9.1.2009 | 00:12
Leikhús fáránleikans
Þetta var mjög sérstakur fundur og einstakur. Grímuklæddur mótmælandi og lögreglustjóri sitjandi hlið við hlið í gömlu leikhúsi, jólasveinn sem setti allt úr skorðum og fundarstjóri sem missti stjórn á skapi sínu. Raunveruleikinn er stundum fáránlegri en nokkur leiksýning. Sem betur fer hélt fundurinn áfram eftir dramatískt augnablik þar sem þó nokkrir gestir (þ.á.m. ég) ruku á dyr. Gunnar má vara sig að láta ekki skapið hlaupa með sig svona í gönur.
Ég spurði Stefán út í ný lög Björns Bjarnasonar um breytingar á hegningarlögum, sjá ágætan pistil um þau hér. Ekki vildi hann meina að neitt af því sem ég nefndi (auknar heimildir til valdbeitingar og forvirkar rannsóknaheimildir) hefði breyst frá fyrri lögum. Mig grunar að það sé ekki alls kostar rétt hjá honum og býst við að Ríkislögreglustjóri muni nýta sér þessar forvirku heimildir mikið á næstunni.
Björn Bjarnason lét ekki sjá sig frekar en fyrri daginn og hefur nú ítrekað sýnt að hann er hugleysingi og raggeit. Eva Hauksdóttir átti ræðu kvöldsins og las lögreglunni pistilinn á áhrifaríkan hátt.
Annars tek ég undir það sem nefnt var oftar en einu sinni á þessum fundi, það verða allir að standa saman í því að koma spillingaröflunum frá. Látum ekki Ástþór Magnússon, Klemenzbræður eða aðrar bullur trufla okkur.
Fundi lokið í sátt og samlyndi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:14 | Facebook
Athugasemdir
Gunnar sá eftir því að hafa misst sig, en Hörður Torfa reddaði málunum. Mótmælendur á pallborði voru svo á því að þetta mættum við ekki láta gerast, að láta menn á borð við Ástþór og slíka, vera að sundra okkur því að fólkið sem við erum að berjast gegn vonast eftir því. Við sem stóðum að þessu vorum svo sammála eftir á, og Gunni einnig, að það hefði átt að benda Ástþóri á að skrá sig á mælendaskrá ef hann vildi ræða eitthvað. Þá hefði þessi absúrd uppákoma orðið að engu.
Ef eitthvað er þá held ég reyndar að afleiðingar Ástþórs-mála, verði frekar til að þétta fólk en sundra, svona ef maður miðar við semminguna í lokin.
AK-72, 9.1.2009 kl. 00:19
"Ekki trufla" ykkur. Er þjóðfélagsádeilan um ólýðræðisleg vinnubrögð erfið? Ekki gleyma því að ég byrjað mjög hóflega þarna og kurteislega benti á að betur mætti fara með val ræðumanna og lýðræðisleg vinnubrögð. Það varð til þess að ég var borinn út af skipulagsfundi Opins borgarafundar fyrir nokkrum vikum síðan.
Síðan er haldinn fundur um mótmæli, hvernig maður stendur að mótmælum og grímuklæddar uppákomur á mótmælum og fundum. Var þá ekki við hæfi að draga fram gamalt mótmælagervi og mótmæla spillingunni innan Opins borgarafundar?
En trúðu mér, ég vil þessu vel, en þetta má ekki ganga áfram án þess að taka upp opin og lýðræðisleg vinnubrögð þar sem allir eru með. Annað er bara skrípleg leiksýning í Iðnó.
Bendi á þessa grein og linka þar undir um þetta mál:
Kommúnistar báru jólasveininn út af Opnum borgarafundi
Ástþór Magnússon Wium, 9.1.2009 kl. 00:23
Já AK-72, þetta fór betur en á horfðist. Það fer rosalega í taugarnar á mér þegar að fundarstjórar sýna svona mikla einræðistilburði eins og Gunnar en hann sá greinilega strax hver þessi jólasveinn var og missti stjórn á skapi sínu.
Ástþór, ég mæli með að þú skipuleggir eigin fundi ef þú vilt vera í jólasveinabúningi og fá að ráða vali ræðumanna. Þessi uppákoma þín áðan var beinlínis truflandi og ekki í fyrsta sinn sem þú reynir að troðast inn viðburði sem aðrir hafa skipulagt. Ef þetta var "skrípaleg leiksýning í Iðnó" þá varst þú Doddi skrípó.
Sigurður Hrellir, 9.1.2009 kl. 00:45
Það er aldrei skemmtilegt þegar fólk missir stjórn á skapi sínu en stundum er það skiljanlegt. Það fauk í Gunnar við það að sjá Ástþór þarna mættan, sem er búinn að dreifa níð um Gunnar og borgarafundina á allt netið fréttamiðla - og þarna var hann mættur til að reyna að skemma fyrir einu sinni enn.
Gunni var hinsvegar fljótur niður aftur og var mjög miður sín yfir að hafa brugðist svona við.
Málið er bara það eins og ég er búin að vera að tuða síðust daga þar sem allir virðast ætla að fara í hár saman yfir ótrúlegustu hlutum að við erum öll bara mannleg og sem slík gerum við fullt fullt af vitleysum sama hver við erum, mótmælendur, fjölmiðlar, lögregla, húsmæður í vesturbænum.
Hörður var maður kvöldsins - það lá við knúsi og faðmlögum undir lok fundarins.
Geimveran, 9.1.2009 kl. 01:01
Takk fyrir góðan pistil um fundinn Sigurður. Mjög skilmerkileg og raunsæ lýsing á honum. Verst að allt það góða sem kom út úr þessum frábæra fundi ætlar að falla í skuggan á innkomu þessa sárþjáða manns.
bkv
Þór Jóhannesson, 9.1.2009 kl. 01:22
Takk fyrir greinargóðan pistil....
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 9.1.2009 kl. 01:34
Þessi ágæti fundur á vonandi eftir að skapa meira umburðarlyndi milli fólks í ólíkum hlutverkum. Allavega fannst mér virðingarvert að Stefán Eiríksson og Geir Jón skyldu mæta og sitja fyrir svörum algjörlega yfirlætislaust. Það eykur tiltrú manna á lögreglunni en það sama verður ekki sagt um ráðherra dómsmála. Ég sé ykkur vonandi sem flest í Háskólabíói á mánudagskvöldið.
Sigurður Hrellir, 9.1.2009 kl. 10:28
Ástþór á nú að reyna að vera pínu sniðugur og beina mótmælum sínum að ráðamönnum þjóðarinnar í stað þess að reyna í sífellu að eyða orkunni í að sundra samstöðu mótmælenda. Hann gæti t.d. mætt í þessum búningi sínum á flesta þá staði þar sem ráðamenn koma saman. Ástþór á að reyna að vera með fókusinn á réttum stöðum þar sem raunveruleg vandamál eru.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 10.1.2009 kl. 03:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.