynning stæði öllum flokkum til boða. Það var að vísu tekið fram að frumkvæði ætti að koma frá þeim sjálfum og að sett væru skilyrði um að meirihluti framboða vildu taka þátt.
Í framhaldi af þessu hafði ég samband við fulltrúa allra hinna flokkanna og fékk jákvæðar undirtektir frá D, L, F og P. Framsókn var hlutlaus en Samfylking og VG fremur neikvæð. Ég spurði hvernig stæði á því að vinstri flokkarnir ætluðu að afþakka ókeypis kynningu í Sjónvarpinu en lítið var um svör.
Það stenst því illa sem Ingólfur Bjarni fullyrðir og er vissulega yfirklór yfir það að Ríkisútvarpið stendur sig illa í að uppfylla skyldur sínar samkvæmt útvarpslögum en 9. gr. hljómar svona:
9. gr. Lýðræðislegar grundvallarreglur. Útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum. Þó skal útvarpsstöð, sem fengið hefur útvarpsleyfi í þeim yfirlýsta tilgangi að beita sér fyrir tilteknum málstað, vera óskylt að flytja dagskrárefni sem gengur í berhögg við stefnu stöðvarinnar.
Reyndar finnst mér Sjónvarpið eiga verulega bágt í þessari kosningabaráttu því að Borgarafundir í beinni útsendingu eru algjörlega misheppnaðir. Ekki er nóg með að leikmynd og umgjörð sé endurnýtt frá árinu 2007, heldur eru spurningar það einnig. Þess virðist vandlega gætt að ræða ekki mál eins og persónukjör, misjafnt atkvæðavægi, kjördæmaskipan, stjórnarskrárbreytingar, lýðræðisumbætur, þjóðaratkvæðagreiðslur, gagnsæi í stjórnsýslu, faglegar ráðningar og fleiri grundvallarmál sem Borgarahreyfingin er með á stefnuskrá sinni. Í stað þess hljóma sömu gömlu frasarnir: Hvað ætlið þið að skapa mörg störf? Ætlið þið að hækka skatta? Hvernig á að spara í heilbrigðiskerfinu? Frambjóðendurnir yfirbjóða hvern annan og lofa upp í báðar ermar eins og ekkert sé sjálfsagðara.
X-O fyrir þá sem trúa ekki bullinu.
![]() |
Gjaldfrjáls kynning hjá RÚV stóð ekki til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.4.2009 | 01:59
Pólitísk refskák?
8,1 % hjá Reykjavík norður í dag og ennþá 10 dagar til kosninga. Sumar skoðanakannanir sýna enn meira fylgi en þessi þó sýnu mest! Skákmenn eru augljóslega réttsýnir.
Annars finnst mér þessi kosningabarátta bera fullmikinn keim af hraðskák. Það eru brögð og leikfléttur og sífellt styttist tíminn að leikslokum. Skyldi leynast eitrað peð í liði andstæðingsins?
![]() |
Samfylking stærst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2009 | 00:27
Sjáið og heyrið í fólkinu á bak við XO
Það er afrek út af fyrir sig að klára alla framboðslista Borgarahreyfingarinnar. 126 frambjóðendur víðs vegar um landið hafa lagt nafn sitt við stefnumál hreyfingarinnar og raunar enn fleiri því að færri komust að en gáfu kost á sér. Sjáið og heyrið í nokkrum þeirra hér fyrir neðan. Þar má sjá Herbert, Lilju, Þór, Birgittu, Gunnar, Baldvin, Jóhann og Margréti.
Hér eru svo nöfn efstu fimm í hverju kjördæmi:
Reykjavík Norður
1. Þráinn Bertelsson, rithöfundur.
2. Katrín S. Baldursdóttir, listakona.
3. Jóhann Kristjánsson, rekstrarhagfræðingur.
4. Anna B. Saari, kennari.
5. Sigurður Hr. Sigurðsson, hljóðmaður.
Reykjavík Suður
1. Birgitta Jónsdóttir, skáld.
2. Baldvin Jónsson, námsmaður.
3. Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur.
4. Hannes I. Guðmundsson, lögfræðingur.
5. Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur.
Suðvestur (Kraginn)
1. Þór Saari, hagfræðingur.
2. Valgeir Skagfjörð, leikari.
3. Ingifríður R. Skúladóttir, vörustjóri.
4. Ragnheiður Fossdal, líffræðingur.
5. Sigríður Hermannsdóttir, líffræðingur.
Norðvestur (NV)
1. Gunnar Sigurðsson, leikstjóri.
2. Lilja Skaftadóttir, framkvæmdastjóri.
3. Guðmundur A. Skúlason, rekstrarfræðingur.
4. Ingibjörg S. Hagalín, húsmóðir.
5. Þeyr Guðmundsson, verkamaður.
Norðaustur (NA)
1. Herbert Sveinbjörnsson, kvikmyndagerðarmaður.
2. Björk Sigurgeirsdóttir, framkvæmdastjóri.
3. Hjálmar Hjálmarsson, leikari.
4. Ragnhildur A. Hjartardóttir, námsmaður.
5. Rakel Sigurgeirsdóttir, kennari.
Suður
1. Margrét Tryggvadóttir, ritstjóri/rithöfundur.
2. Jón Kr. Arnarson, verkefnastjóri.
3. Hildur Harðardóttir, leiðsögumaður.
4. Ragnar Þór Ingólfsson, verslunarmaður.
5. Þórhildur Rúnarsdóttir, sérfræðingur.
Borgarahreyfingin XO fyrir lýðræði gegn flokksræði!
![]() |
Borgarahreyfingin býður fram í öllum kjördæmum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.4.2009 | 11:54
Bruðl og vanhæfi
Það fær hárin til að rísa á höfðinu á fólki að sjá hvernig rekstri stjórnmálaflokkanna hefur verið háttað. Þrátt fyrir hundruði milljóna framlög úr ríkissjóði tekst engum þeirra að halda rekstrinum nálægt núllinu. Á árinu 2007 voru allir flokkarnir með tölu reknir með tugmilljóna tapi og í tilfelli Samfylkingarinnar um 85 milljónir!
Hvernig á fólk að geta treyst þessum flokkum til að stjórna þjóðarbúinu þegar þau geta ekki einu sinni komist klakklaust frá eigin rekstri á hápunkti gróðærisins?
Borgarahreyfingin fær ekki krónu með gati frá opinberum aðilum og þarf að horfa í hverja einustu krónu sem eytt er í kosningabaráttunni. Það er vissulega bæði ólýðræðislegt og ósanngjarnt en samt sem áður hollt veganesti fyrir hugsjónafólk sem vill sjá breytingar í stjórnkerfinu. Það getur allavega enginn kennt Borgarahreyfingunni um að hafa þegið fé fyrir sérstakar fyrirgreiðslur eða mútur eins og það kallast í flestum öðrum löndum.
![]() |
Flokkarnir skulda hálfan milljarð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.4.2009 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2009 | 23:22
85 milljón króna tap á einu ári!
Mig langar rétt að minnast á það hróplega misrétti sem ríkir í stjórnmálum á Íslandi. Hér má sjá einhverjar rekstrartölur úr bókhaldi Samfylkingarinnar fyrir árið 2007, þó ekki sundurliðuð framlög frá einstaklingum eða sveitarfélögum. Þetta er eftir að reglur tóku gildi um 300 þúsund kr. hámarksupphæð styrkja frá einum og sama aðila eða fyrirtæki.
Í úrdrættinum kemur fram að framlög frá einstaklingum voru um 15 milljónir og svipuð upphæð kom frá sveitarfélögum. Lögaðilar styrktu Samfylkinguna um 23,5 milljónir og ríkið um heilar 129 milljónir!! Samt sem áður skilaði þessi "ábyrgi" stjórnmálaflokkur tæplega 85 milljón króna tapi á árinu!!!
Borgarahreyfingin er nú í kosningabaráttu þar sem hún leggur höfuðáherslu á gagnsæi, minna flokksræði, bætta stjórnsýslu, almennar lýðræðisumbætur, stjórnlagaþing með þátttöku almennra borgara, gagngera rannsókn á efnahagshruninu sem sakamál og markvissar aðgerðir til bjargar heimilum í landinu. Til að kynna sig og sín mál fær hreyfingin 0 kr. frá ríki og sveitarfélögum og styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum sem varla ná mikið yfir 1 milljón samanlagt. Auk þess þarf Borgarahreyfingin að keppa við þröskulda sem fjórflokkurinn hefur laumað inn í stjórnarskrá lýðveldisins til þess að tryggja betur stöðu sína.
Ég hvet alla kjósendur til að kynna sér baráttumál Borgarahreyfingarinnar X-O og reyna að hrista upp í gamla flokkakerfinu. Það er því miður víða pottur brotinn í stjórnkerfinu okkar.
![]() |
Samfylking opnar bókhaldið 2006 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.4.2009 | 19:42
Göngum hreint til verks!?
![]() |
Upplýsir ekki hverjir leituðu styrkja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2009 | 10:52
Grein eftir Júlíus Sólnes
Ég ætla að leyfa mér að birta hér stutta grein eftir Júlíus Sólnes fyrrverandi umhverfisráðherra og prófessor sem skrifaði frá Bandaríkjunum í lok síðasta árs um flokkakerfið sem brugðist hefur þjóðinni. Nú hlýtur fólk að gera þá ófrávíkjanlegu kröfu að bókhald stjórnmálaflokka verði öllum opið til að gagnsæi sé í því hverjir styrkja flokka og fólk á þingi. Þannig er hægt að fyrirbyggja spillingu og fá skýringar á fyrirgreiðslum og vafasömum ákvörðunum. Flokkakerfið hefur því miður orðið að þjóðfélagsmeini. Því viljum við í Borgarahreyfingunni breyta, m.a. með því að höggva skörð í þá varnargarða sem flokkarnir hafa reist utan um sína starfsemi.
Borgarahreyfingin X-O er breiðfylking almennings!

Breiðfylking almennings verður að bjóða fram í komandi kosningum og ná hreinum meirihluta. Að öðrum kosti munu gömlu flokkarnir hugsa sér gott til glóðarinnar. Litlu flokkarnir munu hlaupa í sæng með íhaldinu eða Samfylkingunni, ef tækifæri gefst og halda ótrauðir áfram með gamla kerfið. Eða halda menn til dæmis, að Framsóknarflokkurinn hafi eitthvað breytst, þótt hann hafi kosið nýja forystu. Flokkurinn sem ,,gaf Búnaðarbankann og muldi undir flokksgæðinga sína, þannig að fyrrverandi ríkisstarfsmenn á miðlungslaunum urðu allt í einu milljarðamæringar. Og hinir flokkarnir eru engu betri.
Til þess að breiðfylkingin komist til valda, þarf hún að tilkynna fyrir kosningar hverjir munu mynda ríkisstjórn hennar. Hún á að undirstrika aðgreiningu framkvæmda- og löggjafarvalds með því að tilnefna hæfustu menn í öll ráðherraembætti og hafa þá ekki á framboðslistum til alþingis. Gömlu flokkarnir tala venjulega niður til almennings og halda því fram, að aðeins innan þeirra raða sé hæft fólk til þess að verða ráðherrar. Svo er nú aldeilis ekki, eins og undanfarnir atburðir hafa sannað. Í kjölfar bankahrunsins hefur komið fram á sjónarsviðið fullt af duglegu og hæfu fólki utan flokkakerfisins, sem betur væri treystandi fyrir æðstu stjórn landsins. Hvernig væri til dæmis að leita til Þórólfs Árnasonar, fyrrum borgarstjóra, og fá hann sem forsætisráðherraefni. Hann er að minnsta kosti einn fárra háttsettra embættismanna sem hefur axlað ábyrgð og orðið að segja af sér, enda maður af meiri. Hvað með Stefán Ólafsson, prófessor sem félagsmálaráðherra og Gylfa Magnússon, dósent, efnahags- og viðskiptamálaráðherra? Það þyrfti að finna mjög kláran mann til að verða atvinnumálaráðherra í sameinuðu ráðuneyti iðnaðar, landbúnaðar og sjávarútvegs. Ekki veitti nú af að finna góðan mann í fjármálaráðuneytið til að sjá fram úr því hvernig við eigum að borga til baka þá þúsundir milljarða, sem ríkisstjórn afglapa og útrásargæðingarnir hafa skellt á bak okkar. Þá ætti einnig að stilla upp nýjum seðlabankastjóra, til dæmis Þorvaldi Gylfasyni prófessor, og heita því að sameina Seðlabanka og fjármálaeftirlit. Að sjálfsögðu þarf svo að finna hæft og gott fólk til að manna framboðslistana. Slík breiðfylking ætti ekki að stefna að því að verða varanleg. Þegar hún hefur lokið hreingerningu sinni og komið gömlu flokkunum út í hafsauga, ætti hún að draga sig í hlé og fela nýjum hreyfingum fólkins að standa vörð um lýðræðið til frambúðar.
Breiðfylking almennings hefur allt að vinna og engu að tapa. Ef hún vinnur kosningarnar, getur hún hafið nauðsynlegar umbætur á íslensku þjóðfélagi. Boðað til stjórnlagaþings, breytt stjórnarskrá, undirbúið tillögur um fækkun alþingismanna í 30 til 40, að landið verði eitt kjördæmi, nýja kosningalöggjöf til að koma í veg fyrir flokkræðisvald, og að forsætisráðherra verði kjörinn beinni kosningu. Þá ætti að innkalla allan fiskveiðkvótann og búa til nýtt úthlutunarkerfi þar sem meira tillit er tekið til smábátaveiða, er henta hinum dreifðari byggðum betur en skuldsett stórtogaraútgerð. Ég minni á gamla hugmynd um 50 mílna togveiðilandhelgi, innan hennar enginn togari aðeins smábátar. Verði þetta að veruleika rís nýtt Ísland upp út öskustónni. Ef ekki tekst að ná meirihluta á alþingi, mun allt sitja við það sama. Gömlu flokkarnir hrósa happi og halda uppteknum hætti, skipta með sér gæðum landsins og raða vanhæfum flokksþjónum í bitlingastöður.
Júlíus Sólnes
![]() |
Það þarf að upplýsa alla atburðarásina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2009 | 17:25
Allt upp á borðið
Ég ætla rétt að vona að kjósendur láti ekki leiða sig eins og lömb til slátrunar þann 25. apríl. Loksins grillir í það sem margir hafa talið sig vita um en fáir getað sýnt og sannað.
Kjósendur verða að krefjast þess að fá undanbragðalaust að sjá hverjir það eru sem hafa lagt stórar fjárupphæðir inn á reikninga flokkanna sem þeir studdu og einnig einstakra frambjóðenda. Það er einfaldlega of mikið í húfi nú þegar heil þjóð er með gjaldþrot vofandi yfir sér. Starfa flokkarnir fyrir fólkið sem kýs þá eða sérhagsmunaaðila sem borga þeim fyrir að reka sín mál?
Borgarahreyfingin er valkostur fyrir heiðarlega Sjálfstæðismenn sem sjá að flokkurinn verður að endurmeta hlutverk sitt og gera algjörlega hreint fyrir sínum dyrum. Borgarahreyfingin er líka valkostur fyrir þá sem hrista hausinn og ætla að skila auðu eða sniðganga kosningarnar. Auð atkvæði gera einfaldlega ekkert til að breyta ástandinu til hins betra. Ef einhverjir heiðarlegir Framsóknarmenn fyrirfinnast er þeim einnig bent á að kjósa Borgarahreyfinguna sem krefst þess að gagnsæi verði einkunarorðið í endurreisn hagkerfisins.
Hlaupum ekki eins og rollur í hóp á eftir spilltum forystusauð.
![]() |
Samfylking eykur forskot sitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2009 | 09:49
Hvað er Samorka?
Það er rétt að halda því til haga að Gústaf A. Skúlason sem titlaður er aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku hefur skrifað ófáar greinar í blöðin þar sem hann ræðst með hæðnistón að náttúruverndarfólki. Hann er m.ö.o. á fullum launum (væntanlega rausnarlegum) við að verja orkufyrirtækin með ráðum og dáð. Dæmi hver fyrir sig um það hvort að málflutningur hans sé trúverðugur.
Reyndar hefur það vakið athygli mína að hjá Samorku starfa nú samkvæmt heimasíðu fyrirbærisins 5 karlar og 3 konur. Allir karlarnir eru titlaðir framkvæmdastjórar nema Gústaf sem er aðstoðarframkvæmdastjóri. Það gefur þeim væntanlega tekjur sem eru umtalsvert hærri en gengur og gerist hjá öðrum fyrirtækjum í eigu hins opinbera. Konurnar 3 eru allar titlaðar ritarar. Það eru varla mörg fyrirtæki sem geta státað sig af svo háu hlutfalli framkvæmdastjóra og afgerandi kynjaskiptingu.
Nýlega ályktaði Samorka (með undirritun Gústafs) um fyrirhugaða stjórnarskrárbreytingu sem rædd er á Alþingi í hið óendanlega af siðspilltum mútuþegaflokki, því miður á kostnað annarra mikilvægra mála. Samorka leggst gegn auðlindaákvæðinu og er nöp við hugtök eins og "sjálfbæra þróun", "þjóðareign" og "láta varanlega af hendi". Það kann reyndar vel að vera að skilgreiningar á þessum hugtökum séu ekki nægilega skýrar því að rík tilhneiging hefur verið til mistúlkunar á ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins. En mér segir reyndar svo hugur að fleiri þættir spili þar með og bendi m.a. á (eins og Lára Hanna) að sérstaklega var óskað álits frá Alcan og Alcoa um stjórnarskrá íslensku þjóðarinnar!!! Það er líklega ekki að ástæðulausu að John Perkins sé að vara okkur við þessum risastóru alþjóðlegu fyrirtækjum.
Fróðlegt þætti mér að sjá hversu miklu af opinberu fé sé ausið í að standa vörð um ímynd orkufyrirtækja. Nú mun Gústaf væntanlega þurfa að sitja með sveittan skallann og reyna að brjóta á bak aftur fullyrðingar úr Draumalandinu og boðskap John Perkins. Ekki öfunda ég hann af því hlutskipti.
![]() |
Segir John Perkins vera á villigötum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)