Verndarengill

Eva okkar JolyÉg veit varla hvað maður á að segja um þessa stórmerku konu. Hún verður allavega að fá æðstu viðurkenningu sem hægt er að veita á Íslandi auk þess að finna fyrir þakklæti almennings.

Gleymum því ekki að það getur orðið ýmsum þungt að fást við niðurstöður rannsóknarskýrslunnar sem mun birtast um næstu mánaðarmót. Eva Joly er sem betur fer rödd réttlætisins og algjörlega ótengd íslenskum stjórnmálamönnum og fjármálalífi. 


mbl.is Joly: Átti ekki að takast á við hrun heils bankakerfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lettland er haukur í horni

Þjóðfáni LettlandsUtanríkisráðherra Lettlands sýnir bæði mikið hugrekki og skilning með þessari skoðun sinni. Evrópusambandið þarf að vera svo mikið meira en markaðslegt hagkerfi til að fólk haldi áfram að trúa á framtíð þess. Ef forystumenn aðildarþjóðanna ætla að hunsa lýðræðislegar kröfur og réttlætismál til að standa vörð um fjármálastofnanir og gallað hagkerfi þá munu óveðursský hrannast upp innan þess.

En við skulum leggja það á minnið að Lettar voru fyrstir til að taka okkar málstað auk Evu Joly sem auðvitað er komin í dýrlingatölu á Íslandi.


mbl.is Lettar taka upp hanskann fyrir Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjá stóru myndina

Ég ætla að hvetja Ólínu og alla félaga hennar í ríkisstjórnarflokkunum til að leggjast á eitt með okkur hinum og tala máli þjóðarinnar. Ákvörðun Ólafs Ragnars kann að hafa verið reiðarslag fyrir suma en hún er staðreynd engu síður og verður ekki aftur tekin. Í guðanna bænum hættið að beina spjótum ykkar að forsetanum, stjórnarandstöðunni eða InDefence. Kynnið ykkur þennan pistil og reynið að koma því réttlætismáli á framfæri erlendis að íslenskur almenningur eigi ekki einn og sér að standa undir allri þessari ábyrgð. Það getur ekki verið aðalmarkmiðið með Evrópusambandinu og hugsanlegri aðild að því að standa vörð um markaðshagkerfi og fjármálastofnanir á kostnað réttlætis og lýðræðis.

 


mbl.is Segir að forsetinn hafi verið blekktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjá út fyrir kassann

Ólafur Ragnar fékk prik í kladdann hjá mér á nýársdag þar sem hann talaði m.a. fyrir beinu lýðræði og endurbættri stjórnarskrá. Hann gaf eiginlega "kerfinu" falleinkunn en sagði það hafa dugað ágætlega til heimabrúks meðan að stjórnmál gengu aðallega út á halda dælunni gangandi heimafyrir. Frammistaða Steingríms J. í viðtalinu á Channel 4 í kvöld minnti mann óþyrmilega á þessi orð forsetans þó svo að Steingrímur sé eflaust að gera sitt besta.

Nú eru breyttir tímar og augljóst að margir íslenskir stjórnmálamenn eiga erfitt með að sjá hlutina í sínu stóra samhengi. Þess vegna er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að talað sé einum rómi fyrir réttlæti og sanngirni í þessu ömurlega Icesave-máli. Eva Joly sýndi það í símaviðtali að hún er sannur málsvari þjóðarinnar og lætur ekki hræðsluáróður setja sig út af laginu líkt og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar og sumir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna.

Látum ekki eitt augnablik telja okkur trú um að þetta sé barátta á milli forseta og ríkisstjórnar. Þetta er sameiginleg barátta þjóðarinnar fyrir ásættanlegri niðurstöðu í Icesave-málinu. Réttlætið fæst með dreifðri ábyrgð og því að þeir gjaldi mest sem að málinu stóðu, þ.e. stjórnendur Landsbankans og eftirlitsstofnanir hérlendis og erlendis. Evrópusambandið verður að sýna og sanna að það snúist um eitthvað annað og meira en markað og viðskipti.


mbl.is Ólafur í kröppum dansi á BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband