Ummæli úr hörðustu átt

Það kemur tæpast á óvart að formaður Framsóknarflokksins skuli nýta sér tækifærið til atkvæðaveiða á Húsavíkursvæðinu/Norðurþingi. Hann og flokkurinn hans bera mikla ábyrgð á þeim samviskulausa hernaði gegn náttúru landsins sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og virðist engan endi ætla að taka.

Að ásaka umhverfisráðherrann um "skemmdarverk" hlýtur þannig að koma úr hörðustu átt. Kapp er best með forsjá og tilgangur heildstæðs umhverfismats er einmitt sá að sjá fyrir allar afleiðingar framkvæmdanna frekar enn að skjóta fyrst og spyrja svo. Skyldi Guðni vera að meina það sem hann segir eða mun hann síðar breyta merkingu orða sinna eftir hentugleikum eins og hann hefur nýlega orðið uppvís að á Alþingi?

Framsóknarflokkurinn berst fyrir lífi sínu og framlínumenn þar á bæ hafa helst úr lestinni í stríðum straumum á s.l. tveimur árum. Má þar nefna Halldór Ásgrímsson, Jón Sigurðsson, Jónínu Bjartmarz, Binga og Önnu Kristinsdóttur auk Marsibil og fleiri minni spámanna. Mér segir svo hugur að nokkur örvænting ríki í herbúðum flokksins og tækifærismennska þeirra muni ná nýjum hæðum fram að næstu kosningum.


mbl.is Kreppa af völdum ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Ein spurning til þess sem allt veit þegar framsókn er annarsvegar.  Hversvegna þarf umhverfismatið að vera heilstætt?  Eru áhrif virkjunar á Þeystareykjum önnur ef rafmagnið er ekki notað í álver?   Eru áhrif af raflínum breytileg eftir því í hvað rafmagnið fer?  Þetta heilstæða umhverfismat er bara fyrirsláttur til að setja fótinn fyrir framkvæmdirnar.  Það hefði mátt meta hvern þátt fyrir sig óháð öðrum.  Eina sem breytist við að það er kallað heilstætt er að það eru gerðar nokkrar skýrslur og þegar sú síðasta er búin er sett ein kápa utan um allt saman og það kallað heilstætt. 

G. Valdimar Valdemarsson, 28.8.2008 kl. 12:43

2 identicon

Sigurður, voðalega er þér illa við Framsókn og Sjálfstæðismenn (sbr. færslur hjá þér).  Hvað hafa þessir flokkar gert þér og það fólk sem er í þessum flokkum?  Ég get mér þess til að þú sért forfallinn Samfylkingarmaður.  Allavegana benda þær skoðanir sem þú viðrar til þess.  Þú hlýtur að þjást ægilega út af þessum flokkum.  Eru til einhver meðul við þessum þjáningum?

Fyrir mér er Samfylkingin flokkur sem blaðrar og blaðar, en framkvæmir aldrei neitt.  Þetta er flokkur sem er í eilífðri pólitískri tilraunastarfsemi og framkvæmir alltaf eitthvað sem er óskilgreint og óskiljanlega vitlaust.   Og mundu, að Samfylkingin sér um sína.  Samfylkingin er búin að setja Íslandsmet í pólitískum ráðningum síðan hún komst til valda og kemst þar á spjöld atvinnusögu Íslands sem stærsta vinnumiðlun í landinu.

Þorbjörn H. Aðalgeirsson (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 14:09

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég þakka G. Valdimari hrósið en því miður veit ég ekki allt um Framsókn því að ef svo væri tel ég fullvíst að flokkurinn heyrði sögunni til!

Varðandi umhverfismatið fyrir norðan þá veit ég ekki betur en að það hafi verið undirrituð viljayfirlýsing við Alcoa þannig að orkunni sem sækja á í Þeistareyki hafi verið ráðstafað til álbræðslu. Þess vegna og einmitt þess vegna er rétt að meta áhrifin í heild sinni og þá líka hvaðan sú orka á að koma sem upp á vantar m.v. 360.000 tonna álver.

Því er ekki að neita að mér finnst meira en nóg komið af álverum á Íslandi og eru bæði Helguvíkurálverið og Bakkaálverið hvort fyrir sig búið að sprengja skalann. Við erum einfaldlega að verða of háð heimsmarkaðsverði á áli og duttlungum örfárra stórfyrirtækja svo að ekki sé talað um rússíbanaáhrifin sem svona framkvæmdir hafa á allt hagkerfið og fólkið sömuleiðis.

Öðru máli gegnir um hóflega orkunýtingu til framleiðslu eða þjónustu sem lítið mengar og ekki setur allt samfélagið úr skorðum. Það er ekki einungis orkan í náttúrunni sem þarf að virkja heldur líka hugmyndaflug, menntun og reynslu Íslendinga um allt land.

Þorbjörn verð ég að hryggja með því að Samfylkinguna hef ég ekki kosið og reyndar skrifa ég undir flestar skoðanir hans á þeim söfnuði. Ætli ég teljist ekki munaðarlaus í stjórnmálum um þessar mundir! Ég bíð og vona að stjórnmál muni þróast í þá átt að ekki sé um stöðugt eiginhagsmunapot og eilífa bitlinga að ræða. Eitt grundvallaratriðið í þessu er að skikka stjórnmálaflokka og frambjóðendur til að gera fjármálin sýnileg og þannig að koma í veg fyrir óeðlileg hagsmunatengsl.

Takk fyrir ykkar innlegg. 

Sigurður Hrellir, 28.8.2008 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband