Diplómatískir eldsvoðar

Það er stundum sagt að penninn sé sterkari en sverðið og að orð séu til alls fyrst. Líklega hefur aldrei í sögunni reynt eins mikið á vægi orðsins eins og nú.

Grímunni er kastað - lygalaupurinn afhjúpaður og fatalaus fyrir augum allra sem vilja sjá.

Með eld í augumEn það þarf mikið hugrekki til að segja sannleikann - sérstaklega þegar hann birtist sem 250.000 skjöl sem varða viðkvæm mál fjölmargra þjóða og þjóðarleiðtoga - og mun fleiri á leiðinni! Fólkið á baki Wikileaks ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, ólíkt frændum okkar svíum sem hafa sérhæft sig í "hlutleysi" svo árum skiptir. Þess í stað gefa þeir út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Julian Assange, vafalaust vegna upploginna saka. Er þetta ekki eitt elsta trixið í bókinni?

Okkar "hlutlausi" ríkisfjölmiðill beygði sig einnig í duftið og þorði ekki að taka slaginn með Wikileaks þegar það stóð til boða fyrr á þessu ári. Lítið fer sömuleiðis fyrir hugrekki þeirra nágranna bandaríska sendiráðsins á Laufásvegi sem vilja ekki koma fram undir nafni af ótta við það að fá ekki vegabréfsáritun til þessa lands lygi og misskiptingar.

Eitt er víst að það verður erfitt verkefni og ærið að slökkva alla þá diplómatísku elda sem þessi "leki" skjalanna mun kveikja.

 


mbl.is Kim Jong-il skvapholda gamall karl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökfastur og ráðagóður

Ég ætla að taka undir með þessum ágætu alþingiskonum. Marinó er frábær talsmaður fyrir Hagsmunasamtök heimilanna og þá fjölmörgu neytendur sem sjá fram á dapurlegar framtíðarhorfur á Íslandi ef engin leiðrétting mun eiga sér stað á ósanngjörnum og oft á tíðum ógreiðanlegum húsnæðislánum.

Marinó mætir alltaf vel undirbúinn í viðtöl, rökfastur og vel máli farinn. Sama verður ekki sagt um þá hagfræðinga sem tala hvað mest gegn tillögum Marinós og HH. Guðmundur Ólafsson sem er með fastan vikulegan tíma í Morgunútvarpinu á Rás 2 leyfir sér oft og iðulega að gera lítið úr þessum ágætu hagsmunasamtökum en vitnar heldur í einhverja ónefnda vini sína heldur en fræðileg rök máli sínu til stuðnings. Annar tíður gestur á RÚV, Þórólfur Matthíasson, skartar prófessorstitli en gerir mest af því að líkja lánþegum við fólk sem keypt hefur lottómiða og sé að bíða eftir stóra vinningnum.

En hvers vegna skyldu okkar bestu hagfræðingar sem starfa erlendis ekki vera spurðir álits? Það vill nefnilega svo einkennilega til að þeir eru í stórum dráttum ósammála ríkisstjórninni og sérlegum talsmönnum hennar, þeim Guðmundi og Þórólfi. Skyldi það skipta einhverju máli að þeir þurfa hreint ekki að óttast um sinn hag í störfum sínum hjá Columbia University, London School of Economics og víðar?

Skrifið svo undir hér ef þið eruð ekki búin að því nú þegar. Látum ekki "hlutleysið" ganga af okkur dauðum.


mbl.is Hvetja Marinó til að hætta við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Makalaus meðferð á neytendum

Þá hefur Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, mælt fyrir einhverju því makalausasta frumvarpi sem sést hefur lengi. Um er að ræða breytingar á lögum sem varða gengistryggð lán í íslenskum krónum, lán sem dæmd hafa verið ólögmæt af Hæstarétti, enda er það alveg skýrt í lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 að slík gengistrygging er óheimil.

Frumvarpið er langt og leiðinlegt aflestrar en mælir fyrir um lagabreytingar  sem eru neytendum síður en svo til hagsbóta. Hér eru nokkur dæmi:

  1. Gengistrygging verður lögmæt ef í hlut á lögaðili eða fyrirtæki. Þannig er stoðum skotið undir að gengistrygging sé í raun í góðu lagi. En hvers vegna skyldi hún þá hafa verið bönnuð fram að þessu?
  2. Lántakendur verða gerðir meðábyrgir fyrir ólögmætum samningsskilmálum. Í lögunum hingað til (gr. 18) hafa einungis lánveitendur verið ábyrgir, enda sömdu þeir samningana einhliða.
  3. Skilmálar um vexti verða sjálfkrafa ógildir ef skilmálar um verðtryggingu/gengistryggingu eru ólögmætir. Þannig á að þvinga lántakendur til að greiða mun hærri vexti en samningar sögðu til um, ekki bara í framtíðinni heldur líka afturvirkt, allt frá lántökudegi. Mismunurinn getur orðið verulegur og á í ofanálag að bera fulla vexti, þ.e. vaxtavexti.
  4. Gengistryggð húsnæðislán munu breytast í "venjuleg" verðtryggð lán nema að báðir aðilar semji um annað. Hversu líklegt er að lántakendur í mjög veikri samningsstöðu nái góðum samningum við kröfuhafa?
  5. Að 5 árum liðnum mega kröfuhafar endurskoða samningsskilmála einhliða.
Allt ber þetta að sama brunni. Frumvarpið er hneyksli og brýtur algjörlega í bága við lög um neytendavernd og samningagerð. Það eitt að lagabreytingarnar hafi afturvirkni í för með sér með miklum búsifjum fyrir neytendur er brot á ótalmörgum lögum og líklega á gömlu stjórnarskránni. Skaðabótaábyrgð gæti hæglega skapast fyrir ríkið og þætti ýmsum það ergilegt ef ríkið endaði með skellinn af þessu ótrúlega klúðri en ekki fjármálastofnanirnar, kröfuhafar eða aðrir sem brutu lögin. En vissulega geta Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið ekki verið stikkfrí þar sem að stofnanir ríkisins höfðust ekkert að til að stöðva hinar ólögmætu lánveitingar.

mbl.is Mælir fyrir gengislánafrumvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboð úr skúffunni

Magma keypti HS-orku og fékk meirihluta kaupverðsins að "kúluláni" hér innanlands. Lánið er með óverulegum vöxtum (1,5%) og veð var einungis tekið í bréfunum sjálfum. Reiðufé var hins vegar greitt með "aflandskrónum".

Í sænskri skúffuNú vill bjargvætturinn í skúffunni hins vegar selja Íslendingum aftur 25% hlut, væntanlega til að fá til baka alla dollarana sína sem hann notaði til að kaupa aflandskrónurnar á sínum tíma. Þannig ætti hann 75% hlut í HS-orku án þess að hafa eytt í það neinu sem heitið getur. Ef enginn kaupandi finnst hér (hver vill fórna ærunni og eiga allt sitt undir RB?) hringir skúffan bara til Peking og býður þeim góðan díl.

Það er undir Íslendingum sjálfum komið að horfa á þetta gerast. En þeir munu seint geta kennt öðrum um og sagt að þeir hafi ekki verið varaðir við.

http://orkuaudlindir.is

mbl.is Íhuga að selja 25% í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV á rangri leið

Seint á árinu 1993 gerði ég mér ferð á dagskrárdeild RÚV í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg með 30 mínútna stuttmynd undir hendinni. Myndin var hluti af lokaverkefni mínu frá Danska kvikmyndaskólanum, en leikstjóri hennar var skólabróðir minn, Thomas Vinterberg, sem margir ættu að vita deili á.

Þar sem myndin var á dönsku sagði yfirmaður innlendrar dagskrárdeildar að það væri undir dagskrárstjóra erlends efnis komið að ákveða hvort myndin yrði tekin til sýningar. Sá dagskrárstjóri var þá Hinrik Bjarnason og fór ég beinustu leið að bera erindið upp við hann. Viðbrögð Hinriks voru fáleg og sagði hann það algjört prinsippmál að RÚV sýndi ekki neins konar skólaverkefni. Ég maldaði aðeins í móinn, hrósaði myndinni og benti á að hún hefði unnið til verðaluna á kvikmyndahátíðum þá um sumarið, en lengra varð ekki komist því Hinrik harðneitaði að skoða málið frekar eða horfa á myndina.

BroskallSíðan þá hef ég átt í hálfgerðu ástar/haturssambandi við þessa ríkisstofnun. Helst hefur það líkst sambandi við nákominn ættingja sem manni þykir vænt um, en bregst þó alltaf væntingum manns þegar mikið liggur við. Ég skal fúslega viðurkenna að þeir eru ófáir útvarpsþættirnir sem ég hlusta á þegar tækifæri gefst til, bæði heima og að heiman. Með tilkomu hlaðvarpsins og ipod-spilarans náði hlustunin nýjum hæðum því að nú er hægt að hlusta á uppáhaldsþættina gangandi, skokkandi, hjólandi eða í strætó.

En allir vita að áhugavert útvarps- og sjónvarpsefni verður ekki til af sjálfu sér. RÚV hefur svo lengi sem ég man kappkostað að sinna hlutverki sínu sem útvarp/sjónvarp allra landsmanna. Starfsmenn hafa oft og iðulega lagt sig alla fram og á stundum sett sig sjálfa í lífshættu við að flytja fréttir af hamförum og hvers kyns stórviðburðum. Það hefur ekki vafist fyrir fólki þar á bæ að fara út í foráttuveður með hljóðnema og tökuvélar eða skora náttúruöflin á hólm.

Því er það gjörsamlega óskiljanlegt að nú skuli stofnunin ætla að segja pass og skorast hjá þátttöku þegar kosningar til stjórnlagaþings eru á næstu grösum. Samkvæmt óstaðfestum fréttum hefur verið lagt blátt bann við því innan RÚV að ræða við nokkurn af þeim 523 frambjóðendum sem gefa kost á sér, hvorki um málefni stjórnarskrárinnar eða nokkuð annað yfir höfuð.

Stjórnlagaþingið er einstakur viðburður í lýðveldissögunni. Þetta er í fyrsta sinn sem persónulega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar munu setjast niður og koma sér saman um þau grunnlög sem ríki og þjóð ætla að starfa eftir næstu ár og áratugi. Fátt skiptir okkur meira máli á þeim krossgötum sem við nú stöndum á.

Vissulega kann að vera að einhverjum hafi fallist hendur þegar ljóst varð að fjöldi frambjóðenda skipti ekki nokkrum tugum heldur mörgum hundruðum. Það er hins vegar hvorki ýkja flókið né ómögulegt að kynna svo marga frambjóðendur til leiks ef tími hvers og eins er verulega takmarkaður. Það ætti ekki að vefjast fyrir reyndu og hugmyndaríku dagskrárgerðarfólki að útbúa umgjörð fyrir slíka þætti sem augljóslega þyrftu að vera á dagskrá mörg kvöld í röð. Kostnaður yrði aldrei meiri en af öðru ódýru sjónvarpsefni. Almenningur hlýtur að gera þá kröfu að fá eitthvað meira að vita um frambjóðendur en eina ljósmynd og örstuttan texta sem fæstir munu nenna að lesa hvort eð er. Það þarf að sjá viðkomandi og heyra til þess að ákveða að treysta honum/henni fyrir atkvæði sínu.

Fyrrverandi fréttastjóri RÚVRÚV þarf stöðugt að sanna tilverurétt sinn. Eftir að nefskatturinn var tekinn upp er það eðlilegt og rétt að fólk geri miklar kröfur til stofnunarinnar, enn sem fyrr. Sama hlýtur að gilda um helstu stjórnendur hennar. Því sættum við okkur ekki við það að ófaglega sé staðið að ráðningum útvarpsstjóra og helstu stjórnenda, fremur en starfsmanna yfirleitt. Því sættum við okkur heldur ekki við það að útvarpsráð sé skipað undirsátum stjórnmálaflokka með litla sem enga þekkingu á  ljósvakamiðlum. Þaðan af síður sættum við okkur við það að hæfum og reynslumiklum fréttamönnum sé sagt upp vegna stjórnmálaskoðanna eða aukaverkefna utan vinnutíma.

Stjórnendur RÚV eru á síðasta séns hjá þjóðinni og ættu ef til vill að svipast um eftir öðru starfi ef metnaðurinn er ekki meiri. Kannski að það sé laust starf hjá fyrrverandi félaga þeirra á ÍNN? Einhvers staðar þurfa vondir að vera.


mbl.is Virðist viðmælandinn lykilatriðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlæti og sanngirni gagnvart hverjum?

Fram er komið margboðað lagafrumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra "um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara".

Frumvarpið felur í sér verulegar breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 sem munu hafa miklar og í mörgum tilfellum afar slæmar afleiðingar fyrir lántakendur með gengistryggð húsnæðislán. Forsendur breytinganna eru dómar Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010 sem báðir fjölluðu um uppgjör bílaláns sem er í meira lagi vafasamt að leggja til grundvallar fyrir öllum gengistryggðum lánum til lengri eða skemmri tíma.

Vert er að hafa í huga að þar sem gengistrygging lánanna var og er ólögmæt máttu kröfuhafar ekki uppreikna höfuðstól þeirra og afborganir. Það er því rangt sem oft og iðulega er haldið fram og nú síðast á minnisblaði með þessu frumvarpi þar sem segir:

“Skuldir heimilanna lækka um 40-50 milljarða króna við þessa aðgerð, að meðaltali um nærri eina og hálfa milljón á heimili með gengisbundið lán.”

Réttara er að skuldir heimilanna hækka umtalsvert þar sem búast má við því að fjölmargir geti ekki staðið undir þyngri greiðslubyrði allt frá lántökudegi og yrði því mismuninum bætt við höfuðstól lánanna eins og lýst er í 2.gr. frumvarpsins.

Í athugasemdum við 2. gr. segir m.a.:

“Með tilliti til jafnræðis og réttlætissjónarmiða er hér því lagt til að skuldurum veðlána, með ógildri gengistryggingu, standi til boða að greiða framvegis af lánum sínum sem þau væru verðtryggð.”

Samanburður á greiðslubyrðiErfitt er að koma auga á þau réttlætissjónarmið sem í þessu felast, enda voru lánafyrirtækin að bjóða mun hagstæðari kjör og lægri vexti með myntkörfulánum en áður voru í boði á Íslandi. Líklegt verður að teljast að margir lántakendur hefðu alls ekki tekið svo há lán sem raun bar vitni ef einungis verðtryggð lán hefðu verið í boði.

Frumvarp þetta er lagt fram á sama tíma og tekist er á um fyrstu álitamálin sem varða gengistryggð húsnæðislán fyrir Hæstarétti. Erfitt er að sjá það fyrir hvernig dómarar muni bregðast við frumvarpinu verði það samþykkt, en augljóslega eru ítarlegar greinargerðir málsaðila miðaðar við allt önnur lög en frumvarpið hefur í för með sér. Lagagrundvelli yrði þ.a.l. kippt undan málsaðilum.

Loks er ástæða til að minna á skattalega óvissu sem gæti skapast vegna frumvarps þessa. Háar upphæðir munu skipta um hendur eða færast til í bókhaldi þegar lán verða endurútreiknuð miðað við nýjar forsendur. Ekki virðist vera hugsað fyrir öllu því flækjustigi sem gæti skapast varðandi skattalega meðferð í kjölfarið. Má því búast við að skuldarar þurfi fyrst að standa í tímafreku þrasi við kröfuhafa sem sumir eru í þrotameðferð og í framhaldi af því að eiga við skattayfirvöld um leiðréttingar sinna mála.

Myndin sýnir greiðslubyrði af 19,2 milljóna dæmigerðu gengistryggðu húsnæðisláni til 30 ára, tekið í janúar 2006. Línurnar sýna greiðslubyrði m.v. afborganir á 3ja mánaða fresti fram til apríl 2010 og ber himinn og haf á milli þess sem upphafleg áætlun bankans spáði fyrir (dökka línan) og þess sem fyrirhugaðar lagabreytingar hafa í för með sér (gula línan). Bleika línan sýnir þá greiðslubyrði sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu og bankinn innheimti í trássi við gildandi lög, (á tímabili voru einungis greiddir vextir). Dæmi þetta sýnir fáránleika þess að líta á úrskurð Hæstaréttar frá 16. september 2010 sem fordæmisgefandi fyrir öll gengistryggð lán en frumvarp þetta byggir að verulegu leyti á þeim úrskurði.


mbl.is Gengislánafrumvarp lagt fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marinó á þakkir skildar

Mig langar að þakka Marinó G. Njálssyni innilega fyrir að standa vaktina fyrir hönd lántakenda og heimila sem eru aðframkomin af síhækkandi skuldum og greiðslubyrði. Mér skilst að Marinó sé í fullri vinnu annars staðar og nýti frítíma sinn til að standa í þessari baráttu. Marinó mætir alltaf vel undirbúinn í viðtöl og hefur að öðrum ólöstuðum sett sig betur inn í þessi mál en margur maðurinn sem flaggar fínum titli.

mbl.is Vill enn flata niðurfærslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EuRÚVision

Sú hugsun verður stöðugt áleitnari á hvaða vegferð RÚV er. Góðum fréttamönnum er sagt upp eða synjað um fastráðningu. Stofnunin sem hefur ríkum skyldum að gegna samkvæmt sérstökum lögum og þiggur fyrir það skattfé frá almenningi ætlar ekki að vera með neinar kynningar á frambjóðendum til stjórnlagaþings. Alls engar! Í stað þess að grípa það fegins hendi að senda út ótal margar ódýrar klukkustundir af umræðum um efni stjórnarskrárinnar ætlar stofnunin að segja pass og senda út lélegar amerískar sápuóperur og endursýna áramótaskaup frá síðustu öld.

Toppurinn hjá RÚVÉg á örlítinn hlut í Ríkisútvarpinu ohf og mér er ekki sama um það hvernig ákvarðanir eru teknar þar á bæ. Reyndar tel ég stjórnendur hafa klúðrað málum oftar og meir en þeir ættu að fá tækifæri til. Sú ákvörðun að reka hinn ágæta fréttamann Þórhall Jósepsson fyrir bókaskrif er dæmi um slíkt.


mbl.is Bókaskrif leiddu til uppsagnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú verður ekki aftur snúið

Þjóðfundurinn er glæsileg byrjun á endurreisn lýðveldisins. Marktækt úrtak þjóðarinnar virðist ekki hafa látið það vefjast fyrir sér að forgangsraða því sem máli skiptir á 21. öldinni. Stjórnlagaþingið þarf ekki að vera í vafa um það hvar áherslurnar liggja.

Ótal úrtöluraddir munu eflaust hljóma á næstu dögum og vikum til að gera lítið úr niðurstöðum þjóðfundarins. Látum þær ekki rugla okkur í ríminu. Allt of stór hópur fólks byggir afkomu sína á óbreyttu ástandi, þ.e.a.s. misrétti, misskiptingu og ýmsum sérhagsmunum.

Næst á dagskrá er að kjósa verðuga fulltrúa á stjórnlagaþingið. Varast ber að kasta til þess höndum og velja kunnugleg andlit án þess að kynna sér vel hvað býr að baki. Dagurinn í dag sýnir að "venjulegu fólki" er vel treystandi.


mbl.is Grunngildin skýrð á þjóðfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hefur sinn djöful að draga

Jenis Av Rana er ekki verðugur fulltrúi sinnar ágætu þjóðar. Hann er forpokaður afturhaldsseggur og ætti helst að halda sig fjarri öðru fólki.

Því miður erum við Íslendingar ekki heppnari með suma af okkar fulltrúum. Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar er Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins. Hann var utanríkisráðherra þegar Ísland lýsti yfir stuðningi við innrás bandaríkjamanna og breta í Írak. Íslenska þjóðin fékk fyrst að heyra ávæning af þessum meinta stuðningi sínum á fréttamannafundi í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna 2 dögum áður en innrásin hófst. Alþingi hafði ekki fengið málið til umfjöllunar og heldur ekki utanríkismálanefnd sem þó starfar fyrir luktum dyrum og undir þagnareið. Formenn tveggja stjórnmálaflokka, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, tóku sér það vald að ákveða þetta undir fjögur augu og án samráðs við eigin ríkisstjórn.

Síðdegisútvarp Rásar 2 spilaði í síðustu viku bút úr viðtali við Halldór sem tekið var 20. mars 2003, þann dag sem innrásin hófst og íslenskum almenningi var ljóst að Ísland væri aðili að innrásinni. Halldór sagði:

Innrásarlið Íslands í Írak"Ég tel að þetta sé siðlegt, alveg eins og ég taldi það vera siðlegt það sem gerðist í Afghanistan, ég taldi það vera siðlegt sem gerðist í Júgóslavíu. Það lá t.d. alveg ljóst fyrir að Öryggisráðið komst ekki að niðurstöðu um það mál. Ég tel að Saddam Hussein og hans ríkisstjórn sé einhver siðlausasta ríkisstjórn sem til er í heiminum. Það liggur fyrir að daglega er að deyja fólk í Írak af þeirra völdum. Það eru pyntingar, skipulagðar, aftökur o.s.frv. Þetta mun að sjálfsögðu koma í ljós þegar að íraska þjóðin getur farið að tala, farið að segja eitthvað, en hún hefur ekki getað það á undanförnum árum vegna ótta. Þetta er allt saman vitað mál."

Ætlar almenningur að sætta sig við það að Halldór fái áfram að vera fulltrúi þjóðarinnar í norrænu samstarfi? Maðurinn sem ber öðrum fremur ábyrgð á kvótakerfinu, Kárahnjúkavirkjun, einkavinavæðingu bankanna og loforðum um 90% húsnæðislán? Maðurinn sem Helgi Seljan tók viðtal við í maí á þessu ári og iðrast einskis?

Sjá Halldór Ásgrímsson í afneitun, fyrri hluti og seinni hluti.


mbl.is Mætir líklega í boð til Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband