Austurvöllur 20.02.2010 kl. 15:15

Kæru félagar,

Í dag ætla ég ekki bara að tala um réttindi og réttlæti. Í dag langar mig líka að tala um skyldur okkar sem borgara.

Skoðum réttarsögu okkar og berum hana saman við Evrópu. Því miður sýnir sagan að réttur, lýðræði og réttlæti eru ekki sjálfsögð mannréttindi. Það tók Frakkland 1789 ár að staðfesta nútímalega mannréttindaskrá. Og hversu margir týndu lífi í Evrópu á síðustu öld til að tryggja frið og réttarríki - hugtök sem við tökum sem ókeypis og sjálfsögðum hlut? Fyrri heimsstyrjöldin kostaði heiminn á bilinu 9 til 16 milljón mannslíf. Sú síðari kostaði á bilinu 50 til 70 milljón mannslíf.

DannebrogOkkar saga er öðruvísi. Við erum líka hugrökk þjóð. Við misstum ótalmarga dugmikla sjómenn í áranna rás og einnig nokkra farmenn í stríðinu. En hversu margir Íslendingar hafa týnt lífinu fyrir sjálfstæði, lýðræði og mannréttindi? Hugsum aðeins málið. Stjórnarskráin var gjöf til okkar frá dönskum kóngi. Það segir ýmislegt um skapgerð okkar.....

En ég spyr: Eru það örlög okkar að verða eins og hjálegubændur sem fylgja þessu blessaða landi? Erum við eins og ósjálfráða þegnar sett undir náð og miskun fáræðis og forréttindaklíku? Þegar ég sé svo marga hér í dag þá veit ég að spurningin á rétt á sér. Við erum hér vegna þess að við eigum betra skilið.

NEI - við erum ekki þrælar í þessu landi. Við erum frjáls og ráðum okkur sjálf.

NEI - við erum ekki fædd til að þjóna ráðamönnum.

JÁ - við erum bara venjulegar manneskjur, en við erum líka sterkasta vopn lýðræðisins. Valdið er hjá okkur - við fólkið.

Ég veit að við getum gert hvað sem er. Nýtt og betra Ísland sem okkur dreymir um. Ný stjórnarskrá sem gefur okkur ráð til að byggja betra og réttlátara samfélag.  En þetta mun ekki gerast án okkar frumkvæðis. Það er skylda okkar að standa vörð um þau réttindi sem við krefjumst strax.

Annars hefur aðeins borið á því að fulltrúar "Gamla Íslands" hafi reynt að bendla þessar samkomur hér á Austurvelli við fasisma. Það gamalt neyðarúrræði og margnotað áróðursbragð að ljúga verstu syndum upp á þá sem reyna að fletta ofan af spillingu og misnotkun.

Það verðum við að þola jafnvel þó að sárt sé.

Ég efast t.d. ekki um að Eva Joly hafi fengið að kynnast slíku áður en hún fór að fá beinar hótanir vegna rannsóknar sinnar á ELF málinu í Frakklandi.

Stjórnarþingmaðurinn Björn Valur Gíslason fer nokkrum orðum um þá ágætu konu í tengslum við Icesave-málið á bloggsíðu sinni í fyrradag. Ekki hvetur hann hana til dáða fremur en Hrannar Björn Arnarsson aðstoðarmaður forsætisráðherra.

Skyldi Birni Val hugnast það betur að senda vælandi embættismenn á fundi með sendiherrum annarra ríkja? Hví ekki að taka því fegins hendi þegar að mikilsmetnir einstaklingar eins og Eva Joly talar okkar máli í blaðagreinum erlendis?

En reyndar er ég ekki hingað kominn til þess að rifja upp fréttir vikunnar þó svo að af nógu sé að taka.

Ráðist til atlögu við múrinnOkkur er tíðrætt um "gjár" hér á þessu landi. Gjár fyrirfinnast víða um land og jafnvel hér umhverfis Alþingi við Austurvöll.

Gjá getur virkað eins og múr eða veggur til aðskilnaðar frá öðru fólki, áhrifum eða verðmætum. Sá munur er þó á múr og gjá að múrinn er mannanna verk meðan að gjáin er mynduð af náttúrunnar völdum.

Annar munur á múr og gjá er sá að múrinn brotnar niður ef nægilega margir leggjast á eitt við að brjóta hann. Gjáin gerir lítið annað en að gliðna.

Margt bendir til þess að ósýnilegir múrar hafi verið reistir víða um samfélagið án okkar vitundar og eflaust er verið að endurreisa marga þá múra sem löskuðust illa í hruninu.

Ósýnilegir múrar eru á milli þeirra sem fá og þeirra sem ekki fá. Á milli þeirra sem mega og þeirra sem ekki mega. Á milli þeirra sem stjórna og þeirra sem engu fá að stjórna.

Okkar ósýnilegu múrar eru settir saman úr ósanngjörnu regluverki af fólki sem stjórnmálaelítan hefur velþóknun á. Þeir hafa orðið til í áranna rás vegna þess að þjóðin hefur sífellt verið klofin niður í andstæðar fylkingar sem reynt hafa að skara eld að eigin köku.

KJÖRDÆMAPOT – KLÍKUSKAPUR – FJÓRFLOKKURINN - EMBÆTTISMENN – STÓRIÐJAN – ÚTGERÐARMENN – ÚTRÁSARVÍKINGAR.

Heildarhagsmunum hefur sífellt verið fórnað fyrir sérhagsmuni og jöfnuður..., það er fallegt orð sem rykið er dustað af við sérstök tilefni.

Hvernig getum við sætt okkur við þá mismunum sem felst í ójöfnu atkvæðavægi? Úr sér genginni stjórnarskrá? Einkavinavæðingu? Klíkustjórnmálum? Dómurum sem skipaðir eru með tilliti til flokksskýrteinis eða ættartengsla?

Það verður ekki annað sagt en að "af þolinmæði eigum við nóg".

Það eru 16 mánuðir síðan fólk fór að hópast hér saman á laugardögum með kröfuspjöldin á lofti, í þeirri von að samstöðumátturinn yrði óréttlætinu yfirsterkari.

Staðið á rétti sínumVið stóðum í ósýnilegri leikmynd sem hafði hrunið yfir okkur með berstrípaða leikara sem létu á engu bera og báðu Guð að blessa Ísland. Á endanum flæmdum við helstu leikendur burt en pössuðum ekki nægilega vel að hreinsa til ruslið eftir þá.

Af þeim sökum hefur sama leikritið nú verið sett upp í plástraðri leikmyndinni með sömu persónum og leikendum, allavega að hluta til. Fyrir bragðið erum við lent í hálfgerðu öngstræti eða sjálfheldu því að leiðin fram á við er stífluð og enginn kærir sig um að fara aftur á bak. M.ö.o vilja fæstir nýjar kosningar því að enginn trúir því í raun og veru að sjálft stjórnkerfið sé heilbrigt.

Því verðum við að uppfæra stýrikerfið.

Okkur bráðvantar nýja stjórnarskrá - og það sem fyrst, því að án hennar er framtíðin allt annað en björt.

Hjá allsherjarnefnd Alþingis liggur nú íhaldssamt og hugmyndasnautt frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórnlagaþing.

Frumvarpið, sem alls engin umræða hefur farið fram um, gerir ráð fyrir svokölluðu ráðgefandi stjórnlagaþingi í boði Alþingis sem starfa skal eins og smækkuð útgáfa af Alþingi með svipuðu vinnulagi. Væntanlegar tillögur um endurbætur á stjórnarskránni eiga svo ekki einu sinni að koma til atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar heldur ætlar Alþingi sjálft að leggja blessun sína yfir þær - eða ekki. M.ö.o. ætlar Alþingi að vera úrskurðarvald um nýjar vinnureglur fyrir sig sjálft og okkur hin í leiðinni auk þess að passa upp á að engir innmúraðir missi spón úr sínum aski.

Á Íslandi höfum við enga hefð fyrir mótmælum líkt og í mörgum öðrum ríkjum. Búsáhaldabyltingin sýndi þó og sannaði að úrræði eru til staðar þegar að fólki er gróflega misboðið.

Breytingar gerast nefnilega ekki af sjálfu sér og það er því á ábyrgð okkar sjálfra að passa upp á réttindi og skyldur þjóðarinnar og kjörinna fulltrúa hennar.

Höfum það í huga að Berlínarmúrinn féll ekki af sjálfu sér og heldur ekki vegna ákvarðana stjórnmálamanna. Ósýnilegir múrar eru ekki óbrjótanlegir bara ef almenningur gerir sér grein fyrir tilvist þeirra og fólk leggst á eitt við að mölva þá niður.

Segjum NEI við bankakerfi sem mismunar fólki bak við luktar dyr.

Segjum NEI við stjórnkerfi þar sem embættismenn eru ráðnir á pólitískum forsendum.

Segjum NEI við kosningakerfi þar sem kjósendur hafa ekki raunverulegt val.

Segjum NEI við því að fólk hrekist úr landi sökum vonleysis og uppgjafar.

Segjum NEI við stjórnlagaþingi fyrir stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök sem engu vilja breyta.

Segjum JÁ við stjórnlagaþingi á okkar eigin forsendum.

Tökum ábyrgð og völdin í eigin hendur því að valdið er hjá okkur og við erum þjóðin.

EIGI SKAL VÍKJA!


mbl.is Genginn til liðs við leynileg öfl?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Frábær pistill!

Sigurður Þórðarson, 20.2.2010 kl. 16:30

2 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Ég var mjög sáttur við ræðuna þína. Hún var mjög góð. Takk fyrir mig.

Vilhjálmur Árnason, 20.2.2010 kl. 16:57

3 Smámynd: Tryggvi Gunnar Hansen

Takk Sigurður.. góður kraftur og skýr sýn!

Tryggvi Gunnar Hansen, 20.2.2010 kl. 18:58

4 identicon

Frábær pistill Sigurður og orð í tíma töluð.

Okkur varðar miklu að hugsa nú hlutina upp á nýtt og nota gagnrýna hugsun, þjóðinni ALLRI til heilla.

Byltingin er byrjuð - það eina sem við vitum ekki, hvað hún tekur langan tíma!

Björn Þorri Viktorsson (IP-tala skráð) 20.2.2010 kl. 19:11

5 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Til fyrirmyndar hjá þér.  Takk fyrir mig.

Þórður Björn Sigurðsson, 20.2.2010 kl. 19:25

6 identicon

Til hamingju með þessa málefnalegu og kjarnyrtu ræðu! - Lifi Siðbótarbyltingin!

Helga Björk Magnúsar Grétudóttir (IP-tala skráð) 20.2.2010 kl. 21:24

7 Smámynd: Sigurður Hrellir

Kærar þakkir fyrir góðar undirtektir. Það fjölgar í hópnum sem mætir á Austurvelli og vonandi fer fólk að vakna upp og taka málin í eigin hendur. Sýnum bönkunum í verki að "viðskiptavinirnir hafa alltaf rétt fyrir sér". Sniðgöngum þær verslanir og fyrirtæki sem manni ofbýður velþóknun bankanna á. Sýnum borgaralega óhlýðni hvar og hvenær sem okkur ofbýður óréttlætið.

Sigurður Hrellir, 20.2.2010 kl. 21:40

8 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Frábær  ræða hjá þér í dag. Sérstaklega ánægð með að þú skyldir nefna kröfuna um stjórnlagaþing og benda á arf lélegt og afturhaldssamt frumvarp ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin verður að fara að hlusta á almenning annars gerist eitthvað svakalegt. Takk enn og aftur og sjáumst í baráttunni því henni er svo sannarlega ekki lokið.

Helga Þórðardóttir, 20.2.2010 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband