Að gera upp við Hrunið

Á fundi VG í gær kom fram í máli Ögmundar að það væri ekkert uppgjör við Hrunið að færa fyrrverandi forsætisráðherra einan fyrir dómstóla vegna atburða sem áttu sér stað á 8 mánaða tímabili á árinu 2008. Því til rökstuðnings nefndi hann fjölmargt æði vafasamt sem hefur átt sér stað á löngu tímabili, s.s. einkavæðingu bankanna, ráðstöfun lífeyrissjóða á almannafé og fl.

En dettur nokkrum manni það í hug að landsdómsmálið gegn Geir Haarde sé endanlegt uppgjör við Hrunið? Eins og Björn Valur segir á bloggi sínu snýst það mál um möguleg lögbrot og ekkert annað. Það kann hins vegar að verða mikilvægur hluti af uppgjöri vegna þeirra upplýsinga sem þar koma almenningi fyrir sjónir.

Að gera upp við Hrunið snýst örugglega um réttlæti, að þeir sem brutu gegn lögum þurfi að svara til saka fyrir dómstólum. Það snýst einnig um að allir séu jafnir fyrir lögum, að fjárglæframenn fái amk. ekki vægari dóm en sauðaþjófar, svo og stjórnmálamenn.

Uppgjörið snýst um að horfast í augu við ömurlega stjórnmálamenningu sem gengur út á fyrirgreiðslur og sérhagsmunagæslu framar almannahagsmunum. Það snýst um að breyta vinnubrögðum á Alþingi og í ráðuneytum þannig að faglega sé tekið á erfiðum verkefnum, reynt sé að miðla málum og komast að skárstu niðurstöðunni fyrir þjóðina sem heild. Það snýst um lýðræðisvæðingu þar sem atkvæðavægi allra kjósenda er jafnt og þeir velja sér sjálfir fulltrúa á Alþingi (sbr. tillögur að nýrri stjórnarskrá). Síðast en ekki síst snýst það um að hugarfarsbreyting verði meðal almennings og að fólk taki sjálft aukna ábyrgð með þátttöku í ákvörðunum, og auknu aðhaldi með stjórnvöldum. En til þess að það megi verða þurfa réttar upplýsingar að vera til reiðu og allir að sitja við sama borð.


mbl.is Stál í stál á VG-fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband