Nefnum hlutina sínu réttu nöfnum.

Það kemur lítið á óvart að flokkarnir skuli hafa "skiptar skoðanir" um þetta mál enda fara hagsmunir almennings og hagsmunir flokkanna lítt saman í flestum málum sem tengjast lýðræðisumbótum. Nægir að nefna margboðað stjórnlagaþing sem varla verður svipur hjá sjón í meðförum þingsins ef það verður þá yfirleitt nokkuð úr því. Svæfingarmáttur þingnefndanna er mikill eins og sagan segir okkur og ekki kæmi mér á óvart að umrætt "frumvarp um persónukjör" sigli inn í draumalandið.

Reyndar er rétt að halda því til haga að hér er hreint ekki verið að tala um persónukjör heldur listakosningu eins og dómsmálaráðherra sagði orðrétt þegar hún mælti fyrir frumvarpinu 24. júlí sl.:

"Ég legg áherslu á að með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er ekki með neinum hætti hróflað við listakosningu og hlutfallskosningakerfinu hér á landi. Kjósendur munu eftir sem áður kjósa tiltekinn lista og telst atkvæðið listanum til tekna óskipt til úthlutun sæta til listans í réttu hlutfalli við úrslit kosninganna."

Væri ekki rétt að kalla hlutina sínum réttu nöfnum? Því miður apa fjölmiðlar oft á tíðum gagnrýnislaust vitleysuna upp eftir ráðamönnum og setja engin spurningamerki við orðanotkun þeirra og hugtakarugling.

Þegar öllu er á botninn hvolft...Hér á landi hefur orðið alvarlegur trúnaðarbrestur á milli fólksins í landinu og ýmissa stofnana samfélagsins. Skortur á trausti er mikið vandamál og starfandi stjórnmálaflokkar eru þar alls ekki undanþegnir. Sú hugsun að fulltrúalýðræðinu sé best fyrir komið í hefðbundnum stjórnmálaflokkum á varla upp á pallborðið hjá almenningi eftir allt það sem á hefur dunið hér síðustu misserin. Í því ljósi þarf nauðsynlega í nýjum kosningalögum að gefa kjósendum fullt frelsi til að velja sér fulltrúa eftir því hvaða einstaklingum þeir treysta.

Það er hreint út sagt hlægilegt að flokkarnir skuli enn og aftur setja fótinn fyrir hagsmuni almennings í landinu. 


mbl.is Persónukjörið er ólíklegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þið losnið aldrei við mig!

... og eigum við ekki að halda þessu til haga? Gengið var fram hjá tilboði frá almenningshlutafélagi sem 1.000 velunnarar Moggans  stóðu að og blaðið afhent Óskari Magnússyni og kvótaklíku sem ekki mátti nefna á nafn. Skuldirnar að sjálfsögðu afskrifaðar, nema hvað?


mbl.is „Fortíðin til framdráttar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fangar í eigin landi?

Þegar ég horfði á þetta myndskeið um "fangana" í Kringlunni tók ég eftir því að Þóra Kristín Ásgeirsdóttir var ekki höfundur fréttarinnar og þulur. Hún hefur staðið sig með afburðum vel og haldið uppi tiltrú minni á því að Mogginn og mbl.is sé ekki áróðursmálgagn nema rétt í aðdraganda kosninga.

Á öðrum stað og stundMér finnst það fréttnæmt að formanni Blaðamannafélags Íslands sé sagt upp störfum þó svo að ritstjóra mbl.is (hver sem það er) finnist það ekki, sjá hér. Einnig að öðrum frábærum blaðamönnum sé sagt upp af pólitískum ástæðum, sjá hér. Nú má líklegast enginn sem aðhyllist ESB vinna þar lengur.

Það þarf að ríkja viss trúnaður milli fjölmiðlafólks og almennings svo að mark sé takandi á miðlinum. Frétt um tilgangslaust uppátæki í Kringlunni skiptir litlu máli en vissulega væri hægt að ímynda sér dýpri túlkun án mikils ímyndunarafls.

Það sem nú á sér stað á elsta fjölmiðli landsins kallast pólitískar hreinsanir og ég held að Franco hefði varla gert þetta öðruvísi miðað við stað og stund.


mbl.is Fangar í verslunarmiðstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki Franco?

Það þarf víst ekki að koma hugsandi fólki á óvart að Ólafi Þ. Stephensen hafi verið vikið úr ritstjórasæti Moggans. Fyrst að útgerðarmenn voru svo áhugasamir að leggja fjármuni í óarðbært dagblað hlut einhver góð ástæða að búa að baki.

Nýja ritstjórnin?Þann dag sem frændi minn Davíð Oddsson  tekur við ritstjórn Moggans þarf fólk að sýna með skýrum hætti að því sé gjörsamlega misboðið. Nema auðvitað náhirð Davíðs sjálfs sem mun væntanlega fara mikinn í að upphefja sinn gamla foringja. Hannes Hólmsteinn slær upp grillveislu, svo mikið er víst.

En voðalega hljóta þessir nýju eigendur Moggans að vera taktlausir ef þeir fara þá leið að velja Davíð sem ritstjóra. Helmingur þjóðarinnar mun annað hvort hætta að lesa blaðið eða sleppa alfarið að taka mark á því. Hinn helmingurinn les bara íþróttasíðurnar hvort eð er eða les bara alls ekki neitt. Sjálfur mun ég flytja bloggið mitt annað, þó fyrr hefði verið.


mbl.is Ekki búið að ráða nýjan ritstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samningurinn við Magma tekinn fyrir í dag kl. 14

Í dag klukkan 14 tekur Borgarstjórn Reykjavíkur fyrir samninginn um sölu HS til Magma Energy. Hægt er að fylgjast með á pöllum ráðhússins eða  hlusta á beina útsendingu á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Nissan Tama rafmagnsbíll árg. 1947!Það er hræðileg mótsögn að á sama tíma og rafvæðing bílaflota landsmanna er í sjónmáli skuli yfirráðarétti yfir auðlindum okkar komið í hendur erlendra aðila og það fyrir slikk. Látum ekki óprúttna peningamenn og vanhæfa stjórnmálamenn ræna okkur til frambúðar!!!

"Samkvæmt útreikningum Orkuseturs gætu Íslendingar sparað rúmlega einn milljarð króna í gjaldeyri í hverjum mánuði með því að hætta að nota influtta olíu og bensín á bílaflotann og skipta yfir í innlenda orkugjafa svo sem rafmagn og metan."
 


mbl.is Milljarðatap Gagnaveitunnar
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Yfirlýsing stjórnar BH

Nýkjörin stjórn Borgarahreyfingarinnar hittist í gær ásamt flestum varamönnum í stjórn, m.a. til þess að skipta með sér verkum og senda frá sér ályktun. Hún fer hér á eftir. Stjórnin er að mínu mati skipuð hæfu og samhentu fólki sem líklegt má telja að komi starfi hreyfingarinnar til góða. Það er von stjórnarmanna að sátt muni nást um starfið innan hreyfingarinnar allrar.

 

Yfirlýsing stjórnar Borgarahreyfingarinnar: 

 

Nýkjörin stjórn Borgarahreyfingarinnar harmar þær deilur sem staðið hafa hreyfingunni fyrir þrifum að undanförnu. Meðlimir nýrrar stjórnar eru staðráðnir í að leggja allar deilur til hliðar og leysa úr ágreiningsefnum. Verkefnin eru ærin og mun ný stjórn leggja áherslu á að sinna þeim málum sem henni ber, að hlúa að grasrótarstarfi hreyfingarinnar og virkja félagsmenn hennar. Nýjar og mikið endurbættar samþykktir hreyfingarinnar líta nú dagsins ljós og vonumst við til þess að allir félagar geti starfað samkvæmt þeim.

Fundir stjórnar verða öllum félögum opnir. Stjórnin hefur skipt með sér verkum á eftirfarandi hátt:

Valgeir Skagfjörð formaður

Heiða B. Heiðarsdóttir varaformaður
Sigurður Hr. Sigurðsson ritari

Meðstjórnendur:

Ingifríður Ragna Skúladóttir
Gunnar Sigurðsson
Guðmundur Andri Skúlason
Lilja Skaftadóttir

Varamenn:

Björg Sigurðardóttir gjaldkeri
Ásthildur Jónsdóttir
Bjarki Hilmarsson
Örn Sigurðsson

Birgir Skúlason

Jón Kr. Arnarson

Ingólfur Harri Hermannsson

 


mbl.is Átökin skaða hreyfinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiðum fundi lokið

Jæja, þá er erfiðum landsfundi Borgarahreyfingarinnar lokið og niðurstaða fengin um nýjar samþykktir og stjórn. Sjálfur er ég sáttur við þann stuðning sem ég fékk í kjöri til stjórnar en að sama skapi hryggur yfir því að þingmenn hreyfingarinnar og ýmsir aðrir skuli hafa gengið á dyr eftir að hafa gefið í skyn að þau myndu ekki sætta sig við niðurstöður fundarins.

Sumarið var þingmönnum erfitt og á góðviðrisdögum máttu þau sitja á löngum nefndarfundum meðan ég og margir aðrir gátu sleikt sólskinið. Þau stóðu sig oftast vel og munu vonandi gera það áfram í anda stefnuskrár Borgarahreyfingarinnar hvort heldur sem þau kjósa að starfa undir nafni hennar eða sem óháðir þingmenn.

Því miður hlaut að koma til uppgjörs því að í stórum hópi voru skemmd epli og eins og flestir vita skemma þau út frá sér. Á heimasíðu XO seint í nótt má lesa nafnlausa athugasemd frá einum slíkum sem greinilega er innanbúðar í hreyfingunni og svífst einskis til að koma höggi á mig. Þar segir m.a.

"Hverjir eru ” yfirtökumen”, Borgarahreyfingarinnar ?

Jamann, svo sannarlega ekki þingmennirnir en ég veit ekki alveg, með t.d Sigurð Hrellir og fyrirtæki hans sem han áhvað að gefa ekki upp í framboðinu?
fyrirtæki’ heitir : Uff.ehf með Páli Skúlasyni,prófessór og Samfylkingarformanni…..NO? fasteignabrakskara með 40 fasteignaskúffufyrirtæki, ( Man ekki til þess að Siggi hefði svarað því en nægur var áhugi Sigga til að henda okkur þingmönnum út eftir að Páll Skúla sagði til í anda Samfó) og fasteignasmala og Gandra ………eru með þvílíka slóð kennittöluflakkara að það hálfa væri hellingur. …og talandi um hagsmuni od gróðafíkan.?"

Sá sem þetta skrifar gefur í skyn að hann sé einn af þingmönnum hreyfingarinnar en sjálfur tel ég mig þekkja þau öll nógu vel til þess að fullyrða að svo sé ekki. Auk þess skrifa þau öll rétta íslensku og eru ekki haldin lesblindu. En vegna þess að ýmsu röngu er haldið fram um mig og mína hagi þá neyðist ég til að benda á rangfærslurnar.

Ég átti hlut í fyrirtækinu Uss! ehf sem er hljóðfyrirtæki. Ég seldi minn hlut þar fyrir 3 árum síðan og líklega hefur kaupandinn ekki látið breyta skráningunni í fyrirtækjaskrá. Uss! ehf var skuldlaust fyrirtæki og ég seldi minn hlut án hagnaðar. Páll Skúlason heitir lögfræðingur sá sem aðstoðaði Uss! ehf við stofnun og skráningu. Það er ekki sá hinn sami og talað er um í athugasemdinni og minnist ég þess ekki að hafa hitt prófessorinn persónulega. Ég á ekki eitt einasta fyrirtæki, hvorki skúffufyrirtæki né fasteignafyrirtæki. Ég á að vísu 4 íbúðir í Reykjavík sem ég tók fram á framboðssíðu XO en allar eru þær á eigin kennitölu. Ég stend ekki í fasteignabraski en setti arf og sparifé í þessi kaup sem nú eru lítils virði.
 

Framtíð Borgarahreyfingarinnar - stjórn eða stjórnleysi?

Það þurfti töluverða umhugsun til að ákveða hvort ég gæfi aftur kost á mér í kjöri til stjórnar Borgarahreyfingarinnar. Eins og sjá má hér sagði ég mig úr stjórninni fyrir réttum mánuði síðan og var það í kjölfar vonlausrar deilu um keisarans skegg því að valdsvið og skyldur stjórnarinnar var illa skilgreint í upphaflegum samþykktum félagsins. Í von um að sátt náist um betri og ítarlegri samþykktir ákvað ég á endanum að gefa kost á mér.

Á landsfundinum sem nú fer í hönd koma tvennar nýjar samþykktir til umræðu og má búast við miklum og áköfum skoðanaskiptum um þær. Samþykktir A eru afrakstur svonefnds samþykktahóps sem var öllum opinn og starfað hefur meira og minna í allt sumar að því eina takmarki að útbúa nýjar samþykktir. Samþykktir B eru hins vegar til komnar á síðustu dögum en að baki þeim standa 3 eftirstandandi þingmenn hreyfingarinnar auk nokkurra annarra sem undir þær rita hér. Grundvallarmunur er á þessum tveimur tillögum og hugnast mér A nokkuð vel en B að flestu leyti illa. Helstu aðfinnslur mínar við tillögur B má lesa á bloggi Þórs Saari í athugasemd 8.

Ef ég næ kjöri í nýja stjórn hreyfingarinnar og að þeirri forsendu gefinni að stjórnin fái valdsvið til að taka til hendinni á sem flestum sviðum eru helstu áherslumál mín þessi:

  1. Að BH taki þátt í framboðum til stærri sveitarstjórna með áherslu á fækkun sveitarfélaga á SV-horninu, aðgerðir til að minnka hættuna á spillingu, umhverfismál og skipulagsmál svo eitthvað sé nefnt.
  2. Að koma á fót málefnahópum sem vinna undirbúningsvinnu fyrir þingfrumvörp. Að mínu mati væru varaþingmenn kjörnir til að leiða þetta starf í góðu samráði við þingmenn.
  3. Að útfæra leiðir til óhefðbundinnar stjórnmálaþátttöku með þrýstihópum og sértækum aðgerðum.
  4. Að hefja vinnu við stjórnlagaþing - hvers vegna að bíða með það?
  5. Að blása lífi í starf BH á landsbyggðinni með öllum ráðum.
  6. Að gera heimasíðuna að nothæfu samskiptatæki fyrir allt starf hreyfingarinnar.

Ég er einn tólfmenningana sem sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu og framtíðarsýn. Það er að mínu mati alrangt að þetta sé eitthvað flokkseigendafélag. Hins vegar er þetta fólk sem hefur svipaða sýn á framtíð og tilgang hreyfingarinnar og finnst að orðstýr hennar hafi borið alvarlega hnekki. Úr því viljum við bæta og setjum markið hátt.

Með ósk til ykkar allra um gott Borgaraþing/landsfund.


Brennuvargar og besserwisserar

Fyrir 6 mánuðum síðan var það varla að fjölmiðlar gætu borið nafn Borgarahreyfingarinnar óbrenglað fram ef þeim þá þóknaðist að hafa hana með í umfjöllunum um stjórnmálaflokka. Nú er öldin önnur en óneitanlega leitt að sjá svo mikla neikvæða umfjöllun um þessa "nýju" hreyfingu. Í tilefni af því vil ég bara benda á þá augljósu staðreynd að Borgarahreyfingin er eina stjórnmálahreyfingin á Alþingi sem ekki getur mögulega átt neina sök á því hvernig komið er fyrir þjóðinni

BúsáhöldinStrax eftir kosningar fór fýldur besserwisser hér á netinu að kenna bæði Friðrik Þór Guðmundsson og mig við svokallaðan "Þráins-arm" í Borgarahreyfingunni. Ég man hvað mér þótti þetta fjarstæðukennt rugl í manninum enda taldi ég mig vera í góðri sátt við alla þingmenn og aðra félagsmenn.

Nú 5 mánuðum síðar mætti hugsanlega tala um e-s konar "Þráins-arm", þó ekki innan Borgarahreyfingarinnar heldur einungis innan Félags Þinghóps Borgarahreyfingarinnar (sem fjórmenningarnir stofnuðu sjálf) en Þráinn sagði sig úr því félagi með yfirlýsingu á Alþingi. Mér vitanlega eru ekki fleiri en Þráinn í þessum "armi" enda eru einungis 4 félagar skráðir í umræddu félagi. Klofningurinn er því ekki innan Borgarahreyfingarinnar.

Um næstu helgi verður haldið Borgaraþing/landsfundur hreyfingarinnar. Þar verða samþykktar nýjar og ítarlegar reglur fyrir félagið og ný stjórn kosin sömuleiðis. Ég undirritaður er í hópi fólks sem vill að Borgarahreyfingin einbeiti sér að því sem hún var stofnuð til, að vera öflug grasrótarsamtök með fótgönguliða á Alþingi. Við kynnum nú framboð okkar til stjórnar með sameiginlega framtíðarsýn fyrir hreyfinguna en bjóðum okkur fram sem einstaklingar hvert fyrir sig. Ég á von á hressum fundi þar sem fólk liggur ekki á skoðunum sínum. Það verður ekkert halelúja eins og tíðkast á sumum bæjum.

Ég bið fólk að hugsa sig um tvisvar áður en það leggst í þann forarpytt að rakka niður Borgarahreyfinguna. Er virkilega engra breytinga þörf í þessu þjóðfélagi eða er brennuvörgunum best treystandi til þess að lagfæra tjónið?

 


mbl.is Á von á átakafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin á þing

Borgarahreyfingin var stofnuð af fólki með hugsjónir og væntingar um að koma á lýðræðislegum umbótum, réttlátara samfélagi með gagnsæjum vinnubrögðum og umfram allt, heiðarleika að leiðarljósi.

Slagorðið “þjóðin á þing” er engin tilviljun. Það var valið vegna þess að vildum að þjóðin fengi rödd inni á Alþingi Íslendinga. Þinghópur hreyfingarinnar var hugsaður sem brú frá grasrótinni þangað inn.

Að okkar mati hefur það mistekist. Þess í stað hafa hugsjónir, stefna og kraftur hreyfingarinnar týnst í deilum og óánægju á alla kanta.

Við sem undir þetta ritum erum stolt af Borgarahreyfingunni eins og hún var hugsuð. Í stað þess að gefast upp fyrir þeim mistökum sem gerð hafa verið langar okkur að leggja okkar að mörkum til að hreyfingin finni uppruna sinn á ný og að vegur hennar verði sem mestur.

Þess vegna ætlum við að bjóða fram krafta okkar til stjórnar Borgarahreyfingarinnar.

Við komum fram sem hópur og gerum okkur vonir um að fá stuðning sem slíkur. Engu að síður bjóðum við okkur hvert og eitt fram til starfsins sem einstaklingar.

Sem hópur höfum við sett saman grunn að stefnu þeirri sem við munum fylgja í störfum okkar og hana má skoða í tengdri skrá hér fyrir neðan.

Við munum kynna stefnuna nánar á næstu dögum og á landsfundi hreyfingarinnar.

Ásthildur Jónsdóttir, Bjarki Hilmarsson, Björg Sigurðardóttir, Guðmundur Andri Skúlason, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Sigurðsson, Heiða B. Heiðarsdóttir, Ingifríður Ragna Skúladóttir, Jón Kr. Arnarson, Lilja Skaftadóttir, Sigurður Hr. Sigurðsson og Valgeir Skagfjörð.

framtíðarsýn.pdf


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband