Boðorðin 10

Ég þykist fullviss um að mikil eftirspurn sé eftir nýju stjórnmálaafli. Þó svo að ég vilji gjarnan sníða málefnaskrá slíkrar hreyfingar að öllum mínum persónulegu skoðunum þá býst ég ekki við að það sé vænlegt til árangurs. Hins vegar gat ég ekki stillt mig um að setja niður nokkur grunnmarkmið eða boðorð sem hljóta að falla vel að hinu "Nýja Íslandi".

1. Pólitískar stöðuveitingar eiga ekki að líðast - Það er ólíðandi að stjórnmálaflokkar komi útsendurum sínum fyrir í lykilstöðum, embættum, stjórnum, nefndum og í fjölmiðlum. Af þeim sökum er færasta fólkið oft og iðulega sniðgengið af því að það er ekki með (rétt) flokksskýrteini í vasanum eða vill stunda sín störf án tengsla við stjórnmálaflokkana.

2. Fjármál stjórnmálaflokka skulu vera opin til að fyrirbyggja óeðlileg hagsmunatengsl - Ef bókhaldið þolir ekki dagsins ljós hlýtur að vera góð og gild ástæða fyrir því. Það þarf að vera hafið yfir allan vafa að stjórnmálaflokkar og einstakir stjórnmálamenn gangi ekki erinda stuðningsaðila og fjársterkra bakhjarla.

3. Gæta skal jafnvægis á milli kynja á listum og þegar skipað er í embætti og nefndir - Ætti að vera sjálfgefið á 21. öldinni en treglega hefur gengið að ná fullu jafnræði, ekki síst með tilliti til launa. Einnig hefur berlega komið í ljós að áhættusækni karla þarf nauðsynlegt mótvægi sem áhættufælni kvenna veitir.

4. Efla skal þingræði og sjálfstæða ákvarðanatöku þingmanna - Þeim ber að kynna sér málin eftir bestu getu og láta eigin sannfæringu ráða. Flokksagi má ekki taka völdin og gera einstaka þingmenn að viljalausum verkfærum. Stjórnarmeirihluti verður að láta af þeim leiða ósið að valta sífellt yfir minnihlutann. Minnihlutastjórn á að geta verið raunhæfur möguleiki.

5. Aðskilja skal framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald - Ráðherrar eiga að starfa utan þings og skilyrðislaust að vera valdir með menntun, reynslu og hæfni að leiðarljósi. Dómara skal tilnefna samkvæmt hæfnismati dómsnefndar en ekki hentisemi einstakra ráðherra eða pólitískra afla. (Byggja á hugmyndum Vilmundar Gylfasonar).

6. Hagsmunir þjóðarinnar skulu ætíð ganga fyrir hagsmunum stjórnmálaflokkanna - Það má aldrei slá mikilvægum ákvörðunum á frest vegna þess að þær séu umdeildar innan stjórnmálaflokks. Umræða þarf að geta átt sér stað á Alþingi þó svo að landsfundir einstakra flokka hafi ekki tekið afstöðu til málsins.

7. Stjórnmálamönnum og stjórnendum ríkisstofnana ber að axla ábyrgð á mistökum sínum - Það er fáheyrt að íslenskir embættis- eða stjórnmálamenn segi sig frá störfum ef þeir eru uppvísir af misnotkun, spillingu eða alvarlegum mistökum. Nauðsynlegt er að auka siðgæðisvitund meðal þeirra.

8. Eftirlitsstofnanir skulu starfa óháð stjórnmálaflokkum - Það verður að vera hafið yfir allan vafa að eftirlitsstofnanir geti gegnt skyldum sínum án afskipta stjórnmálamanna. Sama gildir um embætti Ríkissaksóknara, dómstóla, Fjármálaeftirlits, Seðlabanka og rannsóknarnefnda.

9.  Lýðræðishalla verður að rétta af eftir fremsta megni - Efna skal til þjóðaratkvæðagreiðslu um hin stóru mál. Einnig þarf að endurskoða fyrirkomulag kosninga þannig að allir kjósendur njóti jafnræðis (landið eitt kjördæmi) og fái að forgangsraða frambjóðendum af listum, jafnvel í mismunandi stjórnmálaflokkum. Væri ekki réttast að kjósa forsætisráðherra líka?

10. Borgarafundir skulu haldnir reglulega - Það hefur sýnt sig að beint samband á milli þingkjörinna fulltrúa og almennings eykur gagnkvæman skilning. Þó svo að hlutverk fjölmiðla sé mikilvægt og fjölbreytni í fjölmiðlun, þarf rödd fólksins að heyrast miklu oftar en í aðdraganda kosninga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Get tekið undir alla liði, nema númer þrjú. Hvað ef t.d. hlutfallslega margar konur hópast í einn flokk, en karlar í annan. Það yrði frekar asnalegt ef að 4 karlar og 4 konur væru í framboði fyrir flokk sem hefur 600 konur og 25 karla innan borðs eða öfugt. Hvað með kvennalistann? Konur, jafnt sem karlar, þurfa að koma sér á framfæri án kynjakvóta og "jákvæðrar" mismununar.

Sindri Guðjónsson, 29.11.2008 kl. 07:11

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Sæll Sindri. Sjálfum finnst mér það hvorki æskilegt né rökrétt að bjóða upp á kvennalista eða karlalista. Ég get vel séð fyrir mér hagsmunasamtök karla, kvenna eða jafnréttishóp innan ákveðins stjórnmálaflokks en það er að mínu mati mótsagnakennt að krefjast jafnréttis með flokki þar sem einungis konur skipa öll sæti.

Sigurður Hrellir, 30.11.2008 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband