Að gera upp við Hrunið

Á fundi VG í gær kom fram í máli Ögmundar að það væri ekkert uppgjör við Hrunið að færa fyrrverandi forsætisráðherra einan fyrir dómstóla vegna atburða sem áttu sér stað á 8 mánaða tímabili á árinu 2008. Því til rökstuðnings nefndi hann fjölmargt æði vafasamt sem hefur átt sér stað á löngu tímabili, s.s. einkavæðingu bankanna, ráðstöfun lífeyrissjóða á almannafé og fl.

En dettur nokkrum manni það í hug að landsdómsmálið gegn Geir Haarde sé endanlegt uppgjör við Hrunið? Eins og Björn Valur segir á bloggi sínu snýst það mál um möguleg lögbrot og ekkert annað. Það kann hins vegar að verða mikilvægur hluti af uppgjöri vegna þeirra upplýsinga sem þar koma almenningi fyrir sjónir.

Að gera upp við Hrunið snýst örugglega um réttlæti, að þeir sem brutu gegn lögum þurfi að svara til saka fyrir dómstólum. Það snýst einnig um að allir séu jafnir fyrir lögum, að fjárglæframenn fái amk. ekki vægari dóm en sauðaþjófar, svo og stjórnmálamenn.

Uppgjörið snýst um að horfast í augu við ömurlega stjórnmálamenningu sem gengur út á fyrirgreiðslur og sérhagsmunagæslu framar almannahagsmunum. Það snýst um að breyta vinnubrögðum á Alþingi og í ráðuneytum þannig að faglega sé tekið á erfiðum verkefnum, reynt sé að miðla málum og komast að skárstu niðurstöðunni fyrir þjóðina sem heild. Það snýst um lýðræðisvæðingu þar sem atkvæðavægi allra kjósenda er jafnt og þeir velja sér sjálfir fulltrúa á Alþingi (sbr. tillögur að nýrri stjórnarskrá). Síðast en ekki síst snýst það um að hugarfarsbreyting verði meðal almennings og að fólk taki sjálft aukna ábyrgð með þátttöku í ákvörðunum, og auknu aðhaldi með stjórnvöldum. En til þess að það megi verða þurfa réttar upplýsingar að vera til reiðu og allir að sitja við sama borð.


mbl.is Stál í stál á VG-fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bindum vonir við nýja stjórnarskrá

Það verður að segjast eins og er að þingmenn Hreyfingarinnar hafa talað fyrir daufum eyrum á Alþingi í mörgum málum, þó sér í lagi þegar uppgjör við Hrunið kemur til umfjöllunar. Eins og heyra má í umræðum þeim sem Þór vísar til í bloggfærslu sinni hafa þau hamrað á því að alþingismönnum sé ekki fært að meta hlutlaust frammistöðu samflokksmanna sinna, formanna, samráðherra eða samstarfsmanna til margra ára.

Tillögum Hreyfingarinnar um að kalla sérskipaðri þingnefnd til aðstoðar óháða aðila var alfarið hafnað, svo og tilmælum um að varaþingmenn væru kallaðir til þegar greiða ætti atkvæði um ákærur gegn fyrrverandi ráðherrum. Margir þingmenn fjórflokksins fóru á sínum tíma hörðum orðum um Hreyfinguna og málflutning hennar, t.d. sagði Siv Friðleifsdóttir að hún væri að skapa sér "sérstöðu til að klifra upp á bakið á öðrum flokkum".

Það má vel vera að málflutningur Þórs Saari, Birgittu og Margrétar hafi ekki alltaf verið til þess fallinn að auka virðingu Alþingis. Þau hafa iðulega verið ófeimin við að gagnrýna kerfið og starfshætti þingsins, oft við lítinn fögnuð annarra þingmanna. Hins vegar er það að koma betur og betur í ljós að þingið og þeir stjórnmálaflokkar sem þar starfa eru illa færir um að taka ákvarðanir um breytingar til batnaðar.

Þingið hefur haft 67 ár til þess að klára ófullburða tillögur að "nýrri" stjórnarskrá sem samþykkt var vorið 1944. Þess vegna verður að binda vonir við tillögur Stjórnlagaráðs  um nýja fullburða stjórnarskrá  þar er kveðið á um margar gagngerar breytingar á störfum þingsins og stjórnkerfisins alls. Ég skora á fólk að kynna sér vel þessar tillögur. 


mbl.is Talar um siðferðilegt forað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja stjórnarskráin

Það er einfaldlega ekki rétt sem stendur á mbl.is að forsætisráðherra hafi talið "málið of skammt á veg komið til að það gæti verið samhliða forsetakosningum". Hún lýsti hins vegar þeim vilja sínum að þjóðin greiddi atkvæði um tillögu að nýrri stjórnarskrá samhliða forsetakosningum í júní.

Jóhanna veit af fenginni reynslu að málið nýtur ekki stuðnings allra stjórnmálaflokka á Alþingi og gæti því hugsanlega tafist þegar andstæðingar þess láta sverfa til stáls. Það er auðvitað ekki það sama og að "málið sé of skammt á veg komið".

Bjarni Benediktsson kom líklegast fáum á óvart þegar hann lýsti áhyggjum sínum af því að leggja tillögur Stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann talaði um "ófullburða drög að nýrri stjórnarskrá" og vísaði til einhverra fræðimanna sem hann nafngreindi þó ekki. Mér kæmi ekki á óvart að "fræðimaðurinn" Hannes Hólmsteinn hafi sitthvað við tillögurnar að athuga en fæstir fræðimenn sem mark er tekið á hafa hins vegar tjáð sig mikið um þær.

Reyndar er það nú svo að stjórnarskráin er fyrst og fremst pólitískt plagg og álit ákveðinna fræðimanna á ekki að vega þyngra en álit annarra kjósenda. Gamla stjórnarskráin var reyndar við lýðveldisstofnun "ófullburða drög að nýrri stjórnarskrá" en í tímans rás hefur hún verið afbökuð, túlkuð og teygð af ráðandi stjórnmálaflokkum og lögfræðingum sem þeir hafa velþóknun á. Nú eru það fyrst og fremst sérhagsmunaöfl sem standa í vegi fyrir því að kosið sé um nýja stjórnarskrá sem gæti orðið vegvísir fyrir þjóðina á 21. öldinni. Látum ekki hafa okkur að fíflum.


mbl.is Tillögur standi sem mest óbreyttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15. gr.

Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.

Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.


mbl.is Skýrslu stungið undir stól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Grjótkast úr steinhúsi"

Fyrst að Gunnar Bragi er að vekja máls á þessu væri ekki úr vegi að benda á samantekin ráð fjórflokksins að útiloka ný framboð frá umfjöllun í aðdraganda alþingiskosninganna 2009. Það er gerð grein fyrir þessu í skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) á bls. 15, en þar segir:

At its own initiative RUV offered all seven competing political organizations a 10 minute slot of free airtime on public television on condition that the majority of them agreed. Free airtime had been given in previous elections, without such a condition. For the 2009 elections, four of the seven competing political organizations (all four of which were established parliamentary parties) declined the offer on the grounds that high production costs outweighed the possible benefit, and RUV withdrew the offer. The decision by RUV to decide the issue by majority interest was strongly criticized by the two newly formed political organizations, the CM [Borgarahreyfingin] and DM [Lýðræðishreyfingin].

In practice, RUV’s majority approach to the issue of free airtime denied the smaller parties a potential means of expressing their views to voters, based on a decision by the larger parties. Although the allocation of free airtime is not compulsory, it is a practice in many OSCE participating States that public broadcasters offer free airtime to parties competing in elections. Free airtime especially allows smaller competitors, with limited resources, an opportunity to address the electorate.

The provision of free airtime could be addressed in legislation in order to ensure consistent practice in each election.

Eitthvað hlýtur að vera bogið við það þegar ríkisstyrktir stjórnmálaflokkar taka sig saman um að hafna ókeypis sjónvarpstíma til þess eins að útiloka fjárvana ný framboð frá því að nýta sér slíkt tilboð.


mbl.is Gunnar Bragi: Ósáttur við RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband