Alvarlegur lýðræðishalli

Ég horfði áðan á opinn fund í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um Vaðlaheiðargöng og upplifði ótrúlegan lýðræðishalla, á kostnað annarra landshluta. Í nefndinni sitja níu aðalmenn og eru sex þeirra þingmenn landsbyggðarkjördæmanna. Af málflutningi þeirra að dæma fór það heldur ekkert á milli mála. Fjármálaráðherra sat fyrir svörum ásamt fleirum en hann er sjálfur fyrsti þingmaður NA-kjördæmis. Þar talar sá sem valdið hefur, og virðist hann skella skollaeyrum við öllum viðvörunum um að framkvæmdin muni ekki standa undir sér.

Að hlusta á málflutning sumra nefndarmanna var heldur óskemmtilegt. FÍB hefur gagnrýnt það að arðsemismat sé ekki unnið af óháðum aðila og að fjölmargar tilgreindar forsendur væru óraunhæfar. Árni Johnsen spurði þá fulltrúa FÍB á fundinum hvort að félagið væri ekki full höfuðborgarsinnað. Árni lýsti sjálfur þeirri skoðun sinni að áætlanir um aukningu umferðar væru frekar of varfærnar en hitt. Ekki rökstuddi hann það sjónarmið sitt með öðru en tilvísan til fenginnar reynslu af Hvalfjarðargöngunum. Varla er þar líku saman að jafna.

Upphaflega stóð til að framkvæmdin væri algjörlega á forræði og ábyrgð einkaaðila, enda skýrt tekið fram í sérstökum lögum að enginn beinn kostnaður félli á ríkissjóð. Nú er þó til skoðunar að ríkissjóður ábyrgist fjárveitingu með lánum, þó í orði kveðnu á þeirri forsendu að bygging og rekstur ganganna muni standa undir sér fjárhagslega. Verkið er ekki framarlega á samgönguáætlun, enda mörg brýnni mál sem þar hafa forgang. Sumir nefndarmenn auk fjármálaráðherra virðast þó tilbúnir að láta allar forsendur lönd og leið.
Einnig er það varla til að auka tiltrú manna á skynsamlegri ákvarðanatöku ríkisvaldsins að ríkið (Vegagerðin) er nú þegar búið að eyða 300 milljónum í undirbúning verksins. Ennfremur situr þingmaðurinn Kristján L. Möller í stjórn félagsins sem undirbýr framkvæmdina og situr þ.a.l. báðum megin borðsins.

Það er ömurlegt að horfa upp á svona framferði því að það er ekkert annað en spilling þegar stjórnmálamenn láta ekki hagsmuni heildarinnar ráða ákvörðunum sínum.

Nýja stjórnarskráin er mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar því að með henni yrði endir bundinn á svona afleit vinnubrögð.


mbl.is Framkvæmdin sjálfbær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sæll meðan þessi stjórn er við völd og fjórflokkurinn allur þá er ekki nein von um að stjórnarskráin verði breytt!

Sigurður Haraldsson, 7.11.2011 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband