9.12.2008 | 15:43
Það bítur ekkert á BB
Gamli mótmælandinn Öskur Skarphéðinsson hljómar nú eins og tóm tunna þegar hann lætur út úr sér: "Ég segi eins og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra: Ég útiloka ekkert í þeim efnum". Það vekur með manni ónotahroll þegar gamlir róttæklingar eru farnir að vitna í ummæli Björns Bjarnasonar.
Reyndar er það eftirtektarvert hvað BB virðist lítið vilja ræða við fjölmiðla og borgara þessa lands. Á myndbandinu sást hann banda frá sér spurningum fréttamanna og strunsa sína leið. Ekki sá hann heldur ástæðu til að mæta með félögum sínum á borgarafundinn í Háskólabíói fyrir 2 vikum síðan. Hins vegar er hann búinn að leggja fram frumvarp um almenn hegningarlög sem taka á gildi 1. jan. 2009, sjá umfjöllun hér. Þar er m.a. kveðið á um auknar heimildir lögreglu til valdbeitingar og eignaupptöku og það sem kallað er "forvirkar rannsóknarheimildir". Ætli flestir myndu ekki kalla það hleranir eða persónunjósnir?
Rétt er að minna á að rúmlega 2.500 kjósendur Sjálfstæðisflokksins í kjördæmi BB strikuðu yfir nafn hans í síðustu kosningum. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann fengi áfram að sitja í sæti dómsmálaráðherra. Hér er kominn einlægur aðdáandi repúblikanaflokksins í BNA og G.W.Bush. Fáir kusu hann og enn færri vildu hann. Það bítur ekkert á þennan mann!
![]() |
Mótmælendur eiga ekki að bíta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.12.2008 | 13:24
ÉG MÆTI NÆST!
Ég var að hlusta á hádegisfréttir á Rás 1. Þar voru fréttir af tvennum mótmælum; friðsamlegum við ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu og ófriðsamlegum út um allar koppagrundir í Grikklandi. Ástæður fyrir þessum mótmælum virðast vera nokkuð svipaðar; stjórnvöld hafa brugðist hlutverki sínu og fjármagn úr sjóðum ríkisins rennur í vasa forréttindafólks á kostnað almennings.
Við sitjum hér uppi með kerfi sem þrjóskast við að víkja þrátt fyrir syndaregistur sem mörg bananalýðveldi myndu blikna í samanburði við. Við sitjum uppi með ríkisstjórn sem hefur algjörlega vanrækt hlutverk sitt og virðist ekki vera í neinu sambandi innbyrðis, því síður við Alþingi og hvað þá við þjóðina. Við sitjum uppi með Seðlabankastjóra sem eitt sinn var fyndinn en nú er aðhlátursefni.
Í fréttatímum sl. sólarhring hefur m.a. heyrst að Birna Einarsdóttir bankastjóri Nýja Glitnis hefur nú verið "hvítþvegin" af hinu trúverðuga Fjármálaeftirliti. Samt hefur hún orðið uppvís að því að segja ósatt og er alls ekki treystandi fyrir fjármunum almennings.
Skilanefndir gömlu bankana neita að afhenda skattrannsóknarstjóra gögn dótturfélaga þeirra í Lúxemborg enda næsta víst að þar á meðal leynast vafasamar upplýsingar um ófáa hátt setta aðila í stjórnkerfi landsins og flokkaklíkum. Hverjir skyldu eiginlega hafa skipað skilanefndirnar?
Svo fréttist af því að Fengur, eignarhaldsfélag Mr. Sterling, alias Pálmi Haraldsson, hafi ekki skilað ársreikningum síðan 2004. Mér skilst að venjulegir rekstraraðilar komist ekki upp með svona hegðun en það sama á ekki við fjárglæframenn og grænmetissvindlara eins og PH.
Flesta daga dynja á okkur fréttir af þessu tagi. Svo er hamrað á að fólkið verði að fá vinnufrið! Ég færi mótmælendum stuðningskveðjur mínar og vonast til að verða látinn vita um næstu aðgerðir svo að ég geti sjálfur sýnt minn stuðning.
![]() |
Vilja ríkisstjórnina burt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)