Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.5.2011 | 00:15
Áhugavert viðtal
Mig langar að hvetja fólk til að horfa á 10 mínútna viðtal við José Luis Sampedro, 94 ára gamlan spænskan hagfræðing og rithöfund sem boðar miklar breytingar. Hér er ekki um neina heimsendaspá að ræða, og áhugavert fyrir okkur Íslendinga að spegla okkur í ástandinu á Spáni. Myndbandið er með enskum texta (velja CC).
![]() |
Sósíalistaflokkurinn beið afhroð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.5.2011 | 11:28
"Venjulegt fólk"
Fyrir stuttu síðan átti ég samtal við ungan mann, fjölskylduföður með konu og 2 lítil börn. Ungu hjónin (ca. 26 ára) keyptu sína fyrstu íbúð skömmu fyrir hrunið og lögðu aleiguna (5 milljónir) á móti 15 milljón króna verðtryggðu húsnæðisláni.
Nú eru þau búin að selja íbúðina, verðið dugði ekki fyrir skuldunum og fjölskyldan er að flytja til Noregs þar sem framtíðin bíður þeirra. Aleigan brann upp við það eitt að kaupa litla íbúð og slá lán fyrir 75% kaupverðsins.
En líklega er þetta ekki "venjulegt fólk" í augum hins dæmigerða stjórnmálamanns.
![]() |
Allir urðu fyrir eignabruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2011 | 23:54
Laugavegur = göngugata
Ég verð að játa að ég botna ekkert í þeim kaupmönnum við Laugaveginn sem líta á það sem aðför að verslunarrekstri að loka eigi Laugaveginum fyrir bílaumferð yfir aðal ferðamannatímann. Fólk sem þekkir göngugötur af eigin raun veit að þar blómstrar mannlíf. Á Laugaveginum er einfaldlega mjög takmarkað pláss í götunni, og eins og flestir vita tekur hver bíll mjög mikið svæði miðað við gangandi vegfarendur.
Kaupmennirnir stofnuðu hagsmunafélag sem þeir nefna "Miðborgin okkar". Í stjórn félagsins sitja þeir kaupmenn sem hvað harðast berjast gegn því að loka Laugaveginum fyrir umferð bifreiða og virðast líta niður á gangandi vegfarendur, allavega gjaldkeri félagsins. Tilgangurinn með félaginu samkvæmt heimasíðu þess er m.a. "að efla mannlíf í miðborginni og stuðla að fögru, snyrtilegu og öruggu umhverfi". Stjórnarmenn virðast þó ekki taka þetta allt of bókstaflega því að stanslaus umferð bíla um götuna vinnur algjörlega á móti þessum fyrirheitum.
Á tímum mikils niðurskurðar hjá Reykjavíkurborg sem hart bitnar á "dúkkulísum" og börnum almennt, vekur það furðu að hagsmunafélag þessara kaupmanna þiggi fúlgur fjár frá borginni á hverju ári til að sinna sínum sérhagsmunum. Samkvæmt þessari síðu fá samtökin árlega 5 milljónir frá borginni auk prósentuhlutar úr bílastæðasjóði. Fróðlegt væri að heyra hvort fólki þyki þeim peningum vel varið.
![]() |
Spilað með ævistarf fólks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.5.2011 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2011 | 09:35
Íslenski fáninn áberandi
Það er greinilegt að spænskir fjölmiðlar hafa mikið fjallað um ástandið á Íslandi. Búsáhaldabyltingin kom heilli ríkisstjórn frá völdum, án þess að stórslys yrðu á fólki. Kosningarnar um Icesave sýndu svo að fólk tekur því hreint ekki með jafnaðargeði þegar óábyrgt fjármálakerfi spilltra bankamanna hrynur yfir hausinn á því.
Vonbrigðin hér, líkt og á Spáni, eru með svokallaðar vinstri stjórnir sem virðast hafa misst tengsl við uppruna sinn og brugðist þeim kjósendum sem eru að kikna undan erfiðum húsnæðislánum á sama tíma og verðlag fer hækkandi og atvinna minnkandi.
Það er einstaklega ánægjulegt að sjá myndir af mótmælum á Spáni þar sem íslenski fáninn er á spjöldum og slagorðin segja t.d. "Allar leiðir liggja til Íslands" og "Ég vil líka vera íslenskur". Það virðist hafa vaknað von í brjósti fólks við það að heyra fréttir frá Íslandi, það er allavega árangur út af fyrir sig.
Fleiri myndir má sjá á Facebook síðu: "Ég vil líka byltingu eins og á Íslandi". Einnig grein úr El País (í enskri þýðingu) frá því í gær.
![]() |
Áfram mótmæli á Spáni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.5.2011 | 14:50
Á flótta með geislabaug
Strauss-Kahn ku víst líka hafa verið tekinn höndum með geislabaug á leið til Evrópu. Að vísu algjörlega ó-náttúrulegum.
Mæli annars með þessari óborganlegu bók hans Þorvaldar og öðrum í sama bókaflokki.
![]() |
Heilsaði Evrópu með náttúrulegum geislabug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2011 | 10:20
Laus staða fyrir Steingrím?
Það er gömul saga og ný að vald spillir og að algjört vald spillir algjörlega. Hverju skyldi Strauss-Kahn hafa tekið upp á í embætti forseta Frakklands?
Án þess að hægt sé á þessari stundu að fullyrða neitt til um sekt eða sakleysi þessa framagosa er þó ljóst að það væri ekki í fyrsta sinn að hann léti stjórnast af frumstæðum hvötum fremur en yfirvegun og skynsemi. Eins og fram kemur í annarri frétt þurfti hann fyrir 3 árum að biðjast afsökunar á að hafa misnotað konu kynferðislega sem var undir hann sett hjá AGS.
Hvað okkur Íslendinga varðar ættum við að gefnu tilefni að enda samstarfið við AGS, enda ljóst að niðurskurður í heilbrigðis- og menntakerfi er samkvæmt fyrirmælum sjóðsins. Helsti aðdáandi AGS hér á landi ætti einnig að íhuga að sækja um stöðu Strauss-Kahn enda búinn að berjast við slökkvistarf lengur en honum og okkur öllum er hollt.
Reyndar tel ég ólíklegt að Strauss-Kahn fái dóm fyrir að ráðast að fátækri ræstingarkonu. BNA er ekki réttarríki eins og aftaka Bin-Laden án dóms og laga, Guantanamo og meðferð Bradley Mannings hafa sýnt og sannað.
![]() |
Færður fyrir dómara í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.5.2011 | 20:05
Gæsahúð eða ógleði
"Ísland farsældar frón" sungið af frábærum kór undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Undir venjulegum kringumstæðum ætti maður að fyllast stolti með gæsahúð og tár á hvörmum.
Tónlistarhúsið Harpa er langþráður draumur fjölmargra tónlistarunnenda sem hafa þurft að gera sér dapurleg húsakynni að góðu þegar okkar besta fólk og frábærir erlendir listamenn halda hér tónleika, t.d. Háskólabíó og Laugardalshöllina.
Þó að ég gleðjist yfir því að tónlistin hafi fengið húsaskjól á heimsmælikvarða get ég ekki látið hjá líða að hugsa um það hversu lítið við Íslendingar höfum lært á Hruninu og því hve hátt margur heimskur maðurinn hreykti sér og gerir enn.
Tónlistarhúsið er að hluta til byggt fyrir þýfi erlendis frá sem aldrei verður skilað til baka. Einnig er það að hluta til borgað með skattpeningum okkar flestra nú á tímum mikils niðurskurðar, atvinnuleysis og landflótta.
Ég velti því fyrir mér hvort að fólk sem misst hefur heimili sín vegna ólögmætra og ósiðlegra viðskiptahátta bankamanna geti hugsað sér að heimsækja húsið sem Björgólfur Guðmundsson og spilltir viðhlægjendur hans í opinberum embættum eru að saurga með nærveru sinni í dag.
Sjálfum langar mig mest að skila inn ríkisborgararéttinum nú þegar ég heyri þennan fagra söng.
![]() |
Harpa tekin formlega í notkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.5.2011 | 14:56
Hver kaus LÍÚ og SA til að ráðskast með framtíðarskipan mikilvægra mála?
Þó að margt sé óvissu háð á Íslandi í dag getum við gengið að einu sem vísu, að útgerðarmenn vilji engar breytingar á kvótakerfinu.
LÍÚ og SA (sem LÍÚ er stærsti aðilinn að) hafa beitt undarlegustu þvingunarúrræðum til að standa í vegi fyrir breytingum og virðast hafa náð nokkuð góðu taki á ráðamönnum. Það er allavega orðið ansi breitt bilið á milli þess sem stjórnarflokkarnir lofuðu í aðdraganda síðustu kosninga og þess frumvarps sem nú er að líta dagsins ljós eftir mikið baktjaldamakk.
Það eitt að frumvarpið skuli fyrst vera kynnt fulltrúum útgerðarmanna áður en því er dreift á Alþingi hlýtur að benda til þess að óeðlilega sé að málum staðið. Einnig hafa loðin ummæli ráðherra ekki hjálpað til og stækur fnykur af hrossakaupum loðir við málið.
En sem betur fer er almenningur orðinn nokkuð vanur því að grípa fram fyrir hendurnar á vanhæfum stjórnvöldum og spilltum embættismönnum. Þjóðin verður að ráða því sjálf hvernig farið verður með nýtingu fiskistofna við landið og víðtæk sátt að ríkja um skiptingu arðsins.
Síðan hvenær fékk LÍÚ og SA umboð þjóðarinnar til að ráðskast með auðlindir landsins? Veit einhver annars hversu háir fjármunir hafa farið frá útgerðaraðilum til stjórnmálaflokka og einstakra frambjóðenda á undanförnum árum?
![]() |
Sægreifarnir ekki í sáttahug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2011 | 10:08
Hugmyndir um Þingvelli
Þar sem að fólk virðist oft á tíðum frekar vilja hjóla í manninn en ræða hugmyndir og málefni, langar mig að heyra hvað ykkur finnst um framtíð Þingvalla.
Þráinn Bertelsson sagði í símaviðtali á Morgunútvarpi Rásar 2 rétt áðan að hann vildi að frá og með 100 ára lýðveldisafmælinu yrðu einungis leyfðar byggingar innan þjóðgarðsins í eigu ríkisins eða hins opinbera. Innan marka þjóðgarðsins eru töluvert margir sumarbústaðir, líklega ekki færri en 100, flestir í einkaeigu. Ekki nefndi Þráinn hvað hann teldi réttast að gera við öll þessi hús, hvort þau ætti að rífa eða hvort ríkið tæki þau eignarnámi. Sum þeirra hafa menningarsögulegt gildi, t.d. sumarhús það sem Ólafur Thors lét reisa, en sum önnur geta vart flokkast öðruvísi en sem glæsivillur "óráðssíumanna". Nú ef ríkið tæki þau eignarnámi, yrði þá ekki einmitt til það sem Þráinn virðist óttast mest, einhvers konar sumarbústaðaleiga fyrir forréttindastéttina í landinu?
Það sem mér finnst mest aðkallandi að bæta á Þingvöllum er átakanlegur skortur á þjónustu við ferðamenn. Maður skyldi ætla að í helsta þjóðarstolti landsmanna sé að finna amk. einn frambærilegan veitingastað þar sem hægt væri að borða þingvallableikju og fá sér kaffi með útsýni við hæfi. Það eina sem ferðamönnum býðst í dag er pylsu- og samlokusala í dæmigerðum sjoppustíl. Vart er hægt að ímynda sér meira fráhrindandi greiðasölu en þessa.
Hvers vegna er ekki fyrir löngu búið að ákveða hvað kemur í stað Valhallar sem brann sumarið 2009? Ef einhver dugur væri í Þingvallanefnd, stjórnvöldum og þjóðgarðsverði væri nú þegar búið að koma þar upp glæsilegum stað sem félli vel að umhverfinu og hægt væri að kaupa sér veitingar við hæfi. En líklega er pólitískur ágreiningur um þetta eins og allt annað.
![]() |
Óstarfhæf nefnd án afsökunarbeiðni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.5.2011 | 15:15
Þau tíðkast hin breiðu spjótin
![]() |
Þráinn fer hörðum orðum um Þorgerði Katrínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)