11.9.2009 | 22:16
Framtíð Borgarahreyfingarinnar - stjórn eða stjórnleysi?
Það þurfti töluverða umhugsun til að ákveða hvort ég gæfi aftur kost á mér í kjöri til stjórnar Borgarahreyfingarinnar. Eins og sjá má hér sagði ég mig úr stjórninni fyrir réttum mánuði síðan og var það í kjölfar vonlausrar deilu um keisarans skegg því að valdsvið og skyldur stjórnarinnar var illa skilgreint í upphaflegum samþykktum félagsins. Í von um að sátt náist um betri og ítarlegri samþykktir ákvað ég á endanum að gefa kost á mér.
Á landsfundinum sem nú fer í hönd koma tvennar nýjar samþykktir til umræðu og má búast við miklum og áköfum skoðanaskiptum um þær. Samþykktir A eru afrakstur svonefnds samþykktahóps sem var öllum opinn og starfað hefur meira og minna í allt sumar að því eina takmarki að útbúa nýjar samþykktir. Samþykktir B eru hins vegar til komnar á síðustu dögum en að baki þeim standa 3 eftirstandandi þingmenn hreyfingarinnar auk nokkurra annarra sem undir þær rita hér. Grundvallarmunur er á þessum tveimur tillögum og hugnast mér A nokkuð vel en B að flestu leyti illa. Helstu aðfinnslur mínar við tillögur B má lesa á bloggi Þórs Saari í athugasemd 8.
Ef ég næ kjöri í nýja stjórn hreyfingarinnar og að þeirri forsendu gefinni að stjórnin fái valdsvið til að taka til hendinni á sem flestum sviðum eru helstu áherslumál mín þessi:
- Að BH taki þátt í framboðum til stærri sveitarstjórna með áherslu á fækkun sveitarfélaga á SV-horninu, aðgerðir til að minnka hættuna á spillingu, umhverfismál og skipulagsmál svo eitthvað sé nefnt.
- Að koma á fót málefnahópum sem vinna undirbúningsvinnu fyrir þingfrumvörp. Að mínu mati væru varaþingmenn kjörnir til að leiða þetta starf í góðu samráði við þingmenn.
- Að útfæra leiðir til óhefðbundinnar stjórnmálaþátttöku með þrýstihópum og sértækum aðgerðum.
- Að hefja vinnu við stjórnlagaþing - hvers vegna að bíða með það?
- Að blása lífi í starf BH á landsbyggðinni með öllum ráðum.
- Að gera heimasíðuna að nothæfu samskiptatæki fyrir allt starf hreyfingarinnar.
Ég er einn tólfmenningana sem sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu og framtíðarsýn. Það er að mínu mati alrangt að þetta sé eitthvað flokkseigendafélag. Hins vegar er þetta fólk sem hefur svipaða sýn á framtíð og tilgang hreyfingarinnar og finnst að orðstýr hennar hafi borið alvarlega hnekki. Úr því viljum við bæta og setjum markið hátt.
Með ósk til ykkar allra um gott Borgaraþing/landsfund.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:19 | Facebook
Athugasemdir
Flottur pistill! Get tekið undir með þér
Ingifríður Ragna Skúladóttir, 11.9.2009 kl. 22:27
Gangi þér vel félagi.
Herbert Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 22:49
Flott Siggi, sjáumst á morgun.
Jón Kristófer Arnarson, 11.9.2009 kl. 22:51
Ég trúi því að félagsmenn kjósi samkvæmt samvisku sinni það sem er best fyrir hreyfinguna.
Lilja Skaftadóttir, 11.9.2009 kl. 22:56
Siggi, er það svo að þið tólfmenningar séuð almennt sammála um að þingmennirnir ættu að segja af sér, eins og Jón Kristófer lýsir yfir í athugasemd #23 á blogginu hjá Þór Saari hér: http://thorsaari.blog.is/blog/thorsaari/entry/946211/ ?
Mér þætti vænt um að fá svar við þessu, vegna þess að ég tel það afar mikilvægt áður en ég tek afstöðu til þess hverja ég mun kjósa í stjórnarkjörinu á morgun. Ef ákveðinn hópur verður yfirlýstur andstæðingur þinghópsins er næsta víst að það mun aldrei verða sátt þar á milli og þar með mundi sami farsinn halda áfram, sem verið í starfinu í allt sumar.
Baldvin Jónsson, 12.9.2009 kl. 02:07
Sæll Baldvin, ég veit að ég heiti ekki Siggi en leyfi mér að svara hér fyrir mína hönd (afsakaðu Siggi). Ef eitthvað þá sínir þetta að við eru 12 einstaklingar en ekki samansafn af liði. Ég hef tekið það skírt fram að þingmenn okkar eru og verða okkar þingmenn.
Lilja Skaftadóttir, 12.9.2009 kl. 07:57
Ég tel ekki að það sé hlutverk nýrrar stjórnar að stugga við eftirstandandi þingmönnum og ætla sjálfur ekki að eyða tíma í neinar tilgangslausar deilur. Að vísu hef ég á blogginu mínu hvatt þau öll fjögur til að stíga til hliðar og hleypa öðrum að eftir sumarþingið en það er alfarið þeirra sjálfra að ákveða hvað þau gera. Einn þingmaður hefur sagt skilið við BH og ég er hreint ekki talsmaður þess að það fækki enn meir í þeim hópi.
Sigurður Hrellir, 12.9.2009 kl. 08:15
Gott að heyra Lilja og Siggi
Baldvin Jónsson, 12.9.2009 kl. 12:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.