Sauðfé, rússagull og hinn óviðjafnanlegi bæjarstjóri

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um villt sauðfé sem lifað hefur í fjallinu Tálkna milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar frá því um 1950! Haft er eftir bæjarstjóra Vesturbyggðar að "hann vilji ekki til þess hugsa að féð svelti í hel eða hrapi af klettum í vondum veðrum". Þess vegna hefur hann látið gera árásir á kindurnar, síðast árið 2004 þegar 23 sem til náðust voru skotnar og hræin skilin eftir á víðavangi. Nú stendur sem sagt til að beita hefðbundnari "mannúðarsjónarmiðum" og reyna að færa féð til slátrunar.

Úr Arnarfirði - Sigurgeir SigurjónssonRagnar Jörundsson bæjarstjóri hefur sýnt það og sannað að hann á fáa sína líka og fæstir komast með tærnar þar sem hann hefur hælana þegar hann tjáir sig opinberlega. Hann hefur verið mikill baráttumaður fyrir því að olíuhreinsistöð risi í Arnarfirði sem náttúruljósmyndarinn Sigurgeir Sigurjónsson hefur sagt að sé fallegasti fjörður landsins. Á bloggsíðu sinni (sem hefur verið lokað) taldi Ragnar það 99,9% víst að olíuhreinsistöðin risi og líkti henni við mjólkurbú til að gera lítið úr mengunarhættunni. Einnig taldi Ragnar ekki eftir sér að mæta í boð í Rússneska sendiráðinu þar sem hann sannfærðist um að "þarna væri ekkert óhreint í pokahorninu" og að "traustir aðilar" stæðu að áformunum. Samt sem áður viðurkenndi hann fúslega að hann vissi ekki hverjir það væru sem hann teldi svo trausta.

Sauðfé, rússagull og Ragnar Jörundsson. Hljómar þetta ekki traustvekjandi? Íslendingar þurfa varla að kvíða framtíðinni með Samfylkingarmenn eins og Ragnar við völd. Hann mun ekki láta okkur kveljast frekar en rollurnar á Tálkna.

Heimildir hér og hér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það er með hreinum ólíkindum hvað menn í ábyrgðarstöðum geta bullað og þvælt. Þetta fé hefur lifað þarna sem villtar skepnur í tæp 60 ár og munu plumma sig áfram. Það á að nota þá staðreynt sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn í stað þess að drepa allt sem kvikt er. Dæmigert fyrir fáránleikan sem tröllríður hér öllu.

Kv, ari

Arinbjörn Kúld, 27.10.2009 kl. 23:28

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Nú hefur komið í ljós að smölunin tókst ekki betur en svo að 5 kindur hröpuðu fram af klettum og hafa víst ekki fótaferð framar þrátt fyrir annálaðan hraustleika. Um 20 manna hópur var sendur á fjallið í þeim tilgangi að ná dýrunum (wanted dead or alive!) og eflaust hefur leiðangurinn verið kostaður af opinberu fé.

Sigurður Hrellir, 28.10.2009 kl. 14:42

3 identicon

Einhver af forsvarsmönnum þessa dularfulla olíuverkefnis lét hafa það eftir sér að olíuhreinsistöðin hefði nú líklega bara aðdráttarafl á ferðamenn vegna ljósadýrðarinnar sem stafar af svona verksmiðju að næturlagi! Mér fannst þessi ummæli hreppsstjórans um mannúðina vera af svipuðum toga. Svona náungar verða seint sakaðir um að vera tengdir við raunveruleikann.

Bjarki (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband