5.1.2008 | 09:37
Slæm niðurstaða
Það var í stjórnartíð R-listans að niðurrif húsanna við Laugaveg 4-6 var leyft og bygging stærra húss á lóðunum samþykkt. Því miður guggnaði Húsafriðunarnefnd á að beita skyndifriðun á þessi hús. Dagur B. Eggertsson virðist ekki hafa nægilegan vilja eða kjark til að stöðva framgang málsins, enda hefði hann með því lent í mótsögn við fyrri ákvarðanir.
Nú situr hér borgarstjórnarmeirihluti þar sem nokkrir ákafir talsmenn varðveislu gamalla húsa eiga sæti. Þar má nefna Svandísi, Margréti og nú Ólaf F. Þrátt fyrir þetta gengur málið sína leið og verktakarnir sleppa meira að segja við að fjarlægja gömlu húsin. Þegar nýtt hús hefur risið á lóðunum verður léttara að ryðja fleiri gömlum húsum í burtu, enda munu þau sóma sér illa innan um stóra steinsteypukassa. Segið svo að skipulagsmálum í Reykjavík sé ekki stjórnað af verktökum og byggingafyrirtækjum.
Margrét og Svandís ósáttar við flutning húsanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:40 | Facebook
Athugasemdir
Friðunarstefna er göfug , þegar eitthvert vit er í henni en það virðist alltaf vera einhver sérstök tegund af fólki sem sameinast um bjánalegan málstað og oftar en ekki eru það forpokaðir og gamaldags vinstrimenn. Nýtt þarf ekki að vera slæmt, það er hægt að byggja þarna smekklega. Húsin sem fyrir eru, eru sérlega óspennandi.
Svo er spaugilegt að Svandís skuli segja athafnamönnum að staðsetningin henti ekki fyrir hótel, algjör snilld.
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.1.2008 kl. 10:53
Ah..það var víst Margrét sem sagði það. Spaugilegt engu að síður
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.1.2008 kl. 11:30
Það væri áhugavert að heyra álit Gunnars á hvenær friðunarstefna er göfug og hvenær hún er vitlaus. Það er flestum ljóst sem lifa eða starfa við Laugaveginn og nágrenni hans að niðurifstefna borgaryfirvalda gegn gömlum húsum við Laugarveginn og víðar stjórnast ekki af hugsjónum um betri borg heldur af hagsmunum eignarhaldsfélaga og verktaka í Reykjavík. Það er ekki hægt að sjá t.a.m. að einhverjar hugsjónir eða hugmyndir um bætta ásýnd Laugarvegarins hafi ráðið í þeim nýbyggingum sem hafa risið við þar síðustu ár. Ef litið er til niðurrifslista R- listans og hugmyndir verktaka og eignarhaldsfélaga um nýbyggingar þá er ljóst að stefnan er að breyta þessum hluta Reykjavíkur í steindautt viðskipta og hótelhverfi á borð við nýja hluta City í London.
Lárus Vilhjálmsson, 5.1.2008 kl. 13:24
Er ekki Ólafur sá eini sem hefur barist fyrir gömlu húsunum að viti? Ekki boffsaði Margrét né urraði að ráði svo orðalag síðuhöfundar sé notað hér. Hvaða hundsnafn gefur síðuhöfundur henni?
Guðrún (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 22:39
Burt með þetta kofarusl. Reykjavík er nútímaborg og á að sýna sig í því. Enginn íslendingur getur látið sjá sig í gömlum bíl, nema hann sé fallegur fornbíll og gömul hús eiga að lúta sömu lögmálum.
Með þessum smáborgarabrag og söfnunaræði á gömlu rusli, verður það ef til vill aðdráttarafl í framtíðinni fyrir túrista. Að koma til Reykjavíkur og skoða kofaborgirnar, sem státa af splúnkunýjum glæsivagni fyrir framan hvern hjall á margföldu verði þeirra.
Getur það orðið meira "Surralistiskt".
Benedikt V. Warén, 9.1.2008 kl. 00:50
Benedikt, það er þversögn í því sem þú segir. Þér finnast fallegir fornbílar í góðu lagi en virðist gleyma því að þeir hafa iðulega verið gerðir upp af áhugasömu og laghentu fólki. Verktakafyrirtæki hafa keypt upp mörg gömul hús í miðbæ Reykjavíkur og viljandi látið þau grotna niður svo að flestum finnist þau vera einskis virði eða kofarusl eins og þú orðar það. Ef þeir hefðu ekki keypt húsin og setið á þeim eins og gæs á gulleggi væri líklegt að áhugasamir einstaklingar væru löngu búnir að gera þau upp og sjálfir fluttir inn.
Út um gluggann hjá mér sé ég eitt þessara húsa, Bergstaðastræti 20 (sólarupprás máluð á gaflinn) frá 1902. Þar hefur enginn búið sl. 8-9 ár og útlit hússins er til háborinnar skammar, brotnar rúður, ryðgað bárujárn, o.s.frv. Eigandi þessa húss er Þ.G. verktakar ehf, Fossaleyni 16, 112 R. Beint á móti þessu húsi er annað minna bárujárnsklætt hús frá 1896 sem nýlega var verðlaunað fyrir smekklega enduruppgerð og er til sóma. Þarna má sitthvoru megin við götuna sjá þetta sem tekist er á um. Óprúttna úthverfaverktaka sem reyna að maka krókinn á að byggja sem mest fyrir sem minnstan pening og hins vegar fólkið sjálft sem vill búa í fallegum húsum í gamla bænum.
Annað gott dæmi er Flatey. Þar voru gömul yfirgefin hús í stórum stíl í kring um 1970 þegar ég kom þar með foreldrum mínum. Sem betur fer varð til áhugi á að gera þessi hús upp áður en einhver sveitarstjórinn sagði "burt með þetta kofarusl"! Nú eru þessi hús öll smekklega uppgerð og í góðu standi. Þau fást ekki keypt þó að háar upphæðir séu í boði. Líklega er þarna hæsta fermetraverð á landinu öllu. Getur það orðið meira "Surrealiskt"?
Og Guðrún, ekki ætla ég að gefa Margréti neitt hundsnafn. Hún hefur skrifað greinar um verndun gamalla húsa og ég efast ekki um hennar skoðun í þessu máli. Hún var nú bara í borgarstjórnarmeirihlutanum í rúman mánuð.
Sigurður Hrellir, 9.1.2008 kl. 13:53
Sigurður Hr.
Það er nákvæmlega engin þversögn í því sem ég fjallaði um. "Enginn íslendingur getur látið sjá sig í gömlum bíl, nema hann sé fallegur fornbíll og gömul hús eiga að lúta sömu lögmálum."
Það á að farga gömlum bílhræum og það sama gildir um kofatildur. Ef eihver vill gera upp bíl, þannig að hann líti vel út, er það hið besta mál. Það sama á að gilda um hús. En þegar Húsfriðunarnefnd er farin að vinna eins og Samfylkingin, er ekki von á góðu. Þorir ekki að taka ákvörðun fyrr en ljóst er hvað aðrir eru að hugsa, sérstaklega þeir sem lætur hæðst í. Því miður er hér of seint í rassinn gripið og rétt að Húsfirðunarnefnd fái að hafa áhyggjur af sleifarlagi sínu í þessu máli.
"Það er ekki hægt að tryggja eftir á", eins og segir í auglýsingunni
Ég er nákvæmleg sammála þér, það er fullt af fallegum uppgerðum húsum í Reykjavík, sem ég hefði ekki vilja sjá fara í súginn. Það eru einnig mörg falleg hús uppi í Árbæjarsafni, sem erfitt er að nýta öðruvísi en sem safn, eða í safnatengd verkefni og hafa verið flutt þangað frá upphaflegu staðsetningu þeirra. Í þessu verkefni verður að velja og hafna og skynsemin verður að ráða för, þó stundum taki í.
Þú ert einnig fastur í því að bera saman hús á eftirsóknaverðasta stað Íslands og hús úti á landi, sem er auðvitað alveg út í hött. Þau hús eru ekki fyrir neinum og geta grotnað niður í friði, ef eigendur þeirra hirða ekki um þau. Þau eru einnig flest inn á landareign manna og fáum til ama vegna fjarlægðar frá þjóðbraut. Auðvitað er dæmi um annað. Það er ekki þar með sagt að ekki eigi að sýna þeim tilhlýðilega virðingu, sér í lagi ef þau eru upphaflega vel byggð, falleg og hafa að geyma sögu lands og/eða þjóðar.
Í miðborg Reykjavíkur, þar sem vilji er að hlutirnir blómstri, er fátt eitt betra en að byggja hótel til þess að laða að ferðamenn til þess að nýta kaffihús (í 101 Rvík) og aðra ferðatengda þjónustu sem þar er í boði. Það verður hins vegar að gæta að því hvernig menn koma að hlutunum og því miður hafa menn farið offari í hönnun mannvirkja í Reykjavík. Morgunblaðshöllin (gamla) er dæmi um eitt misheppnaðasta verkefni í skipulagi Íslandssögunnar.
Benedikt V. Warén, 9.1.2008 kl. 21:18
Benedikt V. eru ekki verkir með þessu hjá þér ??
Surtur (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 16:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.