28.6.2008 | 07:59
Er Þórunn í réttum flokki?
Samfylkingin varð til þegar Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið reyndi að sameinast á vinstri kantinum. Ekki tókst sú sameining betur en svo að til varð annar nýr flokkur, VG. Það er deginum ljósara að Samfylkingin sigldi undir fölsku flaggi þegar "Fagra Ísland" var kynnt sem umhverfisstefna flokksins enda úir og grúir af hörðum virkjanasinnum innan raða hans, mest miðaldra körlum sem finnst algjör firra að gera hlé á stóriðjustefnunni. Ragnar Jörundsson, sveitarstjóri í Vesturbyggð er gott dæmi, maðurinn sem berst fyrir því að olíuhreinsistöð rísi í einum fegursta firði landsins og fullyrðir að það sé 99,9% öruggt.
Þó svo að Þórunn Sveinbjarnardóttir reyni að framfylgja meintri stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum og náttúruvernd bendir flest til þess að hún eigi við ramman reip að draga og muni tæpast eiga langa setu framundan í sæti umhverfisráðherra. Það myndi að vísu jafngilda dánarvottorði yfir "Fagra Íslandi" að setja hana út í kuldann en trúverðugleika Samfylkingarinnar í umhverfismálum verður hvort eð er vart borgið úr þessu. Þeir kjósendur sem trúðu fagurgalanum og bitu á agnið iðrast þess nú sárlega.
Umhverfisráðherra vill ekki fleiri álver | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ungliðahreyfingin og meirihluti kjósenda flokksins er sammála Þórunni, þannig að það er frekar spurning hvort Björgin og Össur séu í réttum flokki. Þegar flokkur leyfir umræðu um mál, og inniheldur jafn mikið af fólki og Samfylkingin gerir þá eru auðvitað ekki allir sammála - aðeins fámennir sérvitringaflokkar geta leyft sér það. Auðvitað eru kjósendur Samfylkingarinnar sem vilja ekki álver og virkjanir mjög súrir, en það er enginn annar valkostur því t.d. sagði Steingrímur J. strax eftir kostningar að álver á Bakka væri engin fyrirstaða við að mynda ríkistjórn með VG..
Það bjánalega í þessari umræðu allri er að flokkur eins og VG eru að þykjast hafa einkaleyfi á umhverfismál. Ef umhverfismál eiga að vera í höndum bölsýnis vinstri manna, þá mun málaflokkurinn aldrei eiga sér lífsvon hér á landi, sérstaklega vegna þess að svo stór hluti þjóðarinnar samsvarar sér ekkert með gamaldags íhalds vinstri stefnu flokksins.
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 28.6.2008 kl. 08:30
Það er gott hjá ungliðahreyfingunni að minna ráðherrana á stefnu flokksins. Því miður virðast miðaldra karlar hins vegar ráða öllu sem skiptir máli.
Eins og þér finnst mér hreint ekki gott að VG hafi eignað sér umhverfismálin. Bæði hægri menn og Evrópusinnar geta ekki kosið þann flokk af skiljanlegm ástæðum.
Sigurður Hrellir, 28.6.2008 kl. 08:42
Sigurður það er ekki bara, að Þórunn er í röngun flokki, heldur á hún ekkert erindi í þessari ríkisstjórn og varla samleið með þessari þjóð.
Hún hundsar hagsmuni þjóðarinnar, hvar sem hún fær tækifæri til að gjamma. Þetta er sérstaklega áberandi varðandi uppbyggingu á landsbyggðinni. Henni er uppsigað við virkjanir, verksmiðjur, vegi og brýr. Allt sem skyggir á eyðimerkur-sýn Þórunnar vill hún reka burt og hún virðist trúa því að gelt hennar sé hærra og ógnvænlegra en annara eyðimerkur-hunda.
Gjamm Eyðimerkur-Þórunnar á sér hvergi hljómgrunn nema í Vinstri-hreyfingunni: Svart og sviðið. Hins vegar er Steingrímur Stalín Sigfússon ekki morðóður hvítabjarnar-drápari, eins og Þórunn. Spurningin er því hvort nokkur leggur sig svo lágt, að óska eftir félagsskap Þórunnar.
Loftur Altice Þorsteinsson, 28.6.2008 kl. 09:30
Ágætu bloggarar.
Það er alls ekki við VG að sakast þótt aðrir flokkar hafi ekki tekið umhverfismálin upp á sína arma. Og vitaskuld ekki sök VG að flokkur sem boðaði sókn í umhverfismálum skuli nú svíkja þau loforð öll. VG fagnar öllum þeim sem vilja leggja lið baráttu fyrir verndun náttúrunnar og sjálfbærri atvinnustefnu til framtíðar.
kveðja,
Árni Þór Sigurðsson, 28.6.2008 kl. 09:37
Árni talar um "sjálfbæra atvinnustefnu til framtíðar". Fróðlegt væri að vita í hverju slík stefna er fólgin. Hefur VG fundið upp nýgja tegund samfélags, sem ekki þarfnast orku ?
Hvaða umhverfi er VG hjartfólgið, svartar og sviðnar eyðimerkur eða gróandi og gróskumikið lífríki, þar sem jafnvel mannfólki er ætlað lífsrými ?
Eyðimerkur-Þórunn hefur ekki dálæti á dýrafriðun, en hver er afstaða VG ? Vill VG láta drepa hvítabirni og önnur friðuð og ófriðuð spendýr sem til landsins hrekjast ? Er VG fylgjandi uppgræðslu landsins, eða er eyðimerkurstefnan alsráðandi ?
Loftur Altice Þorsteinsson, 28.6.2008 kl. 11:16
Mikið er leiðinlegt að sjá orðbragð eins og hjá Lofti Altice Þorsteinssyni í umræðu sem á að geta verið málefnaleg. Ég get ekki með nokkru móti tekið mann sem svona talar alvarlega.
Lára Hanna Einarsdóttir, 28.6.2008 kl. 13:10
Loftur, hefur það farið fram hjá þér að 57% Íslendinga vilja ekki frekari virkjanir fyrir stóriðju? Tvær af hverjum þremur konum eru á þeirri skoðun og tæpur helmingur karla. Hvernig getur þú haldið því fram að Þórunn eigi varla samleið með þessari þjóð? Ert þú einn af þessum steinaldarmönnum sem finnst að konur eigi ekki að hafa kosningarétt, hvað þá að sitja á Alþingi eða ráðherrastólum?
Við Árna vil ég segja að mér finnst ágætt hvað VG hafa staðið fast fyrir sem talsmenn náttúruverndar á Alþingi. Hins vegar hlýtur hann að gera sér grein fyrir því að ýmis önnur eldheit áherslumál útiloka stóran hóp fólks frá því að kjósa flokkinn. Allt að því tveir þriðju hlutar þjóðarinnar er nú fylgjandi því að ganga til viðræðna um inngöngu í ES. Samt sem áður virðast gamlir Allaballar einoka þá umræðu og láta sér standa á sama hvernig vindurinn blæs. Svo er ég nokkuð viss um að VG yrðu ekki eins hörð í sínum umhverfisáherslum ef þau sætu í ríkisstjórn. Gamlir verkalýðshundar myndu glaðir byggja virkjanir og álver ef þeir teldu það mönnum fyrir bestu. Mig minnir t.d. að Baldvin H. Sigurðsson fulltrúi VG í bæjarstjórn Akureyrar hafi ekki verið á móti jákvæðri ályktun um væntanlegt álver á Bakka. Svo segja margir að Steingrímur J. hafi líka verið tilbúinn að kyngja því til að komast í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Leiðréttu mig ef ég er að fara með fleipur.
Sigurður Hrellir, 28.6.2008 kl. 14:00
Ég vona, að málefnalegt innlegg Láru fari ekki fram hjá neinum manni.
Hvort Lára tekur mig alvarlega eða ekki, ræður varla miklu um framtíð Eyðimerkur-Þórunnar í ráðherrastóli. Siggi Hrell telur, að hún sé í röngum stjórnmálaflokki. Ég tel, að hún eigi ekki heima í stjórnmálum yfirleitt.
Loftur Altice Þorsteinsson, 28.6.2008 kl. 15:38
Ert þú þeirrar skoðunar Sigurður Hrell, að stjórna eigi landinu eftir skoðanakönnunum Fréttablaðsins ? Má ég minna á, að Dagur Samfylkingar varð að athlægi þegar hann úr ræðustóli í Borgarstjórn ruglaðist á nýgjlegri skoðanakönnun og síðustu kosningum. Greinilega er aldreigi of oft minnt á, að skoðanakannanir eru ekki kosningar.
Það skal undirstrikað, að konur eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Þar að auki má benda á, að samfélögum steinaldarmanna var líklega stjórnað af konum, að minnsta kosti voru gvuðir þeirra kvennkyns. Þú ert því Sigurður að fiska í drullupolli, ef þú ætlar að bendla mig við andúð á konum almennt.
Ein af fáum konum sem ég tel ekki hæfa til setu á ráðherra-stóli er Eyðimerkur-Þórunn.
Loftur Altice Þorsteinsson, 28.6.2008 kl. 16:25
Loftur, það er sérlega ánægjulegt að þú skulir hafa miklar mætur á konum og vonandi er það ekki bara af innri hvötum. Ein þeirra sem ég hef miklar mætur á er Lára Hanna Einarsdóttir en hún heldur úti einni albestu bloggsíðu sem ég veit um. Kynntu þér skrif hennar og annað efni fyrir alla muni.
Sigurður Hrellir, 28.6.2008 kl. 17:05
Það myndi ekki koma mér á óvart ef tilkynnt yrði um breytingu á ráðherraliði sf á næstu vikum. Ritskoðun, bregða fæti fyrir nýja atvinnustarfsemi og óábyrgar yfirlýsingar er eitthvað sem sf getur alveg verið án.
Óðinn Þórisson, 28.6.2008 kl. 18:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.