24.7.2009 | 15:16
Er embættismannakerfið að gera út af við okkur?
Það hefur verið lyginni líkast að fylgjast með sumarþinginu og þeirri leiksýningu sem þar á sér stað. Meginviðfangsefnin tvö, ESB og Icesave hafa skyggt á öll önnur mál, enda bæði hluti af sama harmleiknum sem enginn endir virðist vera á. Helstu ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa þráfaldlega neitað að nokkur tenging sé á milli þessara umdeildu mála jafnvel þó að ýmsar vísbendingar um annað hafi lekið út og hollenski utanríkisráðherrann ekki farið leynt með lítt dulbúnar hótanir sínar.
Margir hljóta að klóra sér í hausnum yfir því að á sama tíma og viss hópur fólks telur Icesave samninginn ásættanlegan og jafnvel hagstæðan Íslendingum skuli sífellt stækkandi hópur sérfræðinga vara við honum og telja hann að flestu leyti óboðlegan, jafnvel stórhættulegan. Nú síðast í gær hlustaði ég á virtan hæstaréttarlögmann, Ragnar H. Hall lýsa mjög eindregið yfir þeirri skoðun sinni að samningurinn væri skelfileg mistök. Ragnar hafði verið þeirrar vafasömu ánægju aðnjótandi að fá að kynna sér leynileg fylgiskjöl með samningnum og taldi afar brýnt að leyndinni yrði létt af skjölunum.
Að mínu mati blasir við okkur í þessu sambandi langvarandi og síversnandi vandamál sem er vanhæft embættismannakerfi. Hér hefur það tíðkast áratugum saman að ráða valdamikla embættismenn á pólitískum forsendum fremur en faglegum. Þannig hefur stjórnsýslan orðið að ákveðinni stétt út af fyrir sig - stétt sem stendur vörð um eigin hag, hátt yfir aðra hafin.
Það skyldi engan undra að Icesave samninganefndin var skipuð embættismönnum úr ýmsum ráðuneytum, Seðlabankanum og utanríkisþjónustunni. Eins og embættismanna er siður var pukrast með samningaferlið og heim komu þau (flest karlar) með samning til undirritunar sem halda átti leyndum fyrir þjóðinni og hennar lögkjörnu fulltrúum. Aðspurðir báru þó embættismennirnir höfuðið hátt og töldu sig mikinn sigur hafa unnið.
Í framhaldi af þessu væri eðlilegt að spyrja hvort embættismönnum sé yfirleitt treystandi til að fara í mikilvægar samningaviðræður fyrir hönd íslenska ríkisins. Það hlýtur að vera líklegra til árangurs að fá hæfasta fólkið til að semja fyrir okkar hönd frekar en mishæfa hrokagikki úr stjórnsýslunni. Er ekki einfaldlega kominn tími til að breyta algjörlega þeirri ömurlegu hefð að ekki eigi skilyrðislaust að láta faglegar forsendur ráða þegar ráðið er fólk í þessi störf?
![]() |
Rýnir í gögn vegna Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.7.2009 | 15:23
ICESAVE - hvaða val höfum við?
Það sér hver heilvita maður að það eru sterk tengsl milli ICESAVE samningsins og ESB aðildarumsóknar. Spurningin er hvort að fólki finnist það virkilega ásættanlegt að ganga til samninga við ESB með slíkan farangur meðferðis. Það er deginum ljósara að reynt verði að semja um niðurfellingu skulda eða ríkisábyrgðar að einhverju marki í samningaviðræðunum en á móti kæmi að samningsstaða Íslands yrði enn veikari fyrir bragðið.
Hugsum okkur aðeins hvernig dæmið gæti litið út eftir 3-4 ár þegar gengið verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB aðild. Þá má reikna með að mun betri yfirsýn verði yfir stöðu þjóðarbúsins og verðmæti eigna gamla Landsbankans. Ef hinar ótrúlega bjartsýnu spár Seðlabankans um stöðugan hagvöxt og jákvæðan vöruskiptajöfnuð í mörg ár samfellt rætast ekki er viðbúið að skuldir ríkissjóðs verði komnar langt yfir raunhæft greiðsluþol. Valið gæti því staðið á milli þess að samþykkja inngöngu í ESB með afarkostum eða sætta sig við algjört efnahagslegt hrun og vonlausa stöðu gagnvart öðrum þjóðum. Því væri í raun ekki um neitt val að ræða.
Ég velti því fyrir mér hvernig stuðningmönnum VG hugnast að þurfa að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem auðlindir landsins ganga okkur úr greipum hvernig sem kosið er. Þingmenn þeirra ættu allavega að hugsa vel sinn gang áður en þeir fylgja foringjanum sem virðist vera í krossferð fyrir hönd Hollendinga og Breta sem hafa hótað að standa í vegi fyrir aðildarumsókn Íslands ef ICESAVE samningurinn verður ekki samþykktur.
Í þessu ljósi verður upphlaup þriggja þingmanna Borgarahreyfingarinnar að skoðast þó svo að aðferðin sé vissulega umdeilanleg. Þau krefjast þess:
Að málinu verði frestað til haustsins og þá tekið upp að nýju. Þannig gæfist tími gefist að gaumgæfa það betur og hugleiða jafnframt betur aðra möguleika í stöðunni, en komið hefur skýrt fram að þeir eru til.
- Að þingið skipi nýja nefnd, ICESAVE nefnd með sérfræðingum þingsins, en þess má geta að þegar eru í Efnahags- og skattanefnd fjórir hagfræðingar, allir úr sitt hvorum flokknum, sem hefði það hlutverk að fara yfir málið faglega til haustsins m.t.t. skuldaþols þjóðarbúsins og fleira.
- Að skýrt verði kveðið á um hvenær og með hvaða hætti eignir þeirra sem stofnuðu til ICESAVE skuldbindinganna verði frystar og hvernig reynt verður að ná til þeirra.
![]() |
Icesave hugsanlega frestað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.7.2009 | 14:29
Heyannir
Ýmsar spurningar vakna í tengslum við þessa frétt. Ásmundur hefur talað skýrt gegn aðild að ESB og jafnvel gefið í skyn að leiðbeinandi "þjóðaratkvæðagreiðsla" myndi engu breyta þar um. Nú vill hann sem sagt fá slíka skoðanakönnun þó svo að hann þurfi ekki að taka mark á henni.
Ásmundur selur ekki sannfæringu sína svo glatt sem er auðvitað ótvíræður kostur en hins vegar metur hann tilvist ríkisstjórnarinnar meir en eitt stærsta mál hennar og vekur það upp spurningar um forgangsröðun og verðmætamat hins unga alþingismanns.
En það væri fróðlegt að heyra hvort að fyrirhuguð fjarvist Ásmundar í umræðum um ESB þurfi ekki nánari útskýringa við. Varla ætlar hann að kalla inn varamann fyrir sig? Ætlar Ásmundur að heyja tún sín á fullum launum frá Alþingi?
![]() |
Ásmundur farinn í heyskap |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.7.2009 | 13:00
Áfram með smjörið
Borgarahreyfingin hefur sett 3 einföld og skýr skilyrði fyrir því að styðja ESB frumvarp ríkisstjórnarinnar:
- að tryggð verði gagnsæ og hlutlaus miðlun fræðslu frá sérstakri upplýsingastofu á vegum Alþingis. Stofan skal skipuð fagfólki og taka mið af reynslu nágrannaþjóða við þjóðaratkvæðagreiðslur. Endanlegur samningur skal vera almenningi aðgengilegur.
- að samninganefndin verði skipuð á faglegum forsendum og njóti ráðgjafar a.m.k. tveggja óháðra erlendra sérfræðinga.
- að tryggt verði jafnt vægi atkvæða allra landsmanna við þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.
Líkt og þingmönnum Borgarahreyfingarinnar finnst mér það fáránlegt sjónarmið að vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður þar sem að umræðan hefur öll verið í upphrópunarstíl og laus við yfirvegun. Auk þess yrði slík þjóðaratkvæðagreiðsla ekki bindandi því að stjórnarskrá lýðveldisins gerir ekki ráð fyrir að almenningi sé treystandi fyrir mikilvægum ákvörðunartökum. Það er allavega ljóst að yngsti þingmaður VG myndi ekki láta vilja þjóðarinnar hafa áhrif á neikvæða afstöðu sína til ESB svo að tilgangslaust er að eyða tíma og fjármunum í "skoðanakönnun" sem ekki er bindandi.
Að mínu mati er verið að slá hausnum við steininn með því að standa í vegi fyrir að skoða fulla ESB aðild með öllum þeim kostum og göllum sem væru henni fylgjandi. Ísland þarf á hjálp að halda og því þarf að leita allra leiða til að leysa yfirþyrmandi vanda ríkissjóðs áður en hákarlarnir fara að gæða sér á því sem þeir geta glefsað til sín.
Ísland hefur verið aðili að EES í 15 ár og á skilyrðislausan rétt á annars konar og betri meðferð en bretar og hollendingar hafa beitt okkur. Þeir stóðu í vegi fyrir því að Icesave deilan kæmist fyrir dómstóla þrátt fyrir að ljóst væri að reglugerð ESB um innistæðutryggingar stæðist ekki þegar kerfishrun ætti sér stað. Enda hefur komið í ljós að einungis 13 ESB ríki af 27 ábyrgjast tryggingasjóð innistæðueigenda í viðkomandi ríkjum. Íslendingum var stillt upp við vegg með því að taka stjórn AGS í gíslingu og tefja fyrir lánveitingu úr sjóðnum. Þetta kallast á mannamáli kúgun.
Eins og ég sagði í síðustu færslu væri hið eina rétta að Evrópusambandið féllist á að hlutast til um Icesave deiluna og koma Íslendingum til aðstoðar. Ennfremur ætti Evrópudómstóllinn að gera úttekt á löggjöfinni og álykta um málið. Það er ekki í anda Evrópusambandsins að króa aðildarþjóðir (hvorki ESB eða EES) úti í horni og setja á hausinn. Trúverðugleiki sambandsins og innri markaðarins er einfaldlega í húfi og málið miklu stærra en það virðist vera. Hvort lausn þessa máls verður skoðuð í samhengi við fyrirhugaða aðildarumsókn eða ekki skal ég ekki fullyrða en staða Íslands væri mögulega sterkari ef aðildarumsókn lægi fyrir.
![]() |
Almennur fyrirvari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.7.2009 | 15:29
Trúverðugleiki
Hollensk stjórnvöld segjast ekki eiga aðild að væntanlegum málaferlum hollenskra innistæðueigenda gegn íslenskum stjórnvöldum. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort þau hafi ekki beðið fulltrúa innistæðueigenda um að hinkra þangað til Alþingi hefði afgreitt ríkisábyrgð vegna Icesave skuldbindinga.
Hollendingar og bretar stóðu á sínum tíma í vegi fyrir því að Icesave deilan færi fyrir dómstóla og beittu þrýstingi innan AGS til að tefja fyrir afgreiðslu lánsins þar. Með því var Íslendingum stillt upp við vegg á hranalegan hátt með óásættanlegri framkomu.
Reglugerð ESB um innistæðutryggingar reyndist meingölluð og alls ekki til þess fallin að fást við kerfishrun. Úr því sem komið er væri hið eina rétta að Evrópusambandið féllist á að hlutast til um málið og koma Íslendingum til aðstoðar. Ennfremur ætti Evrópudómstóllinn að gera úttekt á löggjöfinni og álykta um málið.
Það er ekki í anda Evrópusambandsins að króa aðildarþjóðir (hvorki ESB eða EES) úti í horni og setja á hausinn. Trúverðugleiki sambandsins og innri markaðarins er einfaldlega í húfi og málið miklu stærra en það virðist vera.
![]() |
Hollensk stjórnvöld afneita afskiptum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)