Málefni framar persónum

Af persónulegum ástæðum sagði ég mig í gær úr stjórn Borgarhreyfingarinnar. Það geri ég ekki af neinum illdeilum við félaga mína í hreyfingunni heldur fremur vegna vonbrigða með hvernig innri átök hafa náð að spilla fyrir þeim mikla eldmóði sem lagt var af stað með í kosningabaráttunni. Á undraskjótum tíma virðist þinghópnum hafa tekist að gleyma helsta slagorði okkar "Þjóðin á þing" og farið að líta á sjálfa sig sem algjörlega ómissandi einstaklinga. "Það er ekki svo að maður komi í manns stað" svöruðu þingmennirnir þrír við tillögu stjórnarinnar um að láta varaþingmenn spila stærra hlutverk og létu það fylgja með að það væri ekki hægt að leggja það á þingmenn að fylgjast launalaust með umræðunni 3 mánuði á ári! Þráinn var heldur ekki til viðræðu með að hleypa að sínum varamanni vegna þess að hún var í of góðum tengslum við hin þrjú!

Stjórn hreyfingarinnar hefur verið vanmáttug að taka á þessum persónulegu árekstrum, að hluta til vegna þess að hlutverk hennar var ekki nógu skýrt, að hluta til vegna þess að hún var innbyrðis ósammála og að hluta til vegna einkennilegra árekstra milli stjórnar og þinghóps. Þinghópurinn tók ekkert mark á stjórninni og stofnaði meira að segja nýtt félag um starfsemi sína án samþykkis hennar.
 
Með óskiljanlegum og illa ígrunduðum ESB viðsnúningi Birgittu, Þórs og Margrétar dæmdu þremenningarnir sig úr leik sem trúverðugir fulltrúar kjósenda sinna og geta í framhaldi af því tæpast búist við að geta haft nokkur áhrif á framvindu mála í því mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar allrar. Yfirlýstur stuðningur við frumvarp ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn reyndist marklaust gaspur og yfirklór Birgittu um að hún hefði talið þetta snúast um könnunarviðræður í besta falli hlægilegt.

En ég hef enn fulla trú á Borgarahreyfingunni því að gömlu flokkarnir hafa einfaldlega ekki siðferðislegan rétt til að sitja áfram við völd. Hvernig í ósköpunum á fólk að geta treyst Þorgerði Katrínu og Sjálfstæðisflokknum? Eða Björgvini G. og Samfylkingunni? Nýja-Framsókn, hvernig hljómar það? Þegar rannsókn á aðdraganda efnahagshrunsins verður komin á endastöð mun að mínu áliti ekki standa steinn yfir steini í gamla fjórflokknum.  Það væri miklu frekar að sómakært fólk innan þessara flokka segði skilið við þá og stofnaði nýjar stjórnmálahreyfingar með heiðarleg markmið. En því miður virðist "kerfið" éta börnin sín. Er það virkilega svo að "heiðvirt fólk" getur ekki sloppið óskaddað út úr hringiðu stjórnmálanna? 

Ég skora á alla þingmenn BH að tilkynna um að þau stigi til hliðar að loknu sumarþingi til að hleypa þjóðinni að. Borgarahreyfingin byggist á stefnu og málefnum en ekki ákveðnum einstaklingum eða leiðtogum. Erum við virkilega ekki sammála um það? Enginn skortur er á hæfileikaríku fólki á framboðslistum hreyfingarinnar og öll vorum við í sama bátnum fyrir 25. apríl sl. Vonandi dettur engum þeirra í hug að stela þingsæti sínu frá hreyfingunni í þeirri trú að þau sjálf séu svo ómissandi.

Stjórn BH á einungis að mínu mati úr því sem komið er að sjá til þess að landsþingið 12. og 13. september sé vel undirbúið og hvetja alla félagsmenn til dáða. Ný stjórn verður kosin á því þingi og augljóslega samþykktar nýjar vinnureglur og bætt innra skipulag sem vinnuhópur hefur unnið ötullega að. Ég óska þeim alls hins besta í þeim undirbúningi.
 
Með baráttukveðju,

Sigurður Hr. Sigurðsson.
 

mbl.is Vilja Þráin af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Kæri Siggi... ég hef sagt það áður og ég segi það aftur: Það er mikil eftirsjá af þér úr stjórninni.

Ég vona að öll þessi mál fái farsælan endi og hreyfingin okkar muni aftur af hverju hún varð til

Heiða B. Heiðars, 13.8.2009 kl. 10:44

2 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Vona að Sigurður starfi sem lengst með Borgarahreyfingunni.  Vissulega er enginn þar ómissandi, en í mínum huga kemst þó Sigurður Hr. næst því. 

Jón Kristófer Arnarson, 13.8.2009 kl. 13:07

3 identicon

Beið eftir þessari ákvörðun! Grunaði að þú gætir ekki sitið undir þessu lengur. En er vissulega meirihluti fyrir því innan stjórnarinnar að lýsa yfir stuðningi við þingmennina? Skil ekki af hverju er ekki búið að lýsa yfir vantrausti strax. Þegar það var lagt af stað með þetta þá átti að vera lítið mál fyrir verðandi þingmenn að segja af sér. En núna eru þeir bara í bullandi vörn.

Jóhann Gunnar (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 14:12

4 identicon

Sem félagi í BH vil ég segja við þig nokkurnveginn það sama og ég sagði við Heiðu á hennar bloggi. Það er ekki lausn að hlaupa burt. Fólk sem er ríkulega búið heiðarleika og réttsýni á að stýra þessari hreyfingu, þ.á.m. þú. Sýnið stillingu og yfirvegun, hún sigrar að lokum.

sigurvin (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 02:43

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Kæru félagar, ég er ekki hættur í BH, allavega ekki enn. Það sem ég er að gera er að senda sterk skilaboð í þeirri veiku von að þingmennirnir skilji hvað klukkan slær. Eins og ég segi í blogginu mínu tel ég það eina rétta að þau víki og sinni sínum persónulegu (vanda)málum annars staðar.

Jóhann Gunnar, það var örugglega ekki full eining um það í stjórninni að lýsa vantrausti á þinghópinn. Það hefði ekki verið nægilegt þó rúmur meirihluti hefði ályktað þannig.

Sigurður Hrellir, 14.8.2009 kl. 08:25

6 Smámynd: Morten Lange

Manni sýnist að ein lærdóm sem mætti draga úr þessu sé að flokkar með strúktúr, reglur og stefnu séu ekki alslæmir.  Og að persónukjör sem margir voru heitir fyrir,  líta eki eins girnileg út lengur... 

Morten Lange, 14.8.2009 kl. 23:29

7 Smámynd: Konráð Ragnarsson

Gott blogg hjá þér Siggi minn og er ég sammála þér í flestu! Ég sem BH-maður, áhorfandi og lítill þáttakandi í þeim atburðum sem skakað hafa BH, á valla orð yfir þessi átök félaga,hvað veldur er ekki gott að segja , en ég vona samt innilega að menn nái að leysa þessa byrjunarerfiðleika og í framhaldi af því, farið að einbeita sér að slagorði BH sem er "þjóðin á þing"

Lifið heil,

Konráð Ragnarsson

Konráð Ragnarsson, 18.8.2009 kl. 22:56

8 Smámynd: Hjalti Tómasson

Borgarahreyfingin þarf að hreinsa andrúmsloftið innan sinna raða og hver maður þar inni, hvort heldur þingmenn eða aðrir þurfa að koma sér saman um stefnu sem fylgja þarf. Ég er ekki á því að hér sé um tilraun að ræða sem mistókst heldur er hér um að ræða fæðingahríðir sem verða að teljast eðlilegar þegar á það er horft hve skamman tíma ráðandi flokkar skömmtuðu nýjum stjórnmálahreyfingum og hve þétt net samtryggingar gömlu flokkarnir hafa riðið til verndar sjálfum sér. Þeir sem styðja BH þurfa ef til vill að sætta sig við að menn þar fari eftir sannfæringu sinni hverju sinni því það er nú einu sinni svo að málefni og afstaða til þeirra kann að vera háð utanað komandi breytingum og ef það er eitthvað sem BH stendur fyrir þá er það andóf gegn blindri flokksfylgni. Á móti kemur að það fólk sem stendur í forsvari verður að vera meðvitað um meirihlutavilja félaga sinna og viljugir til að rökstyðja skoðanir sínar á málefnalegann hátt ef þær eru aðrar en meirihlutinn vill. Njóti menn ekki trausts félaga sinna verða menn að geta tekið því og brugðist við með viðeigandi hætti. Grunnhugsunin hlýtur að vera sú, þegar öllu er á botninn hvolft, að málefnin séu einstaklingnum mikilvægari þ.e. þetta er ekki spurningin hvort viðkomandi sé í þægilegri innivinnu, heldur nái markmiðin fram að ganga. Annars eru menn að fylkja sér með gömlu flokkunum og njóta góðs af samtryggingunni sem BH var stefnt gegn í upphafi.

Hjalti Tómasson, 22.8.2009 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband